„Herra, kenn þú oss að biðja“
„Einn lærisveina hans sagði við hann . . . : ,Herra, kenn þú oss að biðja.‘“ — LÚKAS 11:1.
1. Hvers vegna bað einn af lærisveinunum Jesú um að kenna þeim að biðja?
ÞAÐ var eitt sinn árið 32 að lærisveinn Jesú sá hann biðjast fyrir. Hann heyrði ekki hvað Jesús sagði við föður sinn þar sem hann bað að öllum líkindum í hljóði. En þegar Jesús lauk bæninni sagði lærisveinninn: „Herra, kenn þú oss að biðja.“ (Lúkas 11:1) Hver var kveikjan að þessari bón? Bæn var fastur liður í lífi og tilbeiðslu Gyðinga. Hebresku ritningarnar hafa að geyma fjölda bæna í Sálmunum og annars staðar. Lærisveinninn var því ekki að biðja um kennslu í einhverju sem hann hafði ekkert vit á eða hafði aldrei gert áður. Hann var án efa kunnugur formlegum bænum trúarleiðtoga gyðingdómsins. En nú hafði hann séð Jesú biðjast fyrir og skynjaði líklega að það var reginmunur á því hvernig hann baðst fyrir og á skinhelgi rabbínanna þegar þeir fóru með bænir. — Matteus 6:5-8.
2. (a) Hvað er til merkis um að Jesús ætlaði okkur ekki að endurtaka fyrirmyndarbænina orð fyrir orð? (b) Hvers vegna höfum við áhuga á að vita hvernig á að biðja?
2 Í fjallræðunni, sem Jesús flutti um það bil átján mánuðum áður, hafði hann gefið lærisveinunum fyrirmynd til að byggja bænir sínar á. (Matteus 6:9-13) Sennilega var þessi lærisveinn ekki viðstaddur þá svo að Jesús endurtók góðfúslega mikilvægustu atriði þessarar fyrirmyndarbænar. Það er eftirtektarvert að hann endurtók hana ekki orð fyrir orð og gefur það til kynna að hann hafi ekki verið að gefa forskrift að bæn sem átti að þylja utanbókar og hugsunarlaust. (Lúkas 11:1-4) Líkt og þessi ónafngreindi lærisveinn viljum við líka læra að biðja þannig að bænir okkar nálægi okkur Jehóva. Við skulum því skoða lengri útgáfuna af fyrirmyndarbæninni sem Matteus postuli skráði. Hún samanstendur af sjö bónum. Þrjár þeirra varða fyrirætlanir Guðs og fjórar þeirra efnislegar og andlegar þarfir okkar. Við fjöllum um þrjár fyrstu bónirnar í þessari grein.
Ástríkur faðir
3, 4. Hvað gefum við til kynna með því að ávarpa Jehóva sem föður okkar?
3 Í upphafi fyrirmyndarbænarinnar kemur fram að bænir okkar eigi að bera vott um náið samband við Jehóva sem byggist á virðingu. Jesús sagði lærisveinunum, sem voru með honum í fjallshlíðinni, að ávarpa Jehóva: „Faðir vor, þú sem ert á himnum.“ (Matteus 6:9) Samkvæmt fræðimanni einum notaði Jesús innilegt orð þegar hann ávarpaði Jehóva föður, ekki ósvipað og ,orð barns‘, og gildir þá einu hvort hann talaði almenna hebresku eða arameísku. Þegar við ávörpum Jehóva sem föður okkar gefur það til kynna traust og hlýlegt samband.
4 Með orðunum „faðir vor“ játum við að við séum hluti af stórri fjölskyldu karla og kvenna sem viðurkenna að Jehóva sé lífgjafinn. (Jesaja 64:8; Postulasagan 17:24, 28) Andagetnir kristnir menn eru ættleiddir sem „Guðs börn“ og geta kallað til hans: „Abba, faðir!“ (Rómverjabréfið 8:14, 15) Milljónir manna hafa gerst dyggir félagar þeirra. Þetta fólk hefur vígt líf sitt Jehóva og táknað það með vatnsskírn. Allir þessir ,aðrir sauðir‘ geta líka nálgast Jehóva í nafni Jesú og kallað hann föður sinn. (Jóhannes 10:16; 14:6) Við getum komið reglulega fram fyrir himneskan föður okkar í bæn til að lofa hann, þakka honum fyrir gæsku hans við okkur og segja honum hvað okkur liggur á hjarta, í trausti þess að hann beri umhyggju fyrir okkur. — Filippíbréfið 4:6, 7; 1. Pétursbréf 5:6, 7.
Ást á nafni Jehóva
5. Hver er fyrsta bón fyrirmyndarbænarinnar og hvers vegna er hún viðeigandi?
5 Fyrsta bónin er sú veigamesta en hún hljóðar svo: „Helgist þitt nafn.“ (Matteus 6:9) Já, helgun nafns Jehóva ætti að standa okkur næst vegna þess að við elskum hann og okkur þykir miður að sjá hvernig nafn hans hefur verið svívirt á svo margan hátt. Satan gerði uppreisn og tældi fyrstu hjónin til að óhlýðnast Jehóva. Hann rægði nafn Jehóva með því að draga í efa að hann beitti alvaldi sínu rétt. (1. Mósebók 3:1-6) Alla tíð síðan hefur nafn Jehóva einnig verið rægt með svívirðilegum verkum og kenningum þeirra sem hafa sagst vera fulltrúar hans.
6. Hvað forðumst við ef við biðjum um að nafn Jehóva helgist?
6 Þegar við biðjum þess að nafn Jehóva helgist sýnum við hvar við stöndum í deilumálinu um réttinn til að stjórna alheiminum. Við styðjum það eindregið að Jehóva sé réttmætur alheimsdrottinn. Jehóva vill að alheimurinn sé byggður vitibornum sköpunarverum sem lúta drottinvaldi hans fúslega og með gleði af því að þær elska hann og allt sem nafn hans stendur fyrir. (1. Kroníkubók 29:10-13; Sálmur 8:2; 148:13) Ástin á nafni Jehóva hjálpar okkur að forðast hvaðeina sem gæti smánað þetta heilaga nafn. (Esekíel 36:20, 21; Rómverjabréfið 2:21-24) Friður meðal allra sem byggja alheiminn veltur á því að nafn Jehóva sé helgað og að drottinvald hans sé virt heilshugar. Þegar við því biðjum um að ,nafn hans helgist‘ sýnum við að við treystum að fyrirætlanir Jehóva nái fram að ganga, honum til dýrðar. — Esekíel 38:23.
Ríkið sem við biðjum um
7, 8. (a) Hvert er ríkið sem Jesús kenndi okkur að biðja um? (b) Hvað lærum við um þetta ríki í Daníelsbók og Opinberunarbókinni?
7 Önnur bónin í fyrirmyndarbæninni er: „Til komi þitt ríki.“ (Matteus 6:10) Þessi beiðni er nátengd þeirri fyrstu. Messíasarríki Jehóva er verkfæri hans til að helga heilagt nafn sitt. Þetta er himnesk stjórn og er sonur hans, Jesús Kristur, réttskipaður konungur hennar. (Sálmur 2:1-9) Í spádómi Daníels er Messíasarríkinu lýst sem ,steini‘ sem losnaði úr „fjalli“. (Daníel 2:34, 35, 44, 45) Fjallið táknar alvald Jehóva þannig að ríkið, sem steinninn táknar, er ný birtingarmynd á alvaldi hans. Steinninn í spádóminum ,verður að stóru fjalli og tekur yfir alla jörðina‘ og gefur það til kynna að Messíasarríkið muni vera fulltrúi drottinvalds Guðs er það stjórnar jörðinni.
8 Hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir eru ,leystar út úr hóp mannanna‘ til að ríkja sem konungar og prestar með Kristi. (Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1-4; 20:6) Daníel kallar þennan hóp hina „heilögu Hins hæsta“ sem munu, ásamt höfði sínu Kristi, fá ,ríki, vald og mátt allra konungsríkja, sem undir himninum eru. . . . Ríki hans mun verða eilíft ríki, og öll veldi munu þjóna því og hlýða.‘ (Daníel 7:13, 14, 18, 27) Þetta er sú himneska stjórn sem Kristur kenndi fylgjendum sínum að biðja um.
Hvers vegna að biðja enn um að ríkið komi?
9. Hvers vegna er viðeigandi að biðja þess að ríki Guðs komi?
9 Kristur kenndi okkur í fyrirmyndarbæninni að biðja þess að ríki Guðs kæmi. Uppfylling biblíuspádóma gefur til kynna að Messíasarríkið hafi verið stofnsett árið 1914.a Er þar af leiðandi enn viðeigandi að biðja um að þetta ríki „komi“? Svo sannarlega, því að Messíasarríkið, sem táknað er með steininum í spádómi Daníels, stefnir beint á stjórnir manna sem táknaðar eru með risalíkneski. Steinninn á enn eftir að skella á þessu líkneski og mylja það í duft. Í spádómi Daníels segir: „Það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ — Daníel 2:44.
10. Hvers vegna þráum við að Guðsríki komi?
10 Við þráum að sjá Guðsríki koma til að uppræta óguðlegt heimskerfi Satans því að það mun hafa í för með sér að heilagt nafn Jehóva verði helgað og að öllum sem standa gegn drottinvaldi hans verði rutt úr vegi. Við biðjum af miklum ákafa: „Til komi þitt ríki.“ Við tökum líka undir með Jóhannesi postula og segjum: „Amen. Kom þú, Drottinn Jesús!“ (Opinberunarbókin 22:20) Já, megi Jesús koma til að helga nafn Jehóva og upphefja drottinvald hans þannig að orð sálmaritarans rætist: „Að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Jahve, hinn hæsti yfir allri jörðunni.“ — Sálmur 83:19, Biblían 1908.
„Verði þinn vilji“
11, 12. (a) Um hvað erum við að biðja þegar við biðjum að vilji Guðs verði „á jörðu sem á himni“? (b) Hvað annað merkir það að biðja um að vilji Guðs verði?
11 Næst kenndi Jesús lærisveinum sínum að biðja: „Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Alheimurinn varð til sökum vilja Jehóva. Voldugar, himneskar andaverur hrópa: „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ (Opinberunarbókin 4:11) Jehóva hefur ákveðinn tilgang með „því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu“. (Efesusbréfið 1:8-10) Þegar við biðjum um að vilji Jehóva verði erum við í raun að biðja hann um að framkvæma það sem hann ætlast fyrir. Þar að auki sýnum við að við þráum að sjá vilja hans gerðan um allan alheim.
12 Við látum líka í ljós með þessari bón að við erum fús til að laga líf okkar að vilja Jehóva. Jesús sagði: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ (Jóhannes 4:34) Líkt og Jesús höfum við, sem vígðir kristnir menn, yndi af því að gera vilja Jehóva. Kærleikur okkar til Jehóva og sonar hans fær okkur til að ,lifa ekki framar í mannlegum fýsnum, heldur að vilja Guðs‘. (1. Pétursbréf 4:1, 2; 2. Korintubréf 5:14, 15) Við forðumst af fremsta megni að gera nokkuð sem við vitum að gengur þvert á vilja Jehóva. (1. Þessaloníkubréf 4:3-5) Með því að kaupa tíma til biblíulestrar og náms leggjum við okkur fram um að skilja hver sé vilji Jehóva, og hann felur í sér að taka virkan þátt í að prédika ,fagnaðarerindið um ríkið‘. — Efesusbréfið 5:15-17; Matteus 24:12-14.
Vilji Jehóva á himnum
13. Hvernig var vilji Guðs gerður löngu áður en uppreisn Satans átti sér stað?
13 Vilji Guðs var gerður á himni löngu áður en einn af andasonum hans gerði uppreisn og varð Satan. Orðskviðirnir lýsa frumgetnum syni Guðs sem persónugervingi viskunnar. Þeir sýna fram á að eingetinn sonur Guðs var „yndi hans dag hvern“ og hafði ánægju af að gera vilja föður síns frá ómunatíð. Um síðir varð hann verkstjóri við sköpun alls ,í himnunum og á jörðinni, hins sýnilega og hins ósýnilega‘. (Orðskviðirnir 8:22-31; Kólossubréfið 1:15-17) Jehóva notaði Jesú sem orð sitt eða talsmann. — Jóhannes 1:1-3.
14. Hvað lærum við af Sálmi 103 um það hvernig englar gera vilja Jehóva á himnum?
14 Sálmaritarinn bendir á að drottinvald Jehóva sé ofar öllu og að englasveitirnar hlusti á kennslu hans og fyrirmæli. Við lesum: „Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi. Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans. Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans. Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans.“ — Sálmur 103:19-22.
15. Hvernig stuðlaði Jesús að því að vilji Guðs yrði gerður á himnum þegar honum var gefið vald sem konungur Guðsríkis?
15 Eftir að Satan gerði uppreisn hafði hann samt aðgang að himneskum hirðsölum eins og fram kemur í Jobsbók. (Jobsbók 1:6-12; 2:1-7) Opinberunarbókin sagði hins vegar fyrir að Satan og illir andar hans yrðu reknir af himnum þegar fram liðu stundir. Það gerðist bersýnilega stuttu eftir að Jesú Kristi var gefið vald sem konungur Guðsríkis árið 1914. Síðan þá hafa þessir uppreisnarseggir ekki haft neinn aðgang að himnum. Umsvif þeirra eru takmörkuð við nágrenni jarðarinnar. (Opinberunarbókin 12:7-12) Aldrei framar munu heyrast deilur á himnum heldur aðeins raddir sem eru sameinaðar í að hylla ,lambið‘, Jesú Krist, og lofa Jehóva af undirgefni. (Opinberunarbókin 4:9-11) Vilji Jehóva er svo sannarlega gerður á himni.
Vilji Jehóva með jörðina
16. Hvernig afsannar fyrirmyndarbænin kenningar kristna heimsins varðandi von mannkynsins?
16 Kirkjur kristna heimsins kenna að allt gott fólk fari til himna og segja þannig óbeint að jörðin eigi ekki heima í fyrirætlunum Guðs. Jesús kenndi okkur hins vegar að biðja: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Er með einhverju móti hægt að segja að vilji Jehóva sé á heildina litið gerður á jörð sem er þjökuð ofbeldi, óréttlæti, sjúkdómum og dauða? Engan veginn. Við ættum því að biðja einlæglega um að vilji Guðs nái fram að ganga á jörðinni í samræmi við loforðið sem Pétur postuli skrásetti: „Eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins [Messíasarríkisins undir stjórn Krists] og nýrrar jarðar [réttláts mannfélags], þar sem réttlæti býr.“ — 2. Pétursbréf 3:13.
17. Hvað ætlast Jehóva fyrir með jörðina?
17 Jehóva skapaði jörðina í ákveðnum tilgangi. Hann innblés spámanninum Jesaja að skrifa: „Svo segir Drottinn, sá er himininn hefir skapað — hann einn er Guð, sá er jörðina hefir myndað og hana til búið, hann, sem hefir grundvallað hana og hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg: Ég er Drottinn, og enginn annar.“ (Jesaja 45:18) Guð setti fyrstu hjónin í paradísargarð og sagði þeim: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna.“ (1. Mósebók 1:27, 28; 2:15) Fyrirætlun skaparans er augljóslega sú að jörðin verði byggð fullkomnu og réttlátu mannkyni sem lýtur drottinvaldi hans fagnandi og lifir að eilífu í paradísinni sem Kristur lofaði. — Sálmur 37:11, 29; Lúkas 23:43.
18, 19. (a) Hvað þarf að gerast áður en vilji Guðs verður að fullu gerður á jörðinni? (b) Hvaða aðrar hliðar á fyrirmyndarbæn Jesú verða skoðaðar í næstu grein?
18 Vilji Jehóva varðandi jörðina getur aldrei orðið fullkomlega að veruleika á meðan hún er byggð körlum og konum sem standa gegn drottinvaldi hans. Guð mun nota voldugar englasveitir undir forystu Krists til að „eyða þeim, sem jörðina eyða“. Öllu heimskerfi Satans verður gereytt um alla framtíð, þar á meðal falstrúarbrögðum þess, spilltum stjórnmálum, gráðugri og óheiðarlegri kaupsýslu og stríðsrekstri. (Opinberunarbókin 11:18; 18:21; 19:1, 2, 11-18) Drottinvald Jehóva verður réttlætt og nafn hans helgað. Um þetta allt biðjum við þegar við segjum: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — Matteus 6:9, 10.
19 En Jesús sýndi fram á í fyrirmyndarbæninni að við getum líka haft persónuleg mál með í bænum okkar. Í næstu grein verður fjallað um þessa hlið á leiðbeiningum hans varðandi bænina.
[Neðanmáls]
a Sjá 6. kafla bókarinnar Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar, gefin út af Vottum Jehóva.
Til upprifjunar
• Hvers vegna er viðeigandi að ávarpa Jehóva sem föður okkar?
• Hvers vegna er okkur efst í huga að biðja um að nafn Jehóva helgist?
• Hvers vegna biðjum við um að Guðsríki komi?
• Hvað gefum við í skyn þegar við biðjum um að vilji Guðs verði á jörðu sem á himni?
[Mynd á blaðsíðu 9]
Bænir Jesú voru afar frábrugðnar skinheilögum bænum faríseanna.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Kristnir menn biðja þess að Guðsríki komi, að nafn hans helgist og vilji hans verði.