Lifðu einföldu lífi og gættu góðs jafnvægis
„Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. . . . Því að dagarnir eru vondir.“ — EFESUSBRÉFIÐ 5:15, 16.
1, 2. Hvað er mjög krefjandi viðfangsefni nú á dögum og við hvað er það sambærilegt?
ÞAÐ ER krefjandi viðfangsefni að skipa hlutunum í rétta forgangsröð, rækja skyldur sínar og deila tíma sínum og kröftum á skynsamlegan hátt milli þeirra atriða sem máli skipta. Það kostar líka áreynslu að forðast öfgar og viðhalda hugarfarslegu og tilfinningalegu stöðuglyndi. — Efesusbréfið 5:17; 1. Tímóteusarbréf 4:8; 1. Pétursbréf 1:13.
2 Líkja mætti þessu krefjandi viðfangsefni við það sem blasir við línudansara. Það væri alvarlegt slys ef hann missti jafnvægið. Eins væri það alvarlegt slys fyrir okkur að missa hið andlega jafnvægi. Línudansari íþyngir ekki sjálfum sér með óþörfum aukahlutum heldur ber og klæðist aðeins því sem er bráðnauðsynlegt. Ef við ætlum að varðveita andlegt jafnvægi okkar verðum við líka að lifa einföldu lífi og gæta þess að sem fæst íþyngi okkur. — Hebreabréfið 12:1, 2.
3. Hvað verðum við að gera til að lifa einföldu lífi?
3 Ef við ætlum að lifa einföldu lífi verðum við að gefa okkur að því einu sem þarf til að sjá okkur farborða með sómasamlegum hætti. Jesús Kristur talaði um ‚það sem heiðingjarnir stunduðu‘ og stillti því upp sem andstæðu þess er lærisveinar hans ættu að sækjast eftir — ríki Guðs og réttlæti. (Matteus 6:32, 33) Þannig hvatti Jesús okkur til að safna okkur ekki miklu af veraldlegum gæðum. Hvers vegna? Vegna þess að þau geta gert lífið flóknara en það þarf að vera og leitt okkur á villigötur. (Lúkas 12:16-21; 18:25) Þetta eru góð ráð, hvort sem við erum rík eða fátæk, menntuð eða ómenntuð.
Hvers vegna er það svona mikilvægt núna?
4. Hvers vegna er svona áríðandi núna að lifa einföldu lífi og gæta jafnvægis?
4 Það er sérstaklega þýðingarmikið núna að lifa einföldu lífi og gæta góðs jafnvægis, vegna þess að athafnasvæði Satans og illra anda hans er takmarkað við jörðina og þeir gera sitt ýtrasta til að íþyngja okkur og beina athygli okkar frá þjónustu Guðs. (Opinberunarbókin 12:7-12, 17) Eftirfarandi hvatningarorð Biblíunnar hafa því aldrei átt betur við: „Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.“ (Efesusbréfið 5:15, 16) Já, við lifum í óguðlegum heimi Satans, ekki nýjum heimi Guðs. Þess vegna getum við ekki leyft okkur að vera sjálfsánægðir og sinnulausir. — 2. Korintubréf 4:4; 2. Pétursbréf 3:7, 13.
5. Hvernig gáfu þjónar Guðs til forna okkur gott fordæmi?
5 Þjónar Guðs í fortíðinni gáfu okkur gott fordæmi um það hvernig lifa bæri í heimi sem djöfullinn stjórnar. Þeir „játuðu, að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni.“ Þess vegna þráðu þeir „betri ættjörð, það er að segja himneska.“ (Hebreabréfið 11:13-16) Hollusta þeirra beindist að Guðsríki og svo ætti einnig að vera um okkur. Þar af leiðandi kallaði Pétur postuli kristna menn „gesti og útlendinga.“ (1. Pétursbréf 2:11; Filippíbréfið 3:20) Jesús sagði reyndar að sannir fylgjendur hans ‚væru ekki af heiminum.‘ Það merkir, eins og Páll postuli orðaði það, að kristnir menn ættu ekki ‚að notfæra sér heiminn til fulls.‘ — Jóhannes 17:16; 1. Korintubréf 7:31.
6. (a) Hvað þurfum við að hafa hugfast og við hvað má líkja aðstöðu okkar? (b) Hvaða fordæmi ættum við öll að láta vera okkur til viðvörunar?
6 Við skulum því alltaf hafa hugfast að heimur, sem tilheyrir Satan, er hættulegt umhverfi að búa í. Eitt víxlspor getur haft stórskaðlegar afleiðingar. (1. Jóhannesarbréf 5:19; 1. Pétursbréf 5:8) Við erum í nokkuð svipaðri aðstöðu og maður á ferð um jarðsprengjubelti. Páll postuli nefnir sem dæmi til viðvörunar hvernig fór fyrir Ísraelsmönnum rétt áður en þeir ætluðu að ganga inn í fyrirheitna landið. Margir misstu andlegt jafnvægi sitt, gerðust sekir um siðleysi og Guð tók þá af lífi. „Sá er hyggst standa,“ sagði Páll, „gæti því vel að sér, að hann [missi ekki andlegt jafnvægi sitt og] falli.“ — 1. Korintubréf 10:12.
Hvers vegna það er vernd
7. Hvaða sjálfsrannsókn væri hyggilegt að gera?
7 Það að lifa einföldu lífi og gæta góðs jafnvægis er vernd vegna þess að það gefur meiri tíma og krafta til andlegra hugðarefna en ella væri. Því er hyggilegt af þér að spyrja þig: Vinn ég að því að einfalda líf mitt eða geri ég það flóknara? Hvað læt ég raunverulega vera mikilvægast í lífinu? Sumir segjast hafa lítinn tíma til að nema Biblíuna eða taka þátt í þjónustunni á akrinum, en hver er ástæðan? Líklega sú að þeir lifa ekki einföldu lífi og gæta ekki jafnvægis. Gott væri fyrir þig að bera saman þann tíma sem þú notar til afþreyingar, svo sem að horfa á sjónvarpið, og þann tíma sem þú notar til að þjóna Jehóva í einhvers konar kristnu starfi. Ber það vott um jafnvægi hvernig þú skiptir tímanum? Ef þú einfaldar líf þitt mun það gefa þér meiri tíma til þeirra hluta sem máli skipta, meðal annars þess að taka meiri þátt í mikilvægasta starfi sem til er, hinu andlega uppskerustarfi. — Filippíbréfið 1:9, 10; Matteus 9:37.
8. Hvernig er hægt að fylgja þeirri áminningu Jesú að leita fyrst ríkis Guðs og við hvað má líkja nauðsyn þess að sækja fram?
8 Í rauninni er athafnasemi okkar í andlegum málum mælikvarði á það hvort við lifum einföldu og hófsömu lífi eða ekki. Kristnir menn, sem fylgja þeirri hvatningu Jesú að leita fyrst ríkis Guðs, halda góðum hraða í reglulegu biblíunámi og samkomusókn og þjónustu á akrinum. Slík hreyfing fram á við er mikil vernd gegn því að falla. Hún er að sumu leyti sambærileg við það að hjóla. Hjólreiðamaður veit að það er miklu auðveldara að halda jafnvægi á hæfilegum hraða en nánast kyrrstæðu reiðhjóli. Hið sama gildir á sviði andlegra athafna; svo lengi sem þú sækir fram á góðum hraða í regluföstu, andlegu starfi verndar þú sjálfan þig gegn því að missa jafnvægið og detta. — Filippíbréfið 3:16.
9. (a) Hvað er okkur öllum góð áminning? (b) Hvaða spurninga gætum við spurt okkur þegar okkur dettur í hug að ráðast í eitthvert verkefni?
9 Full ástæða er þó til að halda vöku sinni og hafa hugfast að við getum skapað okkur meiri tíma til að nema, búa okkur undir samkomur og hjálpa öðrum, ef við losum okkur við ýmislegt. Kristinn verslunarmaður segir: „Hvenær sem ég finn fyrir freistingu til að kaupa eitthvað sem ég þarfnast ekki eða taka að mér vinnu sem ég þarfnast ekki stöðva ég sjálfan mig með því að minna mig á að halda lífinu einföldu. Stundum verð ég að vera harður við sjálfan mig.“ Er þetta ekki góð áminning fyrir okkur öll? Ef þú ert að íhuga að leggja út í eitthvert verkefni, svo sem að byggja við húsið þitt eða eitthvað því um líkt, þá gætir þú spurt þig: Mun það stuðla að góðri andlegri heilsu hjá mér og fjölskyldu minni eða spilla henni? Hef ég í raun og veru þörf fyrir allt þetta sem fólkið í heiminum sækist eftir af ofurkappi, eða get ég verið án þess?
10. Hvernig eru sjónarmið ‚manns án anda‘ í samanburði við sjónarmið ‚andlegs manns‘?
10 En sumir andmæla kannski: ‚Er svona fórnfýsi nauðsynleg? Stendur einhvers staðar að við þurfum að lifa einföldu lífi og gæta góðs jafnvægis?‘ Nú, Páll talaði um „hvað mannsins er“ og „hvað Guðs er“ og bætti svo við: „Maðurinn án anda veitir ekki viðtöku því, sem Guðs anda er, því að honum er það heimska og hann getur ekki skilið það, af því að það dæmist andlega. En hinn andlegi dæmir um allt.“ (1. Korintubréf 2:11, 14, 15) Þú gætir hæglega orðið ‚maður án anda‘ með því að sækjast eftir og afla þér ónauðsynlegra, efnislegra hluta. Þá þykir þér fórnfýsi óþörf eða jafnvel fáránleg. Það er hins vegar sjónarmið ‚manns án anda,‘ ekki ‚andlegs manns.‘
11. Hvað hefði borið vitni um ójafnvægi hjá Nóa og hvernig getum við gætt jafnvægis í lífinu nú á dögum?
11 Andlegur maður er sá sem sér hlutina með augum trúarinnar. Hann sér hlutina frá sjónarhóli Guðs. Lítum á Nóa sem dæmi. Hann fékk að vita að Guð ætlaði að eyða heiminum í vatnsflóði. Hefði það borið vott um jafnvægi ef hann hefði eftir það eytt tíma sínum í að byggja sér stærra og betra hús og afla sér fleiri, efnislegra eigna? Auðvitað ekki! Það var einungis örkin sem gat veitt honum öryggi. Fyrir Nóa fól einfalt líf og gott jafnvægi í sér að beina allri athygli sinni að smíði arkarinnar og vera ‚prédikari réttlætisins,‘ þrátt fyrir háð og spott ‚manna án anda‘ sem ekki trúðu. (2. Pétursbréf 2:5; Matteus 24:37-39) Hið sama gildir um okkur. Við vitum að endalok þessa heims eru yfirvofandi og eina skynsamlega jafnvægið í lífinu er það að beina athyglinni að því að gera vilja Guðs og boða fagnaðarerindið, jafnvel þótt það kunni að hafa í för með sér að við þurfum að fórna því sem sumir kalla eðlilegt líf. — 1. Jóhannesarbréf 2:17.
Jesús vísaði okkur veginn
12. (a) Hvað sagði Jesús okkur að hætta að gera og hvað ættum við að gera í staðinn? (b) Hvers vegna er þessi viðhorfsbreyting nauðsynleg?
12 Í fjallræðu sinni gaf Jesús ýmis góð ráð um það hvernig lifa mætti einföldu lífi og gæta góðs jafnvægis. Hann sagði: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela.“ Samkvæmt frummálinu sagði Jesús: „Hættið að safna . . . “ vegna þess að fólk heldur venjulega áfram að ‚safna‘ sér efnislegum gæðum. En sá sem gerist lærisveinn Jesú getur ekki haldið því áfram. Líf hans verður að hafa annan tilgang eins og Jesús benti á í framhaldinu: „Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.“ Hann tilgreindi ástæðuna fyrir því að slík viðhorfsbreyting væri nauðsynleg: „Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.“ — Matteus 6:19-21.
13. Hvað þarft þú að vera sannfærður um ef þú ætlar þér að safna fjársjóðum á himni?
13 Fjársjóður þinn er það sem þú álítur mikilvægast í lífinu. Eru efnislegar eigur fjársjóður þinn eða er það helgun nafns Guðs, Jehóva, og launin sem hann hefur heitið? Sá sem vill verja lífinu til að safna sér fjársjóðum á himni en ekki jörð verður að vera alveg sannfærður um að Guðsríki sé veruleiki. Nýi heimurinn þarf að vera þér svo raunverulegur að þú sjáir hann fyrir hugskotssjónum þér og sjáir sjálfan þig vinna að tilgangi Jehóva með jörðina. Líkt og Móse þarft þú að ‚sjá hinn ósýnilega‘ og vera algerlega sannfærður um að „hann umbuni þeim, er hans leita.“ — Hebreabréfið 11:6, 27.
14. Hvaða afleiðingar hefur það ef hjartað hefur ást á efnislegum hlutum?
14 En hvað þá ef hjarta þitt, sem meðal annars táknar langanir þínar og tilfinningar, hefur ást á efnislegum fjársjóðum? Biblían segir: „Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ Það að sækjast eftir efnislegum gæðum sem eru föl fyrir fé veitir hreinlega ekki sanna og varanlega lífsfyllingu. (1. Tímóteusarbréf 6:10; Prédikarinn 5:10) Sorglegast er þó að ást á peningum og efnislegum hlutum spillir sambandi þínu við Guð sem ætlast til að þú þjónir honum „af öllu hjarta.“ — 1. Kroníkubók 28:9.
15. (a) Hvaða líkingu notaði Jesús í sambandi við augað? (b) Hvernig varðveitir maður auga sitt „heilt,“ bæði líkamlega og andlega? (c) Hvað munum við geta séð, líkt og þrír af postulum Jesú, ef auga okkar er „heilt“?
15 Jesús notaði tvær líkingar til að hjálpa okkur að forðast þá snöru sem efnishyggjan er. Fyrst sagði hann: „Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt, mun allur líkami þinn bjartur. En sé auga þitt spillt, verður allur líkami þinn dimmur.“ (Matteus 6:22, 23) Líkamlega heilt „auga“ sér hlutina skýrt og sendir heilanum skýra og greinilega mynd. Sé augað ekki heilt skilar það óskýrri mynd. Andlegt auga, sem er „heilt“ eða hefur hlutina í brennidepli, sér skýra mynd af Guðsríki, ekki óskýra, þokukennda mynd sem lætur nýja heiminn líta út eins og ævintýri eða helgisögn. Ef andlegt auga þitt hefur hlutina í brennidepli er hinn fyrirheitni nýi heimur Guðs þér jafnraunverulegur og hann var postulunum þrem sem fengu þau sérréttindi að sjá hann í ummyndunarsýn Jesú. — Matteus 16:28-17:9; Jóhannes 1:14; 2. Pétursbréf 1:16-19.
16. Hvernig benti Jesús í annarri líkingu sinni á nauðsyn þess að vera stefnufastur?
16 Jesús tók aðra líkingu. „Enginn getur þjónað tveimur herrum,“ sagði hann. „Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn.“ Síðan undirstrikaði hann aftur hve nauðsynlegt væri að vera stefnufastur og sagði: „Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ (Matteus 6:24) Það hreinlega gengur ekki. Jesús hélt því áfram: „Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. . . . Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa.“ — Matteus 6:25-32.
17. (a) Hvað var Jesús að benda á með leiðbeiningum sínum um efnislega hluti? (b) Hvað var Jesús að leggja áherslu á og hvað felst í því að lifa einföldu lífi og gæta góðs jafnvægis?
17 Jesús átti ekki við að fylgjendur hans ættu að láta tilviljun ráða því hvort þeir hefðu til daglegra þarfa eða ættu að vera latir og neita að vinna til að sjá fyrir sér og fjölskyldum sínum. (1. Tímóteusarbréf 5:8) Nei, kjarninn var sá að þeir efnislegu hlutir, sem þjóðirnar sóttust eftir af kappi, áttu ekki að vera forgangsatriði. Jesús áminnti þá: „En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matteus 6:33) Jesús var þannig að tala um markmið í lífinu og leggja áherslu á hversu fánýtt það væri að sækjast eftir efnislegum hlutum. Það að lifa einföldu lífi og gæta góðs jafnvægis felur í sér að einblína á hagsmuni Guðsríkis og láta allt annað vera í öðru sæti.
Fordæmi Jesú og annarra
18. Hvernig gaf Jesús okkur gott fordæmi?
18 Páll hvatti kristna menn til að ‚létta af sér allri byrði og viðloðandi synd [skorti á trú]‘ og bætti svo við: „Þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan. Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar.“ (Hebreabréfið 12:1, 2) Jesús var svo gagntekinn af því að sinna hagsmunum Guðsríkis að hann gat lýst stöðu sinni þannig: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“ (Matteus 8:20) Jesús var þó enginn meinlætamaður. Ritningin segir frá því að hann hafi kunnað að njóta góðs matar og klæðst vönduðum fötum, en höfuðmarkmið hans í lífinu var þó að fullna þjónustu sína. Jesús lifði þannig einföldu lífi og gætti góðs jafnvægis. — Lúkas 5:29; Jóhannes 19:23, 24.
19, 20. (a) Hvaða fordæmi gaf Páll í sambandi við efnislega hluti? (b) Hvað hafa margir lært nú á tímum og hvernig líta þeir á ævi sína?
19 Páll postuli gerði sér líka grein fyrir hvað átti að hafa forgang í lífi hans. Hann segir: „Mér er líf mitt einskis virði, fái ég aðeins að fullna skeið mitt og þá þjónustu, sem Drottinn Jesús fól mér: Að bera vitni fagnaðarerindinu.“ (Postulasagan 20:24) Til að fullna þá þjónustu, sem mikilvægust var, gerði Páll sér að góðu brýnustu nauðsynjar, þótt hann slægi ekki hendinni á móti því að njóta nægta þegar svo bar undir. Hann skrifaði: „Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort.“ — Filippíbréfið 4:12.
20 Tugþúsundir manna hafa lært hið sama nú á dögum. Margir þeirra þjóna sem boðberar í fullu starfi meðal votta Jehóva, sem trúboðar, brautryðjendur og farandumsjónarmenn, auk þeirra sem starfa í aðalstöðvum skipulagsins og útibúum þess. Eftir áralanga þjónustu í fullu starfi segja flestir: „Ef ég ætti að lifa lífinu á nýjan leik myndi ég gera nákvæmlega þetta sama.“
Blessun sem þú getur notið
21, 22. (a) Hvaða umbun hljótum við nú þegar fyrir að lifa einföldu lífi og gæta jafnvægis? (b) Hvaða blessun bíður í framtíðinni?
21 Það kostar fórnir að lifa einföldu lífi og gæta góðs jafnvægis. En blessunin og gleðin er líka óviðjafnanleg. Þú hefur meiri tíma en ella væri til að efla hag Guðsríkis og fleiri tækifæri til að finna áhugasamt fólk og fræða það um tilgang Guðs. Þú munt njóta sannrar lífsfyllingar, hafa frið í huga þér og þá fullvissu að þú gleðjir Jehóva Guð. Það er umbun sem þú getur hlotið nú þegar. — Filippíbréfið 4:6, 7.
22 En blessun framtíðarinnar er enn meiri að vöxtum — slík að hver sú fórn, sem þú þarft að færa núna, hverfur algerlega í skuggann. Blessun Jehóva felur í sér „lífdaga um aldur og ævi.“ Þú getur orðið þeirrar blessunar aðnjótandi — hlotið eilíft líf og eilífa hamingju í réttlátum nýjum heimi Guðs. Lifðu því einföldu lífi og gættu góðs jafnvægis. Láttu aldrei það sem er í þessum heimi koma þér úr jafnvægi. Mundu að Guð mun veita þér það sem hjarta þitt þráir. — Sálmur 21:4, 5; 37:4; 133:3.
Upprifjun
◻ Hvaða dæmi og líkingum tókst þú eftir sem geta hjálpað þér að lifa einföldu lífi og gæta jafnvægis?
◻ Hvernig er það okkur vernd að lifa einföldu, öfgalausu lífi?
◻ Hvað mun það þýða fyrir okkur ef hið andlega auga er heilt?
◻ Hvernig kenndi Jesús okkur að lifa einföldu lífi?
◻ Hvaða blessun fylgir því að lifa einföldu lífi og gæta góðs jafnvægis?