Leitið ríkis Guðs, ekki efnislegra hluta
,Leitið ríkis Guðs og þá mun þetta veitast yður að auki.‘ – LÚK. 12:31.
1. Hver er munurinn á þörfum og löngunum?
SAGT hefur verið að þarfir mannsins séu fáar en langanir hans óendanlegar. Margir virðast ekki sjá muninn á þörfum og löngunum í efnislega hluti. Hver er munurinn? Ef eitthvað er nauðsynlegt til að viðhalda lífinu er það þörf. Matur, föt og húsaskjól eru raunverulegar þarfir. Löngun er hins vegar eitthvað sem mann langar í en er í sjálfu sér ekki nauðsynlegt.
2. Hvað langar suma í?
2 Langanir fólks geta verið mjög ólíkar eftir því hvar það býr. Í þróunarlöndum langar marga einfaldlega til að geta keypt sér farsíma, skellinöðru eða lítinn landskika. Í ríkari löndum sækist fólk oft eftir að eignast stærra húsnæði, flottari bíl eða fullan fataskáp af dýrum fötum. En sama hvar við búum og við hvaða aðstæður er ákveðin hætta á ferð. Við gætum lent í gildru efnishyggjunnar og farið að langa í æ meira þó að við þörfnumst þess ekki og höfum ekki efni á því.
VÖRUMST SNÖRU EFNISHYGGJUNNAR
3. Hvað er efnishyggja?
3 Hvað er efnishyggja? Það er að vera upptekinn af efnislegum hlutum frekar en andlegum verðmætum. Efnishyggja stýrist af löngunum manna, forgangsröðun þeirra og því að hverju þeir einbeita sér. Hún birtist í sterkri þrá eftir efnislegum eigum. Efnishyggjumaður þarf ekki að vera ríkur og kaupir ekki endilega mjög dýra hluti. Fátækir geta líka orðið fórnarlömb efnishyggjunnar og hætt að leita fyrst ríkis Guðs. – Hebr. 13:5.
4. Hvernig höfðar Satan til okkar með því sem „glepur augað“?
4 Satan notar auglýsingaiðnað heimsins til að telja okkur trú um að efnislegir hlutir umfram þarfir okkar séu nauðsynlegir til að við getum notið lífsins. Hann er slunginn í að höfða til okkar með því sem „glepur augað“. (1. Jóh. 2:15-17; 1. Mós. 3:6; Orðskv. 27:20) Heimurinn býður upp á aragrúa af efnislegum hlutum. Sumt er mjög gagnlegt og annað alveg fáránlegt en getur samt verið mjög freistandi. Hefurðu einhvern tíma keypt óþarfan hlut bara af því að þú sást hann í auglýsingu eða búðarglugga? Komstu síðan að raun um að þú hefðir alveg getað lifað án hans alla ævi? Slíkir hlutir flækja bara líf okkar og þeir íþyngja okkur. Við getum fallið í þá gryfju að láta þá trufla andlega dagskrá okkar svo sem biblíunám, undirbúning fyrir samkomur, samkomusókn og reglulega þátttöku í boðuninni. Munum eftir viðvörun Jóhannesar postula: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans.“
5. Hvernig getur farið fyrir þeim sem nota krafta sína að mestu leyti til að eignast fleiri hluti?
5 Satan vill að við verðum þrælar efnislegra eigna frekar en að við þjónum Jehóva. (Matt. 6:24) En lífið verður innantómt ef við hugsum fyrst og fremst um að nota krafta okkar til að eignast efnislega hluti. Við gætum orðið fyrir vonbrigðum og lent í fjárhagskröggum. Og það sem verra er, við gætum misst trúna á Jehóva og ríki hans. (1. Tím. 6:9, 10; Opinb. 3:17) Jesús lýsti þessu vel í dæmisögunni um sáðmanninn. Þegar boðskapnum um ríki Guðs er ,sáð meðal þyrna koma aðrar girndir til og kefja orðið svo það ber engan ávöxt‘. – Mark. 4:14, 18, 19.
6. Hvað getum við lært af frásögunni af Barúk?
6 Hugsum um Barúk, ritara Jeremía spámanns. Spáð hafði verið um eyðingu Jerúsalem en þegar sá tími nálgaðist fór Barúk að ,ætla sér mikinn hlut‘ – áform sem höfðu ekkert varanlegt gildi. Það eina sem hann hefði átt að vonast eftir var að öðlast það sem Jehóva hafði lofað honum: „Þér mun ég gefa líf þitt að herfangi.“ (Jer. 45:1-5) Guð ætlaði ekki að varðveita neinar efnislegar eigur í borg sem átti að eyða. (Jer. 20:5) Núna, þegar endir þessa heims nálgast, er ekki rétti tíminn til að sanka að sér efnislegum eigum. Við ættum ekki að búast við því að komast með nokkrar eigur okkar í gegnum þrenginguna miklu, hversu verðmætar sem þær kunna að vera. – Orðskv. 11:4; Matt. 24:21, 22; Lúk. 12:15.
7. Hvað ætlum við nú að skoða og hvers vegna?
7 Jesús gaf okkur bestu ráðin til að tryggja að við höfum það sem við þurfum án þess að verða of upptekin af því og leyfa efnishyggjunni að ná tökum á okkur og valda okkur óþarfaáhyggjum. Þessi ráð má finna í fjallræðunni. (Matt. 6:19-21) Við skulum nú brjóta til mergjar þann hluta hennar sem skráður er í Matteusi 6:25-34. Það ætti að sannfæra okkur um að við þurfum að ,leita ríkis Guðs‘ en ekki efnislegra hluta. – Lúk. 12:31.
JEHÓVA SÉR FYRIR EFNISLEGUM ÞÖRFUM OKKAR
8, 9. (a) Hvers vegna ættum við ekki að hafa of miklar áhyggjur af nauðsynjum? (b) Hvað vissi Jesús um fólk og þarfir þess?
8 Lestu Matteus 6:25. Þegar Jesús sagði áheyrendum sínum að ,vera ekki áhyggjufullir um líf sitt‘ var hann efnislega að segja þeim að hætta að hafa áhyggjur. Þeir höfðu áhyggjur af ýmsu sem þeir áttu ekki að hafa áhyggjur af. Jesús sagði þeim að hætta því, og ekki að ástæðulausu. Óþarfaáhyggjur, jafnvel af nauðsynjum, geta valdið manni truflunum og orðið til þess að maður gleymi því sem er mikilvægast í lífinu. Jesú var svo annt um lærisveina sína að hann varaði þá við þessari hættulegu tilhneigingu fjórum sinnum í viðbót í fjallræðunni. – Matt. 6:27, 28, 31, 34.
9 Hvers vegna sagði Jesús að við ættum ekki að hafa áhyggjur af því hvað við fengjum að borða og drekka eða hverju við ættum að klæðast? Eru þetta ekki algerar nauðsynjar? Vissulega. Er þá ekki eðlilegt að hafa áhyggjur ef við getum ekki aflað okkur þeirra? Auðvitað, og Jesús vissi það. Hann gerði sér grein fyrir daglegum þörfum fólks. Auk þess vissi hann hversu erfiðir tímar biðu fylgjenda hans á hinum „síðustu dögum“ sem myndu einkennast af ,örðugum tíðum‘. (2. Tím. 3:1) Margir myndu þá búa við atvinnuleysi, verðbólgu, hungursneyð og mikla fátækt. En Jesús vissi líka að ,lífið væri meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin‘.
10. Hvað sagði Jesús fylgjendum sínum að ætti að vera þeim mikilvægast þegar hann kenndi þeim að biðja?
10 Fyrr í ræðunni hafði Jesús kennt áheyrendum sínum að biðja föður sinn á himnum um það sem þeir þyrftu. Þeir gátu beðið: „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“ (Matt. 6:11) Við annað tækifæri endurtók Jesús orð sín og sagði: „Gef oss hvern dag vort daglegt brauð.“ (Lúk. 11:3) En þetta þýðir ekki að efnislegar þarfir ættu að eiga hug okkar allan. Í þessari sömu bæn lagði Jesús fyrst og fremst áherslu á að biðja um að ríki Guðs kæmi. (Matt. 6:10; Lúk. 11:2) Til að veita áheyrendum sínum hugarró benti Jesús síðan á hvernig Jehóva sér fyrir öllu sköpunarverki sínu í ríkum mæli.
11, 12. Hvernig sér Jehóva fyrir fuglum himinsins og hvað lærum við af því? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
11 Lestu Matteus 6:26. Við ættum að ,líta til fugla himinsins‘. Þó að þeir séu litlir éta þeir heilmikið af ávöxtum, fræjum, skordýrum og ormum. Miðað við þyngd sína neyta þeir hlutfallslega meiri fæðu en mennirnir. Þeir þurfa samt ekki að rækta landið og sá sáðkorni til að afla sér matar. Jehóva sér þeim fyrir öllu sem þeir þurfa. (Sálm. 147:9) Hann matar þá auðvitað ekki bókstaflega. Þeir þurfa að fara og finna fæðuna, en það er til miklu meira en nóg af henni.
12 Þar sem Jehóva sér fuglunum fyrir fæðu var Jesús ekki í vafa um að hann myndi einnig hugsa um grunnþarfir mannanna.[1] (1. Pét. 5:6, 7) Jehóva matar okkur ekki bókstaflega en hann getur blessað það sem við leggjum á okkur til að rækta þau matvæli sem við þurfum eða vinna fyrir þeim. Hann gæti knúið aðra til að gefa okkur af því sem þeir eiga ef við þörfnumst þess. Jesús nefndi ekki að Jehóva sæi fuglum himinsins fyrir skjóli. En Jehóva skapaði þá samt með eðlishvöt og hæfileika til að búa sér hreiður, og hann sér þeim líka fyrir efnivið til þess. Hann getur sömuleiðis hjálpað okkur að finna hentugt húsnæði fyrir fjölskyldu okkar.
13. Hvað sannar að við séum meira virði en fuglar himinsins?
13 Jesús spurði áheyrendur sína: „Eruð þér ekki miklu fremri [fuglum himinsins]?“ Jesús hafði eflaust í huga að hann myndi bráðum fórna lífi sínu í þágu mannkyns. (Samanber Lúkas 12:6, 7.) Lausnarfórn Krists var ekki færð í þágu nokkurra annarra sköpunarvera. Jesús dó ekki fyrir fugla himinsins en hann dó fyrir okkur þannig að við gætum öðlast eilíft líf. – Matt. 20:28.
14. Hvað geta áhyggjur aldrei gert fyrir okkur?
14 Lestu Matteus 6:27. Hvers vegna sagði Jesús að maður geti ekki einu sinni bætt einni spönn við aldur sinn með því að vera áhyggjufullur? Vegna þess að óþarfaáhyggjur af daglegum þörfum geta ekki lengt líf okkar. Miklar áhyggjur geta öllu heldur stytt ævina.
15, 16. (a) Hvernig sér Jehóva um liljur vallarins og hvað lærum við af því? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvaða spurninga gætum við þurft að spyrja okkur og hvers vegna?
15 Lestu Matteus 6:28-30. Hver vill ekki geta verið vel til fara, ekki síst í boðuninni, á samkomum og á mótum? En þurfum við að vera „áhyggjufull um klæðnað“? Jesús beinir athygli okkar aftur að handaverki Jehóva. Við getum lært margt af því hvernig ,liljur vallarins‘ líta út. Þegar Jesús nefnir liljur hafði hann ef til vill í huga blóm eins og gladíólur, hýasintur, írisar og túlípana – allt falleg blóm, hvert á sinn hátt. Þau þurfa ekki að spinna garn, vefa efni og sauma sér föt. En þessi sköpunarverk eru samt svo yndisfögur að Jesús sagði: „Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.“
16 Tökum eftir lærdómnum sem Jesús dregur fram. Hann segir: „Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins ... skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil!“ Við getum verið viss um það! Lærisveina Jesú skorti þó trú að einhverju leyti. (Matt. 8:26; 14:31; 16:8; 17:20) Þeir þurftu að styrkja trúna og traustið til Jehóva. Hvað um okkur? Hve sterk er trú okkar á að Jehóva bæði vilji og geti séð fyrir okkur?
17. Hvað gæti skaðað samband okkar við Jehóva?
17 Lestu Matteus 6:31, 32. Við ættum ekki að líkja eftir ,heiðingjunum‘ sem treysta hvorki á kærleiksríkan föður á himnum né að hann sjái fyrir þeim sem setja ríki hans í fyrsta sæti. Ef við reyndum að fá allt það sem þetta fólk sækist svo ákaflega eftir myndum við skaða samband okkar við Jehóva. Ef við hins vegar gerum það sem við eigum að gera – að huga fyrst og fremst að andlegum markmiðum – getum við verið viss um að Jehóva synji okkur ekki um það sem er gott. Þegar við gerum það hjálpar það okkur líka að láta okkur nægja „fæði og klæði“. – 1. Tím. 6:6-8.
SKIPAR RÍKI GUÐS FYRSTA SÆTI Í LÍFI ÞÍNU?
18. Hvað veit Jehóva um okkur hvert og eitt og hvað gerir hann fyrir okkur?
18 Lestu Matteus 6:33. Lærisveinar Krists þurfa alltaf að láta ríki Guðs vera í fyrsta sæti. Ef við gerum það mun annað sem við þurfum ,veitast okkur að auki‘, eins og Jesús sagði. Hvernig gat hann sagt það? Hann útskýrði það í versinu á undan: „Yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa,“ en þar á hann við allt sem við þurfum. Jehóva getur auðveldlega séð fyrir fram hvers við þörfnumst hvert og eitt, jafnvel áður en við áttum okkur á því sjálf. (Fil. 4:19) Hann veit hvaða föt verða næst úr sér gengin. Hann þekkir matarþarfir okkar og veit hvers konar húsnæði við þurfum miðað við stærð fjölskyldunnar. Jehóva sér til þess að við höfum allt það sem við raunverulega þörfnumst.
19. Hvers vegna ættum við ekki að hafa áhyggjur af því sem gæti gerst í framtíðinni?
19 Lestu Matteus 6:34. Tökum eftir að Jesús nefnir hér í annað sinn að við eigum ,ekki að hafa áhyggjur‘. Hann segir okkur að takast á við einn dag í einu – fullviss um að Jehóva hjálpi okkur. Ef við höfum óhóflegar áhyggjur af því sem gæti gerst í framtíðinni gætum við farið að treysta á sjálf okkur frekar en á Jehóva og það getur haft skaðleg áhrif á samband okkar við hann. – Orðskv. 3:5, 6; Fil. 4:6, 7.
JEHÓVA SÉR FYRIR ÞÉR EF ÞÚ LEITAR FYRST RÍKIS HANS
20. (a) Hvaða markmið gætirðu sett þér í þjónustunni við Jehóva? (b) Hvað gætirðu gert til að einfalda lífið?
20 Það væri sorglegt ef við reyndum að lifa munaðarlífi á kostnað þjónustunnar við Jehóva. Við ættum öllu heldur að keppast eftir andlegum markmiðum. Gætirðu til dæmis flust til safnaðar þar sem mikil þörf er á boðberum? Eða orðið brautryðjandi? Ef þú ert brautryðjandi, hefurðu þá hugsað um að sækja um í Skólanum fyrir boðbera Guðsríkis? Gætirðu hjálpað til í hlutastarfi á Betel eða þýðingaskrifstofu? Gætirðu boðið þig fram til að vinna sem sjálfboðaliði á vegum hönnunar- og byggingardeildarinnar, til dæmis notað hluta vikunnar við ríkissalabyggingar? Veltu fyrir þér hvað þú getur gert til að einfalda lífið þannig að þú getir tekið meiri þátt í þjónustu Guðs. Hugleiddu tillögurnar sem koma fram í rammanum „Hvernig geturðu einfaldað lífið?“ Biddu Jehóva um að hjálpa þér að sjá hverju þú þarft að breyta og reyndu síðan að ná markmiði þínu.
21. Hvað getur hjálpað þér að nálægja þig Jehóva?
21 Jesús kenndi okkur að leita fyrst ríkis Guðs en ekki efnislegra hluta, og fyrir því var góð ástæða. Ef við gerum það þurfum við aldrei að hafa áhyggjur af því sem við þörfnumst. Við nálægjum okkur Jehóva með því að setja traust okkar á hann. Og við lærum að láta ekki undan öllum löngunum okkar og kaupa ekki hvaðeina sem heimurinn hefur upp á að bjóða, jafnvel þó að við hefðum efni á því. Ef við einföldum lífið núna hjálpar það okkur að ,höndla hið sanna líf‘ í framtíðinni. – 1. Tím. 6:19.
^ [1] (12. grein.) Í greininni „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum 15. september 2014, bls. 22, er útskýrt hvers vegna Jehóva leyfir stundum að þjónn sinn líði matarskort.