Varpið allri áhyggju ykkar á Jehóva
„Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ – 1. PÉT. 5:7.
1, 2. (a) Hvers vegna kemur það ekki á óvart að við finnum stundum fyrir áhyggjum og kvíða? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Um hvað er rætt í þessari grein?
ÁLAGIÐ er mikið í heimi nútímans. Satan djöfullinn er ævareiður og „gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt“. (1. Pét. 5:8; Opinb. 12:17) Það kemur því ekki á óvart að við sem þjónum Guði finnum fyrir áhyggjum og kvíða af og til, rétt eins og aðrir. Guðhræddir þjónar Jehóva forðum daga áttu stundum við kvíða og áhyggjur að stríða. Þar má meðal annars nefna Davíð konung. (Sálm. 13:3) Páll postuli hafði áhyggjur af öllum söfnuðunum. (2. Kor. 11:28) En hvað getum við gert ef við erum að sligast undan áhyggjum og kvíða?
2 Kærleiksríkur faðir okkar á himnum hjálpaði þjónum sínum til forna þegar áhyggjur sóttu á þá. Hann getur líka hjálpað okkur að draga töluvert úr áhyggjum og kvíða. Í Biblíunni segir: „Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ (1. Pét. 5:7) En hvernig förum við að því? Skoðum fernt sem við getum gert. Við getum beðið innilegra bæna, lesið orð Guðs og hugleitt það, nýtt okkur kraftinn frá heilögum anda og talað um líðan okkar við einhvern sem við treystum. Veltu fyrir þér hvernig þú getur nýtt þér þau góðu ráð sem eru til umfjöllunar í þessari grein.
VARPAÐU ÁHYGGJUM ÞÍNUM Á JEHÓVA
3. Hvernig getum við varpað áhyggjum okkar á Jehóva?
3 Það fyrsta, sem við getum gert, er að leita til Jehóva í innilegri bæn. Úthelltu hjarta þínu fyrir kærleiksríkum föður þínum á himnum þegar þú finnur fyrir ótta, áhyggjum eða kvíða. Sálmaskáldið Davíð sárbændi Jehóva: „Hlýð, Guð, á bæn mína.“ Í sama sálmi sagði hann: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér.“ (Sálm. 55:2, 23) Þegar þú hefur gert allt sem í þínu valdi stendur til að leysa vandamálið kemur innileg bæn meiru til leiðar en áhyggjur. En hvernig getur bænin komið í veg fyrir að neikvæðar hugsanir og áhyggjur nái yfirhöndinni? – Sálm. 94:18, 19.
4. Hvers vegna er mikilvægt að biðja þegar við erum áhyggjufull?
4 Lestu Filippíbréfið 4:6, 7. Jehóva getur svarað einlægum og innilegum áköllum okkar. Hvernig gerir hann það? Hann veitir okkur innri frið sem sefar huga okkar og hjarta. Margir hafa upplifað það. Guð hjálpaði þeim að takast á við áhyggjur sínar og kvíða með því að veita þeim innri frið og ró sem var æðri mannlegum skilningi. Þú getur líka fengið að reyna það. Þá getur „friður Guðs“ hjálpað þér að sigrast á hvaða erfiðleikum sem ber að garði. Þú mátt treysta að Jehóva beri umhyggju fyrir þér og standi við eftirfarandi loforð: „Vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér.“ – Jes. 41:10.
ORÐ GUÐS VEITIR INNRI FRIÐ
5. Hvernig veitir orð Guðs okkur innri frið?
5 Önnur leið til að hljóta innri frið er að lesa í Biblíunni og hugleiða orð hennar. Hvers vegna skiptir það máli? Í Biblíunni er að finna hagnýt ráð sem geta hjálpað manni að forðast, draga úr eða takast á við áhyggjur og kvíða. Gleymdu ekki að hún hefur að geyma hugsanir skaparans og því eru ráð hennar gagnleg og viska hennar endurnærandi. Það gefur þér styrk að hugleiða efni Biblíunnar, dag eða nótt, og reyna að átta þig á hvernig þú getur fylgt ráðum hennar sem best. Jehóva benti á tengslin milli þess að lesa í orði hans og þess að vera „djarfur og hughraustur“ og ,óttast hvorki né láta hugfallast‘. – Jós. 1:7-9.
6. Hvaða áhrif geta orð Jesú haft á þig?
6 Í Biblíunni getum við lesið hughreystandi orð Jesú. Kennsla hans var endurnærandi fyrir þá sem hlustuðu á hana. Fjöldi fólks laðaðist að Jesú af því að hann hughreysti áhyggjufulla, styrkti veikburða og huggaði niðurdregna. (Lestu Matteus 11:28-30.) Honum var mjög umhugað um andlegar, tilfinningalegar og líkamlegar þarfir annarra. (Mark. 6:30-32) Loforð Jesú um stuðning nær líka til okkar. Hann getur stutt þig eins og hann studdi postulana sem ferðuðust með honum. Við þurfum ekki að vera bókstaflega í návist Jesú til að hann geti hjálpað okkur. Hann ríkir sem konungur á himnum og ber mikla umhyggju fyrir mönnunum, rétt eins og þegar hann var hér á jörð. Hann getur því stutt okkur „þegar við erum hjálparþurfi“. Já, Jesús getur hjálpað þér að takast á við erfiðar tilfinningar og veitt þér von og hugrekki. – Hebr. 2:17, 18; 4:16.
ANDI GUÐS LAÐAR FRAM GÓÐA EIGINLEIKA
7. Hvernig er það þér til góðs þegar Guð svarar bænum þínum um heilagan anda?
7 Jesús sagði að faðir okkar á himnum myndi ekki hika við að gefa okkur heilagan anda ef við bæðum um hann. (Lúk. 11:10-13) Að rækta ávöxt andans er þriðja leiðin til að draga úr áhyggjum og kvíða. Þeir góðu eiginleikar, sem andi Guðs laðar fram í fari okkar, endurspegla persónuleika Guðs sjálfs. (Lestu Galatabréfið 5:22, 23; Kól. 3:10) Ef þú ræktar ávöxt andans verða samskipti þín við aðra betri. Fyrir vikið kemstu að raun um að ákveðnar aðstæður, sem geta valdið kvíða, koma alls ekki upp. Skoðum nú stuttlega hvernig ávöxtur andans getur hjálpað okkur.
8-12. Hvernig getur ávöxtur andans auðveldað manni að takast á við erfiðar aðstæður eða komast hjá þeim?
8 „Kærleiki, gleði, friður.“ Þegar maður kappkostar að sýna öðrum virðingu á maður auðveldara með að takast á við eigin neikvæðar tilfinningar. Hvernig þá? Þegar maður sýnir öðrum bróðurkærleika, ástúð og virðingu er ólíklegra að aðstæður skapist sem geta valdið okkur áhyggjum og kvíða. – Rómv. 12:10.
9 „Langlyndi, gæska, góðvild.“ Í Biblíunni segir: „Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru.“ (Ef. 4:32) Með því að fylgja þessu ráði stuðlum við að friði við aðra og getum þannig komið í veg fyrir að aðstæður skapist sem valda kvíða og áhyggjum. Auk þess auðveldar það okkur að takast á við atvik sem koma upp vegna mannlegs ófullkomleika.
10 „Trúmennska“ eða trú. Nú á dögum tengjast áhyggjur okkar oft peningum og efnislegum hlutum. (Orðskv. 18:11) Ef við höfum sterka trú og sannfæringu um að Jehóva sjái fyrir sínum getum við betur tekist á við slíkar áhyggjur eða forðast þær með öllu. Hvernig þá? Við getum haft hemil á áhyggjum okkar með því að fylgja þessum innblásnu ráðum Páls postula: „Látið ykkur nægja það sem þið hafið.“ Hann bætir við: „Guð hefur sjálfur sagt: ,Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.‘ Því getum við örugg sagt: Drottinn er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Hvað geta mennirnir gert mér?“ – Hebr. 13:5, 6.
11 „Hógværð og sjálfsagi.“ Veltu fyrir þér hve mikið gagn þú getur haft af því að rækta með þér þessa eiginleika. Þeir forða þér frá því að gera hluti sem valda þér vanlíðan og kvíða og þeir gera þér kleift að láta af „beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli“. – Ef. 4:31.
12 Maður þarf að vísu að vera auðmjúkur til að beygja sig undir „Guðs voldugu hönd“ og ,varpa allri áhyggju sinni á hann‘. (1. Pét. 5:6, 7) En ef maður temur sér auðmýkt á maður blessun Guðs og stuðning vísan. (Míka 6:8) Með því að treysta á hann og viðurkenna takmörk sín er ólíklegra að áhyggjur nái tökum á manni.
,HAFIÐ EKKI ÁHYGGJUR‘
13. Hvað átti Jesús við þegar hann sagði: ,Hafið ekki áhyggjur‘?
13 Í Matteusi 6:34 (lestu) finnum við þetta viturlega ráð Jesú: ,Hafið ekki áhyggjur.‘ Það getur þó verið hægara sagt en gert að fara eftir því. Hvað átti Jesús eiginlega við? Hann átti greinilega ekki við að þjónar Guðs myndu aldrei á lífsleiðinni verða áhyggjufullir. Bæði Davíð og Páll höfðu áhyggjur, eins og kom fram fyrr í greininni. Jesús var öllu heldur að benda lærisveinum sínum á að óþarfar eða óhóflegar áhyggjur leysa engin vandamál. Hverjum degi fylgja sín vandamál og því er óþarfi að bæta við þau með því að hafa áhyggjur af fortíðinni eða framtíðinni. Hvernig er hægt að fylgja ráðum Jesú og hvernig geta þau hjálpað manni að takast á við þjakandi áhyggjur?
14. Hvernig getur maður tekist á við sektarkennd vegna fyrri breytni?
14 Fyrri breytni eða mistök gætu legið þungt á okkur. Kannski erum við full sektarkenndar yfir einhverju sem við höfum gert, jafnvel fyrir mörgum árum. Stundum leið Davíð konungi eins og ,misgjörðir hans hefðu vaxið honum yfir höfuð‘. Hann sagðist ,stynja í hjartans angist‘. (Sálm. 38:4, 5, 9, 19) Hvað var það viturlegasta sem Davíð gat gert í stöðunni? Og hvað gerði hann? Hann treysti á miskunn og fyrirgefningu Jehóva. Hann sagði af sannfæringu: „Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin.“ – Lestu Sálm 32:1-3, 5.
15. (a) Hvers vegna ættu núverandi aðstæður okkar ekki að valda okkur kvíða og áhyggjum? (b) Hvað getum við gert til að draga úr áhyggjum? (Sjá „Nokkrar leiðir til að draga úr áhyggjum“.)
15 Maður gæti líka verið í aðstæðum sem valda áhyggjum og kvíða. Þegar Davíð orti Sálm 55 óttaðist hann um líf sitt. (Sálm. 55:3-6) En hann leyfði óttanum ekki að draga úr trausti sínu til Jehóva. Davíð úthellti hjarta sínu fyrir Jehóva í bæn en hann vissi líka að hann þyrfti að gera það sem hann gæti til að takast á við rót vandans. (2. Sam. 15:30-34) Þú getur dregið lærdóm af því hvernig hann brást við. Gerðu það sem í þínu valdi stendur til að leysa vandann í stað þess að láta ótta og kvíða ná tökum á þér. Treystu síðan að Jehóva sjái um framhaldið.
16. Hvernig getur það styrkt trúna að hugleiða hvað nafn Guðs merkir?
16 Sumir þjónar Guðs hafa óþarfar áhyggjur af því sem gæti hugsanlega gerst í framtíðinni. En það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af ókomnum atburðum sem við vitum ekkert um. Hvers vegna? Vegna þess að oft fara hlutirnir ekki eins og við óttumst. Auk þess er Guði ekkert um megn og því getum við varpað öllum áhyggjum okkar á hann. Nafn hans er talið merkja „hann lætur verða“. (2. Mós. 3:14) Merking nafnsins fullvissar okkur um að Guð sé fullkomlega fær um að láta vilja sinn með þjóna sína ná fram að ganga. Þú mátt treysta því að Guð getur launað trúföstum þjónum sínum og hjálpað þeim að takast á við sektarkennd tengda fortíðinni, áhyggjur af núverandi aðstæðum og kvíða út af ókomnum atburðum.
TALAÐU VIÐ AÐRA UM ÁHYGGJUR ÞÍNAR
17, 18. Hvernig geta góð tjáskipti hjálpað okkur að takast á við áhyggjur?
17 Góð tjáskipti er fjórða leiðin til að takast á við áhyggjur. Segðu einhverjum sem þú treystir hvernig þér líður. Maki þinn, vinur eða safnaðaröldungur getur kannski hjálpað þér að sjá hlutina í nýju ljósi. „Hugsýki íþyngir hjartanu, eitt vingjarnlegt orð gleður það.“ (Orðskv. 12:25) Opinská og heiðarleg tjáskipti geta hjálpað þér að skilja vandamálið betur og takast á við það. Í Biblíunni segir: „Áform verða að engu þar sem engin er ráðagerðin en ef margir leggja á ráðin rætast þau.“ – Orðskv. 15:22.
18 Jehóva notar líka vikulegar samkomur til að hjálpa þjónum sínum að takast á við áhyggjur sínar. Þar geturðu átt samskipti við trúsystkini þín sem er annt um þig og vilja hvetja hvert annað. (Hebr. 10:24, 25) Á samkomunum fáum við tækifæri til að „uppörvast saman“. Það styrkir okkur og gerir okkur kleift að takast á við allar áhyggjur okkar. – Rómv. 1:12.
AÐ RÆKTA SAMBANDIÐ VIÐ GUÐ ER BESTA HJÁLPIN
19. Hvers vegna geturðu treyst að sambandið við Jehóva styrki þig?
19 Safnaðaröldungur í Kanada áttaði sig á gildi þess að varpa áhyggjum sínum á Jehóva. Hann er kennari og námsráðgjafi, sem er mjög krefjandi starf, og auk þess á hann við kvíðaröskun að stríða. Hvað hefur hjálpað þessum bróður að takast á við aðstæður sínar? Hann segir sjálfur: „Ég hef komist að raun um að besta leiðin til að takast á við tilfinningalega erfiðleika er að styrkja sambandið við Jehóva. Stuðningur vina og trúsystkina er ómissandi á erfiðum tímabilum. Ég er opinn og hreinskilinn við eiginkonu mína og segi henni hvað mér liggur á hjarta. Hinir öldungarnir og farandhirðirinn hjálpuðu mér að sjá heildarmyndina. Ég leitaði líka læknisaðstoðar, skipulagði tíma minn betur og tók frá tíma til að slaka á og hreyfa mig. Smám saman náði ég betri tökum á lífinu. Ég reyni að hafa ekki áhyggjur af því sem ég get ekki stjórnað heldur læt málið í hendur Jehóva.“
20. (a) Hvernig getum við varpað áhyggjum okkar á Guð? (b) Um hvað er rætt í næstu grein?
20 Í þessari grein höfum við lært hversu mikilvægt það er að varpa áhyggjum sínum á Guð með því að biðja til hans og með því að lesa í orði hans og hugleiða efnið. Við lærðum líka hversu mikilvægt það er að rækta ávöxt andans, tala um líðan okkar við einhvern sem við treystum og sækja samkomur til að uppörvast með trúsystkinum. Í næstu grein er rætt hvernig Jehóva styrkir okkur með voninni um umbun. – Hebr. 11:6.