Kafli 65
Leynileg för til Jerúsalem
HAUSTIÐ 32 er gengið í garð og laufskálahátíðin í nánd. Jesús hefur aðallega starfað í Galíleu síðan um páskana 31 þegar Gyðingar reyndu að drepa hann. Líklega hefur hann aðeins farið til Jerúsalem til að sækja hinar þrjár árlegu hátíðir Gyðinga.
Bræður Jesú hvetja hann nú til að flytja sig þaðan og fara til Júdeu. Jerúsalem er helsta borg Júdeu og trúarmiðstöð landsins. Bræður hans hugsa sem svo: „Enginn starfar í leynum, ef hann vill verða alkunnur.“
Enda þótt þeir Jakob, Símon, Jósef og Júdas trúi ekki að eldri bróðir þeirra Jesús sé Messías, vilja þeir að hann sýni undraverðan mátt sinn öllum sem koma til hátíðarinnar. En Jesús gerir sér grein fyrir hættunni. „Heimurinn getur ekki hatað yður,“ segir hann. „Mig hatar hann, af því ég vitna um hann, að verk hans eru vond.“ Hann segir því bræðrum sínum: „Þér skuluð fara upp eftir á hátíðina. Ég fer ekki til þessarar hátíðar.“
Laufskálahátíðin stendur í sjö daga og lýkur á áttunda degi með vissum hátíðarathöfnum. Hátíðin er í lok landbúnaðarársins og er því þakkar- og gleðitími. Nokkrum dögum eftir að bræður Jesú leggja af stað ásamt flestum öðrum, heldur hann af stað með leynd ásamt lærisveinunum og gætir þess að ekki sjáist til þeirra. Þeir fara um Samaríu í stað þess að fara hina almennu leið meðfram Jórdan.
Þar eð Jesús og föruneyti hans þarf að fá gistingu í samversku þorpi lætur hann sendiboða fara á undan sér til að undirbúa það. En þorpsbúar vilja ekkert fyrir Jesú gera þegar þeir komast að raun um að hann er á leið til Jerúsalem. Jakob og Jóhannes spyrja gremjulega: „Herra, eigum vér að bjóða, að eldur falli af himni og tortími þeim?“ Jesús ávítar þá fyrir að stinga upp á slíku og þeir halda áfram í annað þorp.
Á leiðinni segir fræðimaður við Jesú: „Meistari, ég vil fylgja þér, hvert sem þú ferð.“
„Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla,“ svarar Jesús. Þannig bendir hann fræðimanninum á að því fylgi ýmsir erfiðleikar að vera fylgjandi sinn, og það virðist mega ætla að fræðimaðurinn sé líka of stoltur til að sætta sig við slíka lífshætti.
Jesús segir við annan mann: „Fylg þú mér!“
„Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn,“ svarar maðurinn.
„Lát hina dauðu jarða sína dauðu, en far þú og boða Guðs ríki,“ segir Jesús. Ljóst er að faðir mannsins var enn ekki dáinn því að varla hefði sonur hans þá verið þarna að hlýða á Jesú. Sonurinn er greinilega að biðja um frest til að bíða eftir að faðir hans deyi. Hann er ekki tilbúinn til að láta Guðsríki ganga fyrir í lífi sínu.
Annar maður segir við Jesú á veginum til Jerúsalem: „Ég vil fylgja þér, herra, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.“
Jesús svarar: „Enginn, sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki.“ Þeir sem vilja vera lærisveinar Jesú verða að einbeita sér að þjónustunni við Guðsríki. Líkt og plógfar verður hlykkjótt ef plógmaðurinn horfir ekki beint fram, eins getur sá sem horfir um öxl á þetta gamla heimskerfi hrasað og farið út af veginum til eilífs lífs. Jóhannes 7:2-10; Lúkas 9:51-62; Matteus 8:19-22.
▪ Hvað heita bræður Jesú og hvað finnst þeim um hann?
▪ Af hverju eru Samverjar ókurteisir og hvað vilja Jakob og Jóhannes gera?
▪ Hvaða þrjú samtöl á Jesús á leiðinni og hvernig undirstrikar hann þörfina á fórnfúsri þjónustu?