Lífshættir fólks á biblíutímanum – fiskimaðurinn
„Jesús gekk með fram Galíleuvatni og sá tvo bræður, Símon, sem kallaður var Pétur, og Andrés, bróður hans, vera að kasta neti í vatnið en þeir voru fiskimenn. Hann sagði við þá: ,Komið og fylgið mér og mun ég láta ykkur menn veiða.‘“ – MATTEUS 4:18, 19.
Í GUÐSPJÖLLUNUM er oft minnst á fiska, fiskveiði og fiskimenn. Jesús lét dæmisögur sínar reyndar oft snúast um fiskveiðar. Og það er ekkert skrýtið því að hann kenndi fólki tímunum saman við strendur Galíleuvatns. (Matteus 4:13; 13:1, 2; Markús 3:7, 8) Þetta fallega stöðuvatn er um 20 kílómetra langt og 11 kílómetra breitt. Líklega voru að minnsta kosti sjö postular Jesú fiskimenn, þeir Pétur, Andrés, Jakob, Jóhannes, Filippus, Tómas og Natanael. – Jóhannes 21:2, 3.
Hvernig var að vera fiskimaður á dögum Jesú? Væri ekki gaman að fræðast aðeins um þessa menn og atvinnu þeirra? Þá geturðu séð postulana í skýrara ljósi og fengið betri skilning á því sem Jesús gerði og líkingunum sem hann notaði í kennslu sinni. Skoðum fyrst hvernig það var að vera fiskimaður við Galíleuvatn.
„Þá gerði svo mikið veður á vatninu“
Galíleuvatn liggur í sigdal og er rúmlega 200 metra undir sjávarmáli. Ströndin er víða klettótt og til norðurs gnæfir tignarlegt Hermonfjallið við himininn. Um vetrartímann ýfir napur vindurinn oft upp sjóinn svo að krappar öldur myndast á yfirborðinu. Á sumrin liggur heitt loft eins og teppi yfir vatnsborðinu. Nánast fyrirvaralaust myndast hvassir vindar í fjallshlíðunum umhverfis vatnið og skella á sjómönnum á leið þeirra yfir vatnið. Jesús og lærisveinar hans lentu einmitt í þess háttar illviðri. – Matteus 8:23-27.
Fiskimenn sigldu trébátum sem voru rúmlega átta metrar á lengd og næstum tveir og hálfur metri á breidd. Í mörgum bátunum var mastur og lítið klefarými undir þilfarinu. (Markús 4:35-41) Þessir hægfara en sterkbyggðu bátar þoldu ágang vinda sem knúðu seglið í eina átt á sama tíma og þungi netsins togaði bátinn í hina áttina.
Mennirnir stýrðu bátunum með árum sem voru á sitt hvorri bátshliðinni. Í áhöfninni voru hugsanlega sex fiskimenn eða fleiri. (Markús 1:20) Auk þess voru líklega ýmis konar birgðir og búnaður í hverjum bát, eins og til dæmis segldúkur úr líni (1), reipi (2), árar (3), steinakkeri (4), hlý föt til skiptanna (5), vistir (Markús 8:14) (6), körfur (7), koddi (Markús 4:38) (8) og net (9). Um borð gætu líka hafa verið auka flotholt (10), sem og sökkur (11), verkfæri (12) og kyndlar (13).
„Fengu þeir þá mikinn fjölda fiska“
Nú á tímum, líkt og á fyrstu öld, eru aflamestu veiðisvæðin í Galíleuvatni við mynni lækja og áa sem renna í vatnið. Þar berast plöntur út í vatnið og laða fiskana að. Fiskimenn á dögum Jesú unnu oft á næturnar til að fá góðan afla og létu kyndla lýsa upp náttmyrkrið. Einu sinni voru nokkrir lærisveinar Jesú við veiðar næturlangt án þess að fá nokkuð. En daginn eftir sagði Jesús þeim að leggja netin út aftur og þá fengu þeir svo mikinn afla að við lá að bátarnir sykkju. – Lúkas 5:6, 7.
Stundum stefndu fiskimenn á dýpri mið og þá unnu tveir bátar saman. Áhöfnin strengdi þá netið milli bátanna og síðan var bátunum róið af öllu afli í sitt hvora áttina þar til breiddist úr netinu og það umlukti fiskinn. Þegar bátarnir mættust og hringnum var lokað var fiskurinn fastur í gildrunni. Fiskimennirnir toguðu því næst í reipin á hornum netsins og hífðu aflann um borð í bátinn. Netið gæti hafa verið meira en 30 metra langt og um það bil tveir og hálfur metri á dýpt, en það er nógu stórt til að veiða heila fiskitorfu. Efri brún netsins var haldið á floti með flotholtum og við neðri brúnina voru bundnar sökkur. Fiskimennirnir lögðu net sín og drógu þau síðan inn aftur og endurtóku þetta klukkustundum saman.
Í grunnvatni beittu fiskimennirnir annarri aðferð. Í bátnum var annar endi netsins dregin frá ströndinni út á opið haf og síðan var bátnum snúið við og siglt aftur í land þannig að netið fór í nokkurs konar hálfhring utan um fiskinn, sem komst hvergi. Mennirnir á ströndinni drógu svo netið á land, losuðu aflann á ströndina og flokkuðu fiskinn. Þeir settu góðu fiskana í ker. Sumir voru seldir ferskir á svæðinu. Flestir voru þó þurrkaðir og saltaðir eða súrsaðir, geymdir í leirkerum og fluttir til Jerúsalem eða annarra landa. Lagardýr sem höfðu hvorki hreistur né ugga, eins og til dæmis áll, voru álitin óhrein og þeim fleygt. (3. Mósebók 11:9-12) Jesús vísaði til þessarar veiðiaðferðar þegar hann líkti „himnaríki“ við net og hinum ólíku fisktegundum við gott og slæmt fólk. – Matteus 13:47-50.
Fiskimaður sem vann einn notaði kannski veiðarfæri með önglum úr bronsi til að ginna fiskinn. Hann gat líka hafa notað lítið kastnet. Til að kasta netinu óð hann út í vatnið, kom netinu fyrir á handleggnum og kastaði því síðan upp á við og frá sér. Netið opnaðist, lenti flatt ofan á vatninu og sökk til botns. Síðan dró fiskimaðurinn netið til sín með því að toga í reipið sem var í netinu miðju. Ef hann var lánsamur voru nokkrir fiskar fastir í netinu.
Það var dýrt að kaupa net og erfitt að halda þeim í góðu ásigkomulagi og þess vegna var farið varlega með þau. Heilmikill tími fór í að gera við þau, þvo og þurrka og sáu fiskimennirnir um það í lok hverrar veiðiferðar. (Lúkas 5:2) Jakob postuli og Jóhannes, bróðir hans, voru að gera við net sín um borð í báti þegar Jesús bauð þeim að fylgja sér. – Markús 1:19.
Fiskimennirnir á fyrstu öld veiddu meðal annars beitarfisk en nóg var til af honum. Þessi fiskur var oft á borðum Galíleumanna og Jesús borðaði líklega þennan bragðgóða fisk. Það gætu hafa verið þurrkaðir og saltaðir beitarfiskar sem hann notaði þegar hann fyrir kraftaverk mettaði þúsundir manna með tveim fiskum. (Matteus 14:16, 17; Lúkas 24:41-43) Þessi fisktegund syndir oft með seiðin í munninum. Þegar fiskurinn ber ekki seiðin í munninum nær hann kannski í steinvölu eða jafnvel smámynt sem glitrar á botninum. – Matteus 17:27.
Afkastamiklir fiskimenn á fyrstu öld þurftu að vera þolinmóðir, harðduglegir og fúsir til að þola erfiði ef þeir vildu ná góðum afla. Þeir sem þáðu boð Jesú um að fylgja honum og gera menn að lærisveinum þurftu líka á slíkum eiginleikum að halda ef þeir vildu „menn veiða“ með góðum árangri. – Matteus 28:19, 20.
[Mynd á bls. 19]
(Sjá ritinu)