Líkjum eftir réttlæti Jehóva og miskunn
„Fellið réttláta dóma og sýnið hver öðrum miskunnsemi og samúð.“ – SAK. 7:9.
1, 2. (a) Hvernig leit Jesús á lög Guðs? (b) Hvernig rangfærðu fræðimenn og farísear lögin?
JESÚS hafði yndi af Móselögunum. Og það er engin furða. Þessi lög komu frá þeim sem var langmikilvægastur í lífi Jesú – frá Jehóva, föður hans. Spáð var í Sálmi 40:9 að hann myndi hafa unun á lögum Guðs en þar segir: „Að gera vilja þinn, Guð minn, er mér yndi og lögmál þitt er innra með mér.“ Jesús staðfesti með orðum og verkum að lög Guðs væru fullkomin, gagnleg og myndu uppfyllast fyrir víst. – Matt. 5:17-19.
2 Það hlýtur því að hafa sært Jesú mikið að sjá fræðimenn og farísea rangfæra lög föður hans. Þeir hlýddu sumum minnstu smáatriðum laganna út í ystu æsar. Jesús viðurkenndi það og sagði: „Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni.“ Hvert var þá vandamálið? Hann bætti við: „En [þið] hirðið ekki um það sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti.“ (Matt. 23:23) Ólíkt þessum sjálfumglöðu faríseum skildi Jesús andann á bak við lögin, eiginleika Guðs sem birtust í hverju boði.
3. Hvað er rætt í þessari grein?
3 Við sem erum kristin erum ekki undir lagasáttmálanum. (Rómv. 7:6) Jehóva hefur þó varðveitt þessi lög í orði sínu, Biblíunni. Hann vill ekki að við týnum okkur í smáatriðum laganna heldur að við skiljum og förum eftir því „sem mikilvægast er“, þeim háleitu meginreglum sem eru undirstaða boðanna. Hvaða meginreglur gætum við fundið í þeirri ráðstöfun sem griðaborgirnar voru? Í greininni á undan var bent á hvað við getum lært af því sem flóttamaðurinn þurfti að gera. En af griðaborgunum lærum við líka ýmislegt um Jehóva og hvernig við getum endurspeglað eiginleika hans. Í þessari grein verður því rætt um þrjár spurningar: Hvernig sýna griðaborgirnar fram á miskunn Jehóva? Hvað kenna þær okkur um viðhorf hans til lífsins? Hvernig endurspeglar þessi ráðstöfun fullkomið réttlæti hans? Reynum líka að sjá hvernig við getum líkt eftir himneskum föður okkar á þessum sviðum. – Lestu Efesusbréfið 5:1.
,VELJIÐ NOKKRAR BORGIR‘ – MISKUNNSÖM RÁÐSTÖFUN
4, 5. (a) Hvernig og hvers vegna var séð til þess að auðvelt væri að komast til griðaborganna? (b) Hvað kennir það okkur um Jehóva?
4 Það var auðvelt að komast til griðaborganna sex. Jehóva sagði Ísraelsmönnum að velja borgir sem væru jafnt dreifðar um landið báðum megin Jórdanár. Hvers vegna? Til að allir flóttamenn gætu komist fljótt og greiðlega í skjól. (4. Mós. 35:11-14) Vegunum að griðaborgunum var haldið vel við. (5. Mós. 19:3) Samkvæmt erfðavenjum Gyðinga voru settar upp stikur til að vísa flóttamönnum veginn að borgunum. Vegna griðaborganna þurfti sá sem drap mann af gáleysi ekki að flýja til annars lands þar sem falsguðadýrkun gæti orðið honum að tálsnöru.
5 Hugsaðu þér, Jehóva – hann sem hafði skipað að morðingjar skyldu hljóta dauðarefsingu – gaf þeim sem drápu mann af gáleysi einstakt tækifæri til að njóta umhyggju og verndar. „Allt var gert eins einfalt og auðvelt og hugsast gat,“ skrifar biblíuskýrandi. „Svo miskunnsamir eru vegir Guðs.“ Jehóva er ekki harðbrjósta dómari sem glaður refsar þjónum sínum. Hann er öllu heldur „auðugur að miskunn“. – Ef. 2:4.
6. Hvernig var hugarfar farísea ólíkt miskunn Guðs?
6 Farísear voru hins vegar tregir til að sýna miskunn. Samkvæmt erfðavenjum voru þeir til dæmis ekki tilbúnir til að fyrirgefa sama brot oftar en þrisvar. Jesús varpaði ljósi á viðhorf þeirra til fólks sem braut af sér með því að segja dæmisögu um farísea sem bað: „Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður“ – tollheimtumaður sem bað auðmjúkur um miskunn Guðs. Hvers vegna voru farísear svona tregir til að sýna miskunn? Biblían svarar því og segir að þeir hafi ,fyrirlitið aðra‘. – Lúk. 18:9-14.
7, 8. (a) Hvernig geturðu líkt eftir Jehóva þegar einhver gerir á hlut þinn? (b) Hvers vegna reynir það á auðmýktina að fyrirgefa?
7 Líkjum eftir Jehóva en ekki faríseunum og sýnum meðaumkun. (Lestu Kólossubréfið 3:13.) Ein leið til þess er að gera öðrum auðvelt að biðja þig fyrirgefningar. (Lúk. 17:3, 4) Spyrðu þig: Eiga þeir sem hafa gert á hlut minn, jafnvel oftar en einu sinni, auðvelt með að fá fyrirgefningu mína? Er ég fús til að halda friðinn við þann sem hefur móðgað mig eða sært?
8 Það reynir á auðmýktina að fyrirgefa. Farísearnir voru ekki fúsir til að fyrirgefa þar sem þeir litu niður á aðra. Við sem eru kristin þurfum hins vegar að ,meta aðra meira en okkur sjálf‘ og verðuga þess að hljóta fyrirgefningu okkar. (Fil. 2:3) Ætlar þú að líkja eftir Jehóva og sýna slíka auðmýkt? Haltu „veginum“ að fyrirgefningu þinni opnum og greiðfærum. Vertu fljótur til að sýna miskunn en seinn til að móðgast. – Préd. 7:8, 9.
VIRTU LÍFIÐ SVO AÐ ,BLÓÐSEKT KOMI EKKI YFIR ÞIG‘
9. Hvernig kenndi Jehóva Ísraelsmönnum að mannslífið væri heilagt?
9 Ein mikilvægasta ástæðan fyrir griðaborgunum var að vernda Ísraelsmenn gegn blóðsekt. (5. Mós. 19:10) Jehóva elskar lífið og hatar „hendur sem úthella saklausu blóði“ af ásettu ráði. (Orðskv. 6:16, 17) En réttlátur og heilagur Guð gat ekki heldur litið fram hjá því ef maður var drepinn óviljandi. Þeim sem olli því var vissulega sýnd miskunn. Hann þurfti samt að leggja málið fyrir öldungana og ef þeir úrskurðuðu að um slys væri að ræða þurfti hann að halda sig í griðaborginni þar til æðstipresturinn dó. Hann gat sem sagt þurft að dvelja þar alla ævi. Þessar alvarlegu afleiðingar kenndu öllum Ísraelsmönnum að mannslífið væri heilagt. Til að heiðra þann sem gaf þeim lífið þurftu þeir að gera allt sem þeir gátu til að stofna ekki öðrum í lífshættu.
10. Hvernig sýndu fræðimenn og farísear að þeir vanvirtu lífið, eins og Jesús benti á?
10 Ólíkt Jehóva sýndu fræðimenn og farísear að þeir vanvirtu lífið. Hvernig? Jesús sagði við þá: „Þér hafið hrifsað til yðar lykil viskunnar. Sjálfir hafið þér ekki gengið inn og þeim hafið þér varnað sem inn vildu ganga.“ (Lúk. 11:52) Þeir áttu að útskýra orð Guðs fyrir öðrum og hjálpa þeim inn á veginn til eilífs lífs. En í staðinn beindu þeir fólki burt frá Jesú, „höfðingja lífsins“, og inn á braut sem gat endað með eilífri glötun. (Post. 3:15) Fræðimenn og farísear voru hrokafullir og eigingjarnir og þeim stóð á sama um líf annarra og hvernig færi fyrir þeim. Hvílík grimmd og miskunnarleysi!
11. (a) Hvernig sýndi Páll postuli að hann hafði sama viðhorf til lífsins og Guð? (b) Hvað hjálpar okkur að líta boðunina sömu augum og Páll?
11 Hvernig getum við líkt eftir Jehóva og forðast það hugarfar sem fræðimenn og farísear sýndu? Við ættum að virða þá gjöf sem lífið er og meta hana að verðleikum. Páll postuli gerði það með því að vera ötull við boðunina. Þar af leiðandi var hann hreinn af blóði allra og gat sagt: „Ekki er mig um að saka þótt einhver glatist.“ (Lestu Postulasöguna 20:26, 27.) Það var samt hvorki vegna sektarkenndar né af skyldukvöð sem Páll boðaði trúna. Hann elskaði fólk og líf þess var dýrmætt í augum hans. (1. Kor. 9:19-23) Við ættum líka að líta lífið sömu augum og Jehóva en hann vill að „allir komist til iðrunar“. (2. Pét. 3:9) Ert þú sama sinnis? Ef þú temur þér að vera miskunnsamur færðu aukinn eldmóð í boðuninni og það veitir þér gleði.
12. Hvers vegna er öryggi mikilvægt hjá þjónum Guðs?
12 Við sýnum líka að við höfum sama viðhorf og Jehóva til lífsins með því að hugsa rétt um öryggismál. Við þurfum að gæta öryggis við akstur og vinnu, þar með talið þegar við byggjum ríkissali, höldum þeim við eða ferðumst til þeirra. Látum afköst, fjárhag eða eindaga aldrei ganga fyrir öryggi og heilsu. Réttlátur Guð okkar gerir alltaf það sem er rétt og viðeigandi. Við viljum líkja eftir honum. Öldungar þurfa sérstaklega að hugsa bæði um eigið öryggi og öryggi þeirra sem vinna með þeim. (Orðskv. 22:3) Ef öldungur minnir þig á öryggisreglur skaltu því hlusta á hann. (Gal. 6:1) Líttu lífið sömu augum og Jehóva þannig að ,blóðsekt komi ekki yfir þig‘.
,DÆMIÐ EFTIR ÞESSUM REGLUM‘
13, 14. Hvernig gátu öldungar í Ísrael endurspeglað réttlæti Jehóva?
13 Jehóva skipaði svo fyrir að öldungar Ísraelsmanna skyldu fylgja háleitum réttlætismælikvarða hans. Þeir þurftu fyrst að sannreyna atburðarásina. Síðan þurftu þeir að meta vandlega hvatir manndráparans, hugarfar hans og fyrri hegðun til að skera úr um hvort sýna skyldi miskunn. Til að endurspegla réttlæti Guðs þurftu þeir að komast að því hvort verknaðurinn hafi verið framinn „af hatri“ og flóttamaðurinn hafi verið „með illt í huga“. (Lestu 4. Mósebók 35:20-24.) Ef vitnað var í málinu þurfti að minnsta kosti tvö vitni til að hægt væri að sakfella manninn fyrir morð. – 4. Mós. 35:30.
14 Þegar staðreyndirnar voru komnar á hreint þurftu öldungarnir sem sagt að hugsa um manneskjuna sjálfa en ekki bara verknaðinn. Þeir þurftu að sýna næman skilning, þann hæfileika að geta skyggnst undir yfirborðið og séð hvað býr að baki verknaði. En fyrst og fremst þurftu þeir heilagan anda Jehóva til að geta endurspeglað næman skilning hans, miskunn og réttlæti. – 2. Mós. 34:6, 7.
15. Hvernig var viðhorf Jesú til syndara ólíkt viðhorfi faríseanna?
15 Farísearnir einblíndu á það sem syndarinn hafði gert í stað þess að hugsa um hvaða mann hann hafði að geyma. Þegar farísear sáu að Jesús mætti í veislu heima hjá Matteusi spurðu þeir lærisveina hans: „Hvers vegna etur meistari ykkar með tollheimtumönnum og bersyndugum?“ Jesús svaraði: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru. Farið og nemið hvað þetta merkir: Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“ (Matt. 9:9-13) Var Jesús að afsaka alvarleg afbrot? Alls ekki. Aðalboðskapur hans fól reyndar í sér að fólk ætti að iðrast og taka sinnaskiptum. (Matt. 4:17) En Jesús var næmur og áttaði sig á að í það minnsta sumir þessara tollheimtumanna og syndara vildu snúa við blaðinu. Þeir komu ekki til Matteusar bara til að borða. Öllu heldur fylgdu margir þeirra Jesú. (Mark. 2:15) Því miður tóku fæstir faríseanna eftir því sem Jesús sá í fari þessa fólks. Ólíkt hinum réttláta og miskunnsama Guði, sem þeir sögðust tilbiðja, stimpluðu þeir fólkið syndara og ákváðu að það ætti sér enga von.
16. Hverju reynir dómnefnd að átta sig á?
16 Öldungar nú á tímum þurfa að líkja eftir Jehóva sem „hefur mætur á réttlæti“. (Sálm. 37:28) Fyrst þurfa þeir að ,rannsaka málið rækilega og spyrjast fyrir‘ til að komast að því hvort afbrot hafi verið framið. Ef svo er taka þeir á málinu í samræmi við leiðbeiningar Biblíunnar. (5. Mós. 13:13-15) Þegar um dómnefndarmál er að ræða þurfa þeir að meta vandlega hvort sá sem hefur drýgt alvarlega synd iðrast. Það er ekki alltaf augljóst hvort hann gerir það í raun. Það þarf að taka mið af viðhorfi hans, lunderni og því hvað býr í hjartanu. (Opinb. 3:3) Syndari verður að iðrast til að geta hlotið miskunn.a
17, 18. Hvernig geta öldungar áttað sig á hvort sá sem hefur syndgað iðrast einlæglega? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
17 Öldungar geta ekki lesið hjörtu fólks ólíkt Jehóva og Jesú. Ef þú ert öldungur, hvernig geturðu þá áttað þig á hvort sá sem hefur syndgað iðrast einlæglega? Fyrst skaltu biðja um visku og dómgreind. (1. Kon. 3:9) Leitaðu síðan leiðsagnar í orði Guðs og ritum frá hinum trúa þjóni til að hjálpa þér að greina á milli ,hryggðar að hætti heimsins‘ og ,þeirrar hryggðar sem er Guði að skapi‘, sannrar iðrunar. (2. Kor. 7:10, 11) Skoðaðu hvaða mynd Biblían dregur upp af þeim sem iðruðust og þeim sem gerðu það ekki. Hvernig lýsir hún tilfinningum þeirra, hugarfari og hegðun?
18 Að lokum skaltu reyna að sjá manneskjuna sjálfa, ekki bara verkin. Hugsaðu um bakgrunn hins brotlega, hvatir hans og erfiðleika. Biblían spáði um Jesú, höfuð safnaðarins: „Hann mun ekki dæma eftir því sem augu hans sjá og ekki skera úr málum eftir því sem eyru hans heyra. Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu og skera með réttlæti úr málum hinna fátæku í landinu.“ (Jes. 11:3, 4) Þið öldungar eruð undirhirðar Jesú og hann hjálpar ykkur að dæma eins og hann dæmir. (Matt. 18:18-20) Erum við ekki þakklát fyrir að hafa umhyggjusama öldunga sem leggja sig fram um það? Þeir hvetja okkur líka til að sýna miskunn og stuðla að réttlæti í söfnuðinum.
19. Hvað hefurðu lært af griðaborgunum sem þú ætlar að notfæra þér?
19 Móselögin endurspegluðu „þekkinguna og sannleikann“ um Jehóva og réttlátar meginreglur hans. (Rómv. 2:20) Til dæmis geta öldungar lært af griðaborgunum að ,fella réttláta dóma‘ og við getum öll lært að ,sýna hvert öðru miskunnsemi og samúð‘. (Sak. 7:9) Við erum ekki lengur undir Móselögunum. En Jehóva breytist ekki og réttlæti og miskunn eru enn þá mikilvægir eiginleikar í augum hans. Það er mikill heiður að fá að tilbiðja slíkan Guð. Við erum sköpuð í hans mynd, getum líkt eftir eiginleikum hans og leitað hælis hjá honum.
a Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum á ensku 15. september 2006, bls. 30.