Kafli 50
Undirbúningur undir ofsóknir
JESÚS hefur gefið postulum sínum fyrirmæli um prédikunaraðferðir en nú varar hann þá við andstæðingum: „Sjá, ég sendi yður eins og sauði meðal úlfa. . . . Varið yður á mönnunum. Þeir munu draga yður fyrir dómstóla og húðstrýkja yður í samkundum sínum. Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna.“
Fylgjendur Jesú eiga harðar ofsóknir í vændum en hann segir hughreystandi: „Þá er menn draga yður fyrir rétt, skuluð þér ekki hafa áhyggjur af því, hvernig eða hvað þér eigið að tala. Yður verður gefið á sömu stundu, hvað segja skal. Þér eruð ekki þeir sem tala, heldur andi föður yðar, hann talar í yður.“
Jesús heldur áfram: „Bróðir mun selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða.“ Hann bætir við: „Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“
Prédikunarstarfið er gífurlega mikilvægt. Þess vegna leggur Jesús áherslu á að lærisveinarnir sýni aðgát svo að þeir njóti frelsis til að prédika. „Þegar þeir ofsækja yður í einni borg, þá flýið í aðra,“ segir hann. „Sannlega segi ég yður: Þér munuð ekki hafa náð til allra borga Ísraels, áður en Mannssonurinn kemur.“
Að vísu voru það postularnir tólf sem Jesús kenndi, hvatti og varaði við, en hann beindi orðum sínum einnig til þeirra sem taka myndu þátt í boðunarstarfinu um heim allan eftir dauða hans og upprisu. Það má sjá af þeim orðum hans að lærisveinarnir yrðu „hataðir af öllum,“ ekki aðeins Ísraelsmönnum sem postularnir voru sendir til að prédika fyrir. Og ljóst er að postularnir voru ekki dregnir fyrir landshöfðingja og konunga þegar Jesús sendi þá í þessa stuttu boðunarferð. Auk þess voru trúaðir ekki framseldir til dauða af ættingjum sínum þá.
Þegar Jesús sagði að lærisveinarnir myndu ekki ljúka prédikun sinni ‚áður en Mannssonurinn kæmi‘ var hann að spá því að lærisveinar hans myndu ekki ná að prédika stofnsett ríki Jehóva Guðs um allan heim áður en hinn dýrlegi konungur, Jesús Kristur, kæmi til að fullnægja dómi hans í Harmagedón.
Jesús heldur áfram að leiðbeina um boðunarstarfið: „Ekki er lærisveinn meistaranum fremri né þjónn herra sínum.“ Fylgjendur Jesú mega því búast við jafnillri meðferð og ofsóknum og hann fékk fyrir að prédika Guðsríki. En hann áminnir þá: „Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti [Gehenna, tákn eilífrar tortímingar].“
Jesús gaf síðar fordæmi um þetta. Heldur vildi hann deyja óttalaus en víkja frá hollustu sinni við Jehóva Guð sem allt vald hefur. Já, það er Jehóva sem getur tortímt „sálu“ manns (sem merkir í þessu sambandi framtíðarhorfur mannsins sem lifandi sálar) eða reist mann upp frá dauðum til eilífs lífs. Jehóva, faðir okkar á himni, er svo sannarlega kærleiksríkur og miskunnsamur!
Því næst bregður Jesús upp líkingu til að hvetja lærisveinana, en hún lýsir vel kærleika Jehóva og umhyggju fyrir þeim. „Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening?“ spyr hann. „Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar. Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin. Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“
Boðskapur Guðsríkis, sem Jesús felur lærisveinunum að flytja, sundrar fjölskyldum því að sumir taka við honum en aðrir hafna. „Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð,“ segir hann. „Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð.“ Það krefst því hugrekkis að taka við sannleika Biblíunnar. „Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður,“ bætir hann við.
Jesús lýkur leiðbeiningum sínum með því að skýra fyrir lærisveinunum að þeir sem taki við þeim taki einnig við honum. „Hver sem gefur einum þessara smælingja svaladrykk vegna þess eins, að hann er lærisveinn, sannlega segi ég yður, hann mun alls ekki missa af launum sínum.“ Matteus 10:16-42.
▪ Hverju varar Jesús lærisveinana við?
▪ Hvernig hvetur hann þá og hughreystir?
▪ Hvers vegna eiga leiðbeiningar Jesú einnig við kristna menn nú á tímum?
▪ Hvað merkir það að lærisveinn Jesú sé ekki meistara sínum fremri?