‚Finnið endurnæring sálum ykkar‘
„Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, . . . og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ — MATTEUS 11:28-30.
1, 2. Hvert hefur verið ásigkomulag mannkynsins um aldaraðir og hvernig samræmist það upphaflegum tilgangi Guðs?
„VÉR vitum að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.“ Þannig skrifaði maður vinum sínum í Róm endur fyrir löngu. (Rómverjabréfið 8:22) Á þeim árum, sem liðið hafa síðan, hafa stunur og kvöl mannkynsins í heild einungis vaxið. Fordómar, fátækt, glæpir og hungur krefst margra fórnarlamba í öllum heimshornum. Hið rangláta efnahagskerfi veldur því að milljónir manna eru atvinnulausar og jafnvel heimilislausar. Áhrif Satans gera foreldrum erfitt fyrir við uppeldri barna sinna.
2 Mesti harmleikurinn er kannski sá þegar veikindi, sjúkdómar eða elli dregur þrótt úr mönnum og rænir þá reisn sinni þannig að þeir verða lítið annað en skugginn af sjálfum sér. Hinar skelfilegu kvalir og þjáningar, sem oft vara svo vikum, mánuðum eða jafnvel árum skiptir, nísta hjartað og láta tárin renna í stríðum straumum. Vitur konungur skrifaði endur fyrir löng um hið sorglega ástand mannsins: „Allir dagar hans eru kvöl, og starf hans er armæða.“ (Prédikarinn 2:23; 4:1) Lífið er sannarlega ekki núna eins og Guð hafði hugsað sér í upphafi. — 1. Mósebók 2:8, 9.
3. Hvað áskapaði Guð manninum og hvernig geta menn notfært sér það núna að vissu marki?
3 Jehóva Guð skapaði manninn fullkominn og gaf honum hæfileika til að njóta þess að vera til. (5. Mósebók 32:4, 5) Hugsaðu þér hve ánægjulegt það er að bragða góðan mat, anda að sér hreinu og fersku lofti eða horfa á fagurt sólsetur. „Ég virti fyrir mér þá þraut, sem Guð hefir fengið mönnunum að þreyta sig á,“ sagði þessi sami vitri konungur endur fyrir löngu. „Allt hefir hann gjört hagfellt á sínum tíma . . . Ég komst að raun um, að ekkert er betra með þeim en að vera glaður og gæða sér meðan ævin endist. En það, að maður etur og drekkur og nýtur fagnaðar af öllu striti sínu, einnig það er Guðs gjöf.“ — Prédikarinn 3:10-13.
4. (a) Í hvaða sorglegu ástandi eru margir eins og Jesús kynntist? (b) Hvaða hlýlegt boð gaf Jesús og hvaða spurningar vekur það?
4 Fáir eru samt færir um að njóta alls þess góða sem Guð skapaði handa okkur. Jesús Kristur gerði sér grein fyrir hinu ömurlega ástandi mannkynsins. „Menn komu til hans hópum saman,“ segir Biblían, „og höfðu með sér halta menn og blinda, fatlaða, mállausa og marga aðra og lögðu þá fyrir fætur hans.“ Jesús hafði sannarlega meðaumkun með þessu bágstadda fólki. (Matteus 9:36; 15:30) Einu sinni gaf hann þetta hlýlega boð: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ (Matteus 11:28, 29) Þetta eru orð sem vekja von! En hvaða „hvíld“ eða endurnæringu var Jesús að tala um? Hvernig getum við notið hennar?
Sannleikurinn sem endurnærir
5. Hvernig benti Jesús á leiðina til ósvikins frelsis og endurnæringar sálum okkar?
5 Er Jesús sótti laufskálahátíðina um sex mánuðum fyrir dauða sinn benti hann á hvernig menn gætu öðlast frelsi og nýjan kraft. Hann ávarpaði þá sem tekið höfðu trú á hann og sagði: „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ (Jóhannes 8:31, 32) Hvaða sannleika var Jesús að tala um? Frá hverju mun hann frelsa okkur? Í hvaða skilningi voru áheyrendur hans þrælar?
6. (a) Hvernig andmæltu trúarlegir mótstöðumenn Jesú og hvers vegna? (b) Á hvaða hátt erum við öll þrælar?
6 Trúarlegir andstæðingar gripu fram í fyrir honum: „Vér erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: ‚Þér munuð verða frjálsir‘?“ Þessir Gyðingar voru stoltir af þjóðararfi síum. Þótt þjóðin hefði oft orðið að lúta yfirráðum erlendra ríkja vildu Gyðingar ekki láta kalla sig þræla. En Jesús sýndi þeim fram á í hvaða skilningi þeir væru þrælar: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem syndina drýgir, er þræll syndarinnar.“ Allir áheyrendur Jesú voru syndarar líkt og við erum núna. Það stafar af því að við höfum erft syndina frá fyrstu foreldrum okkar. En Jesús lofaði: „Ef sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir.“ — Jóhannes 8:33-36; Rómverjabréfið 5:12.
7. Hvernig er hægt að öðlast ósvikið frelsi og hver er sannleikurinn sem gerir okkur frjáls?
7 Ósvikið frelsi veitist þannig aðeins fyrir milligöngu sonar Guðs, Jesú Krists, sem gaf fullkomið mannslíf sitt að lausnarfórn. Það er þessi fórn sem frelsar okkur undan hinni banvænu synd og gerir okkur kleift að öðlast eilíft líf, fullkomna heilsu og hamingju í nýjum, réttlátum heimi Guðs. (Jóhannes 3:16; 1. Jóhannesarbréf 4:10) Sannleikurinn, sem gerir okkur frjáls, er því sannleikurinn um Jesú Krist og hlutverk hans í að uppfylla tilgang Guðs. Guðsríki, með Krist sem konung, mun fullna vilja Guðs með jörðina og Jesús bar stöðugt vitni um þann sannleika. — Jóhannes 18:37.
Hvernig sannleikurinn endurnærir
8. Með hvernig dæmi má lýsa því hvernig sannleikurinn endurnærir okkur?
8 Því verður best lýst með dæmi hvernig sannleikurinn endurnærir. Segjum að kona hafi fengið að vita að hún sé með krabbamein sem breiðist ört út. Hún er niðurbeygð af tilhugsuninni um þær kvalir, sem sjúkdómurinn getur haft í för með sér, og þau endalok sem virðast óumflýjanleg. Síðar leitar hún til annars læknis og gengur í gegnum nýjar rannsóknir. Getur þú ímyndað þér hvílíkur léttir það er fyrir hana þegar í ljós kemur að annaðhvort var fyrri sjúkdómsgreiningin röng eða að hún hefur læknast með einhverjum undraverðum hætti? Sál hennar hefur öðlast nýjan kraft!
9. Hvernig frelsaði Jesús fólk með því að kenna því sannleikann?
9 Þegar Jesús kom til jarðar var fólki íþyngt með innantómum erfðavenjum samtíðarinnar. Jesús sagði um hina skriftlærðu og faríseana sem báru ábyrgðina á því: „Þeir binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar, en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri.“ (Matteus 23:4; Markús 7:2-5) Það var mikill léttir fyrir fólk þegar Jesús færði því sannleikann sem frelsaði það undan erfikenningum sem þrælbundu það. (Matteus 15:1-9) Eins er það nú á dögum.
10. Hvaða þungar byrðar hafa margir mátt bera og hvernig líður þeim þegar þeim er aflétt samfara því að kynnast sannleikanum?
10 Ef til vill hvíldu falstrúarkenningar þungt á þér og þú lifðir í stöðugum ótta við kvalir í helvíti eða hreinsunareldi eftir dauðann. Kannski misstir þú barn og heyrðir prestinn þinn segja að Guð hefði ‚tekið barnið þitt heim‘ af því að hann vantaði nýjan engil á himnum — rétt eins og Guð hefði meiri þörf fyrir barnið þitt heldur en þú. Stundum segja prestar sjúku fólki að sjúkdómurinn sé bölvun Guðs. Er það ekki hressandi að læra sannleika Biblíunnar sem frelsar fólk úr fjötrum þessara falstrúarkenninga sem hvíla á því eins og farg? Jú, það er stórkostlegur léttir! — Prédikarinn 9:5, 10; Esekíel 18:4; Jóhannes 9:2, 3.
11. (a) Hver er ein af þyngstu byrðunum og hvernig er hægt að aflétta henni? (b) Hvernig endurnærði Jesús syndara þegar hann var á jörðinni?
11 Einhver þyngsta byrðin að bera er oft sektarkennd vegna synda sem við höfum framið. Það er léttir að vita að lausnarfórn Krists getur afmáð þessar syndir. ‚Blóð Jesú hreinsar oss af allri synd,‘ fullvissar Biblían okkur um. (1. Jóhannesarbréf 1:7) Ef við höfum iðrast í einlægni og tekið stefnubreytingu getum við notið þeirrar blessunar að hafa hreina samvisku og vissu fyrir því að Guð minnist ekki lengur synda okkar, óháð því hve alvarlegar syndirnar voru. (Sálmur 103:8-14; 1. Korintubréf 6:9-11; Hebreabréfið 10:21, 22) Jesús veitti hvíld og endurnæringu þeim sem syndin hvíldi þungt á, svo sem skækjum og tollheimtumönnum líkt og Sakkeusi. Jesús hughreysti þetta fólk með sannleika Biblíunnar er hann mataðist með því. — Lúkas 5:27-32; 7:36-50; 19:1-10.
12. (a) Hvernig voru sumir á sig komnir þegar Jesús gaf þeim nýjan kraft? (b) Hvernig sýndi Jesús með sérstæðum hætti á fyrstu öldinni að hann er „vegurinn, sannleikurinn og lífið“?
12 Margir bera þungar byrðar vegna sjúkdóma og veikinda, alvarlegs þunglyndis eða þeirrar miklu sorgar sem fylgir ástvinamissi. En Jesús endurnærði alla slíka einstaklinga sem ‚erfiði höfðu og þungar byrðar.‘ (Matteus 4:24; 11:28, 29) Hann læknaði konu sem hafði árangurslaust leitað sér læknishjálpar í 18 ár. Hann læknaði einnig mann sem hafði verið sjúkur í 38 ár og annan sem hafði fæðst blindur. Getur þú ímyndað þér létti þessa fólks er Jesús læknaði það? (Lúkas 13:10-17; Jóhannes 5:5-9; 9:1-7) Allir sem komu til Jesú í trú fundu uppsprettu sannleikans, fengu hvíld og endurnæringu og líf. Jesús sýndi ekkjunni, sem endurheimti einkason sinn úr dauðanum, og foreldrunum, sem sáu dóttur sína vakna til lífs á ný, með sérstökum hætti að hann var „vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ — Jóhannes 14:6; 17:3; Lúkas 7:11-17; 8:49-56.
13. Hverjum eigum við að leita hjálpar hjá og hvað gerist þegar við fylgjum því ráði Jesú?
13 Stundum átt þú vafalaust við að glíma svo erfið vandamál að þér finnst þú ekki geta leyst þau upp á eigin spýtur. Jesús kenndi okkur að leita hjálpar hjá Jehóva líkt og hann sjálfur gerði. (Lúkas 22:41-44; Hebreabréfið 5:7) Er við snúum okkur reglulega til Guðs í bæn verður okkur eins innanbrjósts og sálmaritaranum sem skrifaði: „Lofaður sé [Jehóva], er ber oss dag eftir dag, Guð er hjálpráð vort.“ (Sálmur 55:23; 68:20) Já, það að þekkja sannleikann styrkir og endurnærir. Það dregur okkur nær Jehóva og hjálpar okkur að skilja að við getum með hans hjálp leyst farsællega erfiðustu vandamál lífsins.
Vonin um Guðsríki endurnærir
14. Hvað hélt Jesú uppi í þrengingum hans og hvað er lífsnauðsynlegt ef við eigum að finna sálum okkar endurnæringu?
14 Til að finna sálum okkar sanna endurnæringu verðum við að hafa sterka von. Það var von sem hélt Jesú uppi. Biblían segir: „Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú sest til hægri handar hásæti Guðs.“ (Hebreabréfið 12:2) Hin gleðilega von, sem hélt Jesú uppi, var sú að mega stuðla að því að helga nafn föður síns með því að varðveita ráðvendni, auk þess að sanna sig verðugan þess að verða konungur Guðsríkis. Við getum líka haldið út í þjónustunni við Guð ef við höfum von okkar skýrt í sjónmáli, annaðhvort von um að verða meðstjórnendur Krists á himnum eða þegnar hans á jörð sem verður paradís. Sú von er mjög þýðingarmikil til að endurnæra sálir okkar. — Rómverjabréfið 12:12.
15. Hverjar væru framtíðarhorfur okkar án vonarinnar um Guðsríki?
15 Við skulum íhuga hverjar framtíðarhorfur okkar væru ef við hefðum ekki vonina um Guðsríki. Meðalævi manna liggur á bilinu 70 til 80 ár. Og þessi ár líða ótrúlega hratt eins og sérhver, sem kominn er yfir miðjan aldur, getur staðfest. Biblían fer með rétt mál er hún segir um ævidaga okkar: „Þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.“ (Sálmur 90:10) Samt viljum við að okkur endist lífið. Við viljum ekki deyja. Það er svo margt til að gera og gleðjast yfir.
16. Hvað þurfum við að gera til að endurnæra sálir okkar?
16 Það er því mjög mikilvægt að við leitum í trú til „Krists Jesú, vonar vorrar.“ (1. Tímóteusarbréf 1:1) Eins og hann sagði: „Sá er vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 6:40, 51) Trúum við því? Við verðum að gera það ef við viljum finna sálum okkar endurnæringu. Við getum ekki án þess verið. Við verðum að íklæðast „von hjálpræðis sem hjálmi.“ (1. Þessaloníkubréf 5:8; samanber Hebreabréfið 6:19.) Þessi von verður að vernda huga okkar og hugsun. Að öðrum kosti myndu byrðar og vandamál íþyngja okkur svo að við gæfumst upp og misstum vonina um hið eilífa líf. Ef þú vilt finna sál þinni endurnæringu skaltu gæta þess að halda voninni um Guðsríki sterkri.
Láttu það að gera vilja Guðs endurnæra þig
17. (a) Hvers er krafist til að öðlast endurnæringu og hvers vegna er það ekki til of mikils mælst? (b) Hvað felst í því að ganga undir ok Krists?
17 En það eitt að koma til Jesú er ekki nóg til að öðlast nýjan kraft. Hann bætti við: „Takið á yður mitt ok [eða „gangið undir ok mitt með mér“] og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matteus 11:29, 30, New World Translation Reference Bible, neðanmáls) Það að taka á sig ok merkir að taka á sig vinnu eða starf. En taktu eftir því að Jesús biður okkur ekki að taka okið og vinna allt verkið einir. Við eigum að ganga undir okið með honum. Það að taka á sig ok Jesú felur í þessu tilfelli í sér að vígjast Guði, gefa tákn um það með skírn og taka síðan á sig þá ábyrgð að vera lærisveinn Krists. En hvernig getur það ok að vera lærisveinn haft endurnæringu í för með sér?
18. (a) Hvers vegna er það hressandi að ganga undir ok Krists? (b) Hvernig veitir prédikunarstarfið okkur gleði og nýjan kraft?
18 Ok Krists endurnærir vegna þess að hann er hógvær og af hjarta lítillátur. Þar eð hann er ekki ósanngjarn er það hressandi að vinna með honum undir sama oki. Hann tekur tillit til takmarka okkar og veikleika. Eins og hann sagði: „Mitt ok er ljúft.“ Það ok að vera lærisveinn felur að vísu í sér vinnu, hið sama prédikunar- og kennslustarf sem Jesús vann og þjálfaði fyrstu fylgjendur sína í. (Matteus 28:19, 20; Postulasagan 1:8) En það er hressandi starf að segja öðrum frá ástríkum Guði okkar, syni hans og Guðsríki. Það er hressandi að segja fólki hvernig það geti hlotið eilíft líf í paradís. Og gleði okkar er mikil þegar fólk bregst jákvætt við boðskapnum um Guðsríki og byrjar að þjóna Jehóva Guði okkur við hlið! — 1. Tímóteusarbréf 4:16.
19. Hvers vegna eru heilræði tengdaföður Móse eftirtektarverð fyrir safnaðaröldunga?
19 Á síðustu árum hafa milljónir manna streymt inn í skipulag Jehóva. Þeir þarfnast hjálpar til að taka á sig ok Krists og það eykur vinnuálagið á boðberum Guðsríkis og hirðum hjarðarinnar. Þessir andlegu hirðar skulu gefa gaum þeim ráðum sem spámaðurinn Móse fékk frá tengdaföður sínum. Hann sagði: „Eigi er það gott, sem þú gjörir. Bæði þreytist þú og eins fólkið, sem hjá þér er, því að þetta starf er þér um megn, þú fær því ekki afkastað einn saman.“ Hann ráðlagði því Móse að velja aðra hæfa menn til að taka að sér hluta hjarðgæslunnar. Það reyndist farsælt að fylgja þessu ráði. (2. Mósebók 18:17-27) Nú á dögum mun markviss þjálfun verða til þess að margir hæfir karlmenn, ‚gjafir í mynd manna,‘ geta tekið þátt í að gæta hjarðarinnar þannig að safnaðaröldungarnir slíti sér ekki út. — Efesusbréfið 4:8, 16.
20. Hvers krefjast Jesús Kristur og faðir hans af okkur?
20 Enda þótt Jesús hafi hvatt fylgjendur sína til að leggja sig kappsamlega fram krefst hvorki hann né faðir hans að við gerum meira en sanngjarnt má telja. Einu sinni var María, systir Lasarusar, gagnrýnd fyrir það sem hún gerði fyrir Jesú, en hann ávítaði þá sem það gerðu og sagði: „Látið hana í friði. . . . Hún gerði það sem hún gat.“ (Markús 14:6-8, NW; Lúkas 13:24) Og það er allt og sumt sem krafist er af okkur — að við gerum það sem við getum. Slík kristin þjónusta er engin byrði heldur hressandi endurnæring. Hvers vegna? Vegna þess að hún veitir sanna gleði núna og örugga von um eilífa blessun í framtíðinni.
21. (a) Hver er hin létta byrði Krists og hvað gerir prédikunarstarfið oft erfitt? (b) Hver ætti að vera ásetningur okkar og hvað megum við vera viss um?
21 Satan mun að vísu sjá til þess að við verðum ofsótt líkt og Jesús var ofsóttur, hann sem við göngum undir oki með. (Jóhannes 15:20; 2. Tímóteusarbréf 3:12) En munum að það er ekki hin létta byrði Krists sem íþyngir okkur. Það er andstaða Satans og útsendara hans sem gerir starf okkar oft erfitt. Ok Krists felst einfaldlega í því að lifa í samræmi við kröfur Guðs og þær eru ekki þjakandi. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Megum við því halda áfram að ganga undir oki Jesú Krists með honum og leggja okkur kappsamlega fram við að prédika og kenna eins og hann gerði. Ef við gerum það munum við ‚finna hvíld sálum okkar‘ eins og hann lofaði.
Veistu svarið?
◻ Hvernig hefur verið ástatt með mannkynið samkvæmt Rómverjabréfinu 8:22?
◻ Á hvaða vegu endurnærir þekking á sannleikanum okkur?
◻ Hvers vegna er vonin um Guðsríki svona hressandi?
◻ Hvert er ok Jesú og hvers vegna er það ljúft?
◻ Hvaða byrði mun veita okkur nýjan kraft?