Verið hugrakkir!
„Vér [getum] öruggir sagt: [Jehóva] er minn hjálpari.“ — HEBREABRÉFIÐ 13:6.
1. Hvaða djörfung sýndu þeir sem lærðu sannleika Guðs á fyrstu öldinni?
ÞAÐ var á fyrstu öld okkar tímatals. Hinn langþráði Messías var kominn. Hann hafði kennt lærisveinum sínum vel og komið af stað lífsnauðsynlegu prédikunarstarfi. Nú var kominn tími til að fólk heyrði fagnaðarerindið um ríki Guðs. Þess vegna boðuðu karlar og konur, sem höfðu lært sannleikann, þennan dásamlega boðskap djarflega. — Matteus 28:19, 20.
2. Hvers vegna þurfa vottar Jehóva að vera hugrakkir nú á tímum?
2 Guðsríki var ekki stofnsett á þeim tíma. En tilvonandi konungur þess, Jesús Kristur, hafði spáð um ósýnilega nærveru sína í framtíðinni þegar Guðsríki hefði tekið völd. Sá tími myndi einkennast meðal annars af dæmalausum hernaði, hallærum, drepsóttum, jarðskjálftum og prédikun fagnaðarerindisins um heim allan. (Matteus 24:3-14; Lúkas 21:10, 11) Sem vottar Jehóva þurfum við hugrekki til að takast á við þetta ástand og ofsóknirnar sem við verðum fyrir. Það er þess vegna gagnlegt að íhuga frásagnir Biblíunnar af hugrökkum boðberum Guðsríkis á fyrstu öldinni.
Hugrekki til að líkja eftir Kristi
3. Hver er besta fordæmið um hugrekki og hvað var sagt um hann í Hebreabréfinu 12:1-3?
3 Jesús Kristur er besta fordæmið um hugrekki. Eftir að hafa minnst á ‚mikinn fjölda‘ votta Jehóva fyrir daga kristninnar beinir Páll athyglinni að Jesú og segir: „Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan. Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs. Virðið hann fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast.“ — Hebreabréfið 12:1-3.
4. Hvernig sýndi Jesús hugrekki þegar Satan freistaði hans?
4 Eftir að Jesús var skírður og hafði fastað, hugleitt og beðist fyrir í eyðimörkinni í 40 daga stóð hann hugrakkur gegn Satan. Djöfullinn reyndi að freista Jesú til að breyta steinum í brauð en hann neitaði af því að það var rangt að vinna kraftaverk til að fullnægja persónulegum löngunum. „Ritað er,“ sagði Jesús, „eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.“ Þegar Satan manaði Jesú til að stökkva fram af brún musterisins neitaði hann af því að það hefði verið synd að freista Guðs til að bjarga honum frá hugsanlegu sjálfsmorði. „Aftur er ritað,“ sagði Kristur, „ekki skalt þú freista [Jehóva], Guðs þíns.“ Satan bauð honum þá öll ríki heims í skiptum fyrir eina tilbeiðsluathöfn en Jesús vildi ekki gerast fráhvarfsmaður og styðja þá ögrun djöfulsins að menn séu ekki trúfastir Guði þegar á reynir. Jesús lýsti því yfir: „Vík brott, Satan! Ritað er: ‚[Jehóva], Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.‘“ Þá ‚vék freistarinn frá honum að sinni.‘ — Matteus 4:1-11; Lúkas 4:13.
5. Hvað getur hjálpað okkur að standast freistingu?
5 Jesús var undirgefinn Jehóva og stóð gegn Satan. Ef við ‚gefum okkur líka Guði á vald og stöndum gegn djöflinum, þá mun hann flýja okkur.‘ (Jakobsbréfið 4:7) Líkt og Jesús getum við staðist freistingar með hugrekki ef við heimfærum Ritninguna og vitnum jafnvel í hana þegar okkar er freistað til að gera eitthvað syndsamlegt. Er líklegt að við látum undan freistingunni að stela ef við endurtökum fyrir sjálfum okkur lagaboð Guðs: „Þú skalt ekki stela,“ meðan á freistingunni stendur? Er líklegt að tveir kristnir einstaklingar gerist sekir um kynferðislegt siðleysi ef jafnvel annar þeirra vitnar hugrakkur í orðin: „Þú skalt ekki drýgja hór“? — Rómverjabréfið 13:8-10; 2. Mósebók 20:14, 15.
6. Hvernig var Jesús hugrakkur sigurvegari heimsins?
6 Við kristnir menn, sem heimurinn hatar, getum forðast anda hans og synduga breytni. Jesús sagði fylgjendum sínum: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ (Jóhannes 16:33) Hann sigraði heiminn með því að verða ekki eins og hann. Fordæmi hans sem sigurvegara og árangurinn af ráðvandri lífsstefnu hans getur fyllt okkur hugrekki til að líkja eftir honum með því að halda okkur aðgreindum frá þessum heimi og óflekkuðum af honum. — Jóhannes 17:16.
Hugrekki til að halda áfram að prédika
7, 8. Hvað hjálpar okkur að halda áfram að prédika þrátt fyrir ofsóknir?
7 Jesús og lærisveinar hans reiddu sig á Guð til að gefa þeim hugrekki til að halda áfram að prédika þrátt fyrir ofsóknir. Kristur innti þjónustu sína djarfmannlega af hendi þrátt fyrir ofsóknir og eftir hvítasunnuna árið 33 héldu ofsóttir fylgjendur hans áfram að prédika fagnaðarerindið jafnvel þótt trúarleiðtogar Gyðinga reyndu að stöðva þá. (Postulasagan 4:18-20; 5:29) Lærisveinarnir báðu: „[Jehóva], lít á hótanir þeirra og veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt.“ Og hvað gerðist? „Þegar þeir höfðu beðist fyrir, hrærðist staðurinn, þar sem þeir voru saman komnir,“ segir frásagan, „og þeir fylltust allir heilögum anda og töluðu orð Guðs af djörfung.“ — Postulasagan 4:24-31.
8 Þar eð þorri manna nú á tímum er ekki móttækilegur fyrir fagnaðarerindinu er djörfung oft nauðsynleg til að halda áfram að prédika fyrir þeim. Einkum þarfnast þjónar Jehóva hugrekkis frá Guði til að bera rækilega vitni þegar þeir eru ofsóttir. (Postulasagan 2:40; 20:24) Hinn hugrakki boðberi Guðsríkis, Páll, sagði því samverkamanni sem var yngri og óreyndari en hann: „Ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar. Fyrirverð þig því ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin vorn, né fyrir mig, bandingja hans, heldur skalt þú með mér illt þola vegna fagnaðarerindisins, svo sem Guð gefur máttinn til.“ (2. Tímóteusarbréf 1:7, 8) Ef við biðjum Guð um hugrekki getum við haldið áfram að prédika og jafnvel ofsóknir ræna okkur ekki gleðinni sem boðberar Guðsríkis. — Matteus 5:10-12.
Hugrekki til að taka afstöðu með Jehóva
9, 10. (a) Hvað gerðu Gyðingar og heiðingjar á fyrstu öld til að verða skírðir fylgjendur Krists? (b) Hvers vegna kostaði það hugrekki að gerast kristinn?
9 Margir Gyðingar og heiðingjar á fyrstu öld sögðu hugrakkir skilið við óbiblíulegar erfðavenjur til að verða skírðir fylgjendur Krists. Skömmu eftir hvítasunnuna árið 33 fór „tala lærisveinanna í Jerúsalem . . . stórum vaxandi, einnig snerist mikill fjöldi presta til hlýðni við trúna.“ (Postulasagan 6:7) Þessir Gyðingar höfðu hugrekki til að slíta af sér trúarleg bönd og viðurkenna Jesú sem Messías.
10 Frá árinu 36 tóku margir heiðingjar trú. Þegar Kornelíus, ættingjar hans og aðrir heiðingjar heyrðu fagnaðarerindið tóku þeir tafarlaust við því, fengu heilagan anda og voru „skírðir . . . í nafni Jesú Krists.“ (Postulasagan 10:1-48) Í Filippí tók heiðinn fangavörður og heimili hans fljótt kristna trú og „var hann þegar skírður og allt hans fólk.“ (Postulasagan 16:25-34) Það kostaði hugrekki að stíga slík skref því að kristnir menn voru ofsóttur, óvinsæll minnihluti. Það eru þeir enn þá. En ef þú hefur ekki vígst Guði og látið skírast sem einn af vottum Jehóva, er þá ekki kominn tími til að þú stígir hugrakkur þessi skref?
Hugrekki á trúarlega skiptu heimili
11. Hvaða gott fordæmi um hugrekki gáfu Evníke og Tímóteus?
11 Evníke og sonur hennar, Tímóteus, gáfu gott fordæmi um hugrakka trú á trúarlega skiptu heimili. Þótt eiginmaður Evníke væri heiðinn kenndi hún syni sínum „heilagar ritningar“ frá blautu barnsbeini. (2. Tímóteusarbréf 3:14-17) Þegar hún gerðist kristin sýndi hún ‚hræsnislausa trú.‘ (2. Tímóteusarbréf 1:5) Hún hafði líka hugrekki til að veita Tímóteusi kristna uppfræðslu jafnhliða því að virða yfirvald eiginmanns síns sem var ekki í trúnni. Svo sannarlega var henni umbunuð trúin og hugrekkið þegar vel fræddur sonur hennar var valinn til að fara með Páli í trúboðsferðir. Þetta fordæmi getur verið mikil hvatning kristnum foreldrum sem búa við áþekkar aðstæður!
12. Hvers konar maður varð Tímóteus og hverjir líkjast honum nú á tímum?
12 Þótt Tímóteus byggi á trúarlega skiptu heimili tók hann hugrakkur við kristninni og varð andlegur maður sem Páll gat sagt um: „Ég hef þá von til Drottins Jesú, að ég muni bráðum geta sent Tímóteus til yðar [Filippímanna], til þess að mér verði einnig hughægra, þá er ég fæ að vita um hagi yðar. Ég hef engan honum líkan, sem lætur sér eins einlæglega annt um hagi yðar. . . . Þér vitið, hvernig hann hefur reynst, að hann hefur þjónað að boðun fagnaðarerindisins með mér eins og barn með föður sínum.“ (Filippíbréfið 2:19-22) Margir piltar og stúlkur á trúarlega skiptum heimilum nú á tímum taka hugrökk sannkristna trú. Líkt og Tímóteus eru þau að sanna sig og það gleður okkur mikið að þau skuli vera hluti af skipulagi Jehóva.
Hugrekki til að ‚hætta lífinu‘
13. Á hvaða hátt sýndu Akvílas og Priskilla hugrekki?
13 Akvílas og Priskilla (Priska), kona hans, gáfu gott fordæmi með því að ‚hætta lífinu‘ með hugrekki fyrir trúbróður. Þau tóku Pál inn á heimili sitt, unnu með honum að tjaldgerð og hjálpuðu honum að byggja upp nýja söfnuðinn í Korintu. (Postulasagan 18:1-4) Á 15 ára vináttu sinni hættu þau jafnvel lífi sínu fyrir hann á einhvern hátt sem ekki er nánar getið. Þau bjuggu í Róm þegar hann sagði kristnum mönnum þar: „Heilsið Prisku og Akvílasi, samverkamönnum mínum í Kristi Jesú. Þau hafa stofnað lífi sínu í hættu fyrir mig, og fyrir það votta ég þeim ekki einn þakkir, heldur og allir söfnuðir meðal heiðingjanna.“ — Rómverjabréfið 16:3, 4.
14. Hvaða boðorði voru Akvílas og Priska að fara eftir þegar þau hættu lífinu fyrir Pál?
14 Með því að stofna lífi sínu í hættu fyrir Pál voru Akvílas og Priska að fara eftir orðum Jesú: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.“ (Jóhannes 13:34) Þetta boðorð var „nýtt“ á þann hátt að það gekk lengra en Móselögin sem kröfðust þess að maður elskaði náunga sinn eins og sjálfan sig. (3. Mósebók 19:18) Nýja boðorðið krafðist fórnfúss kærleika sem gekk svo langt að menn áttu að vera fúsir til að gefa líf sitt fyrir aðra eins og Jesús gerði. Rithöfundurinn Tertúllíanus á annarri og þriðju öld okkar tímatals vitnaði í orð veraldlegs fólks um kristna menn er hann skrifaði: „‚Sjáið,‘ segir það, ‚hversu þeir elska hver annan . . . og hvernig þeir eru jafnvel fúsir til að deyja hver fyrir annan.‘“ (Apologeticus, 39. kafli, 7) Sérstaklega er okkur skylt að sýna bróðurkærleika í ofsóknum með því að hætta hugrakkir lífinu til að stofna trúbræðrum okkar ekki í þá hættu að verða fyrir misþyrmingum eða dauða af óvinahendi. — 1. Jóhannesarbréf 3:16.
Hugrekki er gleðigjafi
15, 16. Hvernig má tengja hugrekki og gleði eins og fram kemur í Postulasögunni 16. kafla?
15 Páll og Sílas sýndu að hugrekki í prófraunum getur verið gleðigjafi. Að skipun borgaralegra yfirvalda í Filippí voru þeir opinberlega barðir með lurkum, settir í fangelsi og stokkur felldur á þá. En þeir voru ekki hnípnir og hræddir. Þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður höfðu þeir enn hugrekki sem Guð gefur og þá gleði sem það veitir trúföstum kristnum mönnum.
16 Um miðbik nætur voru Páll og Sílas að biðja saman og lofa Guð í söng. Skyndilega skók jarðskjálfti fangelsið, þannig að fjötrar þeirra losnuðu og dyrnar hrukku upp. Þeir báru djarflega vitni fyrir hinum skelfda fangaverði og fjölskyldu hans sem leiddi til þess að þau létu skírast sem þjónar Jehóva. Sjálfur var fangavörðurinn og „allt heimafólk hans fagnandi yfir því að hafa tekið trú á Guð.“ (Postulasagan 16:16-34) Hvílíka gleði hlýtur þetta ekki að hafa veitt Páli og Sílasi! Hvernig getum við verið hugrakkir áfram sem þjónar Jehóva eftir að hafa íhugað þetta fordæmi og fleiri úr Ritningunni um hugrekki?
Haldið áfram að vera hugrakkir
17. Hvernig er það að vona á Jehóva tengt hugrekki eins og fram kemur í Sálmi 27?
17 Að vona á Jehóva hjálpar okkur að varðveita hugrekki okkar. Davíð söng: „Vona á [Jehóva], ver öruggur og hugrakkur, já, vona á [Jehóva].“ (Sálmur 27:14) Sálmur 27 sýnir að Davíð treysti á Jehóva sem „vígi“ lífs síns. (Vers 1) Hann hafði séð hvernig Guð fór með óvini hans í fortíðinni og það veitti honum hugrekki. (Vers 2, 3) Annað atriði var að hann kunni að meta tilbeiðslumiðstöð Jehóva. (Vers 4) Davíð treysti á hjálp Jehóva, vernd og frelsun og það byggði líka upp hugrekki hans. (Vers 5-10) Áframhaldandi fræðsla um réttlátar lífsreglur Jehóva var einnig gagnleg. (Vers 11) Í trúartrausti bað Davíð til Guðs um frelsun frá óvinum sínum og það, samfara trú og von, hjálpaði honum að vera hugrakkur. (Vers 12-14) Við getum byggt upp hugrekki okkar á svipaðan hátt og sýnt þannig að við ‚vonum á Jehóva‘ í alvöru.
18. (a) Hvað sýnir að reglulegt samfélag við trúbræður okkar getur hjálpað okkur að varðveita hugrekki? (b) Hvaða hlutverki gegna kristnar samkomur í því að byggja upp hugrekki okkar?
18 Reglulegt samfélag við trúbræður okkar getur hjálpað okkur að varðveita hugrekki okkar. Þegar Páll skaut máli sínu til keisarans og var á leið til Rómar komu trúbræður hans til móts við hann á Appíusartorgi og í Þríbúðum. „Þegar Páll sá þá,“ segir frásagan, „gjörði hann Guði þakkir og hresstist í huga.“ (Postulasagan 28:15) Þegar við sækjum kristnar samkomur reglulega erum við að hlýða heilræði Páls: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“ (Hebreabréfið 10:24, 25) Hvað merkir það að uppörva hver annan? Að uppörva merkir að „brýna huga (e-s), telja kjark í, hvetja, örva.“ (Ensk-íslensk orðabók Arnar og Örlygs) Við getum gert margt til að telja kjark í aðra kristna menn og hvatning þeirra getur líka byggt upp þennan eiginleika með okkur.
19. Hvernig tengist Ritningin og kristin rit því að við varðveitum hugrekki okkar?
19 Til að varðveita hugrekki okkar verðum við að nema orð Guðs reglulega og heimfæra leiðbeiningar þess á líf okkar. (5. Mósebók 31:9-12; Jósúabók 1:8) Í reglulegu námi okkar ættum við að nota kristin rit byggð á Biblíunni, því að hin skynsamlegu ráð, sem við fáum þannig, hjálpa okkur að mæta trúarprófraunum með hugrekki sem Guð gefur. Af frásögum Biblíunnar höfum við séð hvernig þjónar Jehóva hafa verið hugrakkir við ýmsar aðstæður. Við vitum kannski ekki þessa stundina hvernig slíkar upplýsingar geta hjálpað okkur, en orð Guðs býr yfir krafti og það sem við lærum af því getur alltaf verið okkur til gagns. (Hebreabréfið 4:12) Ef til dæmis ótti við menn fer að hafa áhrif á þjónustu okkar getum við minnst þess hvernig Enok hafði hugrekki til að flytja boðskap Guðs til hinna óguðlegu. — Júdasarbréfið 14, 15.
20. Hvers vegna er hægt að segja að bænin sé lífsnauðsynleg ef við ætlum að varðveita hugrekki okkar sem þjónar Jehóva?
20 Til að varðveita hugrekki sem þjónar Jehóva verðum við að vera staðfastir í bæninni. (Rómverjabréfið 12:12) Jesús hélt hugrakkur út prófraunir vegna þess að hann „bar . . . fram með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða, og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar.“ (Hebreabréfið 5:7) Með því að halda okkur nærri Guði í bæn erum við ekki eins og veraldlegir hugleysingjar sem eiga fyrir sér að deyja ‚hinum öðrum dauða‘ sem engin upprisa er frá. (Opinberunarbókin 21:8) Vernd Guðs og líf í nýjum heimi hans er ætlað hugrökkum þjónum hans.
21. Hvers vegna geta trygglyndir vottar Jehóva verið hugrakkir?
21 Sem trygglyndir vottar Jehóva þurfum við ekki að óttast óvini okkar, hvort heldur það eru illir andar eða menn, því að við höfum stuðning Guðs og hugrakkt fordæmi Jesú sem sigraði heiminn. Andlega uppbyggjandi samfélag við fólk Jehóva er okkur einnig hjálp til að vera hugrakkir. Það byggir líka upp hugrekki okkar að fá leiðbeiningar og heilræði Ritningarinnar og kristinna rita. Og frásagnir Biblíunnar af þjónum Guðs í fortíðinni hjálpa okkur að ganga hugrakkir á vegum hans. Við skulum því núna á þessum erfiðu, síðustu dögum sækja djarfmannlega fram í heilagri þjónustu. Já, megi allir þjónar Jehóva vera hugrakkir!
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig getur fordæmi Jesú fyllt okkur hugrekki?
◻ Hvað gaf Jesú og lærisveinum hans hugrekki til að halda áfram að prédika?
◻ Hvers vegna þurftu Gyðingar og heiðingjar hugrekki til að taka afstöðu með Jehóva?
◻ Hvernig fordæmi um hugrekki voru Evníke og Tímóteus?
◻ Hvað sýnir að hugrekki er gleðigjafi jafnvel í ofsóknum?
[Mynd á blaðsíðu 31]
Líkt og Jesús getum við staðist freistingar ef við heimfærum og vitnum í Ritninguna.