Trúir þú fagnaðarerindinu í alvöru?
„Guðs ríki [er] í nánd. Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu.“ — MARKÚS 1:15.
1, 2. Skýrðu Markús 1:14, 15.
ÞAÐ var árið 30 sem Jesús Kristur hóf hið mikla boðunarátak sitt í Galíleu. Hann boðaði „fagnaðarerindi Guðs“ og margir Galíleumenn hrifust af orðum hans: „Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd. Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu.“ — Markús 1:14, 15.
2 Tíminn var kominn fyrir Jesú að hefja þjónustu sína og fólk þurfti nú að taka rétta afstöðu til að hljóta velþóknun Guðs. (Lúkas 12:54-56) ‚Guðs ríki var í nánd‘ vegna þess að Jesús, hinn útnefndi konungur, var á staðnum. Boðun hans hreyfði við hjartahreinu fólki svo að það iðraðist. En hvernig gat þetta fólk sýnt að það ‚trúði fagnaðarerindinu‘ og hvernig getum við gert það?
3. Hvernig hefur fólk sýnt að það trúi fagnaðarerindinu?
3 Pétur postuli hvatti fólk til að iðrast, líkt og Jesús hafði hvatt til. Hann sagði Gyðingum í Jerúsalem á hvítasunnu árið 33: „Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar; þá munuð þér öðlast að gjöf heilagan anda.“ Þúsundir manna iðruðust, létu skírast og gerðust fylgjendur Jesú. (Postulasagan 2:38, 41; 4:4) Árið 36 tók iðrandi fólk af þjóðunum sömu afstöðu. (Postulasagan 10:1-48) Nú á tímum iðrast þúsundir manna synda sinna, vígjast Guði og láta skírast vegna trúar á fagnaðarerindið. Þeir hafa tekið við fagnaðarerindi hjálpræðisins og iðka trú á lausnarfórn Jesú. Og þeir ástunda réttlæti og hafa tekið afstöðu með ríki Guðs.
4. Hvað er trú?
4 En hvað er trú? Páll postuli skrifaði: „Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.“ (Hebreabréfið 11:1) Trúin er vissa fyrir því að allt sem Guð hefur lofað í orði sínu sé svo öruggt að það sé eins og það hafi gerst. Það er rétt eins og við séum búin að fá afsal sem sannar að við eigum ákveðna fasteign. Trúin er einnig kölluð „sannfæring“ um það sem sést ekki. Skilningur hugans og þakklæti hjartans sannfæra okkur um að það sé raunverulegt þó að við höfum ekki séð það. — 2. Korintubréf 5:7; Efesusbréfið 1:18.
Við þurfum að trúa
5. Hvers vegna er afar mikilvægt að trúa?
5 Andlegar þarfir eru okkur meðfæddar en trúin ekki. Reyndar er það svo að ‚trúin er ekki allra.‘ (2. Þessaloníkubréf 3:2) Kristnir menn verða hins vegar að trúa til að erfa fyrirheit Guðs. (Hebreabréfið 6:12) Páll tiltekur fjölmörg dæmi um fólk sem trúði og segir svo: „Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan. Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar.“ (Hebreabréfið 12:1, 2) Hin „viðloðandi synd“ er það að skorta trú, jafnvel að missa trú sem maður hafði. Til að vera sterk í trúnni er nauðsynlegt að ‚beina sjónum sínum til Jesú‘ og fylgja fordæmi hans. Við þurfum líka að hafna siðleysi, berjast gegn verkum holdsins og forðast efnishyggju, veraldlega heimspeki og óbiblíulegar hefðir. (Galatabréfið 5:19-21; Kólossubréfið 2:8; 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10; Júdasarbréfið 3, 4) Við verðum líka að trúa að Guð sé með okkur og að ráðleggingar Biblíunnar virki.
6, 7. Hvers vegna er viðeigandi að biðja um trú?
6 Við getum ekki áunnið okkur trú með viljastyrk einum saman. Trú er þáttur í ávexti heilags anda Guðs, starfskraftar hans. (Galatabréfið 5:22, 23) Hvað er þá til ráða ef við þurfum að styrkja trú okkar? Jesús sagði: „Fyrst þér . . . hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ (Lúkas 11:13) Já, við skulum biðja um heilagan anda því að hann getur kallað fram í okkur þá trú sem við þurfum til að gera vilja Guðs, jafnvel við erfiðustu aðstæður. — Efesusbréfið 3:20.
7 Það er viðeigandi að biðja Guð um að auka okkur trú. Einhverju sinni var Jesús í þann mund að reka illan anda út úr ungum dreng er faðir drengsins sárbændi hann: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“ (Markús 9:24) „Auk oss trú!“ báðu lærisveinar Jesú. (Lúkas 17:5) Við skulum því biðja Guð um trú í trausti þess að hann svari slíkum bænum. — 1. Jóhannesarbréf 5:14.
Það er mikilvægt að trúa á orð Guðs
8. Hvernig getur trú á orð Guðs verið okkur til hjálpar?
8 Jesús sagði fylgjendum sínum skömmu fyrir fórnardauða sinn: „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig.“ (Jóhannes 14:1) Þar sem við erum kristin trúum við á Guð og son hans. En hvað um orð Guðs? Það getur haft sterk og góð áhrif á líf okkar ef við nemum það og förum eftir því í trausti þess að þar sé að finna bestu ráð og leiðbeiningar sem völ er á. — Hebreabréfið 4:12.
9, 10. Skýrðu það sem sagt er um trúna í Jakobsbréfinu 1:5-8.
9 Við erum ófullkomin og því fylgja alls konar erfiðleikar. En það getur gert okkur mikið gagn að trúa á orð Guðs. (Jobsbók 14:1) Setjum sem svo að við vitum ekki hvernig við eigum að snúa okkur í ákveðinni prófraun. Orð Guðs ráðleggur: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast. En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi. Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla, að hann fái nokkuð hjá Drottni.“ — Jakobsbréfið 1:5-8.
10 Jehóva Guð álasar okkur ekki fyrir að skorta visku og biðja um hana heldur hjálpar okkur að sjá prófraunir í réttu ljósi. Við rekumst kannski á gagnlega ritningarstaði þegar við erum að leita okkur fræðslu í Biblíunni eða trúsystkini benda okkur á þá. Kannski leiðbeinir heilagur andi Jehóva okkur með einhverjum öðrum hætti. Faðirinn á himnum veitir okkur þá visku sem við þurfum til að takast á við prófraunir ef við ‚biðjum í trú, án þess að efast.‘ Við gætum ekki ætlast til að fá nokkuð frá Guði ef við værum eins og alda sem hrekst fyrir vindi. Hvers vegna? Vegna þess að þá værum við óákveðin og reikul í bænum okkar eða öðru — jafnvel í trúnni á Guð. Við þurfum þess vegna að trúa staðfastlega á orð Guðs og þá leiðsögn sem það veitir. Lítum á nokkur dæmi sem sýna hvernig Biblían hjálpar og leiðbeinir.
Trú og viðurværi
11. Hverju treystum við ef við trúum á orð Guðs?
11 Segjum sem svo að við séum bjargarlítil eða bláfátæk. Ef við trúum orði Jehóva Guðs treystum við því að hann sjái fyrir daglegum þörfum okkar og veiti öllum sem elska hann meira en nóg þegar fram líða stundir. (Sálmur 72:16; Lúkas 11:2, 3) Það getur verið hughreystandi fyrir okkur að rifja upp hvernig Jehóva lagði Elía spámanni til fæði þegar hallæri var í landinu. Síðar sá Jehóva með undraverðum hætti fyrir mjöli og olíu sem hélt lífinu í konu einni, syni hennar og Elía. (1. Konungabók 17:2-16) Jehóva framfleytti Jeremía spámanni með svipuðum hætti þegar Babýloníumenn sátu um Jerúsalem. (Jeremía 37:21) Jeremía og Elía höfðu engin ósköp til matar en Jehóva annaðist þá. Hann annast líka þá sem iðka trú á hann nú á tímum. — Matteus 6:11, 25-34.
12. Hvernig er trúin hjálp til að sjá sér farborða?
12 Við verðum ekki efnuð af því að trúa og fara eftir meginreglum Biblíunnar, en það hjálpar okkur samt að hafa í okkur og á. Lýsum þessu með dæmi: Biblían ráðleggur okkur að vera heiðarleg, iðjusöm og fær í verki. (Orðskviðirnir 22:29; Prédikarinn 5:17, 18; 2. Korintubréf 8:21) Við skulum aldrei vanmeta gildi þess að vera álitin góður starfskraftur. Heiðarlegir, duglegir og færir starfsmenn eru yfirleitt betur settir en aðrir, jafnvel þar sem góð atvinnutækifæri eru ekki á hverju strái. Þó að þeir eigi ekki mikið af efnislegum gæðum hafa þeir að jafnaði helstu nauðsynjar, og það er ánægjuleg tilfinning fyrir þá að hafa sjálfir unnið fyrir mat sínum. — 2. Þessaloníkubréf 3:11, 12.
Trúin er okkur hjálp í sorgum
13, 14. Hvernig er trúin okkur hjálp í sorg og harmi?
13 Orð Guðs er raunsætt og bendir á að það sé eðlilegt að syrgja þegar ástvinur deyr. Abraham, ættfaðirinn trúfasti, harmaði Söru, konu sína, er hún dó. (1. Mósebók 23:2) Davíð var harmi lostinn er hann frétti að Absalon, sonur hans, væri dáinn. (2. Samúelsbók 18:33) Hinn fullkomni Jesús grét meira að segja er Lasarus, vinur hans, dó. (Jóhannes 11:35, 36) Sorgin getur verið næstum yfirþyrmandi þegar ástvinur deyr, en trúin á loforð Biblíunnar getur hjálpað okkur að bera harminn.
14 ‚Þá von hef ég til Guðs,‘ sagði Páll, „að upp muni rísa réttlátir og ranglátir.‘ (Postulasagan 24:15) Við þurfum að trúa því að Guð ætli að reisa fólk hópum saman upp frá dauðum. (Jóhannes 5:28, 29) Á meðal þeirra verða Abraham og Sara, Ísak og Rebekka og Jakob og Lea sem öll sofa dauðasvefni og bíða þess að rísa upp í nýjum heimi Guðs. (1. Mósebók 49:29-32) Það verða fagnaðarfundir þegar látnir ástvinir rísa upp af dauðasvefni til að lifa að nýju hér á jörð! (Opinberunarbókin 20:11-15) Trúin á þetta eyðir ekki allri sorg en hún stuðlar að nánu sambandi við Guð sem hjálpar okkur að bera missinn. — Sálmur 121:1-3; 2. Korintubréf 1:3.
Trúin styrkir niðurdregna
15, 16. (a) Hvers vegna er hægt að segja að depurð sé ekki óþekkt hjá þeim sem trúa á Guð? (b) Hvað er hægt að gera til að glíma við depurðina?
15 Orð Guðs bendir á að fólk geti orðið dapurt eða niðurdregið þó að það trúi á Guð. Þegar prófraunir Jobs stóðu sem hæst fannst honum Guð hafa yfirgefið sig. (Jobsbók 29:2-5) Nehemía varð dapur er hann frétti að Jerúsalem og múrar hennar væru í rústum. (Nehemíabók 2:1-3) Pétur var svo miður sín eftir að hann afneitaði Jesú að hann „grét beisklega.“ (Lúkas 22:62) Og Páll hvatti trúsystkini sín í Þessaloníku til að ‚hughreysta ístöðulitla‘ eða niðurdregna. (1. Þessaloníkubréf 5:14) Það eru því mörg dæmi um að fólk sé dapurt og niðurdregið þó að það trúi á Guð. Hvað er hægt að gera til að berjast gegn döpru geði?
16 Við getum verið niðurdregin ef mörg alvarleg vandamál steðja að okkur. En í stað þess að líta á þau sem eina allsherjarógæfu gætum við reynt að nota meginreglur Biblíunnar til að leysa þau hvert á fætur öðru. Þetta getur létt okkur lund. Það getur einnig gert okkur gott að vera hæfilega starfsöm og fá næga hvíld. Eitt er víst: Trúin á Guð og orð hans stuðlar að andlegri vellíðan vegna þess að hún styrkir þá sannfæringu að honum sé mjög annt um okkur.
17. Hvernig vitum við að Jehóva ber umhyggju fyrir okkur?
17 Pétur hughreystir okkur með eftirfarandi orðum: „Auðmýkið yður . . . undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður. Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður.“ (1. Pétursbréf 5:6, 7) Sálmaskáldið söng: „Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.“ (Sálmur 145:14) Við ættum að trúa þessum loforðum því að þau standa í orði Guðs. Þó að depurðin sé þrálát er einkar styrkjandi að vita til þess að við getum varpað öllum áhyggjum okkar á hinn kærleiksríka föður á himnum!
Trúin og aðrar prófraunir
18, 19. Hvernig hjálpar trúin okkur að bera veikindi og hughreysta trúsystkini sem eiga við veikindi að stríða?
18 Alvarleg veikindi ástvinar eða okkar sjálfra geta reynt verulega á trúna. Biblían getur þess ekki að þeir Epafrodítus, Tímóteus og Trófímus hafi læknast fyrir kraftaverk en Jehóva hjálpaði þeim eflaust að halda út. (Filippíbréfið 2:25-30; 1. Tímóteusarbréf 5:23; 2. Tímóteusarbréf 4:20) Og sálmaskáldið söng um þann mann sem „gefur gaum að bágstöddum“: „Drottinn styður hann á sóttarsænginni, þegar hann er sjúkur, breytir þú beð hans í hvílurúm.“ (Sálmur 41:2-4) Hvernig geta orð sálmaskáldsins hjálpað okkur að hughreysta trúsystkini í veikindum?
19 Ein leið til að veita aðstoð er að biðja fyrir hinum sjúka og með honum. Við förum ekki fram á kraftaverkalækningu en við getum beðið Guð að veita hinum sjúka sálarþrek og trúarstyrk til að bera veikindin meðan á þeim stendur. Jehóva mun styðja hann og trú hans styrkist er hann hugsar til þess dags þegar „enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24) Það er hughreystandi að vita til þess að hinn upprisni Jesús Kristur og ríki Guðs sjá til þess að hlýðnir menn losni fyrir fullt og allt úr fjötrum syndar, sjúkdóma og dauða. Við þökkum Jehóva, sem ‚læknar öll mein,‘ þessar stórfenglegu framtíðarhorfur. — Sálmur 103:1-3; Opinberunarbókin 21:1-5.
20. Hvernig getur trúin fleytt okkur gegnum hina ‚vondu daga‘ ellinnar?
20 Trúin getur einnig fleytt okkur gegnum hina ‚vondu daga‘ ellinnar þegar heilsu og kröftum hrakar. (Prédikarinn 12:1-7) Hinir öldruðu í okkar hópi geta því beðið til Guðs eins og sálmaskáldið sem söng í elli sinni: „Þú ert von mín, þú, Drottinn. . . . Útskúfa mér eigi í elli minni, yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar.“ (Sálmur 71:5, 9) Sálmaskáldið fann að hann þarfnaðist stuðnings Jehóva líkt og þau mörgu trúsystkini okkar sem hafa þjónað Guði fram á gamals aldur. Vegna trúar sinnar geta þau treyst að óbrigðulir og eilífir armar Jehóva styrki þau. — 5. Mósebók 33:27.
Varðveittu trúna á orð Guðs
21, 22. Hvaða áhrif hefur trú á samband okkar við Guð?
21 Að trúa fagnaðarerindinu og orði Guðs í heild hjálpar okkur að nálægja okkur Jehóva meir og meir. (Jakobsbréfið 4:8) Vissulega er hann alvaldur Drottinn en hann er líka skapari okkar og faðir. (Jesaja 64:8; Matteus 6:9; Postulasagan 4:24) „Þú ert faðir minn, Guð minn og klettur hjálpræðis míns,“ söng sálmaskáldið. (Sálmur 89:27) Ef við trúum á Jehóva og innblásið orð hans getum við líka litið á hann sem ‚klett hjálpræðis okkar.‘ Það er einstakur heiður.
22 Jehóva er faðir andagetinna kristinna manna og félaga þeirra sem bera jarðneska von í brjósti. (Rómverjabréfið 8:15) Og trúin á föðurinn á himnum veldur okkur aldrei vonbrigðum. Davíð sagði: „Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér.“ (Sálmur 27:10) Og okkur er lofað að Jehóva ‚útskúfi ekki lýð sínum vegna síns mikla nafns.‘ — 1. Samúelsbók 12:22.
23. Hvað er nauðsynlegt til að eiga varanlegt samband við Jehóva?
23 Varanlegt samband við Jehóva er auðvitað háð því að við trúum fagnaðarerindinu og viðurkennum Ritninguna sem orð hans eins og hún í sannleika er. (1. Þessaloníkubréf 2:13) Við verðum að hafa óhagganlega trú á Jehóva og láta orð hans lýsa okkur leið. (Sálmur 119:105; Orðskviðirnir 3:5, 6) Trúin vex ef við biðjum til hans og treystum á umhyggju hans, miskunn og stuðning.
24. Hvaða hughreystingu er að finna í Rómverjabréfinu 14:8?
24 Það var vegna trúar sem við vígðum okkur Guði til eilífðar. Við erum vígðir þjónar hans, höfum sterka trú og eigum von um upprisu ef við deyjum. Já, við tilheyrum Jehóva hvort sem við lifum eða deyjum. (Rómverjabréfið 14:8) Varðveitum þessa hughreystandi von í hjörtum okkar, treystum á orð hans og höldum áfram að trúa fagnaðarerindinu.
Hvert er svarið?
• Hvað er trú og hvers vegna þurfum við að trúa?
• Hvers vegna er mikilvægt að við trúum fagnaðarerindinu og orði Guðs í heild sinni?
• Hvernig er trúin okkur hjálp í ýmsum prófraunum?
• Hvað hjálpar okkur að viðhalda trúnni?
[Myndir á blaðsíðu 10]
Jehóva sá fyrir Jeremía og Elía vegna þess að þeir trúðu.
[Myndir á blaðsíðu 11]
Job, Pétur og Nehemía höfðu sterka trú.
[Mynd á blaðsíðu 13]
Varanlegt samband við Jehóva er háð því að við trúum fagnaðarerindinu.