Kafli 45
Ólíklegur lærisveinn
ÓGNVEKJANDI sjón blasir við þegar Jesús stígur á land. Tveir sérlega illskeyttir menn koma hlaupandi á móti honum frá grafreit þar í grenndinni. Þeir eru haldnir illum öndum. Trúlega er annar þeirra sýnu ofbeldisfyllri en hinn og hefur verið undir áhrifum illra anda miklu lengur, þannig að athyglin beinist að honum.
Þessi aumkunarverði maður hefur lengi hafst við nakinn í gröfunum. Hann æpir dag og nótt og lemur sig grjóti. Svo ofsafenginn er hann að enginn þorir að fara um veginn sem liggur þar hjá. Reynt hefur verið að binda hann en hann slítur alla hlekki af höndum sér og fjötra af fótum sér. Enginn ræður við hann.
Maðurinn kemur til Jesú og fellur að fótum hans og illu andarnir, sem hafa hann á valdi sínu, láta hann hrópa: „Hvað vilt þú mér, Jesús, sonur Guðs hins hæsta? Ég særi þig við Guð, kvel þú mig eigi!“
„Þú óhreini andi, far út af manninum,“ endurtekur Jesús, en síðan spyr hann: „Hvað heitir þú?“
„Hersing heiti ég, vér erum margir,“ er svarið. Illu andarnir njóta þess að kvelja þá sem þeir taka sér bólfestu í og hafa greinilega yndi af því að ráðast að þeim í hóp eins og skræfur. En þegar þeir standa andspænis Jesú sárbæna þeir hann að senda sig ekki í undirdjúpið. Aftur sjáum við að Jesús er geysimáttugur því að hann ræður jafnvel við hættulega, illa anda. Þetta atvik sýnir líka að illu andarnir vita að Guð dæmir þá síðar til að fara í undirdjúpið ásamt höfðingja sínum, Satan djöflinum.
Um 2000 svín eru á beit á fjalli í grenndinni. Illu andarnir biðja: „Send oss í svínin, lát oss fara í þau!“ Illu andarnir hafa greinilega einhvers konar óeðlilega nautn af því að taka sér bólfestu í verum af holdi og blóði. Þegar Jesús leyfir þeim að fara í svínin ryðjast þau fram af hamrinum í vatnið og drukkna.
Svínahirðarnir hraða sér burt þegar þeir sjá þetta, til að segja tíðindin í borginni og sveitinni. Og fólk kemur til að sjá hvað gerst hefur. Þegar það kemur á staðinn sér það manninn, sem illu andarnir fóru út af, sitja klæddan og heilvita við fætur Jesú!
Sjónarvottar segja frá því hvernig maðurinn varð heill og greina líka frá undarlegum dauða svínanna. Þegar fólk heyrir þetta verður það óttaslegið og biður Jesú fyrir alla muni að yfirgefa héraðið. Hann gerir eins og fólkið biður og fer um borð í bátinn. Maðurinn, sem hafði verið haldinn illum öndum, sárbænir Jesú að leyfa sér að fara með, en Jesús segir: „Far heim til þín og þinna, og seg þeim, hve mikið [Jehóva] hefur gjört fyrir þig og verið þér miskunnsamur.“
Yfirleitt fyrirskipar Jesús þeim sem hann læknar að segja engum frá því, þar eð hann vill ekki að fólk dragi ályktanir af æsifengnum frásögum. En þessi undantekning er viðeigandi af því að þessi maður á eftir að bera vitni meðal fólks sem Jesús hefur sennilega ekki tækifæri til að hitta. Og návist mannsins verður góður vitnisburður um mátt Jesú til að vinna góðverk og mótvægi gegn hugsanlegum söguburði vegna svínamissisins.
Maðurinn, sem haldinn hafði verið illu öndunum, fer burt eins og Jesús segir og tekur að kunngera í Dekapólis allt sem Jesús gerði fyrir hann, og fólk undrast mjög. Matteus 8:28-34; Markús 5:1-20; Lúkas 8:26-39; Opinberunarbókin 20:1-3.
▪ Hver er ef til vill ástæðan fyrir því að athyglin beinist aðeins að öðrum manninum sem haldinn var illum öndum?
▪ Hvað sýnir að illu andarnir vita að þeir eiga að fara í undirdjúpið í framtíðinni?
▪ Hvers vegna virðast illir anda vilja taka sér bólfestu í mönnum og dýrum?
▪ Hvers vegna biður Jesús manninn, sem haldinn var illum öndum, að segja frá því sem gerðist, ólíkt því sem hann gerði að jafnaði?