Kafli 59
Hver er Jesús eiginlega?
ÞEGAR báturinn með Jesú og lærisveinunum leggur að landi í Betsaídu kemur fólk með blindan mann til hans og sárbænir hann um að snerta hann svo að hann læknist. Jesús leiðir manninn við hönd sér út fyrir þorpið, skyrpir í augu hans og spyr: „Sér þú nokkuð?“
„Ég sé menn, ég greini þá líkt og tré, þeir ganga,“ svarar maðurinn. Jesús leggur hendur yfir augu mannsins og veitir honum skýra sjón. Síðan sendir hann manninn heim til sín með þeim fyrirmælum að fara ekki inn í þorpið.
Jesús heldur nú með lærisveinum sínum til þorpanna hjá Sesareu Filippí, nyrst í Palestínu. Sesarea Filippí stendur í fögru umhverfi í hér um bil 350 metra hæð yfir sjávarmáli. Þetta er um 50 kílómetra ganga upp í móti, þannig að ferðin tekur sennilega tvo daga.
Á leiðinni fer Jesús afsíðis til að biðjast fyrir. Nú eru aðeins um níu eða tíu mánuðir til dauða hans og hann hefur áhyggjur af lærisveinunum, enda hafa margir hætt að fylgja honum. Sumir eru greinilega ráðvilltir og vonsviknir vegna þess að hann leyfði fólkinu ekki að gera sig að konungi, og vegna þess að hann gaf ekki tákn af himni til að sanna konungdóm sinn þegar óvinir hans skoruðu á hann að gera það. Hvern halda postular hans hann vera? Þegar þeir koma til Jesú þar sem hann er á bæn spyr hann: „Hvern segja menn mig vera?“
„Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum,“ svara þeir. Já, fólk heldur að Jesús sé einhver þessara manna upprisinn!
„En þér, hvern segið þér mig vera?“ spyr Jesús.
Pétur svarar um hæl: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“
Jesús hrósar Pétri fyrir svarið og segir: „Eg segi þér: Þú ert Pétur, og á þessum kletti mun eg byggja söfnuð minn, og hlið Heljar skulu eigi verða honum yfirsterkari.“ Hér kunngerir Jesús í fyrsta sinn að hann ætli að byggja söfnuð og að dauðinn nái ekki einu sinni að halda safnaðarmönnum föngnum eftir að þeir hafi trúfastir lokið lífi sínu á jörð. Síðan segir hann Pétri: „Ég mun fá þér lykla himnaríkis.“
Jesús opinberar þannig að Pétur öðlist einstök sérréttindi. Hann á hvorki að verða fremstur meðal postulanna né undirstaða safnaðarins. Jesús er sjálfur kletturinn sem söfnuðurinn verður byggður á, en Pétri verða fengnir þrír táknrænir lyklar til að opna hópum manna aðgang að himnaríki.
Pétur notaði fyrsta lykilinn á hvítasunnunni árið 33 til að sýna iðrunarfullum Gyðingum hvað þeir þyrftu að gera til að bjargast. Annan lykilinn notaði hann skömmu síðar til að opna trúuðum Samverjum aðgang að Guðsríki. Síðan, árið 33, notaði hann þriðja lykilinn til að veita óumskornum heiðingjum, þeim Kornelíusi og vinum hans, sama tækifæri.
Jesús heldur áfram að ræða við postulana. Hann veldur þeim vonbrigðum með því að segja þeim að hann þurfi bráðlega að þjást og deyja í Jerúsalem. Pétur skilur ekki að Jesús verði reistur upp til lífs á himnum og segir við hann einslega: „Guð náði þig, herra, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Jesús snýr baki í Pétur og svarar: „Vík frá mér, Satan, þú ert mér til ásteytingar, þú hugsar ekki um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er.“
Ljóst er að fleiri lærisveinar en postularnir eru í för með Jesú og hann kallar þá nú til sín og útskýrir að það verði ekki auðvelt að fylgja honum. „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér,“ segir hann. „Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu vegna mín og fagnaðarerindisins, mun bjarga því.“
Já, fylgjendur Jesú verða að vera hugrakkir og fórnfúsir til að sanna að þeir verðskuldi hylli hans. Hann segir: „En þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð hjá þessari ótrúu, syndugu kynslóð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð föður síns með heilögum englum.“ Markús 8:22-38; Matteus 16:13-28, vers 18 samkvæmt Biblíunni 1912; Lúkas 9:18-27.
▪ Af hverju hefur Jesús áhyggjur af lærisveinunum?
▪ Hver heldur fólk að Jesús sé?
▪ Hvaða lykla fær Pétur og hvernig á hann að nota þá?
▪ Hvernig er Pétur leiðréttur og hvers vegna?