Kafli 61
Drengur haldinn illum anda læknast
MEÐAN Jesús, Pétur, Jakob og Jóhannes eru fjarverandi, líklega á fjallsrana út úr Hermonfjalli, lenda hinir lærisveinarnir í erfiðleikum. Jesús sér strax að eitthvað er að þegar hann kemur aftur. Mannfjöldi hefur safnast saman kringum lærisveinana, og fræðimenn eru að þrátta við þá. Fólkið verður mjög undrandi þegar Jesús nálgast og hleypur til móts við hann að heilsa honum. „Um hvað eruð þér að þrátta við þá?“ spyr hann.
Maður gengur fram úr mannfjöldanum, krýpur frammi fyrir Jesú og segir: „Meistari, ég færði til þín son minn, sem málleysisandi er í. Hvar sem andinn grípur hann, slengir hann honum flötum, og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka hann út, en þeir gátu það ekki.“
Fræðimennirnir nota sér greinilega til hins ítrasta að lærisveinarnir skuli ekki geta læknað drenginn og gera kannski gys að þeim. Það er á þessu augnabliki sem Jesús kemur. „Ó, þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður?“ segir hann.
Jesús virðist beina orðum sínum til allra viðstaddra, en eflaust er hann sérstaklega að tala til fræðimannanna sem hafa valdið lærisveinum hans erfiðleikum. Síðan biður Jesús þá að færa drenginn til sín. En þegar drengurinn kemur til Jesú slengir illi andinn honum flötum og lætur hann fá ofsafenginn krampa svo hann veltist um og froðufellir.
„Hve lengi hefur honum liðið svo?“ spyr Jesús.
„Frá bernsku,“ svarar faðirinn. „Og oft hefur [illi andinn] kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum.“ Síðan sárbænir hann Jesú: „Ef þú getur nokkuð, þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur.“
Vera má að faðirinn hafi verið að leita hjálpar í mörg ár. Og núna, þegar lærisveinum Jesú hefur mistekist, er hann örvilnaður. Jesús er uppörvandi þegar hann svarar örvæntingarfullum manninum: „Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir.“
„Ég trúi,“ hrópar maðurinn þegar í stað. „Hjálpa þú vantrú minni.“
Þegar Jesús sér að mannfjöldi þyrpist að hastar hann á illa andann og segir: „Þú dumbi, daufi andi, ég býð þér, far út af honum, og kom aldrei framar í hann.“ Drengurinn fær ákaft krampakast um leið og andinn fer út af honum og æpir hátt. Síðan liggur drengurinn hreyfingarlaus á jörðinni og flestir halda að hann sé dáinn. En Jesús tekur í hönd hans og hann stendur á fætur.
Áður, þegar lærisveinarnir voru sendir út að prédika, höfðu þeir rekið út illa anda. Þess vegna spyrja þeir Jesú einslega þegar þeir koma í hús: „Hví gátum vér ekki rekið hann út?“
Jesús gefur til kynna að þá hafi skort trú og svarar: „Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn.“ Svona öflugur, illur andi varð ekki rekinn út undirbúningslaust heldur þurfti sterka trú ásamt bæn um kraft frá Guði.
Síðan bætir Jesús við: „Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn.“ Svona sterk getur trúin verið!
Ýmsir erfiðleikar og tálmar í þjónustunni við Jehóva geta virst eins óyfirstíganlegir og óhagganlegir og bókstaflegt fjall. En Jesús bendir á að ef við ræktum með okkur trú í hjartanu, vökvum hana og hlúum að henni, þá vaxi hún og þroskist þannig að við getum yfirstigið fjallháar hindranir og erfiðleika. Markús 9:14-29; Matteus 17:19, 20; Lúkas 9:37-43.
▪ Hvað blasir við Jesú þegar hann snýr aftur ofan af Hermonfjalli?
▪ Hvernig uppörvar Jesús föður drengsins sem haldinn er illa andanum?
▪ Af hverju geta lærisveinarnir ekki rekið illa andann út?
▪ Hve sterk getur trúin orðið, að sögn Jesú?