Virðum „það sem Guð hefur tengt saman“
„Það sem Guð hefur tengt saman má maður eigi sundur skilja.“ – MARK. 10:9.
1, 2. Hvað ætti Hebreabréfið 13:4 að hvetja okkur til að gera?
ÞAÐ gleður þig eflaust að heiðra Jehóva. Hann á heiður þinn skilinn og hann lofar sömuleiðis að heiðra þig. (1. Sam. 2:30; Orðskv. 3:9; Opinb. 4:11) Hann vill líka að þú sýnir mönnum heiður og virðingu, til að mynda ráðamönnum. (Rómv. 12:10; 13:7) En það er enn annað svið þar sem heiður og virðing er sérstaklega mikilvæg. Það er í hjónabandinu.
2 Páll postuli skrifaði: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð.“ (Hebr. 13:4) Þetta var ekki aðeins almenn staðhæfing um hjónaband. Páll var að brýna fyrir kristnum mönnum að virða hjónabandið, að álíta það dýrmætt. Lítur þú þannig á hjónabandið, og ekki síst eigið hjónaband ef þú ert giftur?
3. Hvaða mikilvæga ráð gaf Jesús um hjónabandið? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
3 Ef þú berð virðingu fyrir hjónabandinu fylgirðu góðu fordæmi. Jesús virti hjónabandið. Þegar farísear spurðu hann út í skilnað vitnaði hann í það sem Guð sagði um fyrsta hjónabandið: „Fyrir því skal maður yfirgefa föður sinn og móður og bindast konu sinni og þau tvö skulu verða einn maður.“ Jesús bætti við: „Það sem Guð hefur tengt saman má maður eigi sundur skilja.“ – Lestu Markús 10:2-12; 1. Mós. 2:24.
4. Hvernig ætlaðist Jehóva til þess að hjónabandið yrði?
4 Jesús viðurkenndi að Guð er höfundur hjónabandsins og hann lagði áherslu á að það ætti að vera varanlegt. Guð sagði ekki Adam og Evu að þau gætu slitið hjónabandinu með skilnaði. Hann ætlaðist til þess að „þau tvö“ yrðu tengd varanlegum böndum og hið sama gilti um öll hjón.
HJÓNABANDIÐ BREYTIST UM TÍMA
5. Hvaða áhrif hefur dauðinn á hjónabandið?
5 En eins og við vitum breyttist margt þegar Adam syndgaði. Dauðinn kom til dæmis til sögunnar, og það hafði áhrif á hjónabandið. Við sjáum það á því sem Páll postuli skrifaði þegar hann útskýrði að kristnir menn væru ekki undir Móselögunum. Hann benti á að dauðinn byndi enda á hjónabandið og að eftirlifandi makanum væri frjálst að giftast á ný. – Rómv. 7:1-3.
6. Hvernig gefa Móselögin innsýn í viðhorf Guðs til hjónabandsins?
6 Í lögunum, sem Guð gaf Ísraelsþjóðinni, voru vissar leiðbeiningar um hjónabandið. Fjölkvæni var til dæmis leyft, en það hafði tíðkast áður en Guð gaf Ísraelsmönnum lögin. Um það giltu þó ákveðnar reglur sem vernduðu konur og börn gegn illri meðferð. Ef Ísraelsmaður kvæntist ambátt og gekk síðar að eiga aðra konu þurfti hann eftir sem áður að gæta hjúskaparskyldu sinnar við þá fyrri og mátti hvorki minnka við hana mat né klæðnað. Guð fór fram á að hann verndaði hana og annaðist. (2. Mós. 21:9, 10) Við erum ekki undir Móselögunum en þau leiða samt í ljós hve dýrmætt hjónabandið er í augum Jehóva. Auðveldar það þér ekki að meta hjónabandið að verðleikum?
7, 8. (a) Hvað sögðu Móselögin um hjónaskilnað, samkvæmt 5. Mósebók 24:1? (b) Hvernig lítur Jehóva á skilnað?
7 Hvað sögðu lögin um hjónaskilnað? Guð gerði þá tilhliðrun að leyfa hjónaskilnað þótt það hafi ekki verið upphafleg ætlun hans. (Lestu 5. Mósebók 24:1.) Ísraelskur maður gat skilið við konu sína ef hann fann eitthvað óviðeigandi eða „fráhrindandi“ við hana. Í lögunum var ekki útskýrt hvað taldist „fráhrindandi“. Það hlýtur þó að hafa verið eitthvað mjög alvarlegt eða andstyggilegt, ekki aðeins smávægileg mistök. (5. Mós. 23:14) Því miður skildu margir Gyðingar á dögum Jesú við konu sína ,fyrir hvaða sök sem var‘. (Matt. 19:3) Við viljum sannarlega ekki tileinka okkur viðhorf þeirra.
8 Á dögum Malakís spámanns var algengt að menn svikju ,konu æsku sinnar‘ og skildu við hana, ef til vill til að kvænast yngri, heiðinni konu. En Guð lét skýrt í ljós hvernig hann lítur á hjónaskilnað. „Ég hata hjónaskilnað,“ sagði hann. (Mal. 2:14-16, Biblían 1981) Það samræmist því sem hann sagði um fyrsta hjónabandið: „[Maður] býr með eiginkonu sinni, og þau verða eitt.“ (1. Mós. 2:24) Jesús sýndi að hann hafði sama viðhorf til hjónabandsins og faðir hans þegar hann sagði: „Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja.“ – Matt. 19:6.
AÐEINS EIN GILD ÁSTÆÐA FYRIR SKILNAÐI
9. Hvað merkja orð Jesú í Markúsi 10:11, 12?
9 Sumir gætu velt fyrir sér hvort það sé nokkurn tíma gild ástæða fyrir þjón Guðs að skilja við maka sinn og giftast á ný. Jesús sagði um skilnað: „Sá sem skilur við konu sína og kvænist annarri drýgir hór gegn henni. Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum drýgir hún hór.“ (Mark. 10:11, 12; Lúk. 16:18) Það er greinilegt að Jesús virti hjónabandið og vildi að aðrir gerðu það líka. Ef eiginmaður skildi við trúa eiginkonu sína og giftist annarri fremdi hann hjúskaparbrot. Hið sama gilti um konu sem skildi við trúan eiginmann sinn og giftist öðrum. Ástæðan er sú að skilnaður einn og sér bindur ekki enda á hjónaband. Í augum Guðs voru þau enn þá „eitt“. Jesús sagði líka að trúföst kona ætti á hættu að fremja hjúskaparbrot ef maðurinn skildi við hana. Hvernig þá? Í þá daga gat fráskilinni konu fundist hún tilneydd að giftast á ný sökum fjárhags. En það jafngilti hjúskaparbroti.
10. Af hvaða ástæðu getur þjónn Guðs skilið við maka sinn og honum verið frjálst að giftast á ný?
10 Jesús tók fram að aðeins ein gild ástæða væri fyrir því að binda enda á hjónaband: „Ég segi ykkur: Sá sem skilur við konu sína, nema sakir hórdóms [á grísku porneiʹa], og kvænist annarri drýgir hór.“ (Matt. 19:9) Hann nefndi það sama í fjallræðunni. (Matt. 5:31, 32) Í báðum tilfellum talaði Jesús um „hór“, það er að segja kynferðislegt siðleysi. Hugtakið nær yfir margs konar kynferðislegar syndir utan hjónabands, svo sem framhjáhald, vændi, kynmök ógiftra einstaklinga, kynmök fólks af sama kyni og kynmök við dýr. Ef kvæntur maður gerist sekur um kynferðislegt siðleysi getur konan hans ákveðið hvort hún skilji við hann eða ekki. Ef hún skilur við hann bindur það enda á hjónabandið í augum Guðs.
11. Hvers vegna gæti þjónn Guðs ákveðið að skilja ekki við maka sinn þótt hann hafi biblíulega ástæðu til þess?
11 Tökum eftir að Jesús sagði ekki að saklausi makinn yrði að sækja um skilnað ef hinn makinn gerðist sekur um kynferðislegt siðleysi (porneiʹa). Eiginkona gæti til dæmis kosið að slíta ekki hjónabandinu þó að eiginmaðurinn hafi framið kynferðislegt siðleysi. Það getur verið að hún elski hann enn og að hana langi til að fyrirgefa honum og vinna með honum að því að bæta hjónabandið. Ef hún skilur við hann og giftist ekki á ný stendur hún frammi fyrir vissum erfiðleikum. Hvað með efnislegar og kynferðislegar þarfir hennar? Yrði hún einmana? Hvaða áhrif hefði skilnaðurinn á börnin? Yrði erfiðara að ala þau upp í sannleikanum? (1. Kor. 7:14) Það er ljóst að skilnaður hefur mikla erfiðleika í för með sér fyrir saklausa makann.
12, 13. (a) Hvað gerðist í hjónabandi Hósea? (b) Af hverju tók Hósea Gómer til baka og hvað kennir það okkur um hjónabandið?
12 Frásagan af Hósea spámanni segir okkur margt um viðhorf Guðs til hjónabandsins. Guð sagði honum að ganga að eiga konu (Gómer) sem yrði ,hórkona og myndi eignast hórbörn‘. „Hún varð þunguð og ól [Hósea] son.“ (Hós. 1:2, 3) Síðar eignaðist hún dóttur og annan son, eflaust eftir að hafa haldið fram hjá. Hósea var áfram kvæntur henni þó að hún héldi ítrekað fram hjá honum. Að lokum yfirgaf hún Hósea og varð ambátt. En Hósea keypti hana til baka. (Hós. 3:1, 2) Jehóva notaði Hósea til að lýsa því hvernig hann fyrirgaf hvað eftir annað ótrúmennsku Ísraelsmanna. Hvað getum við lært af hjónabandi Hósea?
13 Þjónn Guðs þarf að taka ákvörðun ef hann verður fyrir því að maki hans fremur kynferðislegt siðleysi. Jesús sagði að saklausi makinn hefði gilda ástæðu til að skilja og að honum yrði þá frjálst að giftast aftur. Hins vegar gat saklausi makinn líka ákveðið að fyrirgefa maka sínum. Það væri ekkert rangt við það. Hósea tók Gómer til baka. Eftir það mátti hún ekki sofa hjá neinum öðrum manni og Hósea hafði ekki heldur mök við hana um tíma. (Hós. 3:3) Þegar fram liðu stundir hefur Hósea þó eflaust tekið upp eðlilega sambúð við hana. Þannig endurspeglaði hann löngun Guðs til að taka aftur við þjóð sinni og endurvekja sambandið við hana. (Hós. 1:11; 3:3-5) Hvað kennir það okkur um hjónabandið nú á dögum? Ef saklausi makinn hefur aftur kynmök við brotlega makann er það merki um fyrirgefningu. (1. Kor. 7:3, 5) Þá er ekki lengur grundvöllur fyrir skilnaði. Þaðan í frá ættu þau að vinna saman að því sem hjón að endurspegla viðhorf Guðs til hjónabandsins.
VIRÐUM HJÓNABANDIÐ ÞRÁTT FYRIR ERFIÐLEIKA
14. Hvað getur gerst hjá hjónum, samkvæmt því sem segir í 1. Korintubréfi 7:10, 11?
14 Allir þjónar Guðs ættu að virða hjónabandið eins og Jesús og Jehóva gera. En við erum öll ófullkomin og því gera það ekki allir sem skyldi. (Rómv. 7:18-23) Það ætti því ekki að koma okkur á óvart að sumir þjónar Guðs á fyrstu öld áttu í hjónabandserfiðleikum. Páll skrifaði að „konan skuli ekki skilja við mann sinn“, það er að segja slíta samvistum við hann. Engu að síður átti það til að gerast. – Lestu 1. Korintubréf 7:10, 11.a
15, 16. (a) Hvert ætti markmiðið að vera þegar vandamál koma upp í hjónabandinu og hvers vegna? (b) Á það líka við ef makinn þjónar ekki Guði? Skýrðu svarið.
15 Páll útskýrði ekki hvað varð til þess að hjón slitu samvistum. Vandamálið var ekki að eiginmaðurinn hafði framið kynferðislegt siðleysi, svo dæmi sé tekið. Þá hefði konan haft gilda ástæðu til að skilja og giftast að nýju. En Páll skrifaði að eiginkona, sem hafði slitið samvistum við mann sinn, ætti að vera ,áfram ógift eða sættast við manninn‘. Þau voru því enn gift í augum Guðs. Páll sagði að ef kynferðislegt siðleysi hefur ekki átt sér stað ætti markmiðið alltaf að vera að ná sáttum, sama hvaða erfiðleika er um að ræða. Hjónin geta leitað aðstoðar öldunganna. Þeir geta veitt ráð byggð á Biblíunni en forðast að taka afstöðu í málinu.
16 En hvað ef annar makinn þjónar ekki Guði? Er þá réttlætanlegt að slíta samvistum ef vandamál koma upp? Eins og fram hefur komið segir í Biblíunni að hægt sé að skilja ef kynferðislegt siðleysi hefur átt sér stað. Hins vegar nefnir hún ekki ástæður fyrir því að hjón geti slitið samvistum. Páll skrifaði: „Kona, sem á vantrúaðan mann, og hann lætur sér vel líka að búa saman við hana, láti ekki manninn frá sér fara.“ (1. Kor. 7:12, 13, Biblían 1912) Þessar leiðbeiningar eru enn í fullu gildi.
17, 18. Hvers vegna hafa sumir þjónar Guðs ákveðið að slíta ekki hjónabandinu þrátt fyrir mikla erfiðleika?
17 Dæmi eru um að ,vantrúaður maður‘ sýni fram á að hann lætur sér það ekki „vel líka að búa saman við“ eiginkonu sína. Vera má að hann beiti hana alvarlegu ofbeldi, jafnvel svo að henni finnist heilsu sinni eða lífi stofnað í hættu. Kannski neitar hann að sjá henni og fjölskyldunni farborða eða gerir henni verulega erfitt fyrir að þjóna Jehóva og vera honum trú. Í slíkum tilfellum gæti eiginkonan metið það svo að maðurinn láti sér það ekki „vel líka að búa saman við hana“, þótt hann kunni að halda öðru fram, og ákveðið að nauðsynlegt sé að slíta samvistum við hann. En sumir þjónar Guðs í álíka erfiðum aðstæðum hafa ákveðið að fara ekki frá maka sínum. Þeir hafa þraukað og reynt að bæta hjónabandið. Hvers vegna?
18 Hjón, sem slíta samvistum, eru eftir sem áður gift. Eins og fram hefur komið fylgja því ýmsir erfiðleikar að vera aðskilin. Páll postuli nefndi aðra ástæðu fyrir því að hjón haldi saman. Hann skrifaði: „Vantrúaði maðurinn er helgaður af konunni og vantrúaða konan er helguð af bróðurnum. Annars væru börn ykkar óhrein en nú eru þau hrein.“ (1. Kor. 7:14) Þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður hafa margir trúir þjónar Guðs ákveðið að vera áfram með maka sínum sem er ekki í trúnni. Þeir eru ánægðir að hafa gert það, sérstaklega ef maki þeirra varð síðar meir vottur Jehóva. – Lestu 1. Korintubréf 7:16; 1. Pét. 3:1, 2.
19. Af hverju eru svona mörg farsæl hjónabönd innan safnaðarins?
19 Jesús talaði um skilnað og Páll postuli gaf innblásin ráð um aðskilnað. Báðir vildu þeir að þjónar Guðs virtu hjónabandið. Í söfnuðinum um allan heim eru ótal dæmi um farsæl hjónabönd. Eflaust eru mörg hamingjusöm hjón í söfnuðinum þínum. Það er vegna þess að eiginmennirnir eru trúir bræður sem elska konurnar sínar og þær virða þá og elska sömuleiðis. Öll sýna þau að hægt er að halda hjónabandið í heiðri. Við gleðjumst yfir því að milljónir karla og kvenna skuli sýna fram á að þessi orð Guðs eru sönn: „Þess vegna skal maður yfirgefa föður og móður og búa við eiginkonu sína og munu þau tvö verða einn maður.“ – Ef. 5:31, 33.
a Gríska orðið, sem er þýtt „skilja“ í þessu versi í íslensku biblíunni, merkir frekar að „slíta samvistum“ eða „yfirgefa“.