Hefur þú hugarfar Krists?
„Megi Guð, sem veitir þolgæði og hughreystingu, gefa að þið hafið ykkar á meðal sama hugarfar og Kristur Jesús hafði.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 15:5, NW.
1. Hvaða spurningum þarf að svara ef einhver kallar sig kristinn?
YFIR milljarður manna hringinn í kringum hnöttinn er sagður kristinn. Það þýðir að þeir, í það minnsta í orði kveðnu, trúi á Jesú Krist og segist vera fylgjendur hans eða lærisveinar. (Matteus 10:24, 25) En hvað felst í því að líkja eftir fordæmi Krists? Að sjálfsögðu er frumskilyrði að þekkja hann. Þekkir þú í raun og sannleika Jesú frá Nasaret? Hefur þú skýra hugmynd um hvers konar persóna hann var þegar hann var hér á jörð? Veist þú hvernig hann kom fram við aðra undir ólíkum kringumstæðum? Hefur þú ‚hugarfar Krists‘? — 1. Korintubréf 2:16; Efesusbréfið 4:13.
2, 3. Hvernig getum við tileinkað okkur hugarfar Krists?
2 Hvernig er hægt að kynnast manni sem var uppi fyrir nærfellt 2000 árum og var í sviðsljósinu í aðeins þrjú og hálft ár? Hvað Jesú varðar eru til fjórar trúverðugar ævisögur sem gefa okkur glögga mynd af því hvers konar persóna hann var. Með því að lesa þær vandlega fáum við líka tilfinningu fyrir þeim hugsanagangi sem lá að baki verka hans. Hvað þurfum við þá að gera til að vera kristin meira en að nafninu til? Jesús orðaði það þannig: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — Jóhannes 17:3; 2. Pétursbréf 3:18.
3 Sérhver kristinn maður ætti því að hafa staðgóða þekkingu og skilning á föðurnum, Jehóva, og ævi og kenningum sonarins, Krists Jesú. Það er ekki nóg að kalla sig kristinn vott Jehóva. Til að hafa hugarfar Krists þurfum við reglulega að fylla huga okkar skilningi á lífi og fordæmi Jesú. Það þýðir að við þurfum að nema Ritninguna reglulega og gaumgæfilega með hjálp biblíunámshandbóka sem hjálpa okkur að varpa ljósi á merkingu textans. Það útheimtir líka rétt hugarfar til að við getum skilið og viðurkennt hlutverk Krists í tilgangi Guðs. — Jóhannes 5:39-47; Matteus 24:45-47.
Tilfinninganæmur maður
4. Hvers konar maður var Jesús?
4 Jesús var hraustur athafnamaður þegar hann hóf þjónustu sína um þrítugur að aldri. (Lúkas 3:23) En hvers konar maður var hann? Var hann ópersónulegur og fáskiptinn? Nei, eins og flestir Gyðingar í Miðausturlöndum var hann opinn og mannblendinn. Hann var hvorki hlédrægur né innhverfur. Hann lét óhikað í ljós margbreytilegar kenndir, allt frá hryggð og hluttekningu upp í réttláta reiði. — Markús 6:34; Matteus 23:13-36.
5. Hvernig brást Jesús við þegar hann frétti af dauða Lasarusar?
5 Hvernig brást Jesús til dæmis við þegar hann hitti Mörtu og Maríu grátandi yfir dauða Lasarusar, bróður síns? Frásögn Jóhannesar segir okkur: „Komst hann við í anda og varð hrærður mjög“ og „grét.“ (Jóhannes 11:33-36) Hann lét tilfinningar sínar í ljós við þessa nánu vini. Hann skammaðist sín ekki fyrir að gráta með þeim. Þótt hann væri „sonur Guðs“ lét hann í ljós mjög mennskar tilfinningar. (Jóhannes 1:34) Það hlýtur að hafa snortið Mörtu og Maríu djúpt! — Samanber Lúkas 19:41-44.
6. Hvers vegna var Jesús ekki ókarlmannlegur þótt hann gréti?
6 Að Jesús skuli hafa grátið í annarra augsýn með þessum konum kemur kannski þeirri hugmynd inn hjá sumum að hann hafi ekki verið „karlmenni.“ Kaþólskur rithöfundur að nafni Hilaire Belloc kallaði Jesús meira að segja „kveif.“ En var hann þar? Var Jesús sú ókarlmannlega manngerð sem ætla má af listaverkum kristna heimsins? Nei, tár þurfa ekki að vera veikleikamerki. Læknatímarit kemst þannig að orði: „Bannið við því að láta í ljós næmar tilfinningar er bæði órökrétt og skaðlegt . . . Það að láta í ljós næmar tilfinningar, einkum með því að gráta, er eitt af séreinkennum manna.“ — Samanber 2. Samúelsbók 13:36-38; Jóhannes 11:35.
7. Hvernig getur fordæmi Jesú um náungakærleika hjálpað okkur?
7 Viðbrögð Jesú við þjáningum voru mjög mannleg og hjálpa okkur að setja okkur í spor hans og tileinka okkur hugarfar hans. Við erum ekki að fylgja ópersónulegri goðsagnaveru heldur fullkomnu fordæmi sendu af Guði, ‚syni hins lifanda Guðs.‘ (Matteus 16:16; Jóhannes 3:16, 17; 6:68, 69) Hvílík fyrirmynd öllum kristnum mönnum, einkum kristnum öldungum sem oft þurfa að hughreysta aðra og sýna samúðarskilning á tímum sorgar og erfiðleika! Það að hafa hugarfar og hjartalag Krists skiptir miklu máli undir slíkum kringumstæðum. — 1. Þessaloníkubréf 2:7, 8.
Djarfur athafnamaður
8. Hvernig lét Jesús í ljós hugrekki og dirfsku?
8 Jesús var líka hugrakkur athafnamaður sem hvikaði ekki frá sannfæringu sinni. Tvívegis rak hann til dæmis harðri hendi dýrasala og víxlara út úr musterinu. (Markús 11:15-17; Jóhannes 2:13-17) Hann var ósmeykur við að afhjúpa opinberlega hræsni hinna sjálfsánægðu farísea og skriftlærðu manna. Hann fordæmdi og aðvaraði tæpitungulaust: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra.“ Engin veikleikamerki þar! — Matteus 23:27, 28; Lúkas 13:14-17.
9, 10. (a) Hvers vegna syndgaði Jesús ekki þegar hann lét reiði í ljós? (b) Hvernig ætti fordæmi Krists að snerta kristna öldunga?
9 Var réttlát reiði Jesú merki þess að hann skorti sjálfstjórn? Pétur, náinn félagi Jesú meðan þjónusta hans stóð, segir: „Hann drýgði ekki synd.“ (1. Pétursbréf 2:22) Páll postuli skrifaði: „Ekki höfum vér þann æðsta prest, er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar.“ (Hebreabréfið 4:15) Það er mikill munur á réttlátri reiði og stjórnlausri. — Samanber Orðskviðina 14:17; Efesusbréfið 4:26.
10 Kristinn öldungur á til dæmis ekki að vera „bráður,“ en þó að ráða yfir nægum siðferðisstyrk til að geta ‚hrakið þá sem móti mæla,‘ jafnvel „harðlega“ ef nauðsyn krefur. Hann þarf að vera hæfur til að ‚vanda um, ávíta og áminna.‘ (Títusarbréfið 1:7-13; 2. Tímóteusarbréf 4:1, 2) Vissar kringumstæður geta líka vakið réttláta reiði hans, einkum ef hann sér ógnað einingu safnaðarins, andlegu hugarfari eða siðferðilegum hreinleika. Eins og Páll sagði er stundum nauðsynlegt „að þagga niður í“ þeim sem „fara með hégómamál og leiða í villu,“ sem „kollvarpa heilum heimilum, er þeir kenna það, sem eigi á að kenna, fyrir svívirðilegs gróða sakir.“ Í slíkum tilvikum mun það að hafa hugarfar Krists hjálpa öldungunum að vera djarfir, öfgalausir og einbeittir. — Sjá 1. Korintubréf 5:1-5; Opinberunarbókina 2:20-23; 3:19.
11. Hvaða spurningar tengjast því hvernig við ættum að líkja eftir Kristi?
11 Á ferðum sínum um Galíleu, Samaríu og Júdeu komst Jesús í snertingu við alls konar fólk — karla, konur, börn, sjúka og þá sem sáu hann sem svarinn óvin. Hvernig kom hann fram við þá? Var hann drembilátur og kuldalegur eða viðmótsgóður? Gat hann sett sig í spor fólks og skilið vandamál þess og freistingar? Var hann harður og ósveigjanlegur eða miskunnsamur? Svörin við þessum spurningum segja okkur margt um það hvernig við ættum að líkja eftir Kristi í daglegu lífi. — Rómverjabréfið 15:5; Filippíbréfið 2:5.
Hvernig kom Jesús fram við börn?
12. Hvernig komu lærisveinarnir og Jesús einhverju sinni fram við börn?
12 Við finnum fallega frásögu í Markúsi 10. kafla, 13. til 16. versi um það hvernig Jesús kom fram við börn. Þar segir: „Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá.“ Þess er ekki getið hvers vegna lærisveinarnir brugðust þannig við. Þetta var árið 33 og Jesús var á leið frá Galíleu frá Pereu til þess sem reyndist vera lokaþáttur þjónustu hans í Jerúsalem og næsta nágrenni. Kannski þótti þeim Jesús of mikilvægur eða of önnum kafinn til að gefa börnum gaum. En fannst honum hann eiga of annríkt? „Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá [lærisveinana]: ‚Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.‘ . . . Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.“
13. Hvernig leit fólk á Jesú?
13 Hvað annað kennir þetta okkur um hugarfar Krists? Það sýnir að hann var ákveðinn við lærisveinana þegar þeir höfðu rangt fyrir sér og góðhjartaður gagnvart þeim sem minna máttu sín. Hann skildi hvað foreldrunum gekk til með því að koma með börnin. Þeir vildu að hann snerti þau og blessaði. Og hvað segir það okkur um Jesú? Að fólk var ekki hrætt við hann né bar óttablandna lotningu fyrir honum. Hann gat umgengist alls konar menn og fólk vildi vera í návist hans. Jafnvel börnum leið vel hjá honum — og honum líkaði nærvera barna ágætlega. Líður öðru fólki, þeirra á meðal börnum, vel í návist þinni? — Markús 1:40-42; Matteus 20:29-34.
14. Hverjir ættu sérstaklega að líkja eftir fordæmi Jesú í því að vera viðmótsgóðir?
14 Jesús sýndi hlýju og góðvild. (Markús 9:36, 37) Hann var opinn og auðvelt að nálgast hann. Hefur þú sem ert lærisveinn hans sama hugarfar í þessu efni? Kristnir umsjónarmenn, sem starfa í söfnuðum, farandsvæðum, farandumdæmum og á deildarskrifstofum Varðturnsfélagsins hringinn í kringum hnöttinn, ættu að spyrja sig: Er ég kreddufastur og ósveigjanlegur eða læt ég öðrum, líka börnum, líða vel í návist minni? Eiga aðrir auðvelt með að leita til mín? — Orðskviðirnir 12:18; Prédikarinn 7:8.
Framkoma Jesú við konur
15, 16. Hvernig var Jesús ólíkur öðrum Gyðingum í framkomu sinni gagnvart konum?
15 Við sem erum öldungar, þjónar og bræður í kristna söfnuðinum, höfum við hugarfar Krists í samskiptum við kristnar systur okkar og konur almennt? Hvernig kom Kristur, sem var einhleypur, fram gagnvart konum í sinni tíð?
16 Í þjóðfélagi Gyðinga, þar sem karlar réðu öllu, var Jesús óvenjulegur kennari að því leyti að hann var fús til að tala við konur, meira að segja þær sem ekki voru Gyðingar. (Jóhannes 4:7-30) Þegar hann kom til dæmis á heimili í heiðingjahéraðinu við Týrus og Sídon bað grísk kona hann að hjálpa sér með dóttur sína sem var haldin illum anda. Rétttrúaður Gyðingur hefði undir venjulegum kringumstæðum ekki viljað eiga neitt saman við hana að sælda. En Jesús hlustaði og reyndi trú hennar með því að segja: „Lofaðu börnunum [Gyðingum] að seðjast fyrst, ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana [heiðingja].“ Var tónn Jesú slíkur að hann áliti málið afgreitt? Lokaði hann með kreddufestu fyrir frekari samræður? Greinilega ekki því að konan svaraði háttvíslega: „Satt er það, herra, þó eta hundarnir undir borðinu af molum barnanna.“ Jesús var snortinn af orðum hennar og læknaði dótturina. — Markús 7:24-30.
17. Hvað getum við lært af því hvernig Jesús kom fram við konu sem var kunnur syndari?
17 Jesús var fordómalaus gagnvart konum og dæmdi ekki eftir ytra útliti. (Matteus 22:16) Við annað tækifæri, er hann mataðist í húsi Farísea, leyfði hann þekktum syndara, hugsanlega vændiskonu, að þvo fætur sína og smyrja með olíu. Með verki sínu lét hún í ljós iðrunarhug gagnvart syndugri breytni sinni. (Lúkas 7:36-50) Jesús vísaði henni ekki á bug með alhæfingardómi, sökum þess að hún hafði lifað syndugu lífi. (Sjá einnig Jóhannes 4:7-30.) Hann fyrirgaf henni vegna þess að hún ‚elskaði mikið.‘ Hvað gefur það til kynna um hugarfar Krists? Hann var hluttekningarsamur og skilningsríkur við konur. Getum við ekki komið fram með líkum hætti í söfnuðinum og þjónustu okkar? — Lúkas 19:1-10; Rómverjabréfið 14:10-13; 1. Korintubréf 6:9-11.
Viðskipti Jesú við lærisveina sína
18. (a) Hvernig koma sumir fram við þá sem vinna undir þeirra stjórn? (b) Hvernig kom Jesús fram við lærisveina sína og aðra? (Markús 6:54-56)
18 Stundum finnst þeim sem eru í ábyrgðarstöðum sér ógnað af þeim sem undir þá eru settir. Þeim finnst þeir vera í samkeppni við sig og reyna að bæla þá niður. Stolt og drambsemi kemur upp á yfirborðið. Þeir tala með lítilsvirðingu við undirmenn sína og virða ekki mannlega reisn þeirra. En hvað um Jesú — hvernig kom hann fram við þá sem voru undir hann settir, lærisveina sína? Fengu þeir á tilfinninguna að þeir væru honum óæðri, einskis nýtir, heimskir eða leið þeim vel að vinna með Jesú? — Samanber Matteus 11:28-30; 25:14-23.
19. Hvað kennir Jóhannes 13:1-17 okkur um Jesú?
19 Jóhannes 13. kafli segir frá einhverri áhrifamestu lexíunni sem Jesús kenndi lærisveinum sínum í þessu efni. Við leggjum til að þú lesir vers 1 til 17. Á þeim dögum ferðuðust menn fótgangandi um rykuga vegi og venja var að þjónn þvoði fætur gesta. Jesús tók að sér þetta lítilmótlega starf. Hvaða eiginleiki kom fram hjá honum með því að þvo fætur lærisveina sinna? Hann veitti þeim verklega kennslu í auðmýkt. Hvað lærum við hér um hugarfar Krists? Orð Jesú svara því: „Þjónn er ekki meiri en herra hans né sendiboði meiri þeim, er sendi hann. Þér vitið þetta, og þér eruð sælir, ef þér breytið eftir því.“ — Jóhannes 13:16, 17.
20. Hvaða sjálfsrannsókn getum við gert til að kanna hvort við höfum hugarfar Krists?
20 Höfum við hugarfar Krists í þessu efni? Erum við fús til að vinna lítilmótleg verk á heimili okkar eða í söfnuðinum? Viljum við heldur vinna aðeins þau störf sem virðast „þýðingarmikil“ eða „sérstök“? Erum við fús til að taka þátt í að prédika fagnaðarerindið hús úr húsi sem stundum hefur auðmýkingu í för með sér? Höfum við aðeins áhuga á verkefnum uppi á ræðupalli Ríkissalarins? Það að hafa hugarfar Krists lætur okkur vera auðmjúk og viðmótsþýð eins og Jesús var. — Rómverjabréfið 12:3.
21. Hvernig lét Jesús í ljós samhug með postulum sínum? Með fjöldanum?
21 Einu sinni, að lokinni sérstakri prédikunarherferð, sýndi Jesús postulunum sérstaka tillitssemi. Þótt Jesús væri fullkominn ætlaðist hann ekki til fullkomleika af öðrum. Þegar postularnir komu til baka að prédikuninni lokinni heimtaði hann ekki að þeir færu strax út á akurinn aftur og gerðu enn betur. Hann tók tillit til að þeir þurftu að hvílast og fór með þá á afskekktan stað þar sem þeir gátu verið einir. En þegar mannfjöldi fylgdi þeim varð Jesús ekki afundinn og óþolinmóður. Hann „kenndi í brjósti um“ fólkið, að því er frásagan segir. — Markús 6:30-34.
22. Hvað getur hjálpað okkur að kynnast hugarfari Krists enn betur?
22 Með þetta góða fordæmi Jesú í huga, er þá nokkur furða að flestir postulanna skyldu vera trúfastir fylgjendur Krists? Pétur var vissulega djúpt snortinn af því sem hann lærði af nánum félagsskap sínum við Jesú. Sennilegt er að hann hafi veitt Markúsi flestar þær upplýsingar sem guðspjall hans greinir frá. Og hægt og markvisst aðlagaði Pétur sig hugarfari Krists. Athugun á fyrra bréfi hans er okkur hjálp til að feta enn betur í fótspor Jesú. — Matteus 16:15-17, 21-23.
Manst þú?
◻ Hvernig getum við haft hugarfar Krists?
◻ Hvers konar maður var Jesús?
◻ Hvernig kom Jesús fram við börn og konur?
◻ Hvað lærum við af því hvernig Jesús kom fram við lærisveina sína?
[Mynd á blaðsíðu 8]
Jesús var hluttekningarsamur og fór ekki í felur með tilfinningar sínar.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Jesús var hugrakkur athafnamaður.
[Mynd á blaðsíðu 13]
Jesús gaf einstakt fordæmi um auðmýkt.