Verið velkomin á besta lífsveginn!
„Hvort sem við þess vegna lifum eða deyjum þá erum við Drottins.“ — RÓMV. 14:8.
1. Hvað kenndi Jesús um besta lífsveginn?
JEHÓVA vill að við fáum það besta út úr lífinu. Fólk getur lifað lífinu á ýmsa vegu en það er aðeins ein leið sem er best. Við getum ekki fylgt betri lífsstefnu en þeirri að hlýða orði Guðs og læra af syni hans Jesú Kristi. Jesús kenndi fylgjendum sínum að tilbiðja Guð í anda og sannleika og gaf þeim fyrirmæli um að gera menn að lærisveinum. (Matt. 28:19, 20; Jóh. 4:24) Með því að lifa í samræmi við leiðbeiningar Jesú gleðjum við Jehóva og njótum blessunar hans.
2. Hvernig brugðust margir við fagnaðarerindinu á fyrstu öldinni og hvað fólst í því að tilheyra „veginum“?
2 Þegar auðmjúkt fólk tekur trú og lætur skírast getum við sagt af sannfæringu: Verið velkomin á besta lífsveginn! Á fyrstu öldinni tóku þúsundir manna af ýmsum þjóðum við sannleikanum og létu hollustu sína við Guð opinberlega í ljós með því að láta skírast. (Post. 2:41) Þessir nýju lærisveinar tilheyrðu „veginum“. (Post. 9:2; 19:23) Þessi nafngift var vel við hæfi því að þeir sem urðu fylgjendur Krists tileinkuðu sér lífsstefnu sem byggðist á að trúa á Jesú Krist og fylgja fordæmi hans. — 1. Pét. 2:21.
3. Af hverju lætur fólk Jehóva skírast og hve margir hafa skírst á síðastliðnum tíu árum?
3 Á þessum síðustu dögum hefur verið settur aukinn kraftur í að gera menn að lærisveinum og fer þetta starf nú fram í meira en 230 löndum. Á síðastliðnum tíu árum hafa yfir 2.700.000 manns tekið þá ákvörðun að þjóna Jehóva og látið skírast til tákns um vígslu sína. Þetta er að meðaltali rúmlega 5000 einstaklingar á viku! Sá sem lætur skírast gerir það vegna þess að hann elskar Guð, hefur aflað sér biblíuþekkingar og trúir því sem Biblían kennir. Skírn markar tímamót í lífi okkar því að hún er upphafið að nánu sambandi við Jehóva. Með skírninni sýnum við auk þess að við treystum því að hann hjálpi okkur að þjóna sér trúfastlega, rétt eins og hann hjálpaði þjónum sínum til forna að ganga á hans vegum. — Jes. 30:21.
Af hverju að láta skírast?
4, 5. Nefndu sumt af því sem skírnin hefur í för með sér.
4 Ef til vill hefur þú aflað þér þekkingar á Guði, gert breytingar á lífi þínu og ert núna óskírður boðberi. Þú átt hrós skilið fyrir það. En hefurðu vígt þig Guði í bæn og stefnirðu að skírn? Af biblíunámi þínu veistu líklega nú þegar að líf þitt ætti að snúast um að lofa Jehóva en ekki aðeins um að þóknast sjálfum þér eða afla þér efnislegra hluta. (Lestu Sálm 148:11-13; Lúk. 12:15.) En hvernig er það okkur til góðs að láta skírast og hvaða blessun fylgir því?
5 Þegar þú gerist vottur Jehóva þjónar líf þitt göfugum tilgangi. Þú finnur til gleði vegna þess að þú gerir vilja Guðs. (Rómv. 12:1, 2) Heilagur andi Jehóva hjálpar þér að þroska með þér góða eiginleika eins og frið og trú. (Gal. 5:22, 23) Guð bænheyrir þig og blessar viðleitni þína til að laga líf þitt að orði hans. Þú hefur ánægju af boðunarstarfinu og vonin um eilíft líf styrkist við að lifa lífi sem er velþóknanlegt Guði. Þar að auki sýnirðu með vígslu þinni og skírn að þig langi innilega til að vera vottur Jehóva. — Jes. 43:10-12.
6. Hvað er skírnin yfirlýsing um?
6 Með því að vígjast Jehóva og láta skírast lýsum við því opinberlega yfir að við tilheyrum honum. „Því að enginn okkar lifir sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér,“ skrifaði Páll postuli. „Ef við lifum, lifum við Drottni, ef við deyjum, deyjum við Drottni. Hvort sem við þess vegna lifum eða deyjum þá erum við Drottins.“ (Rómv. 14:7, 8) Guð hefur sýnt okkur þá virðingu að gefa okkur frjálsan vilja. Þegar við höfum ákveðið að fylgja þessari lífsstefnu vegna kærleika okkar til Guðs gleðjum við hjarta hans. (Orðskv. 27:11) Skírnin er bæði tákn um vígslu okkar við Guð og opinber yfirlýsing um að við lútum honum. Þannig sýnum við að við höfum tekið afstöðu með honum í deilumálinu um drottinvald yfir alheiminum. (Post. 5:29, 32) Og Jehóva styður okkur á móti. (Lestu Sálm 118:6.) Skírn opnar okkur auk þess tækifæri til að hljóta margar aðrar blessanir núna og í framtíðinni.
Við fáum að tilheyra kærleiksríku bræðralagi
7-9. (a) Hverju lofaði Jesús þeim sem yfirgáfu allt og fylgdu honum? (b) Hvernig eru orð Jesú í Markúsi 10:29, 30 að rætast?
7 Pétur postuli sagði við Jesú: „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum við hljóta?“ (Matt. 19:27) Pétur vildi vita hvaða framtíð biði sín og annarra lærisveina Jesú. Þeir höfðu fært miklar fórnir til að helga sig boðunarstarfinu. (Matt. 4:18-22) Hverju lofaði Jesús þeim?
8 Samkvæmt samsvarandi frásögu Markúsar gaf Jesús til kynna að lærisveinar hans yrðu hluti af andlegu bræðralagi. Hann sagði: „Enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma heimili, bræður og systur, mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komanda heimi eilíft líf.“ (Mark. 10:29, 30) Kristnir einstaklingar á fyrstu öld, eins og Lýdía, Akvílas, Priskilla og Gajus, voru meðal þeirra sem buðu fram „heimili“ sín og urðu „bræður og systur [og] mæður“ trúsystkina sinna rétt eins og Jesús hafði lofað. — Post. 16:14, 15; 18:2-4; 3. Jóh. 1, 5-8.
9 Orð Jesú eru að rætast í enn ríkari mæli nú á dögum. ,Akrarnir‘, sem fylgjendur hans yfirgefa, vísa til atvinnu sem margir hafa fúslega sagt skilið við til að geta eflt hag Guðsríkis í ýmsum löndum. Þetta á til dæmis við um trúboða, sjálfboðaliða sem vinna við byggingarstörf á alþjóðavettvangi, þá sem þjóna á Betel og aðra. Margir bræður og systur hafa yfirgefið heimili sín til að einfalda líf sitt og það gleður okkur að heyra þau segja frá því hvernig Jehóva hefur séð fyrir þeim og hvernig þjónustan hefur veitt þeim hamingju. (Post. 20:35) Þar að auki geta allir skírðir þjónar Jehóva notið þeirrar blessunar að ,leita fyrst ríkis hans og réttlætis‘ sem hluti af alheimsbræðralagi. — Matt. 6:33.
Við erum óhult „í skjóli Hins hæsta“
10, 11. Hvað er ,skjól hins hæsta‘ og hvernig komumst við þangað?
10 Vígsla og skírn veita aðra blessun — að mega sitja „í skjóli Hins hæsta“. (Lestu Sálm 91:1.) Um er að ræða táknrænan stað þar sem við erum óhult og engin hætta er á að við verðum fyrir andlegu tjóni. Og staðurinn er öruggt skjól vegna þess að þeir sem hafa ekki andlega sjón og treysta ekki Guði vita ekki af honum. Með því að lifa í samræmi við vígsluheit okkar og treysta Jehóva fullkomlega erum við í raun að segja við hann: „Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á.“ (Sálm. 91:2) Jehóva Guð verður þar með öruggt athvarf okkar. (Sálm. 91:9) Er hægt að biðja um eitthvað betra?
11 Að komast í skjól Jehóva gefur líka til kynna að við höfum eignast náið samband við hann sem er mikil blessun. Þetta hefst með því að vígjast honum og skírast. Eftir það treystum við þetta samband með því að nálgast Guð með innilegum bænum, biblíunámi og algerri hlýðni. (Jak. 4:8) Enginn hefur verið jafn nærri Jehóva og Jesús var. Og hann ber óhagganlegt traust til skaparans. (Jóh. 8:29) Við skulum því aldrei efast um Jehóva, löngun hans eða mátt til að hjálpa okkur að efna vígsluheitið. (Préd. 5:3) Allt sem Guð hefur séð fólki sínu fyrir er óyggjandi sönnun þess að hann elski okkur heitt og vilji að okkur farnist vel í þjónustunni við hann.
Metum mikils andlegu paradísina
12, 13. (a) Hvað er andleg paradís? (b) Hvernig getum við hjálpað nýjum í söfnuðinum?
12 Við vígslu og skírn fáum við líka að njóta þess að vera í andlegri paradís. Þetta er andlegt umhverfi trúsystkina sem eiga frið við Jehóva Guð og hvert annað. (Sálm. 29:11; Jes. 54:13) Heimurinn hefur ekkert upp á að bjóða sem líkist þessari andlegu paradís. Þetta kemur einkum í ljós á alþjóðamótum þar sem bræður okkar og systur af mörgum þjóðum, málahópum og þjóðflokkum koma saman í friði og þar ríkir eining og bróðurelska.
13 Þessi andlega paradís stingur mjög í stúf við hið ömurlega ástand sem ríkir í heiminum. (Lestu Jesaja 65:13, 14.) Með því að boða fagnaðarerindið um ríkið fáum við að bjóða öðrum að koma í þessa andlegu paradís. Það er líka mikil blessun að mega hjálpa þeim sem hafa nýlega tengst söfnuðinum og hefðu hag af því að fá þjálfun í boðunarstarfinu. Undir umsjón öldunganna getum við fengið að aðstoða nýja rétt eins og Akvílas og Priskilla sem „skýrðu nánar fyrir [Apollósi] Guðs veg.“ — Post. 18:24-26.
Höldum áfram að læra af Jesú
14, 15. Hvaða góðu ástæður höfum við til að halda áfram að læra um Jesú?
14 Við höfum margar ástæður til að halda áfram að læra af Jesú. Hann vann um ómunatíð við hlið föður síns áður en hann kom til jarðar. (Orðskv. 8:22, 30) Hann vissi að besti lífsvegurinn væri sá að þjóna Guði og bera sannleikanum vitni. (Jóh. 18:37) Honum var ljóst að það hefði verið eigingjarnt og skammsýnt að velja annan lífsveg. Hann vissi að hann yrði fyrir miklum prófraunum og yrði tekinn af lífi. (Matt. 20:18, 19; Hebr. 4:15) Hann er fyrirmynd okkar og kenndi okkur hvernig við getum verið ráðvönd.
15 Skömmu eftir að Jesús lét skírast reyndi Satan að fá hann til að yfirgefa besta lífsveginn — en tókst það ekki. (Matt. 4:1-11) Þetta kennir okkur að við getum verið ráðvönd óháð því hvað Satan gerir. Satan mun líklega einbeita sér að þeim sem stefna að skírn og þeim sem hafa nýlega látið skírast. (1. Pét. 5:8) Við gætum fundið fyrir andstöðu frá fjölskyldunni og ættingjum sem hafa fengið rangar upplýsingar um Votta Jehóva og vilja vernda okkur. En slíkar prófraunir veita okkur tækifæri til að sýna góða kristna eiginleika eins og virðingu og háttvísi þegar við svörum spurningum og vitnum um sannleikann. (1. Pét. 3:15) Það getur haft jákvæð áhrif á þá sem hlusta á okkur. — 1. Tím. 4:16.
Haltu þig á besta lífsveginum!
16, 17. (a) Hvaða þrjár grundvallarkröfur til að hljóta líf koma fram í 5. Mósebók 30:19, 20? (b) Hvernig studdu Jesús, Jóhannes og Páll það sem Móse skrifaði?
16 Um 1500 árum áður en Jesús kom til jarðar hvatti Móse Ísraelsmenn til að velja besta lífsveginn sem þá var í boði. Hann sagði: „Ég kveð bæði himin og jörð til vitnis gegn ykkur í dag: Ég hef lagt fyrir þig líf og dauða, blessun og bölvun. Veldu þá lífið svo að þú og niðjar þínir megið lifa með því að elska Drottin, Guð þinn, hlýða boði hans og halda þér fast við hann.“ (5. Mós. 30:19, 20) Ísraelsþjóðin var Guði ótrú en þær þrjár grundvallarkröfur, sem Móse nefndi og eru forsendur þess að fá að lifa, hafa ekki breyst. Seinna meir endurtóku Jesús og aðrir þær.
17 Í fyrsta lagi verðum við að ,elska Drottin, Guð okkar‘. Við sýnum að við elskum Guð með því að hegða okkur í samræmi við réttláta staðla hans. (Matt. 22:37) Í öðru lagi verðum við að ,hlýða boði Guðs‘ með því að lesa Biblíuna og fara eftir lögum hans. (1. Jóh. 5:3) Þetta útheimtir að við sækjum reglulega safnaðarsamkomur þar sem rætt er um Biblíuna. (Hebr. 10:23-25) Í þriðja lagi verðum við að ,halda okkur fast við Guð‘. Við skulum alltaf iðka trú á Guð og fylgja syni hans óháð því sem við verðum fyrir. — 2. Kor. 4:16-18.
18. (a) Hvernig var sannleikanum lýst í Varðturninum árið 1914? (b) Hvað ætti okkur að finnast um ljós sannleikans á okkar dögum?
18 Það er mikil blessun sem fylgir því að lifa í samræmi við sannleika Biblíunnar. Árið 1914 birtist þessi merkilega fullyrðing í Varðturninum: „Njótum við ekki hamingju og gæfu? Er Guð ekki trúfastur? Ef einhver veit um eitthvað betra skal hann velja það. Ef einhver ykkar finnur eitthvað betra vonum við að þið segið okkur frá því. Við vitum ekki um neitt betra en það sem við höfum fundið í orði Guðs . . . Það er ekki hægt að lýsa friðinum, gleðinni og blessuninni sem skýr þekking á hinum sanna Guði hefur leitt inn í líf okkar og hjörtu. Við höfum kynnst visku, réttlæti, mætti og kærleika Guðs og sú þekking sér okkur að fullu fyrir því sem hugur okkar og hjarta þráir. Við þurfum ekki að leita lengra. Við þráum það eitt að vaxa að þekkingunni á Guði.“ (Varðturninn á ensku, 15. desember 1914, bls. 377-378) Þakklæti okkar fyrir andlega ljósið og sannleikann hefur ekki dvínað. Við höfum jafnvel enn meiri ástæðu til að fagna yfir því að við „göngum í ljósi Drottins“. — Jes. 2:5; Sálm. 43:3; Orðskv. 4:18.
19. Hvers vegna ættu þeir sem eru hæfir til að láta skírast ekki að draga það?
19 Ef þú vilt ,ganga í ljósi Drottins‘ en hefur enn ekki vígt þig honum og látið skírast skaltu ekki draga það. Gerðu það sem þarf til að þú standist þær biblíulegu kröfur sem skírnþegar þurfa að uppfylla. Með skírninni fáum við einstakt tækifæri til að sýna þakklæti fyrir það sem Guð og Kristur hafa gert fyrir okkur. Gefðu Jehóva það dýrmætasta sem þú átt — líf þitt. Sýndu að þú ætlar að gera vilja Guðs með því að fylgja syni hans. (2. Kor. 5:14, 15) Það er án nokkurs vafa besti lífsvegurinn!
Hvert er svarið?
• Hvað táknar skírnin?
• Hvaða blessun fylgir því að vígjast Guði og láta skírast?
• Af hverju er það svo mikilvægt að læra af Jesú?
• Hvað hjálpar okkur að halda okkur á besta lífsveginum?
[Mynd á bls. 25]
Með því að láta skírast sýnirðu að þú hefur valið besta lífsveginn.
[Myndir á bls. 26]
Ertu óhultur „í skjóli Hins hæsta“?