Kafli 109
Jesús fordæmir andstæðinga sína
JESÚS hefur rekið trúarlega andstæðinga sína á gat svo að þeir þora ekki að spyrja hann neins framar. Hann afhjúpar því fáfræði þeirra að eigin frumkvæði. „Hvað virðist yður um Krist?“ spyr hann. „Hvers son er hann?“
„Davíðs,“ svara farísearnir.
Jesús neitar ekki að Davíð sé holdlegur forfaðir Krists eða Messíasar en spyr áfram: „Hvernig getur þá Davíð, innblásinn andanum [í Sálmi 110], kallað hann drottin? Hann segir: [Jehóva] sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni. Fyrst Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?“
Farísearnir þegja af því að þeir vita ekki hver Kristur, hinn smurði, raunverulega er. Messías er ekki bara einhver mennskur afkomandi Davíðs eins og farísearnir virðast trúa, heldur var hann til áður á himnum og var yfir Davíð eða drottinn hans.
Jesús snýr sér nú að mannfjöldanum og lærisveinunum og varar við fræðimönnunum og faríseunum. Þeir kenna lögmál Guðs og sitja þar með „á stóli Móse“ svo að Jesús hvetur: „Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða.“
Þeir eru hræsnarar og Jesús fordæmir þá með mjög líkum orðum og hann gerði er hann mataðist í húsi farísea nokkrum mánuðum áður. „Öll sín verk gjöra þeir til að sýnast fyrir mönnum,“ segir hann. Og hann nefnir dæmi:
„Þeir breikka minnisborða sína.“ Minnisborðarnir voru lítil hulstur, sem þeir báru á enni sér eða handlegg, með fjórum glefsum úr lögmálinu: 2. Mósebók 13:1-10, 11-16 og 5. Mósebók 6:4-9; 11:13-21. En farísearnir stækka hulstrin til að líta út fyrir að vera kostgæfnir gagnvart lögmálinu.
Jesús heldur áfram og segir að þeir ‚stækki skúfana.‘ Í 4. Mósebók 15:38-40 er Ísraelsmönnum fyrirskipað að gera skúfa eða kögur á klæðafaldi sínum, en farísearnir hafa skúfana stærri en nokkur annar. Þeir gera allt til að láta á sér bera! „Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti,“ segir Jesús.
Því miður hefur þessi löngun til að láta á sér bera jafnvel haft áhrif á lærisveina hans. Hann ráðleggur því: „En þér skuluð ekki láta kalla yður meistara, því einn er yðar meistari og þér allir bræður. Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu, því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum. Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga, því einn er leiðtogi yðar, Kristur.“ Lærisveinarnir verða að losa sig við löngunina að vilja vera fremstir! „Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar,“ áminnir Jesús.
Því næst fordæmir hann fræðimennina og faríseana harðlega og kallar þá hvað eftir annað hræsnara. Þeir ‚læsa himnaríki fyrir mönnum,‘ segir hann, ‚og eta upp heimili ekkna og flytja langar bænir að yfirskini.‘
„Vei yður, blindir leiðtogar!“ segir Jesús. Hann fordæmir faríseana fyrir að hafa ekki andlegt gildismat eins og gerræðisleg túlkun þeirra ber vitni um. Þeir segja til dæmis: „Ef einhver sver við musterið, þá er það ógilt, en sverji menn við gullið í musterinu, þá er það gildur eiður.“ Með því að leggja meiri áherslu á gullið í musterinu en á andlegt gildi tilbeiðslustaðarins afhjúpa þeir siðblindu sína.
Síðan fordæmir hann faríseana, eins og hann gerði áður, fyrir að hirða ekki um það sem „mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti,“ en gefa meiri gaum að því að gjalda tíund af lítilfjörlegum kryddjurtum.
Jesús kallar faríseana ‚blinda leiðtoga sem sía mýfluguna en svelgja úlfaldann.‘ Þeir sía mýflugu úr víninu sínu, ekki aðeins af því að hún er skordýr heldur líka af því að hún er trúarlega óhrein. En að hirða ekki um það sem mikilvægast er í lögmálinu er sambærilegt við að svelgja úlfalda sem er líka trúarlega óhreint dýr. Matteus 22:41-23:24; Markús 12:35-40; Lúkas 20:41-47; 3. Mósebók 11:4, 21-24.
▪ Af hverju þegja farísearnir þegar Jesús spyr þá um orð Davíðs í Sálmi 110?
▪ Hvers vegna stækka farísearnir ritningarhulstrin og skúfana á klæðafaldi sínum?
▪ Hvað ráðleggur Jesús lærisveinum sínum?
▪ Hvaða gerræðislega túlkun gera farísearnir sig seka um og hvernig fordæmir Jesús þá fyrir að hirða ekki um það sem mikilvægast er?