Kafli 112
Seinustu páskar Jesú fara í hönd
ÞRIÐJUDAGURINN 11. nísan er á enda þegar Jesús lýkur við að kenna postulunum á Olíufjallinu. Þetta hefur verið erfiður dagur og annasamur. Nú segir Jesús postulunum, ef til vill á leiðinni til Betaníu þar sem þeir gista um nóttina: „Þið vitið að eftir tvo daga eru páskar og Mannssonurinn verður framseldur til staurfestingar.“
Næsta dag, miðvikudaginn 12. nísan, hvílist Jesús að öllum líkindum með postulunum. Daginn áður hafði hann ávítað trúarleiðtogana opinberlega og honum er ljóst að þeir leita færis að ráða hann af dögum. Hann sýnir sig því ekki á almannafæri á miðvikudegi því að hann vill ekki láta neitt hindra sig í að halda páska með postulum sínum kvöldið eftir.
Á meðan koma æðstuprestarnir og öldungarnir saman í höll Kaífasar æðstaprests. Þá svíður enn undan árás Jesú daginn áður, og nú leggja þeir á ráðin um að handsama hann með svikum og taka hann af lífi. En „ekki á hátíðinni,“ segja þeir, „annars verður uppþot með lýðnum.“ Þeir eru hræddir við fólkið sem hrífst af Jesú.
Meðan trúarleiðtogarnir eru í illsku sinni að leggja á ráðin um að drepa Jesú ber gest að garði. Þeim til undrunar er þar kominn einn af postulum Jesú sjálfs, Júdas Ískaríot, en Satan hefur komið þeirri svívirðilegu hugmynd inn hjá honum að svíkja meistara sinn! Þeir verða himinlifandi þegar Júdas spyr: „Hvað viljið þér gefa mér fyrir að framselja yður Jesú?“ Þeir fallast fúslega á að greiða honum 30 silfurpeninga, en það var þrælsverð samkvæmt Móselögunum. Þaðan í frá leitar Júdas færis að svíkja Jesú í hendur þeirra þegar ekki er fjölmenni í kringum hann.
Þrettándi nísan hefst við sólsetur á miðvikudag. Jesús kom frá Jeríkó á föstudegi, svo að þetta er sjötta og síðasta nóttin sem hann gistir í Betaníu. Daginn eftir, fimmtudag, þarf að leggja síðustu hönd á undirbúning páskahátíðarinnar sem hefst við sólsetur. Þá þarf að slátra páskalambinu og steikja í heilu lagi. Hvar halda þeir hátíðina og hverjir sjá um undirbúninginn?
Jesús hefur ekki sagt það, kannski til að koma í veg fyrir að Júdas skýri æðstuprestunum frá því og þeir handtaki hann meðan hann heldur páska. En núna, sennilega skömmu eftir hádegi á fimmtudag, sendir Jesús þá Pétur og Jóhannes frá Betaníu og segir þeim: „Farið og búið til páskamáltíðar fyrir oss.“
„Hvar vilt þú, að við búum hana?“ spyrja þeir.
„Þegar þið komið inn í borgina, mætir ykkur maður, sem ber vatnsker,“ svarar Jesús. „Fylgið honum inn þangað sem hann fer, og segið við húsráðandann: ‚Meistarinn spyr þig: Hvar er herbergið, þar sem ég get neytt páskamáltíðarinnar með lærisveinum mínum?‘ Hann mun þá sýna ykkur loftsal mikinn, búinn hægindum. Hafið þar viðbúnað.“
Húsráðandinn er eflaust lærisveinn Jesú sem býst kannski við að Jesús biðji um að fá að nota hús hans við þetta sérstaka tækifæri. Hvað sem því líður finna Pétur og Jóhannes allt eins og Jesús sagði þegar þeir koma til Jerúsalem. Þeir sjá því til þess að lambið sé tilbúið og allt annað sé til reiðu þannig að Jesús og postular hans tólf geti haldið páska saman. Matteus 26:1-5, 14-19, vers 2 samkvæmt NW; Markús 14:1, 2, 10-16; Lúkas 22:1-13; 2. Mósebók 21:32.
▪ Hvað gerir Jesús að öllum líkindum á miðvikudegi og hvers vegna?
▪ Hvaða fundur er haldinn á heimili æðstaprestsins og til hvers gengur Júdas á fund trúarleiðtoganna?
▪ Hverja sendir Jesús til Jerúsalem á fimmtudegi og í hvaða tilgangi?
▪ Hvað finna þeir sem Jesús sendir, er sannar enn einu sinni undramátt hans?