Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Markúsarguðspjalls
MARKÚSARGUÐSPJALL er styst guðspjallanna fjögurra og hefur að geyma hraða og áhrifamikla frásögu af starfi Jesú Krists sem stóð í þrjú og hálft ár. Það er skrifað af Jóhannesi Markúsi um 30 árum eftir dauða og upprisu Jesú.
Markúsarguðspjall er greinilega skrifað fyrir lesendur sem voru ekki Gyðingar, einkanlega Rómverja, og það lýsir Jesú sem syni Guðs, kraftaverkamanni og ötulum prédikara. Lögð er meiri áhersla á verk Jesú en kenningar. Markúsarguðspjall styrkir trú okkar á Messías og hvetur okkur til að vera duglegir boðberar fagnaðarerindisins. — Hebr. 4:12.
ÖFLUGT STARF JESÚ Í GALÍLEU
Í fyrstu 14 versunum fjallar Markús um starf Jóhannesar skírara og 40 daga dvöl Jesú í eyðimörkinni. Síðan snýr hann sér að starfi Jesú í Galíleu. Oft bregður fyrir orðum eins og „jafnskjótt“ og „samstundis“ sem ljá frásögunni ákveðinn hraða. — Mark. 1:42; 2:8.
Á innan við þrem árum fer Jesús í þrjár boðunarferðir um Galíleu. Markús lýsir þeim að mestu leyti í tímaröð. Hann sleppir fjallræðunni sem og mörgum af hinum lengri ræðum Jesú.
Biblíuspurningar og svör:
1:15 — Hvaða tími var „fullnaður“? Tíminn var kominn fyrir Jesú til að hefja þjónustu sína. Ríki Guðs var í nánd vegna þess að hann, tilvonandi konungur þess, var á staðnum. Hjartahreint fólk gat hlustað á boðun hans og gert það sem gera þurfti til að hljóta velþóknun Guðs.
1:44; 3:12; 7:36 — Af hverju vildi Jesús ekki láta vekja athygli á kraftaverkum sínum? Hann vildi ekki að fólk drægi ályktanir byggðar á ýkjukenndum eða ef til vill rangfærðum frásögum. Hann vildi að fólk sæi með eigin augum að hann væri Kristur og tæki síðan persónulega ákvörðun á þeirri forsendu. (Jes. 42:1-4; Matt. 8:4; 9:30; 12:15-21; 16:20; Lúk. 5:14) Hann gerði undantekningu á þessu þegar hann læknaði andsetinn mann í byggð Gerasena. Jesús sagði honum að fara heim og segja ættingjum sínum frá. Jesús hafði verið beðinn að yfirgefa svæðið og átti því lítil eða engin samskipti við fólkið sem bjó þar. Nærvera og vitnisburður manns, sem Jesús hafði unnið góðverk á, gat vegið upp á móti neikvæðu umtali vegna svínanna sem drápust. — Mark. 5:1-20; Lúk. 8:26-39.
2:28 — Af hverju er Jesús kallaður „herra hvíldardagsins“? „Lögmálið geymir aðeins skugga hins góða, sem er í vændum,“ skrifaði Páll postuli. (Hebr. 10:1) Eins og kveðið var á um í lögmálinu var haldinn hvíldardagur eftir sex daga vinnuviku, og Jesús læknaði marga á þeim degi. Þetta var fyrirmynd um hina friðsælu hvíld og blessun sem mannkynið á eftir að njóta í þúsundáraríki Krists þegar þjakandi yfirráðum Satans er lokið. Konungur þessa ríkis er því líka „herra hvíldardagsins“. — Matt. 12:8; Lúk. 6:5.
3:5; 7:34; 8:12 — Hvernig vissi Markús hvernig Jesú var innanbrjósts? Markús var hvorki í hópi postulanna 12 né náinn félagi Jesú. Fornar arfsagnir herma að hann hafi fengið mikinn efnivið frá Pétri postula en þeir voru nánir félagar. — 1. Pét. 5:13.
6:51, 52 — Við hvað er átt þegar sagt er að lærisveinarnir hafi „ekki skilið það, sem gjörst hafði með brauðin“? Aðeins fáeinar klukkustundir voru liðnar síðan Jesús mettaði 5000 karlmenn auk kvenna og barna með fimm brauðhleifum og tveim fiskum. „Það, sem gjörst hafði með brauðin“ hefði átt að sýna lærisveinunum fram á að Jehóva Guð hefði gefið Jesú mátt til að vinna kraftaverk. (Mark. 6:41-44) Ef þeir hefðu skilið hvílíkur máttur Jesú var gefinn hefðu þeir ekki undrast svona þegar hann vann það kraftaverk að ganga á vatni.
8:22-26 — Hvers vegna læknaði Jesús blindan mann í tveim áföngum? Hugsanlegt er að það hafi verið af tillitssemi við manninn. Maðurinn hafði verið blindur alla ævi og var vanur að vera í myrkri. Með því að fá sjónina hægt gat hann ef til vill lagað sig að björtu sólarljósinu.
Lærdómur:
2:18; 7:11; 12:18; 13:3. Markús útskýrir fyrir lesendum sínum siði, hugtök, trúaratriði og staðhætti sem ólíklegt er að aðrir en Gyðingar hafi þekkt. Hann tekur fram að farísear hafi haldið „föstu“, að „korban“ merki „musterisfé“, að saddúkear ‚neiti því að upprisa sé til‘ og að Olíufjallið sé „gegnt helgidóminum“. Hann sleppir með öllu ættartölu Messíasar því að hún hafði aðallega þýðingu fyrir Gyðinga. Markús er okkur góð fyrirmynd að þessu leyti. Við þurfum að taka mið af uppruna áheyrenda þegar við erum í boðunarstarfinu eða flytjum ræður á safnaðarsamkomum.
3:21. Nánustu ættingjar Jesú trúðu ekki á hann. Hann skilur því þá sem verða fyrir háði og spotti vantrúaðra ættingja.
3:31-35. Jesús verður andlegur sonur Guðs þegar hann skírist og „Jerúsalem, sem í hæðum er“, verður móðir hans. (Gal. 4:26) Þaðan í frá eru lærisveinar hans honum nákomnari en ættingjar. Af þessu má læra að við eigum að láta sanna tilbeiðslu ganga fyrir öðru í lífinu. — Matt. 12:46-50; Lúk. 8:19-21.
8:32-34. Við ættum að vera á varðbergi ef einhver skyldi hvetja okkur til að vera ekki fórnfús heldur hlífa okkur. Fylgjandi Krists þarf að vera tilbúinn til að ‚afneita sjálfum sér‘, það er að segja að hafna eigingjörnum markmiðum og löngunum. Hann þarf að vera tilbúinn til að ‚taka kross sinn‘ eða kvalastaur og þjást ef þörf krefur. Hann þarf að vera reiðubúinn að þola auðmýkingu og ofsóknir og jafnvel dauða af því að hann er kristinn. Og hann verður að fylgja Jesú stöðuglega. Lærisveinn Jesú Krists þarf að vera fórnfús eins og hann. — Matt. 16:21-25; Lúk. 9:22, 23.
9:24. Við ættum að vera ófeimin að játa trú okkar eða biðja um meiri trú. — Lúk. 17:5.
SÍÐASTI MÁNUÐURINN
Undir árslok 32 kemur Jesús „til byggða Júdeu og yfir um Jórdan“ og enn sem fyrr safnast að honum mikill fjöldi fólks. (Mark. 10:1) Eftir að hafa prédikað þar heldur hann áleiðis til Jerúsalem.
Hann er staddur í Betaníu hinn 8. nísan. Hann liggur þar að borði þegar kona kemur inn og hellir ilmolíu á höfuð honum. Sagt er frá atburðum í tímaröð, allt frá sigurreið Jesú inn í Jerúsalem til upprisu hans.
Biblíuspurningar og svör:
10:17, 18 — Af hverju leiðrétti Jesús manninn sem ávarpaði hann: „Góði meistari“? Með því að afþakka hólið beinir Jesús vegsemdinni að Jehóva og gefur til kynna að Jehóva sé uppspretta alls sem gott er. Og jafnframt vekur hann athygli á þeim grundvallarsannindum að skapari allra hluta, Jehóva Guð, hafi einn rétt til að ákveða hvað sé gott og illt. — Matt. 19:16, 17; Lúk. 18:18, 19.
14:25 — Við hvað átti Jesús þegar hann sagði trúum postulum sínum: „Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins til þess dags, er ég drekk hann nýjan í Guðs ríki“? Jesús var ekki að gefa í skyn að borið væri fram bókstaflegt vín á himnum. Þar sem vín er oft sett í samband við fögnuð er hann að gefa til kynna að það verði mjög gleðilegt að vera með andasmurðum fylgjendum sínum upprisnum í ríki sínu. — Sálm. 104:15; Matt. 26:29.
14:51, 52 — Hver var ungi maðurinn sem „flýði nakinn“? Markús er einn um að segja frá þessu atviki og því má ætla að hann sé að tala um sjálfan sig.
15:34 — Merkja orðin „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ að Jesú hafi skort trú? Nei, við vitum ekki með vissu hvers vegna Jesús sagði þetta. Hugsanlegt er að það merki að hann hafi gert sér grein fyrir því að Jehóva verndaði hann ekki lengur þannig að nú reyndi til hins ýtrasta á ráðvendni hans. Eins má vera að Jesús hafi sagt þetta vegna þess að hann vildi uppfylla það sem spáð var um hann í Sálmi 22:2. — Matt. 27:46.
Lærdómur:
10:6-9. Það er vilji Guðs að hjón haldi saman. Þau ættu því ekki að slíta samvistum í fljótræði heldur leggja sig fram við að sigrast á erfiðleikum í hjónabandinu með því að fara eftir leiðbeiningum Biblíunnar. — Matt. 19:4-6.
12:41-44. Fátæka ekkjan er dæmi sem sýnir að við eigum að styðja sanna tilbeiðslu dyggilega.
[Mynd á blaðsíðu 29]
Af hverju sagði Jesús þessum manni að skýra ættingjum sínum frá því sem hafði hent hann?