Kafli 118
Svikráð og handtaka
ÞAÐ er komið langt fram yfir miðnætti þegar Júdas leiðir mikinn flokk hermanna, æðstupresta, farísea og annarra inn í Getsemanegarðinn. Prestarnir hafa fallist á að greiða Júdasi 30 silfurpeninga fyrir að svíkja Jesú í hendur þeim.
Eftir öllu að dæma fór Júdas rakleiðis til æðstuprestanna eftir að honum var vísað frá páskamáltíðinni. Þeir kölluðu þegar í stað saman verði sína og flokk hermanna. Kannski fór Júdas fyrst með þá þangað sem Jesús og postularnir höfðu haldið páskahátíðina. Þegar í ljós kom að þeir voru farnir fylgdi flokkurinn Júdasi með vopnum, lömpum og blysum út fyrir borgina og yfir Kedrondal.
Júdas þykist viss um hvar hann finni Jesú er hann leiðir fylkinguna upp Olíufjallið. Síðastliðna viku hafa Jesús og postularnir farið fram og aftur milli Betaníu og Jerúsalem og oft komið við í Getsemanegarðinum til að hvílast og ræða saman. En hvernig eiga hermennirnir að þekkja Jesú sem leynist hugsanlega í myrkrinu undir einhverju olíutrénu? Þeir hafa kannski aldrei séð hann fyrr. Júdas ætlar því að gefa þeim merki og segir: „Sá sem ég kyssi, hann er það. Takið hann höndum og færið brott í tryggri vörslu.“
Júdas fer með allan flokkinn inn í garðinn, kemur auga á Jesú ásamt postulunum og gengur beint til hans. „Heill, rabbí!“ segir hann og kyssir hann blíðlega.
„Vinur, hví ertu hér?“ segir Jesús hvasst. Hann svarar spurningunni sjálfur og segir: „Júdas, svíkur þú Mannssoninn með kossi?“ En nóg um þennan svikara! Jesús gengur fram í ljósið frá blysunum og lömpunum og spyr: „Að hverjum leitið þér?“
„Að Jesú frá Nasaret,“ er svarað.
„Ég er hann,“ svarar Jesús og stendur hugrakkur frammi fyrir þeim öllum. Mönnunum bregður við dirfsku hans, hopa á hæl og falla til jarðar því þeir vita ekki hverju þeir eiga að búast við.
„Ég sagði yður, að ég væri hann,“ segir Jesús stillilega. „Ef þér leitið mín, þá lofið þessum að fara.“ Skömmu áður en þeir yfirgáfu loftsalinn sagði Jesús föður sínum í bæn að hann hefði gætt trúfastra postula sinna og enginn þeirra hefði glatast nema „sonur glötunarinnar.“ Til að orð hans rætist biður hann um að fylgjendur sínir megi fara.
Þegar hermennirnir átta sig, standa upp og gera sig líklega til að binda Jesú sjá postularnir að hverju stefnir. „Herra, eigum vér ekki að bregða sverði?“ spyrja þeir. Áður en Jesús svarar mundar Pétur annað sverðið sem postularnir höfðu meðferðis, og ræðst á Malkus, þjón æðstaprestsins. Sverðið geigar en sníður af honum hægra eyrað.
„Hér skal staðar nema,“ segir Jesús og skakkar leikinn. Hann snertir eyra Malkusar og græðir sárið. Síðan kennir hann þeim þýðingarmikla lexíu og skipar Pétri: „Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla. Hyggur þú, að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla?“
Jesús er fús til að láta handtaka sig því hann segir: „Hvernig ættu þá ritningarnar að rætast, sem segja, að þetta eigi svo að verða?“ Hann bætir við: „Á ég ekki að drekka kaleikinn, sem faðirinn hefur fengið mér?“ Hann er fyllilega samþykkur vilja Guðs með sig.
Síðan ávarpar Jesús hópinn: „Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja til að handtaka mig? Daglega sat ég í helgidóminum og kenndi, og þér tókuð mig ekki höndum. En allt verður þetta til þess, að ritningar spámannanna rætist.“
Hermennirnir, foringinn og varðmenn Gyðinga taka Jesú þá höndum og binda hann. Þegar postularnir sjá það yfirgefa þeir Jesú og flýja sem fætur toga. En ungur maður, ef til vill lærisveinninn Markús, er enn í hópnum. Hann kann að hafa verið á heimilinu þar sem Jesús hélt páska og fylgt hópnum þaðan. Nú bera menn kennsl á hann og reyna að taka hann, en hann skilur eftir línklæði sitt og flýr. Matteus 26:47-56; Markús 14:43-52; Lúkas 22:47-53; Jóhannes 17:12; 18:3-12.
▪ Af hverju er Júdas viss um að hann finni Jesú í Getsemanegarðinum?
▪ Hvernig sýnir Jesús umhyggju sína fyrir postulunum?
▪ Hvað gerir Pétur til að verja Jesú en hvað segir Jesús honum um það?
▪ Hvernig sýnir Jesús að hann sé fyllilega samþykkur vilja Guðs með sig?
▪ Hver verður eftir þegar postularnir yfirgefa Jesú og hvað verður um hann?