Traust til Jehóva leiðir til vígslu og skírnar
„Treyst [Jehóva] og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni.“ — SÁLMUR 37:3.
1. Hvaða vitnisburður veraldarvísra manna sýnir að það sé glópska að treysta mennskum leiðtogum?
HVERJUM getum við treyst? Mannlegum leiðtogum? Saga þeirra sýnir að það er mikið glapræði að treysta á ófullkomna menn. Jafnvel veraldarvísir menn viðurkenna það! Þannig sagði evrópska viðskiptatímaritið Vision einu sinni að ‚hið versta við núverandi aðstæður væri það að engin sæi nokkra leið út úr þeim.‘ Og sagnfræðingurinn Robert Heilbroner, sem er sérfróður um hagfræði, sagði: „Það er dálítið annað sem nagar okkur. Það er sá grunur að enginn haldi um stjórnvölinn, að enginn sé fær um að takast á við þau vandamál sem eru að dembast yfir okkur.“
2. Hvað er hægt að segja um hagnaðinn af nútímavísindum?
2 Að vísu hafa orðið miklar framfarir í ýmsum greinum vísinda. En hafa þær allar verið til góðs? Nei, svo er ekki. Rithöfundurinn Lewis Mumford benti á: „Sú skoðun að vélrænar og vísindalegar framfarir væru mönnum sjálfkrafa til góðs . . . er nú orðin algerlega fráleit.“ Sem dæmi um það má nefna súra regnið sem mengar ár og vötn og á þátt í því að drepa tré í milljónatali. Hið ömurlega ástand heimsins — vaxandi glæpir, ofbeldi og hryðjuverk, aukin áfengis- og fíkniefnaánauð, aukning samræðissjúkdóma og hið tvísýna efnahagsástand — ber allt vitni um að það sé gagnslaust fyrir okkur að treysta mennskum leiðtogum.
3. Á hvern ræður orð Guðs okkur að leggja traust okkar?
3 Orð Guðs veitir okkur þessi viðeigandi ráð: „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt. Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.“ (Sálmur 146:3, 4) En hverjum getum við treyst, ef ekki mönnum? Við getum treyst skapara himins og jarðar eins og við lesum: „Blessaður er sá maður, sem reiðir sig á [Jehóva] og lætur [Jehóva] vera athvarf sitt.“ — Jeremía 17:7.
Hvers vegna að treysta á Jehóva?
4. Hverjir eru höfuðeiginleikar Jehóva og hvernig gefa þeir okkur ærna ástæðu til að setja traust okkar á hann?
4 Við höfum margar góðar ástæður til að treysta á Jehóva. Í fyrsta lagi getum við sett traust okkar á hann vegna höfuðeinkenna hans — kærleika, visku, réttvísi og máttar — og annarra stórkostlegra eiginleika. Orð hans fullvissar okkur um að hann sé almáttugur og einn af titlum hans er „Almáttugur Guð.“ (1. Mósebók 28:3) Það er góður grundvöllur til að treysta á hann! Enginn getur staðið á móti Jehóva og enginn getur ónýtt tilgang hans. Hann er einnig alvitur. Hann veit endalokin fyrir frá upphafi og framtíðin er honum eins og opin bók, en auk þess býr í honum allur sjóður þekkingar og visku eins og sjá má af hinum stórfenglegu sköpunarverkum hans. Honum hafa aldrei orðið á ein einustu mistök í nokkru. (Jesaja 46:10; Rómverjabréfið 11:33-35) Þar við bætist að Jehóva er fullkomlega áreiðanlegur, Guð réttlætis og trúfesti. Hann getur ekki farið með lygi. (5. Mósebók 32:4; Títusarbréfið 1:2; Hebreabréfið 6:18) Þar eð óeigingjarn kærleikur er sá eiginleiki sem mest ber á hjá Guði er viðeigandi að sagt skuli um hann: „Guð er kærleikur.“ — 1. Jóhannesarbréf 4:8, 16.
5. Hvaða frásögu geymir orð Guðs sem ber vitni um að honum sé treystandi?
5 Samskipti Jehóva við mannkynið bera því enn frekara vitni að hann sé Guð almættis, visku, réttvísi og kærleika, Guð sem hægt er að treysta. Móse fullvissaði Ísraelsmenn um að Jehóva héldi sáttmála sinn og sýndi trúfesti þeim sem elska hann og halda boðorð hans. (5. Mósebók 7:9) Áður hafði Jehóva varðveitt hinn guðhrædda Nóa og fjölskyldu hans þegar flóðið mikla reið yfir. Guð frelsaði hinn réttláta Lot og dætur hans tvær þegar hann eyddi Sódómu og Gómorru í eldi. Síðar leiddi Guð Ísraelsmenn út af Egyptalandi og gaf þeim Kanaanland í samræmi við loforð sitt við Abraham. (1. Mósebók 7:23; 17:8; 19:15-26) Og frelsaði Jehóva ekki Hebreana þrjá sem var kastað í eldsofninn, svo og Daníel úr ljónagryfjunni? — Daníel 3:27; 6:23.
6. Hvaða nútímasaga ber því vitni að Jehóva sé þess verður að við treystum honum?
6 Nútímavottar Jehóva eru einnig vitnisburður þess að við getum sett traust okkar á hann. Adolf Hitler stærði sig til dæmis af því að hann myndi útrýma vottum Jehóva úr Þýskalandi. Í staðinn var Hitler og nasistaflokki hans útrýmt en vottar Jehóva hafa margfaldast og telja nú yfir 119.000 þar í landi. Æviágrip hundruða votta Jehóva, sem birst hafa í Varðturninum og förunaut hans, Vaknið!, bera því auk þess vitni að Jehóva er sá Guð sem við getum treyst á.
Hvers vegna sumir treysta ekki á Jehóva
7. Hvers vegna sagði maður einn að hann væri „sjónarvottur Jehóva“?
7 Þeir eru þó fáir sem setja traust sitt á Jehóva nú á dögum! Jafnvel margir, sem hafa lært um eiginleika hans og dáðir, gera það ekki. Grein sem birtist í tímaritinu U.S. Catholic (janúar 1979) segir um einn slíkan mann: „Þegar sá sem gerði skoðanakönnunina spurði manninn um trú hans svaraði hann: ‚Ætli ég sé ekki sjónarvottur Jehóva.‘ Þegar honum var boðið að skýra málið nánar svaraði hann: ‚Ég trúi í aðalatriðum því sem vottar Jehóva trúa. En ég vil ekki vera altekinn af því.‘“ Blaðið sagði svo: „Einlægur vottur Jehóva á ekki um annað að velja en að vera í ríkum mæli altekinn af því.“
8. Hvaða frumeinkenni láta menn langa til að þjóna Jehóva?
8 Hvers vegna vilja sumir ekki stíga skrefið til fulls? Vegna þess að þeir hafa ekki rétt hjartalag. Menn þurfa að vera „réttilega hneigðir til eilífs lífs.“ (Postulasagan 13:48, NW) Eins og Jesús benti á í dæmisögu sinni um sáðmanninn bera þeir sem taka við sannleikanum ávöxt „í göfugu, góðu hjarta.“ (Lúkas 8:15) Sannleikurinn höfðar ekki til þeirra sem ekki eru einlægir. Hreinskilið og heiðarlegt hjarta er frumskilyrði fyrir því. Sannleikur orðs Guðs höfðar ekki heldur til þeirra sem eru drambsamir. Til þess þarf hógværð og auðmýkt. (Jakobsbréfið 4:6) Sannleikurinn höfðar ekki til þeirra sem eru ánægðir með sjálfa sig og réttlátir í eigin augum. Hins vegar höfðar hann til þeirra sem gera sér grein fyrir andlegri þörf sinni, sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti og andvarpa og kveina yfir þeim svívirðingum sem þeir sjá gerast í heimi nútímans. — Matteus 5:3, 6; Esekíel 9:4.
Traust til Jehóva leiðir til vígslu
9, 10. (a) Hvað er nauðsynlegt áður en maður getur sett traust sitt á Jehóva og hvernig bregðast þeir við sem hafa rétt hjartalag? (b) Á hverja iðka slíkir einstaklingar trú?
9 Áður en einhver getur sett traust sitt á Jehóva þarf hann að heyra um hann. „En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki?“ (Rómverjabréfið 10:14) Þegar þjónar Jehóva prédika sýna þeir sem hafa rétt hjartalag jákvæð viðbrögð, eins og margir gerðu í Þessaloníku til forna. Um þá skrifaði Páll: „Þegar þér veittuð viðtöku því orði Guðs, sem vér boðuðum, þá tókuð þér ekki við því sem manna orði, heldur sem Guðs orði, — eins og það í sannleika er. Og það sýnir kraft sinn í yður, sem trúið.“ — 1. Þessaloníkubréf 2:13.
10 Þegar menn með gott hjartalag læra um Jehóva taka þeir að iðka trú á hann. Það er lífsnauðsyn vegna þess að „án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ (Hebreabréfið 11:6) Þá er þýðingarmikið að iðka trú á son Guðs. „Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss“ — ekkert annað en nafn Jesú Krists. — Postulasagan 4:12.
11. Hvaða ráðum Péturs postula mun traust til Jehóva koma einstaklingi til að fylgja?
11 Sá sem treystir á orð Guðs, á Jehóva og son hans Jesú Krist finnur sig knúinn til að gera það sem Pétur postuli ráðlagði Gyðingum á sínum tíma: „Gjörið því iðrun og snúið yður, að syndir yðar verði afmáðar. Þá munu koma endurlífgunartímar frá augliti [Jehóva].“ (Postulasagan 3:19, 20) Með því að afla sér þekkingar á Jehóva og kröfum hans lærir einstaklingurinn að það sé vilji Guðs að hann verði fylgjandi Jesú Krists. Pétur orðaði það svo: „Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skuluð feta í hans fótspor.“ (1. Pétursbréf 2:21) Jesús sýndi fram á hvað væri fólgið í því þegar hann sagði: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.“ (Matteus 16:24) Það merkir að vígja sig Jehóva Guði til að gera vilja hans og feta í fótspor Jesú Krists.
Vígsla er ekki bara skuldbinding
12. Hvernig er orðið „skuldbinding“ oft notað í kristna heiminum?
12 Kristni heimurinn notar gjarnan orðið „skuldbinding“ um það að gerast kristinn. Okkur er þannig sagt að vakningarprédikarar í Bandaríkjunum „leggi áherslu á persónulega skuldbindingu gagnvart Jesú.“ Rómversk-kaþólskur klerkur talaði um „trúarskuldbindingu kaþólskra.“ Kaþólskur prestur varði einu sinni afskipti sín af stjórnmálum með þessum orðum: „Afskipti af stjórnmálum var framhald af (prestlegri) skuldbindingu minni.“ Fyrirtæki tala gjarnan í auglýsingum um ‚skuldbindingu sína við viðskiptavinina.‘ Í rauninni er hægt að vera skuldbundinn á mörgum sviðum samtímis — í viðskiptum, félagsmálum, stjórnmálum og trúmálum.
13. Hvað er fólgið í vígslu til Jehóva?
13 Vígsla til Jehóva Guðs er hins vegar ekki bara ein skuldbinding til viðbótar. Skuldbinding er einfaldlega samningur eða loforð um að gera eitthvað í framtíðinni. Það að vígjast merkir hins vegar að ‚helga sig algerlega þjónustu eða dýrkun guðdóms eða helga sig heilögum málstað.‘ Flestir láta sér nægja skuldbindingu en ekki vígslu. Það er vafalaust orsökin fyrir því að trú þeirra skuli í flestu líkjast fylgitónlist sem er baksvið annarra athafna. Hún er þægileg á að hlusta en truflar ekki neitt sem einstaklinginn langar í raun og veru til að gera.
14. Hvers vegna er skuldbinding ekki nóg til að þóknast Jehóva Guði?
14 Vígsla til Guðs felur í sér að vilji hans verður þýðingarmesta atriði lífsins. Hún krefst þess að einstaklingurinn haldi hið fyrsta og mesta boðorð sem Jesús gat um þegar hann sagði: „Þú skalt elska [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.“ Jesús lagði áherslu á hvernig þjónusta við Guð útilokaði allt annað þegar hann sagði: „Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ (Markús 12:30; Matteus 6:24) Ljóst er því að skuldbinding ein sér nægir ekki Jehóva Guði.
Hvers vegna vatnsskírn?
15. Hvaða fordæmi gaf Jesús okkur um að játa trú á Guð opinberlega?
15 Hvers vegna þarf að gefa tákn um vígslu til Guðs með vatnsskírn? Sá sem vill verða einn votta Jehóva á ekki annarra kosta völ. Hið sama er að segja ef hann þráir að vera þekktur sem kristinn maður, sem fylgjandi Jesú Krists. „Votturinn trúi“ um Jehóva, Jesús, gaf okkur fyrirmyndina að því þegar hann lét skírast í Jórdanánni. Þar sem Jóhannes var að skíra iðrunarfulla syndara gat hann ekki skilið hvers vegna Jesús vildi láta skírast, en Jesús sagði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ (Opinberunarbókin 1:5; Matteus 3:13-17) Sonur Guðs játaði þannig trú sína opinberlega með því að bjóða sig Jehóva. Þannig gaf hann fordæmi öllum sem þrá að gera vilja Guðs.
16. Hvaða boð gaf Jesús fylgjendum sínum um skírn og hvað sýnir að lærisveinar hans hlýddu því?
16 Skömmu áður en Jesús steig upp til himna til föður síns gaf hann fylgjendum sínum þetta boð: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Frásaga Postulasögunnar sýnir okkur að lærisveinar Jesú fylgdu kostgæfir þessu boði. — Postulasagan 2:40, 41; 8:12; 9:17, 18; 19:5.
17. Hvers vegna er það að stökka vatni á mann ekki fullnægjandi skírn?
17 Hvernig voru þeir skírðir? Fór skírnin fram með þeim hætti að stökkt var á þá vatni eins og venja er í kirkjum kristna heimsins? Nei, öðru nær. Jesús „sté upp úr vatninu“ eftir að hafa verið skírður. Það gefur skýrt til kynna að hann hafi verið kaffærður í vatni. (Markús 1:9, 10) Meira að segja getur ekkert annað talist skírn því að gríska orðið, sem þýtt er „að skíra,“ merkir að „dýfa í kaf.“ — Postulasagan 8:36-39.
18. Hvers vegna er niðurdýfing viðeigandi tákn um vígslu einstaklingsins til Guðs?
18 Slík skírn er mjög viðeigandi tákn um vígslu. Það að fara á kaf í vatnið er eðlilegt tákn þess að einstaklingurinn deyi fyrri lífsstefnu sinni. Þegar honum er lyft upp úr vatninu táknar það að hann rísi upp til nýrrar lífsstefnu. Alveg eins og hjónavígsluathöfn á sinn þátt í að festa brúðhjónum í huga að þau séu orðin hjón, eins er líklegt að vatnsskírn í votta viðurvist hafi varanleg áhrif á skírnþegann. Enginn vafi leikur á því að með skírnarathöfninni ætti vígsla einstaklingsins við Jehóva að greypast óafmáanlega í huga hans sem mikilvægasti atburður lífsins. Við skírnina verða þau þáttaskil í lífi einstaklingsins að hann hættir að þjóna sjálfum sér og byrjar að þjóna Jehóva Guði.
19. Nefndu aðra ástæðu fyrir því að láta skírast.
19 Við skulum ekki láta okkur yfirsjást að vatnsskírnin er forsenda fyrir því að geta haft góða samvisku gagnvart Jehóva. Það kemur glögglega fram í 1. Pétursbréfi 3:21 þar sem segir: „Með því var skírnin fyrirmynduð, sem nú einnig frelsar yður, hún sem ekki er hreinsun óhreininda á líkamanum, heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists.“
Við hvaða aldur skal láta skírast?
20. Hvers vegna eru ungbörn ekki hæf til að láta skírast?
20 Orð Jesú í Matteusi 28:19, 20 sýna að þeir sem gerðir hafa verið lærisveinar hans ættu að láta skírast. Það gefur augaleið að hvítvoðungur eða ungt barn getur ekki uppfyllt kröfur Ritningarinnar í sambandi við skírn. Ómálga barn getur ekki iðkað trú á orð Guðs, á Guð skaparann og á son hans, Jesú Krist. Ómálga barn getur hvorki skilið að heilagur andi er starfskraftur Guðs né iðrast fyrri synda og gefið hátíðlegt heit um að gera vilja Guðs.
21. Er viðeigandi að stálpuð börn láti skírast?
21 Svo er að sjá að sumir meðal votta Jehóva hafi farið út í hinar öfgarnar. Margir kristnir foreldrar bíða uns börnin þeirra eru komin fast að tvítugsaldri áður en þeir vekja máls á skírn við þau. Aftur og aftur fréttum við af stálpuðum börnum og unglingum sem á fullgildan hátt vígja Guði líf sitt algerlega að eigin frumkvæði. Til dæmis vildi ungur sonur öldungs í einlægni láta skírast áður en hann hafði náð táningaaldri. Faðir hans fékk þá þrjá aðra öldunga til að ræða við piltinn spurningar ætlaðar þeim sem hyggjast láta skírast.a Niðurstaða þeirra var sú að drengurinn væri hæfur til að skírast sem vígður þjónn Jehóva Guðs, þótt hann væri enn mjög ungur. Í brautryðjendaskóla á Bahamaeyjum voru nýlega hjón sem áttu tíu ára, skírða dóttur!
22. Hvers geta foreldrar vænst af börnum sínum þegar þeir byggja upp með þeim kristinn persónuleika?
22 Svo virðist sem sumum foreldrum sé áfátt á þessu sviði. Í hvaða mæli nota þeir ‚eldtraust efni‘ til að byggja upp kristinn persónuleika hjá börnum sínum? (1. Korintubréf 3:10-15) Til að það sé hægt þarf hin hreina tilbeiðsla á Jehóva í fyrsta lagi að vera langsamlega þýðingarmesta atriðið í lífi foreldranna. Í öðru lagi þurfa foreldrarnir að fylgja þeim góðu ráðum sem gefin eru í 5. Mósebók 6:6, 7 og Efesusbréfinu 6:4. Árangurinn af því getur orðið sá að foreldrarnir þurfi að halda aftur af börnum sínum, svo að þau skírist ekki of ung, í stað þess að þurfa að hjálpa þeim til að geta stigið það skref síðar.
23. Hvers er krafist eftir að einstaklingurinn hefur náð því stigi að vígjast og láta skírast?
23 Þegar einstaklingur hefur sýnt traust sitt á Jehóva með vígslu og skírn þarf hann að halda áfram að sýna það traust. Næsta grein, „Þjónað sem samverkamenn Jehóva,“ hjálpar okkur að kanna hvað í því felst.
[Neðanmáls]
a Í bókinni Organized to Accomplish Our Ministry eru spurningar sem ætlast er til að allir, er vilja láta skírast sem vottar Jehóva, svari. Þeir sem eru að búa sig undir skírn geta fengið eintak af bókinni.
Hverju svarar þú?
◻ Á hverju sést vel hvílík glópska það er að setja traust okkar á menn?
◻ Hvers vegna gefa eiginleikar Jehóva og verk okkur ærið tilefni til að treysta honum?
◻ Hvers vegna kallar það á vígslu, ekki aðeins skuldbindingu, að setja traust sitt á Jehóva?
◻ Hvernig geta foreldrar innrætt börnum sínum löngun til að vígja sig Jehóva á unga aldri?
[Mynd á blaðsíðu 8]
Við getum sett traust okkar á Jehóva sem hinn mikla frelsara.