Sælir eru þeir sem vaka!
„Sjá, ég kem eins og þjófur. Sæll er sá sem vakir og varðveitir klæði sín.“ — OPINBERUNARBÓKIN 16:15.
1. Hvers megum við vænta þar eð dagur Jehóva er nærri?
HINN mikli dagur Jehóva er nálægur og það þýðir að stríð er í aðsigi! Í sýn sá Jóhannes postuli „óhreina anda,“ sem froskar væru, ganga út til allra „konunga“ eða valdhafa jarðar. Og hvað áttu þeir að gera? „Safna þeim saman til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda“! Jóhannes bætti við: „Þeir söfnuðu þeim saman á þann stað, sem á hebresku kallast Harmagedón.“ — Opinberunarbókin 16:13-16.
2. Hver er Góg frá Magóg og hvað gerist þegar hann ræðst á fólk Jehóva?
2 Innan skamms lætur Jehóva stjórnmálaöfl þessa heimskerfis eyða Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. (Opinberunarbókin 17:1-5, 15-17) Góg frá Magóg, Satan djöfulinn niðurlægður í nágrenni jarðar, fylkir hersveitum sínum til að gera allsherjarárás á friðsamt og að því er virðist varnarlaust fólk Jehóva. (Esekíel 38:1-12) En Guð bjargar fólki sínu. Þá hefst „hinn mikli og ógurlegi dagur [Jehóva].“ — Jóel 3:4; Esekíel 38:18-20.
3. Hvernig myndirðu lýsa þeirri framvindu sem sögð er fyrir í Esekíel 38:21-23?
3 Já, Jehóva bjargar fólki sínu og eyðir hverjum einasta snefli af kerfi Satans þegar við náum því ástandi heimsmála sem kallað er Harmagedón. Lestu spádómsorðin í Esekíel 38:21-23 og sjáðu atburðina fyrir þér. Jehóva beitir mætti sínum með dynjandi steypiregni, skæðum haglsteinum, eyðandi eldi og banvænni drepsótt. Ringulreiðin verður alger þegar sveitir Gógs eru gripnar skelfingu og taka að berjast hver við aðra. Alvaldur Jehóva eyðir sérhverjum óvini sínum, sem eftir er, þegar hann bjargar þjónum sínum á yfirnáttúrlegan hátt. Þegar ‚þrengingin mikla‘ er afstaðin verður ekkert eftir af óguðlegu kerfi Satans. (Matteus 24:21) En jafnvel í dauðateygjunum komast hinir óguðlegu að raun um hver er valdur að ógæfu þeirra. Sigursæll Guð okkar segir sjálfur: ‚Þeir skulu viðurkenna að ég er Jehóva.‘ Þessir óvenjulegu atburðir eiga sér stað á okkar dögum, á næruverutíma Jesú.
Hann kemur sem þjófur
4. Hvernig kemur Jesús til að eyða þessu illa heimskerfi?
4 Hinn dýrlega gerði Drottinn Jesús Kristur sagði: „Sjá, ég kem eins og þjófur.“ Það þýðir að hann kemur skyndilega og óvænt meðan flestir eru í svefni. Þegar Jesús kemur eins og þjófur til að eyða þessu illa heimskerfi verndar hann þá sem eru raunverulega vakandi. Hann sagði Jóhannesi: „Sæll er sá sem vakir og varðveitir klæði sín, til þess að hann gangi ekki nakinn um og menn sjái blygðun hans.“ (Opinberunarbókin 16:15) Hvað merkja þessi orð? Og hvernig getum við haldið okkur andlega vakandi?
5. Hvernig var musterisþjónustunni háttað þegar Jesús var á jörðinni?
5 Yfirleitt var vörður ekki sviptur klæðum þótt hann sofnaði á verðinum. Það gerðist þó í musterinu í Jerúsalem þegar flokkar presta og levíta þjónuðu þar á jarðvistardögum Jesú. Á 11. öld f.o.t. skipaði Davíð konungur hundruð presta og þúsundir aðstoðarlevíta í 24 flokka. (1. Kroníkubók 24:1-18) Í hverjum flokki voru yfir þúsund þjálfaðir starfsmenn sem skiptust á að annast hina ýmsu þætti musterisþjónustunnar eina viku í senn, að minnsta kosti tvisvar á ári. En á laufskálahátíðinni voru allir flokkarnir 24 við störf. Aukaaðstoðar var einnig þörf á páskahátíðinni.
6. Hvað kann Jesús að hafa haft í huga þegar hann sagði: „Sæll er sá sem vakir og varðveitir klæði sín“?
6 Þegar Jesús sagði: „Sæll er sá sem vakir og varðveitir klæði sín,“ má vera að hann hafi verið að vísa til starfshátta sem tengdust varðgæslu í musterinu. Mísna Gyðinga segir: „Prestarnir stóðu vörð á þrem stöðum í musterinu: í Abtínasarsalnum, í logasalnum og í arinsalnum, og levítarnir á 21 stað: fimm við fimm hlið musterishæðarinnar, fjórir við fjögur horn þess inni fyrir, fimm við hliðin fimm á forgarði musterisins, fjórir við fjögur horn hans að utan, einn í fórnasalnum, einn í fortjaldssalnum og einn að baki náðarstólsins [utan við bakvegg hins allra helgasta]. Varðforingi musterishæðarinnar fór um með logandi kyndla á undan sér og kom við hjá hverjum varðmanni, og stæði einhver varðmaður ekki upp og segði: ‚Ó varðforingi musterishæðar, friður sé með þér!‘ og ljóst var að hann svæfi, þá barði varðforinginn hann með staf og mátti brenna búning hans.“ — Mísna, Middóð („Mælingar“), 1, 1.-2. grein, eftir enskri þýðingu Herberts Danbys.
7. Hvers vegna þurftu prestarnir og levítarnir, sem stóðu vörð við musterið, að halda vöku sinni?
7 Hinir mörgu levítar og prestar þjónustuflokksins vöktu alla nóttina og stóðu vörð til að koma í veg fyrir að nokkur óhreinn kæmist inn í forgarða musterisins. Þar eð „varðforingi musterishæðarinnar“ eða „helgidómsins“ kom við á öllum vaktstöðunum 24 á hverri næturvöku varð hver einasti varðmaður að halda sér vakandi ef hann vildi ekki láta koma sér að óvörum. — Postulasagan 4:1.
8. Hver eru hin táknrænu klæði kristins manns?
8 Smurðir kristnir menn og samþjónar þeirra þurfa að halda sér andlega vakandi og varðveita táknræn klæði sín. Þessi klæði eru ytra tákn þess að við séum skipuð til þjónustu í andlegu musteri Jehóva. Til merkis um það höfum við heilagan anda Guðs eða starfskraft til að hjálpa okkur að rækja skyldur okkar og sérréttindi sem boðberar Guðsríkis. Ef við sofnum á verðinum sem þjónar Guðs setjum við okkur í þá hættu að Jesús Kristur, varðforingi hins mikla andlega musteris, komi okkur að óvörum. Ef við verðum andlega sofandi þegar þar að kemur verðum við í óeiginlegri merkingu svipt klæðum og táknræn föt okkar brennd. Hvernig getum við haldið okkur andlega vakandi?
Þannig getum við vakað
9. Hvers vegna er biblíunám með hjálp kristinna rita svona þýðingarmikið?
9 Kostgæfilegt biblíunám með hjálp kristinna rita örvar andlega árvekni. Slíkt nám býr okkur undir þjónustuna, hjálpar okkur að bregðast rétt við hættum og vísar okkur veginn til eilífrar hamingju. (Orðskviðirnir 8:34, 35; Jakobsbréfið 1:5-8) Námið ætti að vera rækilegt og framsækið. (Hebreabréfið 5:14–6:3) Reglulegt og gott mataræði getur hjálpað okkur að vera vökul. Það getur komið í veg fyrir þróttleysi og deyfð sem getur bent til vannæringar. Við höfum enga ástæðu til að vera andlega vannærð og syfjuð því að Guð sér okkur ríkulega fyrir andlegri fæðu fyrir milligöngu hins smurða ‚trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45-47) Ein leið til að halda sér vakandi og vera „heilbrigðir í trúnni“ er sú að neyta andlegrar fæðu reglulega, bæði með einka- og fjölskyldunámi. — Títusarbréfið 1:13.
10. Hvernig eru kristnar samkomur og mót okkur hjálp til að halda andlegri vöku okkar?
10 Kristnar samkomur og mót hjálpa okkur að vera andlega vakandi. Þau eru uppörvandi og bjóða upp á tækifæri til að ‚hvetja hver annan til kærleika og góðra verka.‘ Sérstaklega ættum við að koma reglulega saman er við sjáum „að dagurinn færist nær.“ Þessi dagur er nú mjög nærri. Þetta er ‚dagur Jehóva‘ þegar hann upphefur drottinvald sitt. Ef þessi dagur er okkur virkilega mikilvægur — og það ætti hann að vera — þá ‚vanrækjum við ekki safnaðarsamkomurnar.‘ — Hebreabréfið 10:24, 25; 2. Pétursbréf 3:10.
11. Hvers vegna má segja að kristið boðunarstarf sé nauðsynlegt til að halda andlegri vöku sinni?
11 Hugheil þátttaka í kristnu boðunarstarfi er nauðsynleg til að halda sér andlega vakandi. Regluleg og kostgæfin þátttaka í prédikun fagnaðarerindisins heldur okkur árvökrum. Boðunarstarfið býður upp á mörg tækifæri til að tala við fólk um orð Guðs, ríki hans og tilgang. Það er ánægjulegt að bera vitni hús úr húsi, fara í endurheimsóknir og stjórna heimabiblíunámskeiðum með hjálp rita eins og bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs. Öldungar í Efesus að fornu gátu vottað að Páll hafði kennt þeim „opinberlega og í heimahúsum.“ (Postulasagan 20:20, 21) Sumir trúfastir vottar Jehóva eiga vissulega við að stríða alvarlegan heilsubrest sem tálmar þeim talsvert að taka þátt í þjónustunni, en þeir finna leiðir til að segja öðrum frá Jehóva og konungdómi hans og hafa mikið yndi af því. — Sálmur 145:10-14.
12, 13. Af hverju ættum við að forðast óhóf í mat og drykk?
12 Við höldum okkur andlega vakandi með því að forðast óhóf. Þegar Jesús talaði um nærveru sína hvatti hann postulana: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð.“ (Lúkas 21:7, 34, 35) Ofát og ölvun gengur í berhögg við meginreglur Biblíunnar. (5. Mósebók 21:18-21) Orðskviðirnir 23:20, 21 segja: „Ver þú ekki með drykkjurútum, með þeim, sem hvoma í sig kjöt, því að drykkjurútar og mathákar verða snauðir, og svefnmók klæðir í tötra.“ — Orðskviðirnir 28:7.
13 Þótt át og drykkja hafi ekki náð því stigi getur það gert mann syfjaðan, jafnvel latan og sinnulausan um að gera vilja Guðs. Að sjálfsögðu hafa menn ýmsar áhyggjur af fjölskyldu sinni, heilsu og öðru slíku. En við erum hamingjusöm ef við látum hagsmuni Guðsríkis ganga fyrir í lífinu og treystum að himneskur faðir okkar sjái fyrir okkur. (Matteus 6:25-34) Að öðrum kosti kemur „dagur sá“ yfir okkur eins og „snara,“ kannski eins og dulbúin gildra sem við festumst snögglega í eða eins og gildra með agni sem lokkar að grunlaus dýr og þau festast svo í. Það gerist ekki ef við höldum vöku okkar og erum okkur fyllilega meðvita um að við lifum á endalokatímanum. — Daníel 12:4.
14. Hvers vegna ættum við að biðja einlæglega?
14 Einlæg bæn er önnur hjálp til að halda andlegri vöku sinni. Jesús hvetur í hinum mikla spádómi sínum: „Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum.“ (Lúkas 21:36) Já, við skulum biðja þess að við megum alltaf standa Jehóva megin og njóta velþóknunar þegar Jesús, Mannssonurinn, kemur til að eyða þessu illa heimskerfi. Við þurfum að ‚vaka og biðja,‘ sjálfum okkur til góðs og trúbræðrum sem við biðjum fyrir. — Kólossubréfið 4:2; Efesusbréfið 6:18-20.
Tíminn er að renna út
15. Hverju kemur þjónusta okkar sem prédikarar réttlætisins til leiðar?
15 Við þráum eflaust að gera allt sem við getum í þjónustu Jehóva er við bíðum hins mikla dags. Ef við biðjum hann einlæglega um það geta okkur opnast „víðar dyr og verkmiklar.“ (1. Korintubréf 16:8, 9) Á tilsettum tíma Guðs mun Jesús fella dóm og skilja réttláta „sauði,“ sem eru verðugir eilífs lífs, frá óguðlegum „höfrum“ sem verðskulda eilífa tortímingu. (Jóhannes 5:22) Við skiljum ekki sjálf sauðina frá höfrunum. Hins vegar veitir þjónusta okkar sem prédikarar réttlætisins fólki tækifæri til að þjóna Guði og hafa þá von að öðlast líf þegar Jesús „kemur í dýrð sinni.“ Hinn skammi tími, sem þetta heimskerfi á eftir, eykur þörfina á að leita kostgæfilega að þeim sem ‚hneigjast til eilífs lífs.‘ — Matteus 25:31-46; Postulasagan 13:4, NW.
16. Hvers vegna ættum við að vera kostgæfnir boðberar Guðsríkis?
16 Tíminn rann út fyrir heiminn á dögum Nóa, og hann rennur bráðlega út fyrir þetta heimskerfi. Við skulum því vera kostgæfnir boðberar Guðsríkis. Prédikunarstarf okkar ber ávöxt því að ár hvert skírast hundruð þúsunda manna til tákns um að þeir hafi vígst Guði. Þeir verða hluti af skipulagi Jehóva — ‚lýð hans og gæsluhjörð.‘ (Sálmur 100:3) Hvílík gleði að taka þátt í prédikun Guðsríkis sem veitir svo mörgum von fyrir ‚hinn mikla og ógurlega dag Jehóva‘!
17, 18. (a) Hvaða viðbrögðum við prédikun okkar megum við búast við frá sumum? (b) Hvernig fer örugglega fyrir spotturum?
17 Við njótum stuðnings Guðs og verndar líkt og Nói. Já, fólkið, hinir holdguðu englar og risarnir hljóta að hafa skopast að boðskap Nóa, en það stöðvaði hann ekki. Núna skopast sumir að þegar við bendum á yfirgnæfandi rök fyrir því að við lifum á „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Slíkt spott er uppfylling biblíuspádóms um nærveru Krists því að Pétur skrifaði: „Á hinum síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum og segja með spotti: ‚Hvað verður úr fyrirheitinu um komu [„nærveru,“ NW] hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar.‘“ — 2. Pétursbréf 1:16; 3:3, 4.
18 Spottarar nútímans hugsa kannski sem svo: ‚Ekkert hefur breyst frá sköpun heims. Lífið gengur sinn gang og fólk etur, drekkur, giftist og eignast börn. Jafnvel þótt Jesús sé nærverandi fullnægir hann ekki dómi meðan ég lifi.‘ Þeir eru sannarlega að vaða reyk! Ef þeir deyja ekki af öðrum orsökum áður, kemur hinn ógurlegi dagur Jehóva örugglega yfir þá, alveg eins og óguðleg kynslóð á dögum Nóa leið undir lok í flóðinu. — Matteus 24:34.
Höldum okkur örugglega vakandi!
19. Hvernig ættum við að líta á starf okkar að gera menn að lærisveinum?
19 Megum við aldrei láta rangar röksemdir svæfa okkur ef við erum vígð Jehóva. Núna er tíminn til að halda vöku sinni, trúa á spádóma Guðs og halda áfram að ‚gera menn af öllum þjóðum að lærisveinum‘ eins og okkur hefur verið falið. (Matteus 28:19, 20) Núna rétt fyrir endalok þessa heimskerfis getum við ekki orðið meiri sérréttinda aðnjótandi en að þjóna Jehóva Guði undir forystu Jesú Krists og taka þátt í prédikun ‚fagnaðarerindisins um ríkið‘ um heim allan áður en endirinn kemur. — Matteus 24:14; Markús 13:10.
20. Hvaða fordæmi gáfu Kaleb og Jósúa og hvað getum við lært af þeim?
20 Sumir hafa þjónað Jehóva um áratuga skeið, jafnvel heila mannsævi. Megum við ‚fylgja Jehóva trúlega‘ eins og Ísraelsmaðurinn Kaleb, þótt kannski sé tiltölulega stutt síðan við tókum upp sanna tilbeiðslu. (5. Mósebók 1:34-36) Þeir Jósúa voru reiðubúnir að ganga inn í fyrirheitna landið skömmu eftir að Ísraelsmenn voru leystir úr fjötrum í Egyptalandi. En flesta fullorðna Ísraelsmenn skorti trú svo að þeir urðu að eyða 40 árum í eyðimörkinni og dóu þar. Kaleb og Jósúa þoldu þrengingarnar ásamt þeim allan þann tíma en gengu svo að lokum inn í fyrirheitna landið. (4. Mósebók 14:30-34; Jósúabók 14:6-15) Ef við ‚fylgjum Jehóva trúlega‘ og höldum okkur andlega vakandi njótum við þeirrar gleði að fá að ganga inn í nýja heiminn sem Guð hefur heitið.
21. Hvað fáum við að reyna ef við höldum okkur andlega vakandi?
21 Það er deginum ljósara að við lifum á endalokatímanum og að hinn mikli dagur Jehóva er nálægur. Núna er ekki rétti tíminn til að verða syfjaður og hirðulaus um það að gera vilja Guðs. Við njótum blessunar aðeins ef við höldum okkar andlega vakandi og varðveitum einkennisklæði okkar sem kristnir boðberar og þjónar Jehóva. Við skulum vera staðráðin í að ‚vaka, standa stöðug í trúnni og vera karlmannleg og styrk.‘ (1. Korintubréf 16:13) Megum við öll sem erum þjónar Jehóva vera staðföst og hugrökk. Þá verðum við í hópi þeirra sem eru viðbúin hinum mikla degi Jehóva, og þjónum trúföst með hamingjusömu fólki sem heldur vöku sinni.
Hvert er svar þitt?
◻ Hver eru táknræn klæði okkar og hvernig getum við varðveitt þau?
◻ Nefndu nokkrar leiðir til að halda andlegri vöku okkar.
◻ Hvers vegna ættum við að reikna með spotturum og hvernig ættum við að líta á þá?
◻ Hvaða augum ættum við að líta það að gera menn að lærisveinum nú á síðustu dögum?
[Innskot á blaðsíðu 26]
Kristnir menn hafa heilagan anda Guðs til að hjálpa sér að vaka og rækja skyldur sínar.
[Mynd á blaðsíðu 25]
Ertu staðráðinn í að halda andlegri vöku þinni og varðveita táknræn klæði þín?