Að komast lifandi gegnum þrenginguna miklu
„Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ — OPINBERUNARBÓKIN 7:14.
1. Hverjir munu bjóða hina upprisnu velkomna í jarðnesku upprisunni?
ÞEGAR óteljandi milljónir manna verða reistar upp í ‚upprisu réttlátra og ranglátra‘ ganga þær ekki fram á auða jörð. (Postulasagan 24:15) Menn vakna til lífs í fögru og breyttu umhverfi og komast að raun um að þeirra bíður húsnæði, fatnaður og nægur matur. Hver undirbýr allt þetta? Ljóst er að það verður fólk fyrir í nýja heiminum áður er jarðneska upprisan hefst. Hverjir? Biblían gefur til kynna að það verði þeir sem lifa af hina komandi miklu þrengingu. Af öllum kenningum Biblíunnar er þetta vafalaust sú forvitnilegasta — að trúfastir menn komist lifandi gegnum þrenginguna miklu og þurfi aldrei að deyja. Þessi von er vel staðfest í Heilagri ritningu.
Eins og dagar Nóa
2, 3. (a) Hvað er líkt með dögum Nóa og okkar tímum? (b) Hvað gefur björgun Nóa og fjölskyldu hans úr flóðinu til kynna?
2 Í Matteusi 24:37-39 bar Jesús saman daga Nóa og hina síðustu daga sem við lifum núna. Hann sagði: „Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins.“
3 Heimsflóðið sópaði burt öllum þeim sem gáfu viðvörunarboðskap Guðs ekki gaum. En það sópaði ekki Nóa og fjölskyldu hans burt. Þau ‚gengu í örkina‘ eins og Jesús sagði. Vegna guðrækni þeirra sá Jehóva þeim fyrir undankomuleið. Síðara Pétursbréf 2:5 og 9 talar um björgun Nóa og fjölskyldu hans og segir: „Hann [Guð] . . . varðveitti Nóa, prédikara réttlætisins, við áttunda mann, er hann lét vatnsflóð koma yfir heim hinna óguðlegu. [Jehóva veit] hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu [„prófraun,“ NW].“ Jesús líkti hinum síðustu dögum við daga Nóa til að sýna að fólk almennt myndi ekki gefa viðvörunarboðskap Guðs gaum. En um leið staðfesti hann líka að Nói og fjölskylda hans hlýddi Jehóva Guði, gekk inn í örkina og lifði flóðið mikla af. Björgun Nóa og fjölskyldu hans gefur til kynna að trúfastir þjónar Guðs bjargist við endi þessa heims.
Fyrirmynd frá fyrstu öld
4. Hvaða atburðir, sem leiddu til eyðingar Jerúsalem árið 70, uppfylltu orð Jesú?
4 Jesús talaði líka um atburði sem áttu að eiga sér stað við endi þessa heims. Við lesum í Matteusi 24:21, 22: „Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða. Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.“ Þessi orð hlutu byrjunaruppfyllingu á fyrstu öld okkar tímatals. Árið 66 settist rómverskur her undir stjórn Cestíusar Gallusar um Jerúsalemborg. Rómversku hersveitirnar komust svo langt að grafa undan musterisveggnum og margir Gyðingar voru tilbúnir til að gefast upp. En óvænt og án sýnilegrar ástæðu hörfaði Cestíus Gallus með hersveitir sínar. Þegar kristnir menn sáu Rómverja hörfa fóru þeir eftir orðum Jesú sem hann hafði mælt mörgum árum áður: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd. Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla, þeir sem í borginni eru, flytjist burt, og þeir sem eru á ekrum úti, fari ekki inn í hana.“ (Lúkas 21:20, 21) Hinir útvöldu, kristnir Gyðingar, yfirgáfu hina dæmdu Jerúsalemborg þegar í stað og komust þannig undan hræðilegri eyðingu borgarinnar skömmu síðar. Árið 70 sneru rómverskar hersveitir aftur undir stjórn Títusar hershöfðingja. Þær reistu herbúðir umhverfis Jerúsalem, settust um hana og lögðu hana í rúst.
5. Í hvaða skilningi var þrenging Jerúsalem stytt árið 70?
5 Sagnfræðingurinn Jósefus, sem var Gyðingur, greinir frá því að 1.100.000 Gyðingar hafi látist en 97.000 komist af og verið hnepptir í þrælkun. Þessir ókristnu Gyðingar voru sannarlega ekki ‚hinir útvöldu‘ í spádómi Jesú. Jesús hafði sagt við hina uppreisnargjörnu Gyðingaþjóð: „Hús yðar verður í eyði látið. Ég segi yður: Héðan af munuð þér eigi sjá mig, fyrr en þér segið: ‚Blessaður sé sá sem kemur, í nafni [Jehóva].‘“ (Matteus 23:38, 39) Engar heimildir eru fyrir því að þessir Gyðingar, sem voru innikróaðir í Jerúsalem, hafi tekið við Jesú sem Messíasi á síðustu stundu, gerst kristnir og öðlast hylli Jehóva. Engu að síður var þrengingin, sem kom yfir Jerúsalem árið 70, stytt. Lokaumsátur rómverska hersins stóð ekki lengi. Það varð til þess að sumir Gyðingar komust af, þó ekki væri nema til þess að vera sendir sem þrælar til ýmissa hluta Rómaveldis.
Mikill múgur bjargast
6, 7. (a) Hvaða mikilli trúarborg verður eytt og í hvaða þrengingu? (b) Hverju spáði Jóhannes um hina komandi miklu þrengingu yfir þessum heimi?
6 Enda þótt eyðing Jerúsalem árið 70 hafi vissulega haft ‚mikla þrengingu‘ í för með sér fyrir þessa trúarborg var lokauppfylling orða Jesú enn ókomin. Enn meiri trúarborg, Babýlon hin mikla, heimsveldi falskra trúarbragða, á eftir að verða fyrir banvænni mikilli þrengingu. Í kjölfar hennar kemur þrenging, sem á sér enga hliðstæðu, yfir það sem eftir er af heimskerfi Satans. (Matteus 24:29, 30; Opinberunarbókin 18:21) Um 26 árum eftir eyðingu Jerúsalem skrifaði Jóhannes postuli um þessa miklu heimsþrengingu í Opinberunarbókinni 7:9-14. Hann sagði frá því að mikill múgur manna myndi komast lifandi gegnum hana.
7 Þessir sem lifa af, ‚múgurinn mikli,‘ þekkjast á einbeittum athöfnum sínum. Að sögn Opinberunarbókarinnar 7:14 sagði einn hinna 24 öldunga á himnum Jóhannesi: „Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ Já, múgurinn mikli hyllir Jehóva sem hjálpræðisuppsprettu sína. Hann trúir á úthellt blóð Jesú og stendur réttlátur frammi fyrir skapara sínum og skipuðum konungi hans, Jesú Kristi.
8. Hvaða náið samband er milli ‚múgsins mikla‘ og þeirra sem eftir eru af smurðum bræðrum Jesú?
8 Núna starfa næstum fimm milljónir manna af múginum mikla undir virkri forystu hins himneska konungs, Jesú Krists. Þeir eru undirgefnir Kristi og í nánu samfélagi við smurða bræður hans sem enn eru á jörðinni. Jesús segir um framkomu múgsins mikla við hina smurðu: „Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“ (Matteus 25:40) Vegna ósérhlífinnar hjálpar sinnar við smurða bræður Krists er múgurinn mikli álitinn gera Jesú sjálfum gott. Það hjálpar honum að treysta sambandið við Jesú Krist og Jehóva Guð. Þeir sem mynda múginn mikla hafa fengið þau sérréttindi að sameinast hinum smurðu leifum í því að verða vottar Guðs og bera dýrlegt nafn hans. — Jesaja 43:10, 11; Jóel 3:4, 5.
Að halda vöku sinni
9, 10. (a) Hvað verðum við að gera til að varðveita réttláta stöðu okkar frammi fyrir Mannssyninum? (b) Hvað þurfum við að gera til að halda ‚vöku‘ okkar?
9 Múgurinn mikli verður án afláts að varðveita réttláta stöðu sína frammi fyrir Mannsyninum og það útheimtir að vera árvakur allt til enda þessa gamla heims. Jesús sagði það greinilega: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð. Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum.“ — Lúkas 21:34-36.
10 Til að okkur auðnist að standast frammi fyrir Mannssyninum verðum við að hafa velþóknun hans. Það gerum við ekki ef við leyfum hugsunarhætti þessa heims að hafa áhrif á okkur. Veraldlegur hugsunarháttur er lokkandi og getur fengið mann til að sökkva sér niður í holdlegar nautnir eða láta vandamál lífsins íþyngja sér svo að hagsmunamál Guðsríkis hætti að ganga fyrir. (Matteus 6:33) Það myndi veikja hann andlega og gera hann sinnulausan um ábyrgð sína gagnvart Guði og öðrum. Hann gæti orðið óvirkur eða stofnað stöðu sinni í söfnuðinum í hættu með því að drýgja alvarlega synd og iðrast jafnvel ekki. Hver og einn af múginum mikla verður að hafa gát á sjálfum sér. Hann verður að halda sér aðgreindum frá þessum óguðlega heimi og háttalagi hans. — Jóhannes 17:16.
11. Hvaða meginreglur Biblíunnar geta hjálpað okkur að lifa Harmagedón af ef við förum eftir þeim?
11 Til að svo megi verða hefur Jehóva séð okkur fyrir því sem við þurfum. Það gerir hann fyrir atbeina orðs síns, heilags anda og sýnilegs skipulags. Við verðum að notfæra okkur allt þetta til fullnustu. Enn fremur verðum við að vera bænrækin og hlýðin Guði ef við eigum að geta vænst þess að njóta hylli hans. Við verðum til dæmis að þroska með okkur ákaft hatur á því sem illt er. Sálmaritarinn sagði: „Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn. Ég hata söfnuð illvirkjanna, sit eigi meðal óguðlegra. Hríf eigi sál mína burt með syndurum né líf mitt með morðingjum.“ (Sálmur 26:4, 5, 9) Í kristna söfnuðinum þurfa jafnt ungir sem gamlir að forðast óþarfan félagsskap við þá sem ekki eru vígðir Jehóva. Til að hljóta velvild Guðs verðum við að kappkosta að vera ámælislaus og óflekkuð af heiminum. (Sálmur 26:1-5; Jakobsbréfið 1:27; 4:4) Þannig fáum við fullvissu um að Jehóva sópi okkur ekki burt í dauðann með óguðlegum mönnum við Harmagedón.
Sumir munu „aldrei að eilífu deyja“
12, 13. (a) Hvað sagði Jesús við Mörtu, sem hún skildi ekki til fulls, áður en hann vakti Lasarus upp frá dauðum? (b) Hvað átti Jesús ekki við er hann sagði að sumir ‚myndu aldrei að eilífu deyja‘?
12 Sá möguleiki að lifa af endi þessa heimskerfis og þurfa aldrei að deyja er hrífandi íhugunarefni. Það eru þær framtíðarhorfur sem Jesús veitti okkur. Rétt áður en hann reisti upp látinn vin sinn, Lasarus, sagði hann Mörtu systur hans: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa [„lifna,“ NW], þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“ Marta trúði á upprisuna en hún skildi samt ekki allt sem Jesús var að segja. — Jóhannes 11:25, 26.
13 Jesús átti ekki við að trúfastir postular hans myndu halda áfram að lifa í holdinu og aldrei deyja. Þvert á móti gaf hann síðar til kynna að lærisveinar hans myndu deyja. (Jóhannes 21:16-23) Smurning þeirra með heilögum anda á hvítasunnudeginum árið 33 þýddi einmitt að þeir yrðu að deyja til að öðlast himneska arfleifð sína sem konungar og prestar. (Opinberunarbókin 20:4, 6) Með tímanum dóu allir kristnir menn fyrstu aldarinnar. En Jesús hafði ástæðu fyrir því sem hann sagði. Orð hans um að lifa án þess að deyja nokkurn tíma munu uppfyllast.
14, 15. (a) Hvernig rætast þau orð Jesú að sumir ‚muni aldrei að eilífu deyja‘? (b) Hvert er ástand þessa heims en hvaða von hafa réttlátir?
14 Trúfastir smurðir kristnir menn munu til dæmis aldrei deyja eilíflega. (Opinberunarbókin 20:6) Orð Jesú vísa einnig til ákveðins tíma í framtíðinni þegar Guð grípur inn í málefni mannanna og afmáir illskuna af jörðinni alveg eins og hann gerði á dögum Nóa. Trúfastir menn, sem eru að gera vilja Guðs á þeim tíma, þurfa ekki að deyja þegar hann fullnægir dómi. Þess í stað fá þeir, eins og Nói og fjölskylda hans, að lifa eyðingu þessa heims af. Slík von er traust af því að hún er byggð á kenningum Biblíunnar og studd dæmum úr henni. (Samanber Hebreabréfið 6:19; 2. Pétursbréf 2:4-9) Uppfylling biblíuspádómanna sýnir að núverandi heimur, með sínu rangláta mannfélagi, ferst mjög bráðlega. Núverandi heimsástandi verður ekki snúið við því að heimurinn er óforbetranlega illur. Það sem Guð sagði um heiminn á dögum Nóa gildir líka um heim nútímans. Illska fyllir hjörtu yfirgnæfandi meirihluta manna og hugsanir þeirra eru ekkert nema illska alla daga. — 1. Mósebók 6:5.
15 Jehóva hefur leyft mönnum að stjórna jörðinni um aldaraðir án íhlutunar sinnar en nú er tíminn næstum útrunninn. Bráðlega útrýmir Jehóva öllum hinum illu á jörðinni alveg eins og Biblían segir. (Sálmur 145:20; Orðskviðirnir 2:21, 22) En hann eyðir ekki hinum réttlátu með hinum óguðlegu. Guð hefur aldrei gert slíkt! (Samanber 1. Mósebók 18:22, 23, 26.) Af hverju ætti hann að eyða þeim sem leitast við að þjóna honum í trúfesti, með guðsótta? Það er ekki nema rökrétt að trúfastir tilbiðjendur Jehóva, sem eru á lífi þegar þrengingin mikla hefst, finni náð í augum hans og verði ekki eytt, alveg eins og Nóa og fjölskyldu hans var ekki eytt þegar hinn óguðlegi heimur á hans tímum leið undir lok í miklum hamförum. (1. Mósebók 7:23) Þeir munu njóta verndar Guðs og lifa endalok þessa heims af.
16. Hvaða stórkostlegir viðburðir munu eiga sér stað í nýja heiminum og hvað munu þeir þýða fyrir þá sem bjargast?
16 Hvað svo? Í nýja heiminum mun lækning og blessun streyma til mannkynsins þegar gagninu af lausnarfórn Jesú verður miðlað að fullu. Biblían talar um táknræna „móðu lífsvatnsins, skínandi sem kristall. Hún rann frá hásæti Guðs og lambsins. Á miðju stræti borgarinnar, beggja vegna móðunnar, var lífsins tré, sem ber tólf sinnum ávöxt. Á mánuði hverjum gefur það ávöxt sinn, og blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.“ (Opinberunarbókin 22:1, 2) Það er stórkostlegt að hugsa til þess að ‚lækningin‘ felur í sér að jafnvel Adamsdauðinn verður yfirunninn! „Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi [Jehóva] mun þerra tárin af hverri ásjónu.“ (Jesaja 25:8) Þeir sem lifa þrenginguna miklu af og ganga inn í nýja heiminn þurfa aldrei að horfast í augu við dauðann!
Örugg von
17. Hve áreiðanleg er vonin um að sumir lifi Harmagedón af og muni „aldrei að eilífu deyja“?
17 Getum við treyst fullkomlega á þessa undraverðu von? Tvímælalaust! Jesús gaf Mörtu í skyn að sá tími kæmi er menn myndu lifa án þess nokkurn tíma að deyja. (Jóhannes 11:26) Enn fremur opinberaði Jesús Jóhannesi, í 7. kafla Opinberunarbókarinnar, að mikill múgur myndi koma úr þrengingunni miklu, lifa hana af. Getum við trúað Jesú Kristi og hinni sögulegu frásögu af flóðinu á dögum Nóa? Vissulega! Biblían inniheldur auk þess aðrar frásagnir af því er Guð varðveitti þjóna sína lifandi gegnum dómstíma og hrun þjóða. Ættum við að vænta einhvers minna af honum núna á endalokatímanum? Er skaparanum nokkuð um megn? — Samanber Matteus 19:26.
18. Hvernig getum við verið fullviss um að öðlast líf í réttlátum nýjum heimi Jehóva?
18 Með því að þjóna Jehóva í trúfesti núna höfum við vissu fyrir eilífu lífi í nýjum heimi hans. Óteljandi milljónir manna munu öðlast líf í þessum nýja heimi með upprisu. En á okkar dögum eiga milljónir þjóna Jehóva — já, mikill múgur sem enginn maður getur talið eða takmarkað — þau einstæðu sérréttindi að komast lifandi gegnum þrenginguna miklu. Og þeir munu aldrei þurfa að deyja.
Geturðu svarað?
◻ Hvernig var björgun úr Harmagedón fyrirmynduð á dögum Nóa?
◻ Hvað verðum við að gera til að standast þegar Jesús kemur til að fullnægja dómi Jehóva?
◻ Af hverju getum við sagt að þeir sem lifa Harmagedón af þurfi ‚aldrei að eilífu að deyja‘?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Kristnir menn komust undan þrengingu Jerúsalem.