Að safna því sem er á himni og því sem er á jörð
„Það var í samræmi við ákvörðun hans . . . að safna öllu saman á ný í Kristi, því sem er á himni og því sem er á jörð.“ — EFESUSBRÉFIÐ 1:9, 10, NW.
1. Hver er „ákvörðun“ Jehóva varðandi himin og jörð?
JEHÓVA ætlar sér að koma á friði um allan alheim enda er hann „Guð friðarins“. (Hebreabréfið 13:20) Hann innblés Páli postula að skrifa að það væri „ákvörðun“ sín að „safna öllu saman á ný í Kristi, því sem er á himni og því sem er á jörð“. (Efesusbréfið 1:9, 10, NW ) Hvað er eiginlega fólgið í sögninni sem er þýdd ‚safna saman á ný‘ í þessu versi? Biblíufræðingurinn J. B. Lightfoot segir: „Sögnin gefur til kynna heildarsamræmi alheimsins þar sem ekki eiga lengur að vera framandi og sundrandi öfl heldur á allt að beinast að Kristi og sameinast í honum. Synd og dauði, sorg, hnignun og þjáningar eiga að taka enda.“
‚Það sem er á himni‘
2. Hvað er átt við með „því sem er á himni“ sem þarf að safna saman?
2 Pétur postuli lýsti í hnotskurn hinni unaðslegu von sannkristinna manna þegar hann sagði: „Eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13) ‚Nýi himinninn‘, sem hér er lofað, er hið nýja stjórnvald, Messísarríkið. Í Efesusbréfinu nefnir Páll að það eigi að safna „í Kristi, því sem er á himni“. Hér er um að ræða hinn takmarkaða fjölda manna sem eru útvaldir til að ríkja með Kristi á himnum. (1. Pétursbréf 1:3, 4) Þetta eru 144.000 andasmurðir kristnir menn sem eru „út . . . leystir frá jörðunni“, „leystir út úr hóp mannanna“, til að erfa himneska ríkið með Kristi. — Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:3, 4; 2. Korintubréf 1:21; Efesusbréfið 1:11; 3:6.
3. Af hverju er hægt að segja að hinum andasmurðu sé ‚búinn staður í himinhæðum‘ meðan þeir eru enn á jörðinni?
3 Hinir smurðu eru fæddir að nýju af heilögum anda þannig að þeir verða andlegir synir Jehóva. (Jóhannes 1:12, 13; 3:5-7) Jehóva ættleiðir þá sem ‚syni‘ þannig að þeir verða bræður Jesú. (Rómverjabréfið 8:15, Biblían 1912; Efesusbréfið 1:5) Því er svo að orði komist að Guð hafi „uppvakið [þá] í Kristi Jesú og búið [þeim] stað í himinhæðum með honum“, og það meðan þeir eru enn á jörðinni. (Efesusbréfið 1:3; 2:6) Þeir eru settir í þessa háu andlegu stöðu vegna þess að þeir eru „merktir innsigli heilags anda, sem [þeim] var fyrirheitið“ og eiga ‚arfleifð‘ geymda á himnum. (Efesusbréfið 1:13, 14; Kólossubréfið 1:5) Þeir eru ‚það sem er á himni‘ og safna þurfti saman þeim fjölda sem Jehóva hafði ákveðið.
Söfnunin hefst
4. Hvenær og hvernig var byrjað að safna saman „því sem er á himni“?
4 Þegar „fylling tímans“ kom átti að byrja að safna saman „því sem er á himni“ í samræmi við „stjórn“ eða umsjón Jehóva. (Efesusbréfið 1:10) Sá tími rann upp á hvítasunnu árið 33. Þann dag var heilögum anda úthellt yfir postulana og hóp lærisveina, bæði karla og konur. (Postulasagan 1:13-15; 2:1-4) Þetta var merki þess að nýi sáttmálinn hefði tekið gildi og það markaði tilurð kristna safnaðarins og nýju andlegu Ísraelsþjóðarinnar en hún er kölluð „Ísrael Guðs“. — Galatabréfið 6:16; Hebreabréfið 9:15; 12:23, 24.
5. Hvers vegna skapaði Jehóva nýja „þjóð“ í stað Ísraels að holdinu?
5 Lagasáttmálinn, sem Jehóva gerði við Ísraelsmenn að holdinu, megnaði ekki að skapa ‚prestaríki og heilagan lýð‘ til að þjóna að eilífu á himnum. (2. Mósebók 19:5, 6) Jesús sagði trúarleiðtogum Gyðinga: „Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess.“ (Matteus 21:43) Þessi þjóð, andlega Ísraelsþjóðin, er samsett úr andasmurðum kristnum mönnum sem fá aðild að nýja sáttmálanum. Pétur postuli skrifaði þeim: „Þér eruð ‚útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss. Þér sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðnir ‚Guðs lýður‘.“ (1. Pétursbréf 2:9, 10) Ísraelsmenn að holdinu voru ekki lengur sáttmálaþjóð Guðs. (Hebreabréfið 8:7-13) Hið einstæða tækifæri að tilheyra Messíasarríkinu var tekið frá þeim og gefið hinum 144.000 sem mynduðu andlegu Ísraelsþjóðina, rétt eins og Jesús sagði að myndi gerast. — Opinberunarbókin 7:4-8.
Aðild að sáttmálanum um ríkið
6, 7. Hvaða sérstaka sáttmála gerði Jesús við andagetna bræður sína og hvað þýðir hann fyrir þá?
6 Kvöldið sem Jesús innleiddi minningarhátíðina um dauða sinn sagði hann trúum postulum sínum: „Þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.“ (Lúkas 22:28-30) Jesús er hér að tala um sérstakan sáttmála sem hann gerði við 144.000 andagetna bræður sína, þá sem yrðu ‚trúir allt til dauða‘ og myndu ‚sigra‘. — Opinberunarbókin 2:10; 3:21.
7 Þeir sem tilheyra þessum takmarkaða hópi afsala sér allri von um að lifa að eilífu sem menn af holdi og blóði hér á jörð. Þeir eiga að ríkja á himnum með Kristi, sitja þar í hásætum og dæma mannkynið. (Opinberunarbókin 20:4, 6) Við skulum líta á fleiri ritningarstaði sem eiga aðeins við hina andasmurðu en þeir sýna hvers vegna ‚aðrir sauðir‘ neyta ekki brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni. — Jóhannes 10:16.
8. Hvað gefa hinir andasmurðu til kynna með því að neyta af brauðinu? (Sjá rammagrein á bls. 29.)
8 Hinir andasmurðu þjást eins og Kristur og eru fúsir til að deyja líkt og hann. Páll tilheyrði þessum hópi og hann sagðist vera reiðubúinn að færa hvaða fórn sem væri til að geta „áunnið Krist“. Hann kvaðst vilja „þekkja Krist og kraft upprisu hans og samfélag písla hans“. Já, Páll var tilbúinn til að verða „líkur honum í dauðanum“. (Filippíbréfið 3:8, 10; Biblían 1859) Margir andasmurðir kristnir menn hafa verið ‚deyddir á sama hátt og Jesús‘. — 2. Korintubréf 4:10, Biblía 21. aldar.
9. Hvaða líkama táknar minningarhátíðarbrauðið?
9 „Þetta er líkami minn,“ sagði Jesús þegar hann innleiddi kvöldmáltíð Dottins. (Markús 14:22) Hér átti hann við bókstaflegan líkama sinn sem yrði bráðum barinn og blóði drifinn. Ósýrt brauð var viðeigandi tákn um líkama hans vegna þess að súrdeig er stundum notað í Biblíunni sem tákn um illsku eða synd. (Matteus 16:4, 11, 12; 1. Korintubréf 5:6-8) Jesús var fullkominn og mannslíkami hans syndlaus, og hann átti eftir að færa þennan fullkomna líkama að friðþægingarfórn. (Hebreabréfið 7:26; 1. Jóhannesarbréf 2:2) Það myndi verða öllum trúum kristnum mönnum til góðs, hvort sem þeir ættu von um líf á himni eða eilíft líf í paradís á jörð. — Jóhannes 6:51.
10. Hvernig eiga þeir sem neyta af víninu á minningarhátíðinni „samfélag um blóð Krists“?
10 Páll sagði um vínið sem hinir andasmurðu neyta á minningarhátíðinni: „Sá bikar blessunarinnar, sem vér blessum, er hann ekki samfélag um blóð Krists?“ (1. Korintubréf 10:16) Í hvaða skilningi eiga þeir „samfélag um blóð Krists“ sem drekka af víninu? Það er ekki í þeim skilningi að þeir eigi þátt í að færa lausnarfórnina því að þeir eru sjálfir endurlausnar þurfi. Þeir fá syndir sínar fyrirgefnar og eru lýstir réttlátir til að lifa á himnum af því að þeir trúa að blóð Krists endurleysi þá. (Rómverjabréfið 5:8, 9; Títusarbréfið 3:4-7) Það er í krafti hins úthellta blóðs Krists sem 144.000 samerfingjar hans eru ‚helgaðir‘, fráteknir og hreinsaðir af synd þannig að þeir eru „hinir heilögu“. (Hebreabréfið 10:29; Daníel 7:18, 27; Efesusbréfið 2:19) Já, með úthelltu blóði sínu ‚keypti hann menn Guði til handa af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð og gerði þá, Guði vorum til handa, að konungsríki og prestum. Og þeir munu ríkja á jörðunni.‘ — Opinberunarbókin 5:9, 10.
11. Hvað gefa hinir andasmurðu til kynna með því að drekka vínið á minningarhátíðinni?
11 Þegar Jesús innleiddi minningarhátíðina um dauða sinn rétti hann trúum postulum sínum vínbikarinn og sagði: „Drekkið allir hér af. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.“ (Matteus 26:27, 28) Lagasáttmálinn milli Jehóva og Ísraelsmanna hafði verið fullgiltur með blóði nauta og hafra. Nú fullgilti blóð Jesú nýja sáttmálann sem Jehóva gerði við andlega Ísraelsmenn frá og með hvítasunnu árið 33. (2. Mósebók 24:5-8; Lúkas 22:20; Hebreabréfið 9:14, 15) Með því að drekka vínið, sem táknar „blóð sáttmálans“, gefa hinir andasmurðu til kynna að þeir hafi fengið aðild að nýja sáttmálanum og njóti góðs af honum.
12. Hvernig skírast hinir andasmurðu til dauða Krists?
12 Hinir smurðu eru sömuleiðis minntir á annað. Jesús sagði trúum lærisveinum sínum: „Þann kaleik, sem ég drekk, munuð þið drekka, og þið munuð skírast þeirri skírn, sem ég skírist.“ (Markús 10:38, 39) Páll postuli talaði um það síðar að kristnir menn væru „skírðir til dauða [Jesú]“. (Rómverjabréfið 6:3) Hinir andasmurðu færa líf sitt að fórn. Þeir deyja fórnardauða í þeim skilningi að þeir afsala sér allri von um að lifa að eilífu á jörðinni. Skírn þeirra til dauða Krists er lokið eftir að þeir hafa dáið trúfastir og hlotið upprisu sem andaverur til að „ríkja“ með Kristi á himnum. — 2. Tímóteusarbréf 2:10-12; Rómverjabréfið 6:5; 1. Korintubréf 15:42-44, 50.
Að neyta brauðsins og vínsins
13. Af hverju neyta þeir sem hafa jarðneska von ekki brauðsins og vínsins en af hverju sækja þeir minningarhátíðina?
13 Þar sem allt þetta er fólgið í því að neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni væri augljóslega ekki viðeigandi fyrir þá sem hafa jarðneska von að neyta þeirra. Þeir sem hafa jarðneska von vita að þeir eru ekki andasmurðir limir á líkama Krists og eiga ekki heldur aðild að nýja sáttmálanum sem Jehóva hefur gert við meðstjórnendur hans. ‚Bikarinn‘ táknar nýja sáttmálann þannig að þeir einir sem eiga aðild að honum neyta brauðsins og vínsins. Þeir sem vonast eftir eilífu lífi og fullkomleika á jörðinni undir stjórn Guðsríkis eru hvorki skírðir til dauða Jesú né kallaðir til að ríkja með honum á himnum. Ef þeir neyttu brauðsins og vínsins væru þeir að gefa merki um að þeir væru í stöðu sem þeir eru ekki í. Þess vegna neyta þeir ekki brauðsins og vínsins þó að þeir sæki minningarhátíðina sem hæverskir áhorfendur. Þeir eru þakklátir fyrir allt sem Jehóva hefur gert fyrir þá fyrir milligöngu sonar síns, þar á meðal að veita þeim fyrirgefningu á grundvelli hins úthellta blóðs hans.
14. Hvernig styrkir það hina andasmurðu að neyta brauðsins og vínsins?
14 Nú er næstum búið að innsigla þá tiltölulega fáu sem eru kallaðir til að ríkja með Kristi á himnum. Það styrkir þá andlega að neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni uns jarðlíf þeirra tekur enda og þeir færa það að fórn. Þeir finna að þeir eru sameinaðir bræðrum sínum og systrum sem tilheyra líkama Krists. Með því að neyta brauðsins og vínsins minna þeir sig á að þeim ber að vera trúir allt til dauða. — 2. Pétursbréf 1:10, 11.
Að safna „því sem er á jörð“
15. Hverjir hafa fylkt sér um hina andasmurðu?
15 Allt frá miðjum fjórða áratug tuttugustu aldar hefur hópur ‚annarra sauða‘ fylkt sér um hina andasmurðu og þeim hefur fjölgað jafnt og þétt. En þeir tilheyra ekki ‚litlu hjörðinni‘ heldur eiga von um eilíft líf á jörð. (Jóhannes 10:16; Lúkas 12:32; Sakaría 8:23) Þeir eru trúir félagar bræðra Krists og styðja þá dyggilega við að prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið“ til vitnisburðar öllum þjóðum. (Matteus 24:14; 25:40) Þar með eiga þeir í vændum að Kristur líti á þá sem ‚sauði‘ sína þegar hann fellir dóm og þeir njóti hylli hans og fái að vera honum „til hægri handar“ þegar hann kemur til að dæma þjóðirnar. (Matteus 25:33-36, 46) Þeir trúa á blóð Krists þannig að þeir mynda ‚múginn mikla‘ sem lifir af ‚þrenginguna miklu‘. — Opinberunarbókin 7:9-14.
16. Hverjir munu tilheyra „því sem er á jörð“ og hvernig fá þeir tækifæri til að verða ‚börn Guðs‘?
16 Þegar búið er að innsigla hinar 144.000 er hægt að sleppa „vindum“ eyðingarinnar lausum gegn illu heimskerfi Satans á jörðinni. (Opinberunarbókin 7:1-4) Kristur og meðkonungar hans ríkja síðan um þúsund ár og þá verður mikill fjöldi manna reistur upp frá dauðum og slæst í hóp með múginum mikla. (Opinberunarbókin 20:12, 13) Allir þessir menn fá tækifæri til að verða þegnar Messíasar, konungsins Jesú Krists, um aldur og ævi. Þegar Kristur hefur ríkt í þúsund ár verður ‚það sem er á jörð‘ látið gangast undir lokapróf. Þeir sem reynast trúir verða síðan ættleiddir sem jarðnesk ‚börn Guðs‘. — Efesusbréfið 1:10; Rómverjabréfið 8:21; Opinberunarbókin 20:7, 8.
17. Hvernig framkvæmir Jehóva fyrirætlun sína?
17 Með óviðjafnanlega viturri „stjórn“ sinni eða umsjón er Jehóva þá búinn að framkvæma þá fyrirætlun sína að „safna öllu saman á ný í Kristi, því sem er á himni og því sem er á jörð“. Öllum viti gæddum verum á himni og jörð hefur þá verið safnað saman og þær fagna því að lúta hinum réttláta alheimsdrottni, Jehóva, sem lætur fyrirætlun sína ná fram að ganga. Þá ríkir fullkominn friður um allan alheim.
18. Af hverju er gagnlegt fyrir hina smurðu og félaga þeirra að sækja minningarhátíðina?
18 Það verður ákaflega trústyrkjandi fyrir þá fáu, sem eru eftir af hinum andasmurðu, og milljónir manna af múginum mikla að safnast saman að kvöldi 12. apríl 2006. Sameiginlega halda þeir minningarhátíðina um dauða Krists eins og hann bauð þeim að gera þegar hann sagði: „Gjörið þetta í mína minningu.“ (Lúkas 22:19) Allir viðstaddir ættu að hafa hugfast hvað Jehóva hefur gert fyrir þá fyrir atbeina ástkærs sonar síns, Jesú Krists.
Til upprifjunar
• Hvaða fyrirætlun hefur Jehóva með það sem er á himni og jörð?
• Hverjir eru ‚það sem er á himni‘ og hvernig hefur þeim verið safnað saman?
• Hverjir eru ‚það sem er á jörð‘ og hvaða von eiga þeir?
[Rammi á blaðsíðu 29]
‚Líkami Krists‘
Páll postuli notar orðið ‚líkami‘ í mjög ákveðinni merkingu í 1. Korintubréfi 10:16, 17 en þar ræðir hann um þá sérstöku þýðingu sem brauðið hefur fyrir andasmurða bræður Krists. Hann segir: „Brauðið, sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists? Af því að brauðið er eitt, erum vér hinir mörgu einn líkami, því að vér höfum allir hlutdeild í hinu eina brauði.“ Þegar hinir andasmurðu borða af minningarhátíðarbrauðinu lýsa þeir yfir einingu sinni í söfnuði hinna andasmurðu en hann er eins og líkami með Krist sem höfuð. — Matteus 23:10; 1. Korintubréf 12:12, 13, 18.
[Mynd á blaðsíðu 29]
Af hverju neyta aðeins hinir andasmurðu brauðsins og vínsins?
[Mynd á blaðsíðu 31]
Stjórn Jehóva sameinar allar sköpunarverur hans á himni og jörð.