Kafli 26
Aftur heima í Kapernaum
HRÓÐUR Jesú hefur borist víða og margir koma til hans á afskekkta staði þar sem hann hefst við. En að nokkrum dögum liðnum snýr hann aftur til Kapernaum við Galíleuvatn. Það fréttist á augabragði um allan bæinn að hann sé kominn heim aftur og margir safnast saman við húsið þar sem hann dvelst. Farísear og lögmálskennarar koma alla leið frá Jerúsalem.
Mannfjöldinn er svo mikill inni fyrir og treðst svo að dyrunum að fleiri komast ekki inn. Þetta er kjörinn vettvangur fyrir óvenjulegan atburð. Það sem nú gerist skiptir gríðarmiklu máli því það sýnir okkur fram á að Jesús hefur vald til að uppræta orsök mannlegra þjáninga og veita öllum, sem hann vill, heilsu á ný.
Jesús er að kenna mannfjöldanum þegar fjórir menn koma að húsinu með lamaðan mann á börum. Þeir vilja fá Jesú til að lækna vin sinn, en sökum mannfjöldans komast þeir ekki inn fyrir. Hvílík vonbrigði! En þeir deyja ekki ráðalausir. Þeir klifra upp á þak, rjúfa gat á það og láta lamaða manninn síga á börunum niður til Jesú.
Reiðist Jesús þessari truflun? Alls ekki, heldur er hann djúpt snortinn af trú þeirra. Hann segir við lamaða manninn: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“ En getur Jesús virkilega fyrirgefið syndir? Fræðimennirnir og farísearnir eru ekki á því og hugsa í hjörtum sínum: „Hví mælir þessi maður svo? Hann guðlastar. Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?“
Jesús veit hvað þeir eru að íhuga og segir við þá: „Hví hugsið þér slíkt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja við lama manninn: ‚Syndir þínar eru fyrirgefnar,‘ eða segja: ‚Statt upp, tak rekkju þína og gakk‘?“
Síðan leyfir Jesús mannfjöldanum, meðal annars þeim sem fundu að honum, að sjá ótrúlegt dæmi þess að hann hafi vald til að fyrirgefa syndir á jörð og að hann sé í sannleika mesta mikilmenni sem lifað hefur. Hann snýr sér að lamaða manninum og segir: „Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín.“ Og maðurinn stendur upp þegar í stað, tekur börurnar og gengur burt í allra augsýn! Fólk er furðu lostið, lofar Guð og segir: „Aldrei áður höfum vér þvílíkt séð.“
Tókstu eftir að Jesús nefnir syndir í sambandi við veikindi, og að fyrirgefning synda sé tengd því að ná líkamlegri heilsu? Biblían segir að fyrsti faðir okkar, Adam, hafi syndgað og að við höfum öll erft afleiðingar þessarar syndar, það er að segja sjúkdóma og dauða. En undir stjórn Guðsríkis fyrirgefur Jesús syndir allra sem elska Guð og þjóna honum, og þá verða allir sjúkdómar þurrkaðir út. Það verður stórkostlegt! Markús 2:1-12; Lúkas 5:17-26; Matteus 9:1-8; Rómverjabréfið 5:12, 17-19.
▪ Við hvaða aðstæður gerist mjög óvenjulegur atburður?
▪ Hvernig komst lamaði maðurinn til Jesú?
▪ Hvers vegna erum við öll syndug, en hvernig veitir Jesús von um fyrirgefningu synda og fullkomna heilsu?