Líkjum eftir Guði sem lofar eilífu lífi
„Verðið því eftirbreytendur Guðs svo sem elskuð börn hans.“ – EF. 5:1.
1. Hvaða hæfileiki hjálpar okkur að tileinka okkur eiginleika Guðs?
JEHÓVA gaf okkur hæfileikann að geta sett okkur í spor annarra. Við getum því að einhverju leyti lifað okkur inn í aðstæður sem við höfum ekki upplifað. (Lestu Efesusbréfið 5:1, 2.) Hvernig getum við notað þennan hæfileika skynsamlega? Hvað þurfum við að gera til að hann skaði okkur ekki?
2. Hvaða áhrif hafa þjáningar okkar á Jehóva?
2 Við fögnum eflaust yfir því að Guð hefur lofað andasmurðum þjónum sínum ódauðleika á himnum og ,öðrum sauðum‘ Jesú eilífu lífi á jörð. (Jóh. 10:16; 17:3; 1. Kor. 15:53) Þær þjáningar, sem hrjá fólk á okkar dögum, verða auðvitað liðin tíð þegar það hlýtur ódauðleika á himnum eða eilíft líf á jörð. Jehóva þekkir þjáningar okkar mætavel, rétt eins og hann fylgdist með Ísraelsmönnum þegar þeir þjáðust í þrælkun í Egyptalandi. Hann fann sárlega til með þeim „í öllum þrengingum þeirra“. (Jes. 63:9) Þegar Gyðingar endurbyggðu musterið löngu síðar urðu þeir hræddir vegna þeirrar andstöðu sem þeir mættu. En Guð sagði við þá: „Hver sá sem snertir við yður, snertir sjáaldur mitt.“ (Sak. 2:12) Jehóva sýnir þjónum sínum mikla ást ekki ósvipað og móðir ber ómælda umhyggju fyrir barni sínu. (Jes. 49:15) Jehóva getur í vissum skilningi sett sig í spor annarra og hann hefur gefið okkur þennan sama hæfileika. – Sálm. 103:13, 14.
JESÚS ENDURSPEGLAÐI KÆRLEIKA GUÐS
3. Hvað sýnir að Jesús fann til með fólki?
3 Jesús skynjaði sársauka annarra, jafnvel þó að hann hefði ekki upplifað sömu aðstæður og þeir. Fólk almennt óttaðist trúarleiðtogana sem blekktu það og íþyngdu því með ótal mannasetningum. (Matt. 23:4; Mark. 7:1-5; Jóh. 7:13) Jesús var aldrei hræddur og lét ekki blekkjast en hann gat samt skilið aðstæður sem hann hafði aldrei kynnst af eigin raun. Þess vegna er sagt: „Er Jesús sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um hann því menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa.“ (Matt. 9:36) Jesús var ástríkur og umhyggjusamur eins og faðir hans. – Sálm. 103:8.
4. Hvaða áhrif höfðu þjáningar annarra á Jesú?
4 Jesús gat ekki annað en liðsinnt fólki þegar hann horfði upp á það þjást. Þannig endurspeglaði hann fullkomlega kærleika föður síns. Jesús ætlaði eitt sinn með postulum sínum á óbyggðan stað til að hvílast eftir langa boðunarferð. En mannfjöldi beið hans þegar hann kom á staðinn og hann fann til með fólkinu. Þess vegna tók hann ,að kenna þeim margt‘. – Mark. 6:30, 31, 34.
HVERNIG GETUM VIÐ LÍKT EFTIR KÆRLEIKA JEHÓVA?
5, 6. Hvernig þurfum við að koma fram við náungann ef við viljum tileinka okkur kærleika Guðs? Lýstu með dæmi. (Sjá mynd í upphafi greinar.)
5 Við getum líkt eftir kærleika Jehóva með framkomu okkar við aðra. Lýsum því með dæmi. Ímyndum okkur að ungur vottur, sem við skulum kalla Ólaf, hugsi til gamals bróður sem sér illa og á orðið erfitt með lestur. Hann á líka erfitt með að ganga milli húsa í boðuninni. Ólafur hugsar um orð Jesú: „Eins og þér viljið að aðrir menn geri við yður, svo skuluð þér og þeim gera.“ (Lúk. 6:31) Hann veltir því fyrir sér hvað hann vildi að aðrir gerðu fyrir sig. Það fyrsta sem honum dettur í hug er að þeir bjóði honum í fótbolta. En gamli bróðirinn getur auðvitað ekki spilað fótbolta. Orð Jesú bera með sér að við þurfum að spyrja okkur: Hvað vildi ég að aðrir gerðu fyrir mig ef ég væri í þeirra sporum?
6 Ólafur er ekki kominn á efri ár en hann er þó fær um að ímynda sér hvernig það er. Hann fylgist með gamla bróðurnum og hlustar umhyggjusamur á hann. Ólafur skilur smátt og smátt hvernig það er að vera gamall og eiga erfitt með að lesa Biblíuna og ganga milli húsa. Þegar hann skynjar erfiðleika bróðurins áttar hann sig á þörfum hans og langar til að hjálpa honum. Við getum gert það líka. Til að tileinka okkur kærleika Guðs þurfum við að setja okkur í spor trúsystkina. – 1. Kor. 12:26.
7. Hvernig getum við kynnst öðrum nógu vel til að finna til með þeim?
7 Það er ekki alltaf auðvelt að skilja sársauka annarra. Margir glíma við erfiðleika sem við höfum aldrei kynnst. Sumir þjást líkamlega vegna slysa, veikinda eða öldrunar. Sumir eiga í baráttu við þunglyndi, kvíðaköst eða eftirköst eftir misnotkun. Og ekki má gleyma einstæðum foreldrum og börnum þeirra eða þeim sem búa á trúarlega skiptu heimili. Allir eiga við einhver vandamál að stríða og oft þekkjum við þau ekki af eigin raun. Hvernig getum við þá líkt eftir kærleika Guðs? Með því að hlusta vel þangað til við skiljum hvernig hinni manneskjunni líður, að minnsta kosti að einhverju leyti. Þá fáum við löngun til að líkja eftir kærleika Jehóva og bregðast við þörfinni. Þörfin er misjöfn frá manni til manns en hugsanlega getum við uppörvað eða veitt aðra hjálp. – Lestu Rómverjabréfið 12:15; 1. Pétursbréf 3:8.
LÍKTU EFTIR GÆSKU JEHÓVA
8. Hvað var Jesú hvatning til að sýna gæsku?
8 Jesús sagði að Guð væri „góður við vanþakkláta og vonda“. (Lúk. 6:35) Og hann líkti sjálfur eftir gæsku Guðs. Hvað hjálpaði Jesú til þess? Hann velti fyrir sér hvaða áhrif orð hans og verk gætu haft á þann sem hann talaði við. Eitt sinn kom til hans kona sem var þekkt fyrir syndugt líferni. Hún grét og vætti fætur hans með tárum sínum. Jesús sá að hún iðraðist og hann vissi að hún yrði niðurbrotin ef hann vísaði henni kuldalega burt. Í stað þess hrósaði hann henni og fyrirgaf syndir hennar. Farísea, sem fylgdist með, mislíkaði þetta mjög, en Jesús talaði vingjarnlega við hann líka. – Lúk. 7:36-48.
9. Hvernig getum við líkt eftir gæsku Jehóva? Nefndu dæmi.
9 Hvað getur hjálpað okkur að líkja eftir Jehóva og vera góð við aðra? Páll postuli skrifaði: „Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði heldur á hann að vera ljúfur við alla.“ (2. Tím. 2:24) Nærgætinn maður kann að taka á viðkvæmum málum þannig að hann særi ekki tilfinningar annarra. Veltu fyrir þér hvernig hægt sé að sýna gæsku við eftirfarandi aðstæður: Yfirmaðurinn í vinnunni stendur sig illa. Hvað gerum við? Bróðir mætir á samkomu í fyrsta sinn í marga mánuði. Hvað segirðu við hann? Þú ert í boðunarstarfinu og húsráðandi segir: „Ég hef ekki tíma til að ræða við þig núna.“ Erum við tillitssöm? Maki þinn spyr þig: „Hvers vegna sagðirðu mér ekki hvað þú ætlar að gera á laugardaginn?“ Svararðu vingjarnlega? Ef við setjum okkur í spor annarra og reynum að sjá fyrir hvaða áhrif orð okkar hafa á þá getum við líkt eftir gæsku Jehóva í orðum og verkum. – Lestu Orðskviðina 15:28.
LÍKTU EFTIR VISKU GUÐS
10, 11. Hvað getur hjálpað okkur að líkja eftir visku Guðs? Nefndu dæmi.
10 Hæfileiki okkar til að setja okkur í aðstæður, sem við höfum ekki kynnst af eigin raun, getur líka hjálpað okkur að líkja eftir visku Jehóva og sjá fyrir líklegar afleiðingar verka okkar. Viska er einn af höfuðeiginleikum Jehóva. Hann getur séð fyrir í smáatriðum afleiðingar ákveðinna verka ef hann kýs að gera það. Við getum ekki séð fram í tímann eins og hann, en við ættum þó að hugleiða hvaða afleiðingar það sem við ætlum að gera getur haft. Ísraelsmenn hugsuðu ekki um hvað óhlýðni þeirra við Guð gæti haft í för með sér. Móse vissi að þeir myndu gera það sem var rangt í augum Jehóva þrátt fyrir allt sem hann hafði gert fyrir þá. Móse flutti ljóð frammi fyrir öllum söfnuði Ísraels en þar sagði meðal annars: „Þeir eru ráðþrota þjóð, skilning hafa þeir engan. Væru þeir vitrir skildu þeir þetta, væri ljóst hvað þeir eiga í vændum.“ – 5. Mós. 31:29, 30; 32:28, 29.
11 Til að líkja eftir visku Guðs ættum við að íhuga og jafnvel sjá fyrir okkur líklegar afleiðingar gerða okkar. Tökum dæmi. Ef við erum að kynnast einhverjum með hjónaband í huga þurfum við að gera okkur grein fyrir hve sterkt aðdráttaraflið milli kynjanna getur verið. Við ættum aldrei að gera nokkuð eða ætla okkur að gera nokkuð sem gæti stefnt sambandi okkar við Jehóva í hættu. Fylgjum öllu heldur þessu ráði Biblíunnar: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig en einfeldningarnir halda áfram og gjalda þess.“ – Orðskv. 22:3.
GÆLUM EKKI VIÐ SKAÐLEGAR HUGSANIR
12. Hvernig geta hugsanir verið skaðlegar?
12 Vitur maður áttar sig á að hugsanir geta verið eins og eldur. Ef rétt er farið með eld getur hann verið nytsamlegur, til dæmis við eldamennsku. En stjórnlaus eldur er banvænn þegar hús brennur til kaldra kola og íbúarnir farast. Með svipuðum hætti geta hugsanir okkar verið til góðs þegar þær hjálpa okkur að líkja eftir Jehóva en skaðlegar þegar þær næra siðlausar langanir. Ef við venjum okkur á að láta hugann dvelja við siðlausar athafnir gæti það leitt til þess að við gerum það sem við höfum verið að hugsa um. Siðlausir draumórar geta eyðilagt samband okkar við Jehóva. – Lestu Jakobsbréfið 1:14, 15.
13. Hvers konar líf er hugsanlegt að Eva hafi ímyndað sér?
13 Hvað varð til þess að Evu, fyrstu konuna, fór að langa til að borða forboðna ávöxtinn af „skilningstré góðs og ills“? (1. Mós. 2:16, 17) Höggormurinn sagði við hana: „Sannið til, þið munuð ekki deyja. En Guð veit að um leið og þið etið af honum ljúkast augu ykkar upp og þið verðið eins og Guð og skynjið gott og illt.“ Eva sá þá „að tréð var gott af að eta, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks“. Hver var afleiðingin? „Hún tók af ávexti þess og át og gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át.“ (1. Mós. 3:1-6) Það sem Satan bauð Evu höfðaði greinilega sterkt til hennar. Hún myndi ákveða sjálf hvað væri gott og illt í staðinn fyrir að láta segja sér það. Þessar hugleiðingar reyndust stórskaðlegar. „Syndin kom inn í heiminn ... og dauðinn með syndinni,“ vegna þess sem Adam, eiginmaður hennar, gerði. – Rómv. 5:12.
14. Hvernig hjálpar Biblían okkur að forðast kynferðislegt siðleysi?
14 Synd Evu í Edengarðinum fólst ekki í kynferðislegu siðleysi. Jesús varaði samt við að láta hugann dvelja við siðlausa kynferðislega draumóra. Hann sagði: „Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Matt. 5:28) Páll varaði líka við þessu og sagði: „Leggið ekki þann hug á jarðnesk efni að það veki girndir.“ – Rómv. 13:13.
15. Hvers konar fjársjóði ættum við að safna okkur og hvers vegna?
15 Það er sömuleiðis hættulegt að láta sig dreyma um að verða stórauðugur en gefa lítinn gaum að sambandinu við Guð. Sannleikurinn er sá að auður hins ríka er eins og „öflugt vígi og ókleifur múrveggur að hans hyggju“. (Orðskv. 18:11) Jesús sagði dæmisögu til að lýsa dapurlegri stöðu þess manns sem „safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs“. (Lúk. 12:16-21) Jehóva gleðst þegar við gerum það sem honum er þóknanlegt. (Orðskv. 27:11) Og við getum sannarlega glaðst yfir að hafa velþóknun hans þegar við söfnum okkur „fjársjóðum á himni“. (Matt. 6:20) Gott samband við Jehóva er tvímælalaust mesti fjársjóður sem við getum átt.
HAFÐU HEMIL Á ÁHYGGJUM
16. Hvernig getum við haft hemil á áhyggjum okkar?
16 Hugsaðu þér hve áhyggjufull við værum ef við létum hug okkar allan dvelja við að safna „fjársjóðum á jörðu“. (Matt. 6:19) Jesús sagði dæmisögu til að sýna fram á að „áhyggjur heimsins og tál auðæfanna“ gætu kæft orð Guðsríkis. (Matt. 13:18, 19, 22) Sumir hafa áhyggjur af öllu mögulegu sem gæti hugsanlega gerst hvort sem það er tengt peningum eða ekki. En stjórnlausar áhyggjur geta bæði skaðað heilsu okkar og trú. Við ættum öllu heldur að treysta Jehóva og minna okkur á að „hugsýki íþyngir hjartanu“ en „eitt vingjarnlegt orð gleður það“. (Orðskv. 12:25) Vingjarnleg og uppörvandi orð frá einhverjum sem skilur okkur geta glatt hjarta okkar. Ef við tölum við foreldra okkar, maka eða náinn vin, sem sér hlutina frá sjónarhóli Guðs, og treystum þeim fyrir áhyggjum okkar geta þeir hjálpað okkur að draga úr þeim.
17. Hvernig hjálpar Jehóva okkur að takast á við áhyggjur?
17 Enginn skilur áhyggjur okkar betur en Jehóva. Páll skrifaði: „Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.“ (Fil. 4:6, 7) Þegar þú ert áhyggjufullur geturðu hugsað um þá hjálp sem Jehóva veitir okkur til að viðhalda góðu sambandi við sig, eins og aðstoð frá trúsystkinum, öldungum, trúa þjóninum, englunum og Jesú.
18. Hvernig getur það verið okkur til góðs að ímynda okkur hluti sem við höfum ekki upplifað?
18 Eins og við höfum séð getur það að setja okkur í spor annarra hjálpað okkur að líkja eftir eiginleikum Guðs, svo sem kærleika. (1. Tím. 1:11, Biblían 1912; 1. Jóh. 4:8) Við verðum hamingjusöm ef við sýnum ósvikinn kærleika, sjáum fyrir afleiðingar verka okkar og höfum hemil á áhyggjum sem ræna okkur gleðinni. Notum því vel þann hæfileika að geta séð fyrir okkur loforð Guðs um framtíðina og líkjum eftir kærleika Jehóva, gæsku hans, visku og gleði. – Rómv. 12:12.