Spurningar frá lesendum
Hvers vegna gat Jesús sagt við bersynduga konu að syndir hennar væru fyrirgefnar? — Lúk. 7:37, 48.
Jesús sat að borði í húsi farísea nokkurs sem hét Símon þegar kona kom og „nam staðar að baki Jesú til fóta hans“. Hún vætti fætur hans með tárum og þerraði þá með hári sínu. Síðan kyssti hún fætur hans ljúflega og smurði þá með ilmsmyrslum. Konan var „bersyndug“, að því er segir í frásögu Lúkasar. Sérhver ófullkominn maður er auðvitað syndari en í Biblíunni er þetta hugtak venjulega notað um þann sem er alræmdur fyrir syndir sínar eða hefur illt orð á sér vegna þeirra. Sennilega var konan vændiskona. Við slíka manneskju sagði Jesús: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“ (Lúk. 7:36-38, 48) Við hvað átti Jesús með þessum orðum? Hvernig var hægt að veita þessa fyrirgefningu þar sem ekki var enn búið að færa lausnarfórnina?
Þegar konan hafði þvegið og smurt fætur Jesú, en áður en hann hafði veitt henni fyrirgefningu, sagði hann dæmisögu til að útskýra mikilvægt atriði fyrir Símoni, gestgjafa sínum. Jesús líkti synd við skuld sem var svo há að ekki var hægt að endurgreiða hana. Hann sagði við Símon: „Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?“ Símon svaraði: „Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.“ Jesús sagði: „Þú ályktaðir rétt.“ (Lúk. 7:41-43) Öll skuldum við Guði hlýðni. Þegar við óhlýðnumst honum og syndgum tekst okkur ekki að borga honum það sem við skuldum honum. Þannig hlaðast skuldirnar upp. En Jehóva er eins og lánardrottinn sem er fús til að gefa upp skuldir. Þess vegna hvatti Jesús fylgjendur sína til að biðja til Guðs: „Fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“ (Matt. 6:12) Í Lúkasi 11:4 kemur fram að þessar skuldir séu syndir.
Á hvaða forsendum fyrirgaf Guð syndir fyrr á tímum? Samkvæmt fullkomnu réttlæti hans er krafist dauðarefsingar fyrir synd. Adam galt þannig fyrir syndir sínar með lífinu. Undir lögmálinu, sem Guð gaf Ísraelsmönnum, gat afbrotamaður samt fengið syndir sínar fyrirgefnar með því að færa Jehóva dýrafórn. Páll postuli sagði: „Samkvæmt lögmálinu er það nálega allt sem hreinsast með blóði og eigi fæst fyrirgefning án úthellingar blóðs.“ (Hebr. 9:22) Gyðingar þekktu enga aðra leið til að fá fyrirgefningu frá Guði. Það er því ekkert undarlegt að þeir sem urðu vitni að því sem Jesús sagði við konuna hafi andmælt. Þeir sem sátu við borðið með Jesú sögðu með sjálfum sér: „Hver er sá er fyrirgefur syndir?“ (Lúk. 7:49) Á hvaða forsendum var þá hægt að fyrirgefa brot þessarar syndum hlöðnu konu?
Fyrsti spádómurinn, sem borinn var fram eftir að Adam og Eva gerðu uppreisn, sagði frá fyrirætlun Jehóva um að vekja upp „niðja“ sem Satan og „niðjar“ hans myndu höggva í hælinn. (1. Mós. 3:15) Þetta högg var greitt þegar óvinir Guðs tóku Jesú af lífi. (Gal. 3:13, 16) Úthellt blóð Krists er lausnargjaldið sem leysir menn undan synd og dauða. Þar sem ekkert getur komið í veg fyrir að Jehóva framkvæmi það sem hann hefur ætlað sér var lausnargjaldið sama sem greitt frá sjónamiði hans um leið og orðin í 1. Mósebók 3:15 voru töluð. Þaðan í frá gat hann fyrirgefið þeim sem trúðu á fyrirheit hans.
Fyrir daga kristninnar taldi Jehóva fjölda manns vera réttláta. Meðal þeirra voru Enok, Nói, Abraham, Rahab og Job. Vegna trúar sinnar áttu þau í vændum að sjá fyrirheit Guðs uppfyllast. „Abraham trúði Guði og það var honum til réttlætis reiknað,“ skrifaði lærisveinninn Jakob. Um Rahab sagði Jakob: „Svo var og um skækjuna Rahab. Réttlættist hún ekki af verkum?“ — Jak. 2:21-25.
Davíð konungur í Ísrael til forna drýgði nokkrar alvarlegar syndir en hann hafði sterka trú á hinum sanna Guði og iðraðist einlæglega í hvert sinn. Enn fremur stendur í Biblíunni: „Guð bendir á blóð [Jesú] sem sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýnir hann réttlæti sitt. Hann hafði umborið þær syndir sem áður voru drýgðar til þess að birta réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann er sjálfur réttlátur og réttlætir þann sem trúir á Jesú.“ (Rómv. 3:25, 26) Á forsendum lausnarfórnar Jesú, sem átti að færa í framtíðinni, gat Jehóva fyrirgefið yfirsjónir Davíðs án þess að hvika frá réttlætiskröfum sínum.
Augljóslega var konan, sem smurði fætur Jesú, í svipaðri aðstöðu. Hún hafði lifað siðlausu lífi en iðrast. Hún gerði sér grein fyrir því að hún þyrfti lausn frá syndum og sýndi með gerðum sínum að hún mat sannarlega lausnarann sem Jehóva gaf. Þótt fórnin hafi ekki enn verið borin fram var samt svo öruggt að það myndi gerast að fólk á borð við þessa konu gat þá þegar notið góðs af henni. Þess vegna sagði Jesús henni: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“
Eins og þessi frásaga sýnir glöggt sniðgekk Jesús ekki syndara. Hann gerði þeim gott. Jehóva er einnig fús til að fyrirgefa iðrandi syndurum. Fyrir okkur ófullkomna menn er þessi fullvissa dásamleg og hvetjandi.
[Mynd á bls. 7]
Það var þeim til réttlætis reiknað.