Kafli 40
Lexía í miskunn
JESÚS er ef til vill enn í Nain þar sem hann reisti son ekkju nokkurrar upp frá dauðum fyrir skemmstu, eða þá í einhverri grannborg. Farísea, sem heitir Símon, langar til að kynnast þessum kraftaverkamanni nánar. Hann býður Jesú því til máltíðar.
Jesús lítur á þetta boð sem tækifæri til að kenna viðstöddum og þiggur boðið, alveg eins og hann hefur áður gert og matast með tollheimtumönnum og syndurum. En þegar hann gengur í hús Símonar fær hann ekki þær hjartanlegu móttökur sem venja er.
Menn verða óhreinir á fótum og heitt að ganga í ilskóm á rykugum vegum, og það heyrir til almennri gestrisni að þvo fætur gesta í köldu vatni. En fætur Jesú eru ekki þvegnir þegar hann kemur. Hann er ekki heldur boðinn velkominn með kossi svo sem tíðkast. Og honum er ekki boðin olía í hárið eins og telst til almennrar gestrisni.
Meðan gestir liggja að borði kemur kona inn fyrir, hljóðlega og óboðin. Hún er þekkt í borginni fyrir siðlaust líferni. Trúlega hefur hún heyrt Jesú kenna, meðal annars heyrt boð hans til ‚allra sem hafa þungar byrðar um að koma til sín og hljóta hvíld.‘ Hún er djúpt snortin af því sem hún hefur séð og heyrt og hefur leitað Jesú uppi.
Konan kemur aftan að Jesú við borðið og krýpur við fætur hans. Tár hennar falla á fætur honum og hún þerrar þau með hári sínu. Blíðlega kyssir hún fætur hans og smyr þá með ilmolíu úr flösku sem hún hefur meðferðis. Símon horfir á með vanþóknun. „Væri þetta spámaður, mundi hann vita, hver og hvílík sú kona er, sem snertir hann, að hún er bersyndug,“ hugsar hann með sér.
Jesús veit hvað hann er að hugsa og segir: „Símon, ég hef nokkuð að segja þér.“
„Seg þú það, meistari,“ svarar hann.
„Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum,“ segir Jesús. „Annar skuldaði honum fimm hundruð denara, en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað, og þá gaf hann báðum upp. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?“
„Sá, hygg ég, sem hann gaf meira upp,“ svarar Símon, kannski með nokkru tómlæti þar eð honum þykir spurningin málinu óviðkomandi.
„Þú ályktaðir rétt,“ segir Jesús. Síðan snýr hann sér að konunni og segir við Símon: „Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt, og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína, en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss, en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína, allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu, en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum.“
Konan hefur á þennan hátt látið í ljós einlæga iðrun vegna siðlausrar fortíðar sinnar. Jesús segir því að lokum: „Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar, enda elskar hún mikið, en sá elskar lítið, sem lítið er fyrirgefið.“
Jesús er engan veginn að afsaka siðleysi eða gera lítið úr því. Þetta atvik sýnir hins vegar meðaumkun hans og skilning gagnvart fólki sem gerir mistök í lífinu en lætur síðan í ljós að það iðrist þeirra og leitar ásjár hjá honum. Jesús veitir konunni nýjan kraft er hann segir: „Syndir þínar eru fyrirgefnar. . . . Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“ Lúkas 7: 36-50; Matteus 11:28-30.
▪ Hvaða móttökur fær Jesús hjá gestgjafa sínum, Símoni?
▪ Hver leitar Jesú uppi og hvers vegna?
▪ Hvaða líkingu bregður Jesús upp og hvernig heimfærir hann hana?