Kannt þú að meta það sem Guð hefur gert?
„Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.“ — LÚKAS 9:23.
1. Nefndu nokkrar þeirra undursamlegu gjafa sem Guð hefur gefið.
VIÐ SKULDUM Guði líf okkar. Hefði hann ekki skapað mannkynið hefðum við aldrei fæðst. En Guð skapaði meira en lífið. Hann gerði okkur þannig úr garði að við gætum notið gæða lífsins: ljúffengrar máltíðar, hlýju sólarinnar, ómfagurrar tónlistar, hressandi vordags og umhyggju og ástúðar. Auk þess gaf Guð okkur huga og löngun til að kynnast sér. Hann innblés ritun Biblíunnar sem gefur okkur heilnæma leiðsögn, sýnir okkur hvernig við eigum að lifa til þess að vera hamingjusöm og veitir von um eilíft líf í réttlátum nýjum heimi hans. Guð styður okkur einnig með heilögum anda sínum, kristna söfnuðinum og kærleiksríkum bræðrum og systrum sem eru okkur eldri og geta hjálpað okkur að vera sterk í þjónustu hans. — 1. Mósebók 1:1, 26-28; 2. Tímóteusarbréf 3:15-17; Hebreabréfið 10:24, 25; Jakobsbréfið 5:14, 15.
2. (a) Hvað hefur Guð gert fyrir okkur sem ber af öðru? (b) Getum við áunnið okkur hjálpræði?
2 Auk alls þessa sendi Guð frumgetinn son sin til að kenna okkur meira um kröfur föðurins til okkar og til að veita ‚endurlausn‘ öllum sem vilja þiggja hana. (Efesusbréfið 1:7; Rómverjabréfið 5:18) Þessi sonur, Jesús Kristur, sagði: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Sú björgun, sem þetta lausnargjald býður upp á, er svo mikils virði að það er algerlega óhugsandi að ávinna sér hana af eigin verðleikum — og alls ekki með því að halda ákvæði Móselaganna. Því skrifaði Páll: „Maðurinn réttlætist ekki af lögmálsverkum, heldur fyrir trú á Jesú Krist.“ — Galatabréfið 2:16; Rómverjabréfið 3:20-24.
Trú og verk
3. Hvað sagði Jakob um trú og verk?
3 Hjálpræði kemur af trú en trú og þakklæti fyrir allt sem Guð hefur gert ætti að knýja okkur til verka. Það ætti að vekja hjá okkur hvöt til að sýna trú okkar í verki. Jakob, hálfbróðir Jesú, skrifaði: „Trúin [er] dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin.“ Hann hélt áfram: „Sýn mér þá trú þína án verkanna, og ég skal sýna þér trúna af verkum mínum.“ Jakob benti á að ‚illu andarnir trúi og skelfist‘ en auðvitað vinna illu andarnir ekki verk Guði að skapi. Abraham var á hinn bóginn maður trúar og verka. „Trúin var samtaka verkum hans og . . . trúin fullkomnaðist með verkunum.“ Og Jakob endurtekur: „Trúin [er] dauð án verka.“ — Jakobsbréfið 2:17-26.
4. Hvað sagði Jesús að þeir sem vildu fylgja honum ættu að gera?
4 Jesús lagði einnig áherslu á mikilvægi réttra verka er hann sagði: „Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.“ „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.“a Ef við ‚afneitum‘ sjálfum okkur neitum við okkur um margt sem við annars hefðum viljað gefa okkur að. Við viðurkennum að við skuldum Guði allt þannig að við gefum okkur honum á vald sem þrælar og kappkostum að læra og gera vilja hans eins og Jesús. — Matteus 5:16; Lúkas 9:23; Jóhannes 6:38.
Snertir allt líf okkar
5. (a) Hvað sagði Pétur eiga að hafa áhrif á allt líf okkar? (b) Hvaða góðum verkum mælti hann með?
5 Pétur benti á að ‚dýrmætt blóð Krists,‘ sem úthellt er í okkar þágu, sé svo verðmætt að við ættum að sýna á allan hátt með lífi okkar að við séum þakklát fyrir það. Postulinn taldi upp fjöldamargt sem þakklæti okkar ætti að fá okkur til að gera. Hann hvatti: „Leggið því af alla vonsku.“ „Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk.“ „‚Þér skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ ‚Sneiðið hjá illu og gjörið gott.‘ „Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er.“ ‚Lifið ekki framar í mannlegum fýsnum, heldur lifið tímann, sem eftir er, að vilja Guðs.‘ — 1. Pétursbréf 1:19; 2:1, 2, 9; 3:11, 15; 4:2.
6. (a) Hvernig létu kristnir menn á fyrstu öld trú sína í ljós? (b) Hvaða fordæmi ætti það að vera okkur?
6 Kristnir menn á fyrstu öld lifðu samkvæmt trú sinni. Hún breytti viðhorfum þeirra og persónuleika og kom þeim til að samstilla líf sitt vilja Guðs. Þeir þoldu útlegð, grýtingu, barsmíð, fangavist og jafnvel dauða frekar en að afneita trú sinni. (Postulasagan 7:58-60; 8:1; 14:19; 16:22; 1. Korintubréf 6:9-11; Efesusbréfið 4:22-24; Kólossubréfið 4:3; Fílemon 9, 10) Hinn kunni rómverski sagnaritari Tacitus, sem fæddist um árið 56, segir að kristnir menn hafi verið „dæmdir á eldinn og brenndir til að lýsa upp nóttina er dagur var úti.“ Samt sem áður hvikuðu þeir ekki! — Annales, XV bók, 44. grein.
7. Í hvaða aðstöðu eru sumir?
7 Í sumum söfnuðum er að finna fólk sem sótt hefur samkomur svo árum skiptir. Það elskar skipulag Jehóva, því finnst þjónar hans vera besta fólkið sem það hefur kynnst, talar jákvætt um sannleikann og ver hann gagnvart þeim sem fyrir utan standa. Eitthvað stendur þó í vegi fyrir því að það taki eindregna afstöðu. Það hefur aldrei stigið hið jákvæða skref sem 3000 lærisveinar stigu á hvítasunnudeginum, það sem hinn trúaði Eþíópíumaður bað um eða það sem Ananías hvatti Sál til að stíga jafnskjótt og þessi fyrrverandi ofsækjandi hafði gert sér ljóst að Jesús væri í raun Messías. (Postulasagan 2:41; 8:36; 22:16) Hvað vantar hjá þessu fólki? Hvers vegna hefur það ekki stigið það skref sem Biblían kallar „bæn til Guðs um góða samvisku“? (1. Pétursbréf 3:21) Ef þú ert í þessari aðstöðu — þekkir sannleikann en hikar við að gera eitthvað í sambandi við hann — líttu þá á þessa grein sem merki sérstaks kærleika til þín.
Hindranir yfirstignar
8. Hvað er viturlegt fyrir þig að gera núna ef þú hefur aldrei verið mikill námsmaður?
8 Hvað getur verið þér þrándur í götu? Í greininni á undan kom fram að sumir eiga erfitt með persónulegt nám. Guð gaf okkur undursamlegan huga og hann ætlast til að við notum hugann í þjónustu hans. Sumt fólk, sem hafði aldrei lært að lesa, hefur lagt sig kappsamlega fram við að læra lestur til að geta kynnst Guði og tilgangi hans betur. Að öllum líkindum ert þú læs, en notar þú þá kunnáttu til rækilegs náms eins og Berojumenn sem „rannsökuðu daglega ritningarnar“ til að sannreyna það sem þeim hafði verið sagt? Hefur þú rannsakað hve sannleikurinn „er víður og langur, hár og djúpur“? Hefur þú grafið nægilega djúpt niður í orð Guðs til að komast að því hve spennandi það er? Hefur þú ræktað með þér ósvikna löngun í að þekkja vilja Guðs? Hefur þú þroskað með þér ósvikið hungur í sannleikann? — Postulasagan 17:10, 11; Efesusbréfið 3:18.
9. Hvað er rétt af þér að gera ef þú ert ósáttur við einhvern í söfnuðinum?
9 Stundum lætur fólk raunverulegt eða ímyndað missætti við einhvern í söfnuðinum halda aftur af sér. Hefur einhver móðgað þig alvarlega? Þá ættir þú að fylgja leiðbeiningu Jesú: ‚Farðu og talaðu um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli.‘ (Matteus 18:15) Kannski uppgötvar þú að einstaklingurinn vissi ekki einu sinni að þú værir móðgaður við hann. En jafnvel þótt hann viti það eru töluverðar líkur á að þú ‚vinnir bróður þinn‘ eins og Jesús sagði. Þú gætir einnig hjálpað honum að forðast það að hneyksla aðra. Yfirvegaðu auk þess hverjum þú ert í raun að þjóna — þessum einstaklingi eða Guði? Er kærleikur þinn til Guðs af svo skornum skammti að þú látir mistök einhvers ófullkomins manns spilla sambandi þínu við Guð?
10, 11. Hvað ættir þú að gera ef einhver leynd synd heldur aftur af þér?
10 Leynd synd getur líka haldið aftur af einstaklingi þannig að hann láti ekki skírast. Um getur verið að ræða eitthvað sem gerðist í fortíðinni eða viðvarandi ranga breytni. Ef það er þitt vandamál, er þá ekki kominn tími til að bæta úr því? (1. Korintubréf 7:29-31) Margir þjónar Jehóva hafa þurft að gera breytingar í lífi sínu. Biblían segir: „Gjörið því iðrun og snúið yður, að syndir yðar verði afmáðar. Þá munu koma endurlífgunartímar frá augliti [Jehóva].“ — Postulasagan 3:19, 20.
11 Einu gildir hvað þú kannt að hafa gert í fortíðinni; þú getur iðrast, snúið við og beðið Guð fyrirgefningar. „Deyðið því hið jarðneska í fari yðar: Hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd . . . þér hafið afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans og íklæðst hinum nýja, sem endurnýjast til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns.“ Þú getur samstillt líf þitt vegum hans, haft hreina samvisku og átt vonina um eilíft líf í réttlátum nýjum heimi. Er það ekki þess virði að leggja á sig hvaðeina sem til þarf? — Kólossubréfið 3:5-10; Jesaja 1:16, 18; 1. Korintubréf 6:9-11; Hebreabréfið 9:14.
12. Hvað ættir þú að gera ef tóbaksnotkun, fíkniefnaneysla eða ofneysla áfengis kemur í veg fyrir að þú hafir hreina samvisku?
12 Eru það tóbaksreykingar, misnotkun áfengis eða ánauð lyfja eða fíkniefna sem hindrar þig í að hafa hreina samvisku? Er það ekki óvirðing við þá dásamlegu gjöf Guðs sem lífið er að stofna því í hættu með slíku? Ef eitthvað af þessu er þér fjötur um fót er sannarlega kominn tími til að bæta úr því. Er það þess virði að fórna lífinu fyrir slíka ávana? Páll sagði: „Hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta.“ Metur þú hreina og réttláta vegu Guðs nógu mikils til að gera það?b — 2. Korintubréf 7:1.
Viðhorf til efnislegra hluta
13, 14. (a) Hvað segir Ritningin um efnisleg markmið? (b) Hvers vegna er mikilvægt að láta hið himneska ganga fyrir?
13 Heimur nútímans setur frama og „auðæfa-oflæti“ framar flestu öðru í lífinu. En Jesús líkti „áhyggjum heimsins“ og ‚táli auðæfanna‘ við „þyrna“ sem kæfa orð Guðs. Hann spurði einnig: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni?“ — 1. Jóhannesarbréf 2:16; Markús 4:2-8, 18, 19; Matteus 16:26.
14 Jesús benti á að Guð hefði séð til þess að fuglarnir fyndu æti og liljurnar klæddust fegursta búningi. Síðan sagði hann: „Hve miklum mun eruð þér fremri fuglunum! . . . Hve miklu fremur mun hann þá klæða yður.“ Jesús gaf okkur það viturlega ráð að ‚vera ekki áhyggjufullir‘ út af efnislegum hlutum. Hann sagði: „Leitið heldur ríkis [Guðs], og þá mun þetta veitast yður að auki.“ Hann benti á að við ættum að taka andleg mál fram yfir annað því að ‚hvar sem fjársjóður okkar er, þar mun og hjarta okkar vera.‘ — Lúkas 12:22-31; Matteus 6:20, 21.
Guði þjónað með hans hjálp
15. Hvaða góð hvatning er fólgin í fordæmi kristinna manna á fyrstu öld?
15 Átt þú erfitt með að bera vitni fyrir öðrum? Heldur feimni aftur af þér? Þá er þýðingarmikið að hafa í huga að kristnir menn á fyrstu öld báru í brjósti sams konar tilfinningar og við nú á tímum. Guð útvaldi ekki marga af hinum vitru og hinum voldugu heldur útvaldi hann „það, sem heimurinn telur veikleika, til að gjöra hinu volduga kinnroða.“ (1. Korintubréf 1:26-29) Voldugir trúarleiðtogar settu sig á móti þessum ‚leikmönnum‘ og skipuðu þeim að hætta að prédika. Hvað gerðu kristnir menn? Þeir báðust fyrir. Þeir báðu Guð um djörfung og hann gaf þeim hana. Af því leiddi að boðskapur þeirra fyllti Jerúsalem og skók síðar allan heiminn! — Postulasagan 4:1-4, 13, 17, 23, 24, 29-31; 5:28, 29; Kólossubréfið 1:23.
16. Hvað lærum við af hinum mikla „fjölda votta“ sem lýst er í 11. kafla Hebreabréfsins?
16 Ótti við menn ætti því aldrei að hindra okkur í að þjóna Guði. Ellefti kafli Hebreabréfsins segir frá ‚miklum fjölda votta‘ sem óttuðust ekki menn heldur Guð. Við ættum að sýna sams konar trú. Postulinn ritaði: „Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.“ — Hebreabréfið 12:1.
17. Hvaða hvatningu gaf Guð fyrir milligöngu Jesaja?
17 Guð getur veitt þjónum sínum ómetanlega hjálp. Skapari alheimsins sagði Jesaja: „Þeir, sem vona á [Jehóva], fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.“ — Jesaja 40:31.
18. Hvernig er hægt að yfirstíga ótta við að taka þátt í prédikun Guðsríkis?
18 Hinir hugrökku og hamingjusömu vottar, sem þú sérð í söfnuðinum þar sem þú sækir samkomur, eru aðeins lítið brot rúmlega fjögurra milljóna kostgæfra þjóna Guðs um víða veröld. Þeir fagna því að eiga hlutdeild í því starfi sem Jesús Kristur sagði fyrir með þessum orðum: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ Ef þér finnst erfitt að taka þátt í að prédika Guðsríki, jafnvel þótt þú sért hæfur til þess, væri þá ekki þjóðráð að biðja reyndan boðbera að leyfa þér að vera samferða út í boðunarstarfið? Guð gefur í raun og veru „ofurmagn kraftarins“ og það kemur þér trúlega á óvart hve gleðirík þessi þjónustu við Guð er. — Matteus 24:14; 2. Korintubréf 4:7; sjá einnig Sálm 56:12; Matteus 5:11, 12; Filippíbréfið 4:13.
19. Hvaða kennslustarf hvatti Jesús lærisveina sína til að vinna?
19 Jesús væntir þess af þeim sem skilja boðskapinn um Guðsríki að breyta eftir honum. Hann sagði: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ — Matteus 28:19, 20.
20. Hvaða spurningar kann að vera viðeigandi af þér að spyrja ef þú sækir fram andlega?
20 Metur þú blessun Guðs, hið ‚dýrmæta blóð‘ Jesú og hina undursamlegu von um eilíft líf nógu mikils til að knýja þig til verka? (1. Pétursbréf 1:19) Hefur þú samræmt líf þitt réttlátum kröfum Guðs? Tekur þú reglulega þátt í að gera menn að lærisveinum? Hefur þú afneitað þér og vígt líf þitt Guði? Ef þú svarar öllum þessum spurningum játandi, þá er kannski tímabært að þú spyrjir einhvern af öldungum safnaðarins, sem þú átt samfélag við, sömu spurningar og hinn trúaði Eþíópíumaður spurði Filippus: „Hvað hamlar mér að skírast?“ — Postulasagan 8:36.
[Neðanmáls]
a Biblíuþýðing J. B. Phillips segir: „Afsali sér öllum rétti til sjálfs sín.“ The New English Bible segir: „Skilji sjálfan sig eftir.“
b Leiðbeiningar um það hvernig hætta megi slíkum ávana er að finna í Varðturninum þann 1. desember 1981, bls. 3-11; enskri útgáfu blaðsins þann 1. júní 1973, bls. 336-43; Vaknið! (enskri útgáfu) þann 8. júlí 1982, bls. 3-12, og íslenskri útgáfu blaðsins í janúar-mars 1983, bls. 3-11. Þessi rit eru líklega aðgengileg í bókasafni næsta Ríkissalar votta Jehóva.
Manst þú?
◻ Hvaða sérstakar ástæður höfum við til að vera Guði þakklát?
◻ Hvað ætti trú og þakklæti að koma okkur til að gera?
◻ Hvaða vandamál geta komið í veg fyrir að við hlýðum Guði og hvað ættum við að gera í málinu?
◻ Hvaða spurninga gæti sá sem enn er ekki skírður spurt sig?
[Rammi á blaðsíðu 16]
Hvers konar „jörð“ er ég?
Jesús sagði dæmisögu um mann sem gekk út til að sá. Sum frækornin féllu hjá götunni og fuglar átu þau upp. Sum féllu í grýtta jörð þar sem var lítill jarðvegur, runnu skjótt upp en skrælnuðu og dóu þegar sól hækkaði á lofti. Sum féllu meðal þyrna og köfnuðu. Jesús sagði að þessir þrír flokkar táknuðu í fyrsta lagi þann sem „heyrir orðið um ríkið og skilur ekki“; í öðru lagi þann sem tekur við orðinu en gefst upp þegar á honum brennur hiti ‚þrenginga eða ofsókna‘ og í þriðja lagi þann sem „áhyggjur heimsins og tál auðæfanna kefja orðið“ hjá.
En Jesús sagði að sum fræ hefðu fallið í góða jörð. Hann sagði að það merkti „þann, sem heyrir orðið og skilur það. Hann er sá, sem ber ávöxt.“ — Matteus 13:3-8, 18-23.
Það er vel við hæfi að við spyrjum okkur: ‚Hvers konar „jörð“ er ég?‘
[Rammi á blaðsíðu 17]
Þeir dóu fyrir trú sína
Þekkir þú einhvern sem er fús til að deyja frekar en að brjóta gegn trú sinni? Þúsundir votta Jehóva hafa gert það. Í ritinu The Nazi State and the New Religions: Five Case Studies in Non-Conformity segir dr. Christine E. King: „Annar hver þýskur vottur var fangelsaður; einn af hverjum fjórum týndi lífi.“
Er ógnir fangabúðanna voru hjá árið 1945 „hafði vottunum fjölgað og þeir höfðu í engu látið undan.“ Í bókinni The Nazi Persecution of the Churches segir J. S. Conway um vottana: „Enginn annar sértrúarflokkur sýndi nándar nærri jafnmikla einbeitni andspænis hryðjuverkum Gestapó í öllu sínu veldi.“
Vottar Jehóva voru ekki ofsóttir vegna stjórnmálaskoðana eða kynþáttar. Þeir þjáðust eingöngu vegna kærleika síns til Guðs og vegna þess að þeir neituðu að brjóta gegn samvisku sinni sem þjálfuð var samkvæmt Biblíunni.