Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Lúkasarguðspjalls
MATTEUSARGUÐSPJALL var fyrst og fremst skrifað fyrir Gyðinga en Markúsarguðspjall fyrir fólk af öðrum þjóðum. Frásaga Lúkasar af ævi og starfi Jesú var hins vegar skrifuð með allar þjóðir í huga og er mjög ítarleg. Hún er skrifuð á árabilinu 56 til 58.
Lúkas segist hafa „athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi“ og frásögn hans vitnar um nákvæmni og umhyggju hins læknismenntaða manns. (Lúk. 1:3) Guðspjallið spannar 35 ár, tímabilið 3 f.Kr. til 33 e.Kr. Næstum 60 prósent af því sem Lúkas segir frá er ekki að finna í hinum guðspjöllunum.
FYRRI HLUTI ÞJÓNUSTU JESÚ
Eftir að Lúkas hefur sagt frá fæðingu Jóhannesar skírara og Jesú lýsir hann því hvernig Jóhannes hóf starf sitt. Það var vorið 29, á 15. stjórnarári Tíberíusar keisara. (Lúk. 3:1, 2) Jesús skírist hjá Jóhannesi þá um haustið. (Lúk. 3:21, 22) Árið 30 er Jesús snúinn aftur til Galíleu og tekur þá að kenna í samkundum Gyðinga. — Lúk. 4:14, 15.
Jesús leggur upp í fyrstu boðunarferð sína um Galíleu. Hann segir við mannfjöldann: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki.“ (Lúk. 4:43) Hann tekur með sér fiskimanninn Símon og fleiri og segir: „Héðan í frá [skuluð þið] menn veiða.“ (Lúk. 5:1-11; Matt. 4:18, 19) Postularnir 12 eru með Jesú á annarri boðunarferð hans um Galíleu. (Lúk. 8:1) Í þeirri þriðju sendir hann postulana 12 til að „boða Guðs ríki og græða sjúka“. — Lúk. 9:1, 2.
Biblíuspurningar og svör:
1:35 — Var notuð eggfruma úr Maríu þegar hún varð þunguð? Til að barnið yrði í raun og veru afkomandi Abrahams, Júda og Davíðs eins og Guð hafði heitið þurfti að nota eina af eggfrumum Maríu. (1. Mós. 22:15, 18; 49:10; 2. Sam. 7:8, 16) Jehóva notaði hins vegar heilagan anda til að flytja fullkomið líf sonar síns í móðurkvið hennar og valda getnaði. (Matt. 1:18) Þetta virðist hafa bætt úr þeim ófullkomleika sem bjó í eggfrumu Maríu og verndað fóstrið allt frá byrjun gegn öllum skaða.
1:62 — Missti Sakaría bæði mál og heyrn? Nei, hann missti aðeins málið. Þegar Sakaría var spurður með bendingum hvað hann vildi nefna drenginn var það ekki af því að hann væri heyrnarlaus. Að öllum líkindum heyrði hann hvað konan hans hafði sagt um nafn drengsins. Kannski var Sakaría gefin bending um að láta í ljós hvað hann vildi að drengurinn héti. Það þurfti aðeins að gefa honum málið á ný og það segir okkur að hann hafi ekki misst heyrnina. — Lúk. 1:13, 18-20, 60-64.
2:1, 2 — Hvernig eru orðin „fyrsta skrásetningin“ hjálp til að tímasetja fæðingu Jesú? Í Biblíunni er getið um tvær skrásetningar sem Ágústus keisari lét gera. Sú fyrri var árið 2 f.Kr. en þá rættist Daníelsbók 11:20. Síðari skrásetningin var gerð árið 6 eða 7 e.Kr. (Post. 5:37) Kýreníus var landstjóri í Sýrlandi meðan báðar skrásetningarnar fóru fram og virðist hafa gegnt því embætti tvisvar. Að Lúkas skuli vísa til fyrri skrásetningarinnar þýðir að Jesús fæddist árið 2 f.Kr.
2:35 — Hvernig myndi María verða „sverði níst“ í sálu sinni? Hér er átt við hryggð Maríu yfir því að flestir skyldu hafna Jesú sem Messíasi og þá kvöl sem það yrði fyrir hana að sjá hann deyja á kvalafullan hátt. — Jóh. 19:25.
9:27, 28 — Jesús lofaði lærisveinunum að sumir þeirra myndu „eigi dauða bíða“ fyrr en þeir hefðu séð hann koma í ríki sínu. Bæði Matteus og Markús segja að ummyndun Jesú hafi átt sér stað sex dögum síðar. Af hverju segir Lúkas þá að þetta hafi gerst „átta dögum“ eftir að Jesús gaf loforðið? (Matt. 17:1; Mark. 9:2) Greinilegt er að Lúkas telur með daginn sem Jesús gaf loforðið og daginn sem ummyndunin átti sér stað.
9:49, 50 — Hvers vegna meinaði Jesús ekki manni nokkrum að reka út illa anda þó að maðurinn fylgdi honum ekki á ferðum hans? Ástæðan var sú að það var ekki búið að stofna kristna söfnuðinn. Þess vegna þurfti maðurinn ekki að fylgja Jesú á ferðum hans til að trúa á nafn hans og reka út illa anda. — Mark. 9:38-40.
Lærdómur:
1:32, 33; 2:19, 51. María geymdi í hjarta sér orð og atburði sem uppfylltu spádóma um Jesú. Geymum við í huga og hjarta spádóma Jesú um ‚endalok veraldar‘ og berum við þá saman við atburði samtímans? — Matt. 24:3.
2:37. Fordæmi Önnu er okkur hvatning til að vera stöðuglynd í tilbeiðslunni á Jehóva, staðföst í bæninni og vanrækja ekki safnaðarsamkomur. — Rómv. 12:12; Hebr. 10:24, 25.
2:41-50. Jósef lagði mikla áherslu á að tilbiðja Guð og sjá vel fyrir efnislegum og andlegum þörfum fjölskyldunnar. Þar er hann góð fyrirmynd þeim sem eiga fyrir fjölskyldu að sjá.
4:4. Við ættum aldrei að láta dag líða án þess að hugleiða andleg mál.
6:40. Biblíukennari þarf að vera nemendum sínum góð fyrirmynd. Hann þarf að lifa samkvæmt því sem hann kennir.
8:15. Til að „geyma [orðið] og bera ávöxt með stöðuglyndi“ verðum við að skilja orð Guðs, meta það mikils og sökkva okkur niður í það. Við þurfum að hugleiða og biðja þegar við lesum í Biblíunni og biblíutengdum ritum.
SÍÐARI HLUTI ÞJÓNUSTU JESÚ
Jesús sendi 70 aðra á undan sér til borga og staða í Júdeu. (Lúk. 10:1) Hann „fór um borgir og þorp og kenndi“. — Lúk. 13:22.
Fimm dögum fyrir páskana 33 kemur Jesús inn í Jerúsalem ríðandi ösnufola. Nú er að því komið að það rætist sem hann sagði við lærisveinana: „Mannssonurinn á margt að líða, honum mun útskúfað verða af öldungum, æðstu prestum og fræðimönnum, hann mun líflátinn, en upp rísa á þriðja degi.“ — Lúk. 9:22, 44.
Biblíuspurningar og svör:
10:18 — Við hvað átti Jesús þegar hann sagði lærisveinunum 70: „Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu“? Hann var ekki að segja að Satan hefði þá þegar verið úthýst af himnum. Það gerðist ekki fyrr en árið 1914, skömmu eftir að Jesús tók við völdum sem konungur á himnum. (Opinb. 12:1-10) Við getum ekki verið svo viss í okkar sök að tala um ókominn atburð eins og hann væri orðinn hlutur, en Jesús var greinilega að leggja áherslu á að það væri öruggt að þetta myndi gerast.
14:26 — Í hvaða skilningi eiga fylgjendur Krists að „hata“ ættingja sína? Í Biblíunni er sögnin „að hata“ stundum notuð í merkingunni að elska einhvern eða eitthvað minna en annað. Kristnir menn eiga að „hata“ ættingja sína í þeirri merkingu að elska þá minna en Jesú. — Matt. 10:37.
17:34-37 — Hverjir eru „ernirnir“ og hvað er „hræið“ þar sem þeir safnast? Þeim sem bjargast er líkt við fjarsýna erni. Þeir safnast að Kristi við ósýnilega nærveru hans og að andlegu fæðunni frá Jehóva, rétt eins og ernir safnast að hræi.
22:44 — Af hverju var Jesús svona angistarfullur? Fyrir því eru nokkrar ástæður. Jesús átti að deyja eins og glæpamaður og hann hafði áhyggjur af þeim áhrifum sem það myndi hafa á Jehóva Guð og nafn hans. Og hann vissi mætavel að eilíft líf og framtíð alls mannkyns var undir því komið að hann reyndist trúr.
23:44 — Var það sólmyrkvi sem olli myrkri í þrjár stundir? Nei, sólmyrkvi á sér aðeins stað þegar tungl er nýtt en ekki þegar tungl er fullt eins og var á páskum. Myrkrið á dánardegi Jesú var kraftaverk Guðs.
Lærdómur:
11:1-4. Fyrirmælin í þessum versum eru orðuð aðeins öðruvísi en faðirvorið sem Jesús fór með í fjallræðunni um 18 mánuðum áður. Því er ljóst að bænir okkar eiga ekki að vera þula sem er endurtekin orðrétt. — Matt. 6:9-13.
11:5, 13. Jehóva er vissulega fús til að bænheyra okkur en við ættum engu að síður að vera þrautseig í bæninni. — 1. Jóh. 5:14.
11:27, 28. Sönn hamingja er sprottin af því að gera vilja Guðs en ekki af fjölskyldutengslum eða efnislegum auði.
11:41. Þegar við gefum þeim sem eru þurfandi ættum við að gera það af fúsu geði og náungakærleika.
12:47, 48. Sá sem sinnir ekki sérstakri ábyrgð sem honum er falin er sekari en sá sem skilur ekki að fullu hvaða skyldur hvíla á honum.
14:28, 29. Það er skynsamlegt að lifa ekki um efni fram.
22:36-38. Þegar Jesús bað lærisveinana að bera vopn var það ekki í þeim tilgangi að þeir ættu að verja hendur sínar. Með því að hafa sverð tiltæk nóttina sem Jesús var svikinn gat hann kennt þeim mikilvægan lærdóm: „Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ — Matt. 26:52.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Jósef var góður fjölskyldufaðir.
[Mynd á blaðsíðu 32]
Lúkas tók saman yfirgripsmestu frásöguna af ævi og þjónustu Jesú.