Af hverju eigum við að fylgja Kristi?
„Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér . . . og fylgi mér.“ — LÚK. 9:23.
1, 2. Af hverju er mikilvægt að hugleiða hvers vegna við eigum að fylgja Kristi?
JEHÓVA hlýtur að vera hæstánægður með að sjá ykkur unga fólkið og ykkur sem hafið nýlega tekið við sannleikanum í fríðum hópi þjóna sinna á jörð. Er þið haldið áfram námi ykkar í Biblíunni, sækið safnaðarsamkomur reglulega og aukið þekkingu ykkar á dýrmætum sannleikanum í orði Guðs þurfið þið að hugsa alvarlega um boð Jesú: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.“ (Lúk. 9:23) Jesús er að gefa í skyn að ykkur ætti að langa til að afneita sjálfum ykkur og fylgja honum. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að hugleiða hvers vegna við eigum að fylgja Kristi. — Matt. 16:13-16.
2 Hvað um okkur sem fetum nú þegar í fótspor Jesú Krists? Við erum hvött til að taka „enn meiri framförum“. (1. Þess. 4:1, 2) Hvort sem við tókum upp sanna tilbeiðslu nýlega eða höfum þjónað Jehóva um áratuga skeið höfum við öll gagn af því að skoða ástæðurnar fyrir því að við eigum að fylgja Kristi. Það hjálpar okkur til að fara eftir hvatningu Páls um að fylgja Kristi enn betur í daglegu lífi okkar. Lítum á fimm ástæður fyrir því að okkur ætti að langa til að fylgja Kristi.
Við styrkjum sambandið við Jehóva
3. Á hvaða tvo vegu getum við kynnst Jehóva?
3 Páll postuli stóð „á miðri Aresarhæð“ þegar hann ávarpaði Aþeninga og sagði: „[Guð] skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar er hann hafði ákveðið setta tíma og mörk bólstaða þeirra. Hann vildi að þær leituðu Guðs ef verða mætti þær þreifuðu sig til hans og fyndu hann. En eigi er hann langt frá neinum af okkur.“ (Post. 17:22, 26, 27) Við getum leitað Guðs og kynnst honum náið. Til dæmis kennir sköpunarverkið okkur heilmikið um eiginleika Guðs. Við getum lært margt um skaparann ef við skoðum verk hans með þakklátum huga. (Rómv. 1:20) Jehóva hefur einnig sagt okkur ýmislegt um sjálfan sig á síðum Biblíunnar. (2. Tím. 3:16, 17) Því meira sem við ‚hugleiðum verk hans og íhugum stórvirki hans‘ því betur kynnumst við honum. — Sálm. 77:13.
4. Hvernig getum við kynnst Jehóva náið með því að fylgja Kristi?
4 Ein góð leið til að kynnast Jehóva enn betur er að fylgja Kristi. Hugsaðu þér dýrðina sem Jesús hafði hjá föður sínum „áður en heimur var til“. (Jóh. 17:5) Hann er „upphaf sköpunar Guðs“. (Opinb. 3:14) Jesús er „frumburður allrar sköpunar“ og var því óralengi á himni með föður sínum. Áður en hann kom til jarðar gerði hann meira en að verja tíma með föður sínum. Hann var náinn félagi Guðs og naut þess að vinna með honum. Þeir bundust sterkustu kærleiksböndum sem hugsast getur. Jesús fylgdist ekki aðeins með því hvernig faðir hans vann og hvaða tilfinningar og eiginleika hann sýndi heldur drakk hann í sig allt sem hann lærði um föður sinn og tileinkaði sér það. Þar af leiðandi varð þessi hlýðni sonur alveg eins og faðirinn. Biblían kallar hann meira að segja „ímynd hins ósýnilega Guðs“. (Kól. 1:15) Með því að fylgja Kristi getum við kynnst Jehóva nánar.
Við líkjum betur eftir Jehóva
5. Hvað auðveldar okkur að líkja betur eftir Jehóva og hvers vegna?
5 Við erum ‚gerð eftir Guðs mynd, lík honum‘ og getum því endurspeglað eiginleika hans. (1. Mós. 1:26) Páll postuli hvatti kristna menn til að vera „eftirbreytendur Guðs svo sem elskuð börn hans“. (Ef. 5:1) Þegar við fylgjum Kristi auðveldar það okkur að líkja eftir Jehóva því að Kristur endurspeglaði viðhorf hans, tilfinningar og persónuleika betur og útskýrði hann með gleggri hætti en nokkur annar gat gert. Þegar Jesús var hér á jörð kunngerði hann ekki aðeins nafn Jehóva heldur opinberaði hann persónuna sem ber nafnið. (Lestu Matteus 11:27.) Það gerði hann í orði og verki, með kennslu sinni og fordæmi.
6. Hvað lærum við um Jehóva af kennslu Jesú?
6 Með kennslu sinni sýndi Jesús hvers Guð ætlast til af okkur og hvað honum finnst um þjóna sína. (Matt. 22:36-40; Lúk. 12:6, 7; 15:4-7) Tökum dæmi: Eftir að Jesús vitnaði í eitt boðorðanna tíu — „þú skalt ekki drýgja hór“ — útskýrði hann hvernig Guð lítur á það sem gerist í hjarta manns löngu áður en hann drýgir hór. Jesús sagði: „Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (2. Mós. 20:14; Matt. 5:27, 28) Þegar Jesús hafði vitnað í túlkun faríseanna á einu lagaákvæði — „þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn“ — lýsti hann því hvernig Jehóva hugsar og sagði: „Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.“ (Matt. 5:43, 44; 2. Mós. 23:4; 3. Mós. 19:18) Við getum líkt betur eftir Guði ef við skiljum hvernig hann hugsar, hvernig honum er innanbrjósts og hvers hann ætlast til af okkur.
7, 8. Hvað lærum við um Jehóva af fordæmi Jesú?
7 Jesús sýndi einnig með fordæmi sínu hvernig faðir hann er. Við sjáum hvernig Jehóva er innanbrjósts með því að lesa í guðspjöllunum að Jesús hafi kennt í brjósti um bágstadda, fundið til með þeim sem þjáðust og gramist við lærisveina sína þegar þeir átöldu börn. (Mark. 1:40-42; 10:13, 14; Jóh. 11:32-35) Hugleiddu hvernig það sem Jesús gerði varpar ljósi á höfuðeiginleika Jehóva. Sýna kraftaverkin sem Jesús gerði ekki hve gríðarlegan mátt hann hafði fengið? Þó notaði hann mátt sinn aldrei í eigin þágu eða til að gera öðrum mein. (Lúk. 4:1-4) Frásagan af því þegar Jesús rak gráðuga kaupmenn út úr musterinu sýnir greinilega að hann hafði sterka réttlætiskennd. (Mark. 11:15-17; Jóh. 2:13-16) Kennsla hans og þau hugnæmu orð sem hann notaði til að ná til hjartna fólks gefa til kynna að viska hans var ‚meiri en Salómons‘. (Matt. 12:42) Hvað getum við sagt um kærleikann sem Jesús sýndi með því að gefa líf sitt í þágu annarra? „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ — Jóh. 15:13.
8 Sonur Guðs endurspeglaði föður sinn svo fullkomlega í öllu sem hann sagði og gerði að hann gat sagt: „Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn.“ (Lestu Jóhannes 14:9-11.) Að fylgja Kristi jafngildir því að líkja eftir Jehóva.
Jesús er hinn smurði
9. Hvenær og hvernig varð Jesús hinn smurði?
9 Skoðum það sem gerðist haustið 29 þegar Jesús kom til Jóhannesar skírara, þá þrítugur að aldri. „Þegar Jesús hafði verið skírður sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig.“ Þar með varð hann Kristur eða Messías. Á þeirri stundu lýsti Jehóva því yfir að Jesús væri hinn smurði og sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ (Matt. 3:13-17) Við höfum því góða ástæðu til að vilja fylgja Kristi.
10, 11. (a) Hvernig er titillinn „Kristur“ notaður um Jesú? (b) Hvers vegna verðum við að gæta þess að fylgja Jesú Kristi?
10 Titillinn „Kristur“ er notaður um Jesú á ýmsa vegu í Biblíunni, meðal annars Jesús Kristur, Kristur Jesús og Kristur. Jesús var fyrstur til að nota heitið ‚Jesús Kristur‘ með nafninu á undan titlinum. Hann sagði í bæn til föður síns: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóh. 17:3) Þessi notkun á titlinum beinir athyglinni að þeim sem var sendur af Guði og varð hinn smurði. Þegar titillinn stendur á undan nafninu, „Kristur Jesús“, er athyglinni hins vegar beint frá einstaklingnum og að stöðu hans eða embættinu sem hann gegnir. (2. Kor. 4:5) Þegar titillinn „Kristur“ er notaður einn og sér leggur það sömuleiðis áherslu á embætti hans sem Messías. — Post. 5:42.
11 Hvernig svo sem titillinn „Kristur“ er notaður um Jesú beinir hann athyglinni að þessum mikilvæga sannleika: Þó að sonur Guðs hafi komið til jarðar sem maður og kunngert vilja föður síns var hann hvorki venjulegur maður né aðeins spámaður. Hann kom til að vera smurður þjónn Jehóva. Við verðum að gæta þess að fylgja hinum smurða.
Jesús er eina leiðin til hjálpræðis
12. Hvað sagði Jesús við Tómas stuttu fyrir dauða sinn sem hefur mikla þýðingu fyrir okkur?
12 Í orðum Jesú til trúfastra postula sinna, nokkrum klukkustundum áður en hann dó, er að finna aðra mikilvæga ástæðu fyrir því að halda áfram að fylgja honum. Þegar Tómas spurði Jesú út í þau orð hans að hann færi burt til að búa þeim stað svaraði Jesús: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.“ (Jóh. 14:1-6) Jesús var að tala við 11 trúfasta postula sína. Hann lofaði þeim stað á himni en orð hans eru líka mikilvæg fyrir þá sem vonast eftir eilífu lífi á jörðinni. (Opinb. 7:9, 10; 21:1-4) Hvernig þá?
13. Í hvaða skilningi er Jesús „vegurinn“?
13 Jesús Kristur er „vegurinn“. Þetta þýðir að það er aðeins fyrir milligöngu hans sem við getum nálgast Guð. Þannig er það með bænina. Það er aðeins þegar við biðjum í nafni Jesú sem við getum verið viss um að faðirinn gefi okkur hvað sem við biðjum um í samræmi við vilja hans. (Jóh. 15:16) En Jesús er líka „vegurinn“ í öðrum skilningi. Syndin hefur slitið mannkynið úr tengslum við Guð. (Jes. 59:2) Jesús gaf „líf sitt til lausnargjalds fyrir alla“. (Matt. 20:28) Þess vegna segir í Biblíunni: „Blóð Jesú . . . hreinsar okkur af allri synd.“ (1. Jóh. 1:7) Sonurinn hefur þannig opnað okkur leið til sátta við Guð. (Rómv. 5:8-10) Við getum átt gott samband við Guð með því að trúa á Jesú og hlýða honum. — Jóh. 3:36.
14. Hvernig er Jesús „sannleikurinn“?
14 Jesús er „sannleikurinn“, ekki aðeins vegna þess að hann talaði alltaf sannleikann og lifði í samræmi við hann heldur vegna þess að hinir fjölmörgu messíasarspádómar rættust á honum. „Því að svo mörg sem fyrirheit Guðs eru,“ sagði Páll postuli, „þá lætur hann Jesú Krist staðfesta þau með ‚jái‘.“ (2. Kor. 1:20) Móselögin geymdu „skugga hins góða sem er í vændum“ en þessi skuggi varð að veruleika í Kristi Jesú. (Hebr. 10:1; Kól. 2:17) Jesús er sá sem allir spádómarnir beina athyglinni að og þeir varpa ljósi á lykilhlutverk hans í því að fyrirætlun Jehóva nái fram að ganga. (Opinb. 19:10) Við þurfum að fylgja Messíasi til að fá að njóta þess að sjá fyrirætlun Guðs með okkur rætast.
15. Í hvaða skilningi er Jesús „lífið“?
15 Jesús er „lífið“ vegna þess að hann keypti mannkynið með blóði sínu og Guð gefur mönnum „eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum“. (Rómv. 6:23) Jesús er einnig „lífið“ þeim sem dánir eru. (Jóh. 5:28, 29) Og hugsaðu þér hvað hann á eftir að gera sem æðsti prestur í þúsundáraríki sínu. Hann mun veita þegnum sínum á jörð eilífa lausn undan synd og dauða. — Hebr. 9:11, 12, 28.
16. Hvaða ástæðu höfum við til að fylgja Jesú?
16 Svarið, sem Jesús gaf Tómasi, hefur mikið gildi fyrir okkur. Jesús er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Hann er sá sem Guð sendi í heiminn til þess að frelsa hann. (Jóh. 3:17) Og enginn kemur til föðurins nema fyrir hann. Biblían segir berum orðum: „Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld sem getur frelsað okkur.“ (Post. 4:12) Hvað svo sem okkur hefur verið kennt áður er skynsamlegt af okkur að trúa á Jesú, fylgja honum og láta hann leiða okkur til lífsins. — Jóh. 20:31.
Við höfum fengið fyrirmæli um að hlýða á Krist
17. Af hverju er mikilvægt að hlýða á son Guðs?
17 Pétur, Jóhannes og Jakob sáu ummyndunina og heyrðu rödd af himni segja: „Þetta er sonur minn sem ég hef útvalið, hlýðið á hann!“ (Lúk. 9:28, 29, 35) Okkur er lífsnauðsynlegt að fylgja þeim fyrirmælum að hlýða á Messías. — Lestu Postulasöguna 3:22, 23.
18. Hvernig hlýðum við á Jesú Krist?
18 Að hlýða á Jesú merkir að ‚beina sjónum okkar til hans‘ og virða fordæmi hans vel fyrir okkur. (Hebr. 12:2, 3) Það er því gott að „gefa því enn betur gaum“ sem við lesum um hann í Biblíunni og í ritum trúa og hyggna þjónsins, svo og því sem við heyrum um hann á safnaðarsamkomum. (Hebr. 2:1; Matt. 24:45) Hlustum alltaf með áhuga á Jesú og fylgjum honum sem hirði okkar. — Jóh. 10:27.
19. Hvað gerir okkur kleift að halda áfram að fylgja Kristi?
19 Getum við haldið áfram að fylgja Kristi sama hvað á dynur? Já, það getum við svo framarlega sem við förum eftir „heilnæmu orðunum“ með því að stunda það sem við lærum og tileinka okkur „þá trú og þann kærleika sem Kristur Jesús veitir“. — 2. Tím. 1:13.
Hvað lærðir þú?
• Hvernig getum við styrkt sambandið við Jehóva með því að fylgja Kristi?
• Hvers vegna er það að líkja eftir Jesú jafngilt því að líkja eftir Jehóva?
• Hvernig er Jesús „vegurinn, sannleikurinn og lífið“?
• Hvers vegna eigum við að hlýða á þann sem Jehóva smurði?
[Mynd á blaðsíðu 29]
Kennsla Jesú endurspeglaði háleita hugsun Jehóva.
[Mynd á blaðsíðu 30]
Við verðum að fylgja hinum smurða trúfastlega.
[Mynd á blaðsíðu 32]
Jehóva lýsti yfir: „Þetta er sonur minn . . . hlýðið á hann!“