Heilræði sem eru ‚salti krydduð‘
„Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 4:6.
1, 2. Hvers vegna er sérlega þýðingarmikið að kristnar leiðbeiningar séu ‚salti kryddaðar‘?
ALLT í gegnum sögu mannsins hefur salt gegnt sérstöku hlutverki sem rotvarnarefni í mat. Ekki aðeins varnar það gegn skemmdum heldur dregur líka bragð matarins betur fram, þannig að margur matur yrði talinn bragðlaus eða bragðlítill án þess. Þegar því Páll skrifaði að orð kristins manns ættu að vera ‚salti krydduð‘ átti hann við að mál okkar ætti bæði að vera uppbyggjandi, meðtækilegt og aðlaðandi. (Kólossubréfið 4:6) Það á sér í lagi við í sambandi við það að veita ráð. Hvers vegna?
2 Tilgangur ráðlegginga er ekki eingöngu sá að koma upplýsingum á framfæri. Í mörgum tilvikum þekkir sá sem ráðin hlýtur sumar af meginreglum Biblíunnar, sem eiga við í hans tilviki, en hann á erfitt með annaðhvort að fara eftir þeim eða skilja þýðingu þeirra. Þess vegna er hið vandasama verk kristins ráðgjafa að breyta hugsunarhætti annars manns. (Galatabréfið 6:1; Efesusbréfið 4:11, 12) Því er „saltið“ nauðsynlegt.
3. Hvaða hjálp hefur Jehóva veitt kristnum ráðgjöfum?
3 Að ráðleggja öðrum er vandaverk, og til að valda því þarf ráðgjafinn að búa yfir þekkingu og dómgreind. (Orðskviðirnir 2:1, 2, 9; 2. Tímóteusarbréf 4:2) Til allrar hamingju hefur Jehóva gefið okkur Biblíuna sem geymir bæði nauðsynlega þekkingu og fjölmörg dæmi um holl ráð skynugra þjóna Guðs. Að kynna okkur sum þeirra mun hjálpa okkur að vera betri ráðgjafar.
Fordæmi ‚undraráðgjafans‘
4. Hvernig getur kristinn öldungur líkt eftir Jesú Kristi þegar hann leiðbeinir söfnuðinum?
4 Sem dæmi skulum við líta á Jesú, ‚undraráðgjafann.‘ (Jesaja 9:6) Undir lok fyrstu aldar lét Jesús senda sjö söfnuðum í Asíu bréf sem höfðu að geyma heilræði frá honum. Þessi bréf eru góð fyrirmynd öldungum sem þurfa að gefa ráð og leiðbeiningar í söfnuðum sínum — og undirstöðuatriðin eiga ekkert síður við þegar einstaklingar eiga í hlut. Þau vandamál, sem Jesús þurfti að ræða, voru alvarleg: fráhvarf frá trúnni, áhrif ‚Jessabelar,‘ hálfvelgja og efnishyggja svo nokkuð sé nefnt. (Opinberunarbókin 2:4, 14, 15, 20-23; 3:1, 14-18) Jesús ræddi því þessi vandamál hreinskilnislega. Enginn vafi lék á hvað hann vildi segja hverjum söfnuði fyrir sig. Þegar kristnir öldungar gefa ráðleggingar í söfnuðum sínum ættu þeir að ‚salta‘ heilræði sín hógværð og góðvild í líkingu við Jesú. (Filippíbréfið 2:3-8; Matteus 11:29) Á hinn bóginn þurfa þeir líka, að fyrirmynd Jesú, að vera opinskáir. Ráðleggingarnar mega ekki að vera svo óljósar og svo almenns eðlis að söfnuðurinn skilji ekki hvað um sé að ræða.
5, 6. Hvað annað getur kristinn öldungur lært af boðskap Jesú til safnaðanna sjö?
5 Taktu líka eftir því að í byrjun hrósaði Jesús hverjum söfnuði mjög, að því leyti sem hægt var, og lauk leiðbeiningum sínum með uppbyggilegum hvatningarorðum. (Opinberunarbókin 2:2, 3, 7; 3:4, 5) Kristnir ráðgjafar ættu líka að krydda ráð sín hrósi og hvatningu. Reyndur öldungur sagði: „Þú nærð ekki miklum árangri ef þú bara skammar bræðurna.“ Þegar öldungarnir þurfa að gefa alvarleg ráð ættu þeir ekki að skilja svo við bræðurna að þeim finnist siðferðisþrek sitt lamað, heldur ættu þeir að finna sig styrkta og staðráðna í að gera betur í framtíðinni. — Samanber 2. Korintubréf 1:1-4.
6 En hvað um boðskap Jesú til safnaðanna í Smyrnu og Fíladelfíu? Hann hafði enga gagnrýni á hendur bræðrunum þar. Þar sem þeir stóðu í erfiðum prófraunum hvatti hann þá hins vegar til að halda áfram að vera þolgóðir. (Opinberunarbókin 2:8-11; 3:7-13) Kristnir umsjónarmenn ættu ekki heldur aðeins að veita ráð þegar leiðréttingar er þörf heldur vera líka alltaf vakandi fyrir því að hrósa bræðrunum fyrir sitt góða starf og hvetja þá til að halda út. — Rómverjabréfið 12:12.
Notaðu líkingar og dæmi
7, 8. (a) Hvernig voru ráð Jesú til fylgjenda hans ‚salti krydduð?‘ (b) Hvers vegna eru líkingar mjög verðmætar í tengslum við ráðgjöf?
7 Öðru sinni þurfti Jesús að gefa leiðbeiningar þegar lærisveinar hans fóru að þrátta um það hver ætti að vera mestur í himnaríki. Hann hefði getað skammað fylgjendur sína þunglega fyrir það. Í staðinn ‚kryddaði hann orð sín salti.‘ Hann kallaði til sín lítið barn og sagði: „Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki.“ (Matteus 18:1-4; Lúkas 9:46-48) Heilræði hans voru skýr en vingjarnleg og uppbyggjandi. Með því að sýna fram á að himnaríki væri mjög ólíkt ríkjum þessa heims hvatti Jesús fylgjendur sína til að vera auðmjúkir, og reyndi að eyða tilefni þrætu þeirra.
8 Veittu líka athygli hve áhrifaríkri kennslutækni Jesús beitti þarna. Hann notaði lifandi dæmi — lítið barn! Vitrir ráðgjafar „salta“ oft orð sín með líkingum og dæmum, því að þau geta undirstrikað alvöru málsins eða hjálpað þeim sem ráðunum er beint að til að rökhugsa og sjá vandamálið í nýju ljósi. Oft geta líkingar og dæmi dregið úr spennu.
9. Nefndu önnur biblíuleg dæmi um notkun líkinga í tengslum við ráðleggingar.
9 Þegar Jehóva varaði Kain við því að hann væri í verulegri hættu að fremja alvarlega synd lýsti hann syndinni á myndrænu máli sem villidýri. Hann sagði: ‚Syndin liggur við dyrnar og hefir hug á þér.‘ (1. Mósebók 4:7) Þegar Jónas reiddist því að Jehóva þyrmdi hinum iðrunarfullu Nínívebúum gaf Guð honum rísínusrunn til að veita honum forsælu. Síðan, þegar plantan visnaði og Jónas kvartaði, sagði Jehóva: „Þig tekur sárt til rísínusrunnsins . . . og mig skyldi ekki taka sárt til Níníve, hinnar miklu borgar, þar sem eru meira en hundrað og tuttugu þúsundir manna?“ (Jónas 4:5-11) Þetta voru áhrifamiklar leiðbeiningar!
10. Hvernig notaði kristinn ráðgjafi líkingu til að hjálpa ungri stúlku að skilja afstöðu foreldra hennar?
10 Einhverju sinni, þegar ung stúlka var í miklu uppnámi út af því að foreldrar hennar settu því skorður hverja hún mætti hafa félagsskap við, reyndi farandumsjónarmaður að hjálpa henni með eftirfarandi dæmi: „Þér finnst gaman að sauma, er það ekki? Hugsaðu þér að þú hafir eytt miklum tíma í að sauma fallegan kjól fyrir vinkonu þína, en síðan komist að raun um að hún notaði hann fyrir gólftusku. Hvernig myndi þér líða?“ Stúlkan svaraði því til að henni myndi þykja það leiðinlegt. Bróðirinn hélt þá áfram: „Það er þannig sem foreldrar þínir líta á málin. Þeir hafa notað mikinn tíma til að ala þig upp og eru stoltir af þér. Þeir vilja því að þú hafir félagsskap við fólk sem fer rétt með þig, ekki þá sem vinna þér tjón þegar upp er staðið.“ Þessi samlíking hjálpaði stúlkunni að meta að verðleikum það sem foreldrar hennar voru að reyna að gera.
Spyrðu spurninga
11. Hvernig beitti Jehóva spurningum þegar hann áminnti Jónas?
11 Þegar Jehóva talaði við Jónas um ósanngjarna reiði hans spurði hann spurninga eins og þú hefur ef til vill veitt athygli. Þegar Jónas, reiður yfir því að Níníve skyldi ekki hafa verið eytt, vildi fá að deyja, sagði Jehóva: „Er það rétt gjört af þér að reiðast svo?“ Jónas svaraði engu. Jehóva leyfði því að rísínusrunnurinn yxi upp og dæi síðan. Það kom Jónasi í enn þá meira uppnám. Jehóva spurði hann því: „Er það rétt gjört af þér að reiðast svo vegna rísínusrunnsins?“ Nú svaraði Jónas: „Það er rétt að ég reiðist til dauða!“ Núna, eftir að spámaðurinn hafði svarað Jehóva, bar hann viðhorf Jónasar gagnvart lítilmótlegri plöntu saman við sín eigin viðhorf gagnvart Níníve og batt síðan endahnútinn með spurningunni: „Og mig skyldi ekki taka sárt til Níníve?“ (Jónas 4:4, 9, 11) Jónasi var þar með ráðlagt að líkja eftir viðhorfum Jehóva til hinna iðrunarfullu Nínívebúa.
12. Hvert er gildi spurninga í tengslum við ráðgjöf? Lýstu með dæmi.
12 Já, spurningar hjálpa ráðgjafanum að finna út hvað sá sem þarf að fá ráðleggingar er að hugsa. Þær hjálpa líka þeim einstaklingi að gera sér gleggri grein fyrir eigin vandamálum og hvötum. Til dæmis gæti einhverjum fundist að hann hafi fullan rétt til að fá sér í glas áður en hann ekur heim til sín. Honum gæti í sannleika fundist áfengi alls engin áhrif hafa á sig. Vinur hans gæti hugsanlega rökrætt við hann eftir þessum nótum: ‚En setjum nú svo að þú lentir í slysi án þess þó að vera valdur að því? Hvað myndi lögreglan halda ef hún veitti því athygli að þú hefðir drukkið? Og gerum nú ráð fyrir að áfengið hefði jafnvel örlítil áhrif á viðbrögð þín. Vilt þú í raun aka bifreið þegar viðbrögð þín eru ekki fullkomin? Er það áhættunnar virði, bara til að geta fengið sér í glas?‘
13. Hvernig notaði ráðgjafi einn Biblíuna, ásamt spurningum, til að leiðbeina? Hvers vegna skilaði það árangri?
13 Kristin ráð eru alltaf byggð á Biblíunni. Hvenær sem mögulegt er nota kristnir ráðgjafar sjálfa Biblíuna þegar þeir ráða öðrum heilt. Hún er öflugt hjálpargagn. (Hebreabréfið 4:12) Lýsum því með dæmi: Reyndur öldungur var að reyna að hjálpa boðbera sem ekki var lengur virkur í prédikunarstarfinu. Öldungurinn vakti athygli á dæmisögu Jesú um mann sem átti tvo syni sem hann bað báða tvo að fara og vinna í víngarðinum. Annar sagðist myndu fara en fór ekki. Hinn sagðist ekki myndu fara en ákvað loks að gera það. (Matteus 21:28-31) Síðan spurði ráðgjafinn: „Hverjum þessara sona líkist þú í rauninni núna?“ Boðberinn skildi strax hvað við var átt, ekki síst þegar ráðgjafinn hélt áfram: „Hvernig heldur þú að Jehóva, eigandi víngarðsins, líti á stöðu þína?“
14. Við hvaða aðrar kringumstæður geta spurningar verið öflug verkfæri í tengslum við leiðbeiningar?
14 Svipað er uppi á teningnum þegar reynt er að hjálpa þeim sem eru haldnir efasemdum, eiga við að glíma vandamál í hjónabandi eða innan fjölskyldunnar, eiga í ágreiningi við aðra í söfnuðinum eða búa við mjög erfiðar aðstæður.a Viðeigandi spurningar hjálpa þeim sem verið er að ráða heilt að rökhugsa, líta í eigin barm og komast að réttri niðurstöðu.
Hlustaðu vandlega
15. (a) Hvað gerðu hinir þrír „huggarar“ Jobs ekki? (b) Hvaða hjálp er kristnum ráðgjafa í því að hlusta?
15 Mundu þó að þegar þú spyrð spurninga ert þú að gefa í skyn að þú viljir fá svar. (Orðskviðirnir 18:13) Ráðgjafar ættu ekki að falla í þá gildru sem hinir þrír „huggarar“ Jobs féllu í. Job talaði til þeirra en í reyndinni hlustuðu þeir ekki. Þeir höfðu þegar gert upp hug sinn um að þjáningar Jobs stöfuðu af syndum hans sjálfs. (Jobsbók 16:2; 22:4-11) Ólíkt þeim ætti kristinn ráðgjafi að hlusta vandlega. Með því getur hann hugsanlega veitt athygli þögnum eða raddbrigðum sem gefa til kynna að öll sagan hafi enn ekki verið sögð. Kannski getur viðbótarspurning dregið eitthvað fram sem leynist í hugskoti mannsins. — Samanber Orðskviðina 20:5.
16. Hvers er krafist af ráðgjafa þegar hann hlýðir á kristinn bróður sinn sem er í uppnámi?
16 Þetta er að vísu ekki alltaf auðvelt. Sá sem er í uppnámi getur gusað út úr sér: „Ég hata foreldra mína!“ eða „Ég get ekki búið lengur með manninum mínum!“ Það er ekki auðvelt að hlusta á slíkt. En mundu að Jehóva var fús til að hlusta þegar Asaf kvartaði undan því að trúfesti hans virtist til einskis. (Sálmur 73:13, 14) Guð hlustaði líka þegar Jeremía sagði að hann hefði tælt sig. (Jeremía 20:7) Svo virðist sem Habakkuk hafi kvartað undan því að hinir óguðlegu kúguðu hina réttlátu og Jehóva sæi það ekki einu sinni. (Habakkuk 1:13-17) Kristnir ráðgjafar ættu að vera jafnfúsir til að hlusta. Ef fólk ber í raun þessar tilfinningar í brjósti þarf ráðgjafinn að vita það til að hann geti orðið að liði. Hann ætti að varast að hvetja viðmælanda sinn óbeint til að láta í ljós þá skoðun sem honum finnst hann eiga að hafa frekar en þá sem hann hefur. Ráðgjafinn ætti líka að forðast harkaleg viðbrögð eða fordæmingu, því að með því gæti hann latt viðmælanda sinn þess að opna hjarta sitt frekar. — Orðskviðirnir 14:29; 17:27.
17. Hvers vegna er það eitt að hlusta á bræður okkar stundum leið til að hughreysta þá?
17 Stundum felst ráðgjöf okkar að mestu leyti í því að hlusta, leyfa hinum einstaklingnum að úthella hjarta sínu, sorgum eða þjáningum. Þegar Naomí sneri aftur frá Móab heilsuðu konurnar í Ísrael henni með þessum orðum: „Er þetta Naomí?“ En Naomí svaraði hrygg í bragði: „Kallið mig ekki Naomí, kallið mig Mara, því að hinn Almáttki hefir búið mér beiska harma. Rík fór ég héðan, en tómhenta hefir [Jehóva] látið mig aftur hverfa. Hví kallið þér mig Naomí, úr því [Jehóva] hefir vitnað í móti mér og hinn Almáttki hrellt mig?“ (Rutarbók 1:19-21) Konurnar í Ísrael gátu fáu svarað. En oft getur það eitt stuðlað að lækningu að vera fús og reiðubúinn til að hlusta þegar aðrir úthella tilfinningum sínum og sársauka.b
Vertu raunsær
18. (a) Hvaða árangri skiluðu ráð Jehóva og Jesú Krists? (b) Hvaða eiginleika ætti kristinn ráðgjafi að rækta með sér?
18 Að sjálfsögðu eru viðbrögð manna við leiðbeiningum misjöfn. Bersýnilega brást Jónas vel við ráðum Jehóva. Hann jafnaði sig svo vel á beiskju sinni og reiði að hann skýrði frá reynslu sinni til að aðrir gætu lært af henni. Það tók fylgjendur Jesú nokkurn tíma að læra auðmýkt. Meira að segja kvöldið áður en Jesús dó fóru þeir aftur að þrefa um hver þeirra væri mestur! (Lúkas 22:24) Þess vegna þurfa þeir sem leiðbeina öðrum að vera þolinmóðir. (Prédikarinn 7:8) Sá sem hefur djúpstæð, röng viðhorf breytir sjaldnast um stefnu við fáein orð frá öldungi. Langvarandi vandamál hjóna í milli hverfa ekki eins og dögg fyrir sólu við eitt samtal við þroskaðan kristinn mann. Oft tekur það marga mánuði að ná sér eftir alvarleg veikindi, og eins getur það verið með andleg vandamál. Og sumir vilja hreinlega ekki hlusta á góð ráð. Þrátt fyrir það að Kain fengi ráð frá sjálfum Jehóva myrti hann samt sem áður bróður sinn. — 1. Mósebók 4:6-8.
19. Hvernig getur söfnuðurinn hjálpað þeim sem særðir hafa verið tilfinningalega?
19 Þeir sem eiga við að glíma erfið vandamál ættu að vera raunsæir í því hvers má vænta af söfnuðinum. Kristinn bróðir getur ekki tekið burt langvarandi þunglyndi eða djúp, tilfinningaleg sár af völdum harmleiks eða erfiðrar reynslu. Þegar um líkamleg veikindi er að ræða getur læknir stundum lítið gert nema að láta sjúklingnum líða ögn betur á meðan tíminn vinnur á veikindum hans. Eins er það með kristinn mann sem þjáist tilfinningalega; söfnuðurinn getur reynt að láta honum líða betur með því að biðja með honum og fyrir honum, uppörva hann hvenær sem tækifæri gefst og veita hverja þá hjálp sem unnt er. Þá sjá tíminn og andi Jehóva venjulega um lækninguna. (Orðskviðirnir 12:25; Jakobsbréfið 5:14, 15) Því sagði einstaklingur sem orðið hafði fórnarlamb sifjaspells: „Þótt sifjaspell geti reynt óskaplega á tilfinningarnar gerir skipulag Jehóva mikið til að styðja fólk, og með hjálp Ritningarinnar og stuðningi bræðranna og systranna er hægt að vinna sigur.“c
20. Hvaða hlutverki gegna ráð og leiðbeiningar fyrir okkur öll þegar við leitumst við að halda áfram að þjóna Jehóva?
20 Já, kristnum mönnum er skylt að hjálpa hver öðrum. Allir í söfnuðinum, þó sérstaklega öldungar, ættu að láta sér umhugað um velferð annarra og veita vingjarnleg, biblíuleg ráð þegar þeirra er þörf. (Filippíbréfið 2:4) Að sjálfsögðu ættu slík ráð ekki að vera einræðisleg eða hranaleg. Þau ættu ekki heldur að gefa öðrum þá tilfinningu að verið sé að reyna að ráða yfir lífi hans. Þess í stað ættu þau að byggjast á Biblíunni og vera ‚salti krydduð.‘ (Kólossubréfið 4:6) Allir þurfa á hjálp að halda af og til, og tímabær ráð, ‚söltuð‘ góðvild og hvatningarorðum, hjálpa okkur öllum að halda áfram að ganga veginn til eilífs lífs.
[Neðanmáls]
a Nánari upplýsingar um ráðleggingar til hjóna er að finna í greininni „How to Give Counsel That Really Helps“ í Vaknið! (enskri útgáfu) þann 22. júlí 1983.
b Tillögur um það hvernig hjálpa megi kristnum mönnum, sem eru niðurdregnir, er að finna í greinunum „Speak Consolingly to the Depressed Souls“ í Varðturninum (enskri útgáfu) þann 15. apríl 1982 og „An Educated Tongue — ‚To Encourage the Weary‘ “ í ensku útgáfunni þann 1. júní 1982.
c Nánari upplýsingar um hjálp til handa þeim sem fengið hafa djúp, andleg sár er að finna í greinunum „Hope for Despairing Ones“ og „They Want to Help“ í enskri útgáfu Varðturnsins þann 1. ágúst 1983 og „Help for the Victims of Incest“ í enskri útgáfu blaðsins þann 1. október 1983.
Manst þú?
◻ Hvað geta öldungar lært af heilræðum Jesú til safnaðanna sjö?
◻ Hvaða dæmi eru í Biblíunni um notkun líkinga og dæmisagna í tengslum við leiðbeiningar?
◻ Hvaða gildi hafa spurningar fyrir kristinn ráðgjafa?
◻ Hvernig geta reyndir ráðgjafar notað Biblíuna?
◻ Hvers vegna ætti sá sem ræður öðrum heilt líka að vera góður áheyrandi?
[Mynd á blaðsíðu 31]
Jónas var bitur og reiður en brást greinilega vel við leiðbeiningum Jehóva.
[Mynd]
Jesús notaði barn sem dæmi til að undirstrika mál sitt, og gaf lærisveinum sínum skýr, vingjarnleg og uppbyggjandi heilræði.