Trúarstaðfesta ykkar — reynd núna
„Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir. Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 1:2, 3.
1. Af hverju mega kristnir menn búast við að trú þeirra verði reynd?
SANNKRISTNA menn langar alls ekkert til að þjást og þeir hafa enga ánægju af sársauka og niðurlægingu. En þeir eru minnugir orða Jakobs, hálfbróður Jesú, sem standa hér að ofan. Kristur sagði berlega að lærisveinar sínir mættu búast við ofsóknum og öðrum erfiðleikum af því að þeir fylgdu stöðlum Guðs. (Matteus 10:34; 24:9-13; Jóhannes 16:33) Samt sem áður geta slíkar prófraunir verið gleðiefni. Hvernig þá?
2. (a) Hvernig geta trúarprófraunir verið gleðiefni? (b) Hvernig getur þolgæði birst í fullkomnu verki?
2 Ein aðalástæðan fyrir því að trúarprófraunir eru okkur gleðiefni er sú að þær geta borið góðan ávöxt. Trúarstaðfesta í prófraunum „vekur þolgæði“ eins og Jakob segir. Það getur verið gagnlegt fyrir okkur að þroska með okkur þennan dýrmæta, kristna eiginleika. Jakob skrifaði: „Þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki, til þess að þér séuð fullkomnir og algjörir og yður sé í engu ábótavant.“ (Jakobsbréfið 1:4) Þolgæðið hefur ‚verk‘ að vinna. Það gegnir því hlutverki að fullkomna okkur og gera að öfgalausum og þroskuðum kristnum mönnum. Þegar prófraunirnar fá að hafa sinn gang án þess að reynt sé að binda snöggan enda á þær með óbiblíulegum aðferðum verður trúin fáguð og reynd. Ef okkur hefur skort þolinmæði, meðaumkun, góðvild eða kærleika í samskiptum við menn og málefni, þá getur þolgæði gert okkur að betri mönnum. Já, hlutirnir gerast í þessari röð: Prófraunir vekja þolgæði, þolgæði eflir kristna eiginleika og þeir eru gleðiefni. — 1. Pétursbréf 4:14; 2. Pétursbréf 1:5-8.
3. Af hverju ættum við ekki að hörfa óttaslegin undan þegar reynir á trúna?
3 Pétur postuli bendir líka á hvers vegna við þurfum ekki að óttast eða hörfa undan þegar reynir á trúna. Hann skrifaði: „Fagnið því, þótt þér nú um skamma stund hafið orðið að hryggjast í margs konar raunum. Það er til þess að trúarstaðfesta yðar, langtum dýrmætari en forgengilegt gull, sem þó stenst eldraunina, geti orðið yður til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists.“ (1. Pétursbréf 1:6, 7) Þessi orð eru sérstaklega hvetjandi fyrir okkur því að ‚þrengingin mikla‘ — tími lofs, vegsemdar, heiðurs og björgunar — er miklu nær núna en margir halda og miklu nær en hún var þegar við tókum trú. — Matteus 24:21; Rómverjabréfið 13:11, 12.
4. Hvernig hugsaði bróðir nokkur um prófraunirnar sem hann og aðrir smurðir kristnir menn höfðu orðið fyrir?
4 Í greininni á undan fjölluðum við um prófraunir sem hinar smurðu leifar urðu fyrir eftir 1914. Voru þær gleðiefni? Bróðir A. H. Macmillan leit um öxl og sagði: „Ég hef séð skipulagið verða fyrir mörgum erfiðum prófraunum og ég hef séð trú margra reynda. Með hjálp anda Guðs hefur það staðist og dafnað. Ég hef séð viskuna í því að bíða þolinmóður eftir að Jehóva gefi okkur gleggri skilning á Ritningunni í stað þess að komast í uppnám út af nýjum hugmyndum. . . . Hvernig svo sem við þurfum að leiðrétta sjónarmið okkar af og til, þá breytir það ekki þeirri miskunnarráðstöfun sem lausnargjaldið er eða fyrirheiti Guðs um eilíft líf. Við þurftum því ekki að láta óuppfylltar væntingar eða breytt sjónarmið veikja trú okkar.“ — Varðturninn (ensk útgáfa), 15. ágúst 1966, bls. 504.
5. (a) Hvernig var það leifunum til gagns að trú þeirra var reynd? (b) Af hverju ættum við að hafa áhuga á því að trúin sé reynd?
5 Smurðir kristnir menn, sem komust óhultir gegnum reynslutíma áranna 1914-19, voru frelsaðir undan yfirdrottnun heimsins og mörgum babýlonskum trúariðkunum. Leifarnar gengu fram sem hreinsað og fágað fólk. Þær báru fúslega fram lofgerðarfórnir til Guðs í þeirri vissu að þær nytu velþóknunar hans. (Jesaja 52:11; 2. Korintubréf 6:14-18) Dómurinn hafði hafist á húsi Guðs en honum yrði ekki lokið á einhverju afmörkuðu tímabili. Prófun og hreinsun fólks Guðs heldur áfram. Trú þeirra er líka reynd sem vonast til að tilheyra ‚múginum mikla‘ og lifa af ‚þrenginguna miklu.‘ (Opinberunarbókin 7:9, 14) Það gerist á mjög svipaðan hátt og hinar smurðu leifar fengu að reyna en einnig á aðra vegu.
Hvernig má búast við að trú þín verði reynd?
6. Hvers konar erfiða prófraun hafa margir þurft að þola?
6 Margir kristnir menn hafa velt fyrir sér hvernig þeir geti staðist beinar árásir á trú sína. Þeir eru minnugir þessarar frásögu: „[Leiðtogar Gyðinga] kölluðu á postulana, húðstrýktu þá, fyrirbuðu þeim að tala í Jesú nafni og létu þá síðan lausa. Þeir fóru burt frá ráðinu, glaðir yfir því, að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú.“ (Postulasagan 5:40, 41) Og nútímasaga fólks Guðs, einkanlega í heimsstyrjöldunum, sýnir greinilega að margir vottar Jehóva máttu þola bókstaflegar barsmíðar af hendi ofsækjendanna og þaðan af verra.
7. Hve langt hafa sumir kristnir nútímamenn þurft að ganga í að sýna trú?
7 Heimurinn gerir engan greinarmun á hinum smurðu leifum og miklum múgi ‚annarra sauða‘ og ofsækir þá jöfnum höndum. (Jóhannes 10:16) Með árunum hafa menn af báðum hópum verið reyndir harkalega með fangavist og jafnvel píslarvættisdauða vegna kærleika síns til Guðs og trúar á hann. Báðir hóparnir hafa þarfnast anda Guðs, óháð von sinni. (Samanber Varðturninn (enska útgáfu), 15. júní 1996, bls. 31.) Í valdatíð nasista í Þýskalandi á fjórða og fimmta áratugnum sýndu margir þjónar Jehóva einstaka trú, þeirra á meðal börn, og ófáir voru reyndir til hins ítrasta. Á síðustu árum hefur fólk Jehóva verið ofsótt í löndum svo sem Búrúndí, Erítreu, Eþíópíu, Malaví, Mósambík, Rúanda, Saír og Singapúr. Og þess konar prófraunir halda áfram.
8. Hvernig sýna orð bróður í Afríku að trúarprófraunir fela meira í sér en ofsóknir og barsmíðar?
8 Eins og áður hefur verið bent á er trú okkar líka reynd með lúmskari hætti. Sumt af því er ekki auðsætt og afdráttarlaust. Veltu fyrir þér hvernig þú myndir bregðast við einhverju af eftirfarandi. Tíu barna faðir í Angóla tilheyrði söfnuði sem einangraðist um tíma og var ekki í sambandi við þá bræður sem fóru með forystuna. Síðar gátu þeir heimsótt söfnuðinn. Hann var spurður hvernig honum gengi að framfleyta fjölskyldunni. Honum vafðist tunga um tönn og sagði einungis að ástandið væri erfitt. Gat hann gefið börnunum að minnsta kosti eina máltíð á dag? Hann svaraði: „Varla. Við höfum lært að láta okkur nægja það sem við höfum.“ Síðan sagði hann með sannfæringu: „En megum við ekki búast við þessu á síðustu dögum?“ Slík trú er óvenjuleg í heiminum en ekki óalgeng meðal dyggra kristinna manna sem bera fullt traust til þess að fyrirheitin um Guðsríki rætist.
9. Hvernig reynir á okkur í sambandi við 1. Korintubréf 11:3?
9 Múgurinn mikli er líka reyndur í sambandi við guðræðislegar aðferðir. Kristna söfnuðinum um heim allan er stýrt eftir guðræðislegum stöðlum og meginreglum Guðs. Það felur í fyrsta lagi í sér að viðurkenna Jesú sem leiðtoga, sem skipað höfuð safnaðarins. (1. Korintubréf 11:3) Fús undirgefni við hann og föður hans birtist í því að við treystum á guðræðislegar útnefningar og ákvarðanir tengdar því að gera vilja Jehóva í einingu. Enn fremur eru útnefndir karlmenn í hverjum söfnuði til að fara með forystuna. Þeir eru ófullkomnir og gallar þeirra blasa kannski við okkur, en við erum samt hvött til að virða þessa umsjónarmenn og vera þeim undirgefin. (Hebreabréfið 13:7, 17) Finnst þér það stundum erfitt? Reynir það virkilega á þig? Ef svo er, hefurðu þá gagn af því?
10. Hvernig reynir á okkur í sambandi við boðunarstarfið?
10 Við erum líka reynd í sambandi við þau sérréttindi og þá kröfu að taka reglulega þátt í boðunarstarfinu. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að heilshugar þátttaka í boðunarstarfinu er meira en lítilsháttar málamyndaprédikun. Munum hvernig Jesús hrósaði fátæku ekkjunni sem gaf alla björg sína. (Markús 12:41-44) Við gætum spurt okkur hvort við séum að gefa af sjálfum okkur í boðunarstarfinu. Við eigum öll að vera vottar Jehóva allan daginn og reiðubúin að láta ljós okkar lýsa hvenær sem er. — Matteus 5:16.
11. Hvernig getur breyttur skilningur eða ráðleggingar um hegðun reynt á suma?
11 Önnur hugsanleg prófraun tengist því hve mikils við metum hið vaxandi ljós sem varpað er á sannleika Biblíunnar og ráðleggingar hins trúa þjónshóps. (Matteus 24:45) Stundum kostar það breytta hegðun eins og til dæmis þegar ljóst varð að tóbaksnotendur yrðu að hætta neyslu ef þeir vildu tilheyra söfnuðinum áfram.a (2. Korintubréf 7:1) Það gæti reynt á fyrir suma að þurfa að breyta um smekk fyrir tónlist eða eitthvert annað skemmtiefni.b Véfengjum við viskuna í ráðleggingunum sem gefnar eru eða látum við anda Guðs móta hugsun okkar og hjálpa okkur að íklæðast kristna persónuleikanum? — Efesusbréfið 4:20-24; 5:3-5.
12. Hvað þarf til að styrkja trúna eftir skírn?
12 Um áratuga skeið hefur múginum mikla fjölgað og þeir sem láta skírast halda áfram að styrkja samband sitt við Jehóva. Það felur meira í sér en að sækja eitt og eitt kristið mót, fáeinar samkomur í ríkissalnum og taka þátt í boðunarstarfinu af og til. Lýsum þessu með dæmi: Maður getur staðið líkamlega utan Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falstrúarbragðanna, en hefur hann virkilega snúið baki við henni? Heldur hann enn í það sem endurspeglar anda Babýlonar hinnar miklu — anda sem hunsar réttláta staðla Guðs? Leggur hann lítið upp úr siðsemi og tryggð í hjónabandi? Leggur hann meiri áherslu á efnisleg og persónuleg áhugamál en andleg? Já, hefur hann haldið sér óflekkuðum af heiminum? — Jakobsbréfið 1:27.
Það er gagnlegt að trúin sé reynd
13, 14. Hvað hafa sumir gert eftir að hafa byrjað að stunda sanna guðsdýrkun?
13 Ef við höfum í alvöru flúið Babýlon hina miklu og yfirgefið heiminn megum við ekki horfa um öxl. Að horfa um öxl gæti kostað að maður missti af þegnrétti í Guðsríki, miðað við meginregluna í Lúkasi 9:62. Þar sagði Jesús: „Enginn, sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki.“
14 Sumir þeirra, sem gerðust kristnir einhvern tíma, leyfðu sér síðar að taka aftur upp háttalag heimsins. Þeir hafa ekki staðið gegn anda heimsins. (2. Pétursbréf 2:20-22) Veraldleg hugðarefni hafa gleypt tíma þeirra og athygli og tálmað þeim að taka framförum. Í stað þess að hafa hjartað og hugann við ríki Guðs og réttlæti hans, og láta það ganga fyrir í lífinu, hafa þeir vikið af veginum til að keppa að efnishyggjumarkmiðum. Ef þeir finna ekki hvöt hjá sér til að viðurkenna veika trú sína og hálfvelgju, breyta um stefnu og leita ráða Guðs, þá eiga þeir á hættu að missa dýrmætt samband sitt við Jehóva og skipulag hans. — Opinberunarbókin 3:15-19.
15. Hvað þarf til að vera Guði þóknanlegur?
15 Að njóta velþóknunar Guðs og eiga í vændum að komast lifandi gegnum þrenginguna miklu er háð því að halda sér hreinum og hafa ‚þvegið skikkjur sínar í blóði lambsins.‘ (Opinberunarbókin 7:9-14; 1. Korintubréf 6:11) Ef við höldum okkur ekki hreinum og réttlátum frammi fyrir Guði verður heilög þjónusta okkar ekki þóknanleg honum. Við ættum öll að hafa hugfast að trúarstaðfesta hjálpar okkur að halda út og forðast að baka okkur vanþóknun Guðs.
16. Hvernig geta lygar reynt á trú okkar?
16 Fjölmiðlar og veraldleg yfirvöld draga oft upp alranga mynd af kristinni trú og líferni með því að tala niðrandi um fólk Guðs og fara með hrein ósannindi. Það ætti ekki að koma okkur á óvart því að Jesús benti á að heimurinn myndi hata okkur af því að við tilheyrðum honum ekki. (Jóhannes 17:14) Ætlum við að leyfa þeim sem eru blindaðir af Satan að draga úr okkur kjark og hræða okkur svo að við skömmumst okkar fyrir fagnaðarerindið? Leyfum við lygum um sannleikann að hafa áhrif á reglulega samkomusókn okkar og prédikunarstarf? Eða erum við staðföst og hugrökk og staðráðnari en nokkru sinni fyrr að halda áfram að boða sannleikann um Jehóva og ríki hans?
17. Hvaða vissa getur verið okkur hvatning til að halda áfram að sýna trú?
17 Uppfylltir biblíuspádómar sýna að það er langt liðið á endalokatímann. Það er öruggt að biblíulegar væntingar okkar um nýjan, réttlátan heim verða að unaðslegum veruleika. Uns sá dagur rennur upp, megum við öll iðka óhagganlega trú á orð Guðs og sanna trú okkar með því að hætta ekki að prédika fagnaðarerindið um ríkið um heim allan. Hugsaðu um allar þær þúsundir nýrra lærisveina sem láta skírast í hverri viku. Sýnir það ekki mætavel að þolinmæði Jehóva, sem fær hann til að bíða með að fullnægja dómi sínum, getur orðið mörgum fleiri til hjálpræðis? Erum við ekki glöð að Jehóva skuli hafa leyft prédikunarstarfi Guðsríkis til bjargar mannslífum að halda áfram? Og erum við ekki himinlifandi að milljónir manna skuli hafa tekið við sannleikanum og sýnt trúna í verki?
18. Hvað ert þú ákveðinn í að gera varðandi þjónustuna við Jehóva?
18 Við getum ekki sagt til um hve lengi verður haldið áfram að reyna trú okkar. Eitt er þó víst: Jehóva hefur fastákveðið reikningsskiladag hins núverandi illa himins og jarðar. Þangað til skulum við vera ákveðin í að líkja eftir skínandi trúarstaðfestu fullkomnara trúar okkar, Jesú. Og fylgjum fordæmi hinna aldurhnignu, smurðu leifa og annarra sem þjóna hugrakkir á meðal okkar.
19. Hvað máttu vera viss um að sigrar heiminn?
19 Verum staðráðin í að halda linnulaust áfram að boða sérhverri þjóð, kynkvísl, tungu og lýð hinn eilífa fagnaðarboðskap í samvinnu við engilinn sem flýgur um háhvolf himins. Látum yfirlýsingu engilsins heyrast: „Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans.“ (Opinberunarbókin 14:6, 7) Hvaða afleiðingar hefur trúarstaðfesta okkar þegar þessi dómur Guðs er felldur? Verða þær ekki dýrlegur sigur — frelsun frá núverandi heimskerfi inn í réttlátan, nýjan heim Guðs? Með því að standast trúarprófraunir getum við tekið undir með Jóhannesi postula: „Trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:4.
[Neðanmáls]
a Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 1. júní 1973, bls. 336-43 og 1. júlí 1973, bls. 409-11.
b Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. júlí 1983, bls. 27-31.
Manstu?
◻ Hvernig geta trúarprófraunir verið gleðiefni?
◻ Nefndu nokkrar trúarprófraunir sem ekki eru auðsæjar?
◻ Hvaða gagn höfum við af því að standast trúarprófraunir?
[Myndir á blaðsíðu 27]
A. H. Macmillan (fremst til vinstri) um þær mundir sem hann og aðrir forstöðumenn Varðturnsfélagsins voru ranglega fangelsaðir.
Hann var viðstaddur mótið í Detroit í Michigan í Bandaríkjunum árið 1928.
Bróðir Macmillan sýndi trú fram á gamals aldur.
[Myndir á blaðsíðu 28]
Margir kristnir menn í Afríku hafa sýnt trúarstaðfestu líkt og þessi fjölskylda.