Kafli 72
Jesús sendir út lærisveinana 70
ÞETTA er haustið 32, þrem árum eftir skírn Jesú. Hann og lærisveinarnir hafa nýlega sótt laufskálahátíðina í Jerúsalem og virðast enn vera í næsta nágrenni. Reyndar eyðir Jesús síðustu sex mánuðum þjónustu sinnar að mestu leyti í Júdeu eða í Pereu, rétt handan Jórdanar. Þar þarf líka að prédika.
Jesús prédikaði að vísu um átta mánaða skeið í Júdeu eftir páska árið 30, en eftir að Gyðingar reyndu að drepa hann þar á páskum árið 31 kenndi hann svo til einvörðungu í Galíleu næsta eitt og hálft árið. Á því tímabili þjálfaði hann upp fjölmennan hóp prédikara sem hann hafði ekki áður. Núna gerir hann síðasta boðunarátakið í Júdeu og það af miklum krafti.
Jesús hefst handa með því að velja 70 lærisveina og senda þá út tvo og tvo saman til að starfa á svæðinu. Þeir fara á undan Jesú í hverja borg og á hvern þann stað sem hann ætlar sjálfur að koma til, trúlega ásamt postulum sínum.
Jesús segir ekki boðberunum 70 að fara í samkunduhúsin heldur á einkaheimili manna: „Hvar sem þér komið í hús, þá segið fyrst: ‚Friður sé með þessu húsi.‘ Og sé þar friðar sonur, mun friður yðar hvíla yfir honum.“ Og hvaða boðskap eiga þeir að flytja? „Segið þeim: ‚Guðs ríki er komið í nánd við yður.‘“ Biblíuskýringabókin Matthew Henry’s Commentary segir um starf þeirra 70: „Líkt og meistari þeirra prédikuðu þeir hús úr húsi hvar sem þeir komu.“
Fyrirmæli Jesú til boðberanna 70 eru svipuð og fyrirmælin til postulanna tólf þegar hann sendi þá í boðunarferð í Galíleu um ári áður. Hann bæði varar þá við andstöðu sem mæti þeim, býr þá undir að kynna boðskapinn fyrir fólki og veitir þeim kraft til að lækna sjúka. Þegar Jesús kemur skömmu síðar eru margir þess vegna óþreyjufullir að hitta meistara þessara lærisveina sem vinna slík dásemdarverk.
Prédikun lærisveinanna 70 og fylgistarf Jesú stendur tiltölulega stutt. Fljótlega fara þeir að tínast aftur til hans tveir og tveir. „Herra,“ segja þeir fagnandi, „jafnvel illir andar eru oss undirgefnir í þínu nafni.“ Þessi góði árangur starfsins gleður Jesú því hann segir: „Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu. Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka.“
Jesús veit að eftir fæðingu Guðsríkis á endalokatímanum verður Satan og illum öndum hans varpað niður af himni. En núna eru venjulegir menn að reka út ósýnilega illa anda, og það staðfestir enn frekar að þetta eigi eftir að gerast. Jesús talar því um væntanlegt fall Satans af himni sem algerlega öruggt. Það er því í táknrænni merkingu sem lærisveinarnir 70 fá vald til að stíga á höggorma og sporðdreka. Jesús segir þó: „Gleðjist samt ekki af því, að andarnir eru yður undirgefnir, gleðjist öllu heldur af hinu, að nöfn yðar eru skráð í himnunum.“
Jesús er himinlifandi og vegsamar föður sinn fyrir að nota þessa auðmjúku þjóna sína á svona kröftugan hátt. Hann snýr sér að lærisveinunum og segir: „Sæl eru þau augu, sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það sem þér heyrið, en heyrðu það ekki.“ Lúkas 10:1-24; Matteus 10:1-42; Opinberunarbókin 12:7-12.
▪ Hvar prédikaði Jesús fyrstu þrjú þjónustuár sín og hvaða svæði fer hann yfir á síðustu sex mánuðunum?
▪ Hvar segir Jesús lærisveinunum 70 að hitta fólk?
▪ Af hverju segist Jesús hafa séð Satan falla af himni?
▪ Í hvaða skilningi geta lærisveinarnir 70 stigið á höggorma og sporðdreka?