Jehóva sér fyrir daglegum þörfum okkar
„Kvíðið engu. . . . Faðir yðar veit, að þér þarfnist þessa.“ — LÚKAS 12:29, 30.
1. Hvernig sér Jehóva fyrir dýrunum?
HEFURÐU einhvern tíma horft á smáfugl kroppa æti af jörðinni þar sem aðeins virðist vera mold? Eflaust veltirðu fyrir þér hvaða æti hann geti fundið með því að kroppa í jörðina. Jesús benti á það í fjallræðunni að við getum dregið lærdóm af því hvernig Jehóva sér fyrir fuglunum. Hann sagði: „Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?“ (Matteus 6:26) Jehóva sér öllum sköpunarverum sínum fyrir fæðu á undursamlegan hátt. — Sálmur 104:14, 21; 147:9.
2, 3. Hvaða lærdóm getum við dregið af því að Jesús skyldi kenna okkur að biðja um daglegt brauð?
2 En hvers vegna hafði Jesús þá eftirfarandi beiðni með í fyrirmyndarbæninni: „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“ (Matteus 6:11) Það má draga sterkan lærdóm af þessari einföldu beiðni. Í fyrsta lagi minnir hún okkur á að Jehóva er gjafari allra hluta. (Sálmur 145:15, 16) Menn geta gróðursett og ræktað en það er aðeins Guð sem getur gefið vöxtinn, andlegan sem efnislegan. (1. Korintubréf 3:7) Allt sem við borðum og drekkum er gjöf frá Guði. (Postulasagan 14:17) Þegar við biðjum hann að veita okkur það sem við þurfum dags daglega sýnum við að við tökum ekki þessar gjafir sem sjálfsagðan hlut. Slík bón firrir okkur auðvitað ekki þeirri ábyrgð að vinna ef við erum fær um það. — Efesusbréfið 4:28; 2. Þessaloníkubréf 3:10.
3 Í öðru lagi sýnum við, með því að biðja um „daglegt brauð“, að við erum ekki óhóflega kvíðin út af framtíðinni. Jesús sagði enn fremur: „Segið því ekki áhyggjufullir: ‚Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast?‘ Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur.“ (Matteus 6:31-34) Að biðja um „daglegt brauð“ er ábending um að vera nægjusöm og lifa einföldu lífi í guðhræðslu. — 1. Tímóteusarbréf 6:6-8.
Andleg fæða dag hvern
4. Hvað í lífi Jesú og Ísraelsmanna undirstrikar mikilvægi þess að neyta andlegrar fæðu?
4 Bæn okkar um daglegt brauð ætti líka að minna okkur á að við þurfum á andlegri fæðu að halda á hverjum degi. Þótt hungraður væri eftir langa föstu stóðst Jesús þá freistingu að breyta steinum í brauð eins og Satan hvatti hann til. Hann sagði: „Ritað er: ‚Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.‘“ (Matteus 4:4) Jesús vitnaði þarna í spámanninn Móse sem sagði við Ísraelsmenn: „Hann [Jehóva] auðmýkti þig og lét þig þola hungur og gaf þér síðan manna að eta, sem þú eigi þekktir áður né heldur feður þínir þekktu, svo að þú skyldir sjá, að maðurinn lifir eigi á einu saman brauði, heldur að maðurinn lifir á sérhverju því, er fram gengur af munni Drottins.“ (5. Mósebók 8:3) Jehóva sá Ísraelsmönnum fyrir manna sem var þeim til fæðu, og hann gerði það með þeim hætti að það var þeim andlegur lærdómur. Þeir áttu til dæmis að ,safna hvern dag svo miklu sem þurfti þann daginn‘. Ef þeir söfnuðu meiru en þeir þurftu fyrir daginn fór afgangurinn að lykta illa og maðkar kviknuðu í því. (2. Mósebók 16:4, 20) En þetta gerðist ekki sjötta daginn því að þá áttu þeir að safna tvöföldum dagskammti til að það myndi líka nægja fyrir hvíldardaginn. (2. Mósebók 16:5, 23, 24) Þannig var mannað þeim stöðug áminning um að þeir þurftu að vera hlýðnir og að líf þeirra var ekki aðeins háð brauði heldur „sérhverju því, er fram gengur af munni Drottins“.
5. Hvernig sér Jehóva okkur fyrir andlegri fæðu á hverjum degi?
5 Við þurfum á sama hátt að nærast daglega á andlegri fæðu sem Jehóva gefur fyrir milligöngu sonar síns. Til þess notar Jesús ,trúan og hygginn þjón‘ sem gefur öllum hinum trúuðu „mat á réttum tíma“. (Matteus 24:45) Þessi trúi og hyggni þjónshópur sér okkur ekki aðeins fyrir andlegri fæðu í formi biblíunámsrita heldur hvetur hann okkur líka til að lesa daglega í Biblíunni. (Jósúabók 1:8; Sálmur 1:1-3) Líkt og Jesús getum við fengið andlegt viðurværi með því að leggja okkur fram á hverjum degi við að læra um Jehóva og gera vilja hans. — Jóhannes 4:34.
Fyrirgefning synda
6. Fyrir hvaða skuldir eigum við að biðjast fyrirgefningar og undir hvaða kringumstæðum er Jehóva fús til að gefa þær upp?
6 Næsta beiðni í fyrirmyndarbæninni hljóðar svo: „Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“ (Matteus 6:12) Jesús var ekki að tala um peningaskuldir. Hann átti við fyrirgefningu synda okkar. Lúkas skráði þessa beiðni fyrirmyndarbænarinnar á eftirfarandi hátt: „Fyrirgef oss vorar syndir, enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum.“ (Lúkas 11:4) Þegar við syndgum er eins og við stofnum til skuldar við Jehóva. En ástríkur Guð okkar er fús til að ,afmá‘ eða gefa upp þessa skuld ef við iðrumst í einlægni, ,snúum okkur‘ og biðjum hann fyrirgefningar í trú á lausnarfórn Krists. — Postulasagan 3:19; 10:43; 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6.
7. Hvers vegna ættum við að biðja um fyrirgefningu á hverjum degi?
7 Það má líka líta svo á að við syndgum þegar okkur mistekst að fylgja réttlátum mælikvarða Jehóva. Sökum erfðasyndarinnar verður okkur öllum á í orði, verki og hugsun eða við gerum ekki það sem við ættum að gera. (Prédikarinn 7:20; Rómverjabréfið 3:23; Jakobsbréfið 3:2; 4:17) Við þurfum því að biðja um fyrirgefningu synda í daglegum bænum okkar, hvort sem við erum okkur meðvita um að hafa syndgað yfir daginn eða ekki. — Sálmur 19:13; 40:13.
8. Hvað ætti bæn um fyrirgefningu að fá okkur til að gera og hver verður útkoman?
8 Beiðni um fyrirgefningu ætti að fylgja í kjölfarið á heiðarlegri sjálfsrannsókn, iðrun og syndajátningu sem byggist á þeirri trú að úthellt blóð Krists leysi okkur undan synd. (1. Jóhannesarbréf 1:7-9) Til að sanna að bæn okkar sé einlæg verðum við að „vinna verk samboðin iðruninni“ auk þess að biðja um fyrirgefningu. (Postulasagan 26:20) Þá getum við treyst því að Jehóva sé fús til að fyrirgefa okkur syndirnar. (Sálmur 86:5; 103:8-14) Útkoman er óviðjafnanlegur hugarfriður, „friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi“, og hann „mun varðveita hjörtu [okkar] og hugsanir [okkar] í Kristi Jesú“. (Filippíbréfið 4:7) En við lærum jafnvel enn meira af fyrirmyndarbæn Jesú um hvað við verðum að gera til að fá fyrirgefningu synda okkar.
Til að fá fyrirgefningu verðum við að fyrirgefa
9, 10. (a) Hvaða skýringu bætti Jesús við fyrirmyndarbænina og hvað undirstrikar það? (b) Hvernig lagði Jesús frekari áherslu á mikilvægi þess að vera fús að fyrirgefa?
9 Það er athyglisvert að beiðnin „fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum“ er eini hluti fyrirmyndarbænarinnar sem Jesús skýrði nánar. Eftir að hafa lokið við bænina bætti hann við: „Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.“ (Matteus 6:14, 15) Jesús sýndi þannig greinilega fram á að fyrirgefning Jehóva veltur á því að við séum fús að fyrirgefa öðrum. — Markús 11:25.
10 Við annað tækifæri lýsti Jesús því með dæmi hve mikilvægt væri að vera fús að fyrirgefa öðrum ef við væntum þess að Jehóva fyrirgefi okkur. Hann sagði frá örlátum konungi sem gaf einum þjóni sínum upp geysiháa skuld. Síðar refsaði konungurinn þessum sama manni harðlega þegar hann vildi ekki gefa samþjóni sínum upp langtum minni skuld. Jesús lauk líkingunni með því að segja: „Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum.“ (Matteus 18:23-35) Lærdómurinn er skýr: Syndaskuldin, sem Jehóva hefur fyrirgefið hverju og einu okkar, er ósegjanlega hærri en nokkuð það sem aðrir hafa hugsanlega gert á hlut okkar. Það sem meira er, Jehóva fyrirgefur okkur á hverjum degi. Hljótum við þá ekki að geta fyrirgefið það sem aðrir gera endrum og eins á hlut okkar?
11. Eftir hvaða ráðleggingu Páls postula förum við ef við væntum þess að Jehóva fyrirgefi okkur og hver verður útkoman?
11 Páll postuli skrifaði: „Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.“ (Efesusbréfið 4:32) Gagnkvæm fyrirgefning stuðlar að friði meðal kristinna manna. Páll hvatti enn fremur: „Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra. En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans.“ (Kólossubréfið 3:12-14) Allt er þetta innifalið í bæninni sem Jesús kenndi okkur: „Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“
Vernd þegar við verðum fyrir freistingu
12, 13. (a) Hvað getur næstsíðasta bónin í fyrirmyndarbæninni ekki merkt? (b) Hver er hinn mikli freistari og hvað merkir það að biðja Jehóva um að leiða okkur ekki í freistni?
12 Næstsíðasta bónin í fyrirmyndarbæn Jesú er: „Eigi leið þú oss í freistni.“ (Matteus 6:13) Var Jesús að segja okkur að biðja Guð um að freista okkar ekki? Það getur ekki verið því að lærisveininum Jakobi var innblásið að skrifa: „Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu: ,Guð freistar mín.‘ Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.“ (Jakobsbréfið 1:13) Sálmaritarinn skrifaði líka: „Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?“ (Sálmur 130:3) Jehóva gefur ekki gætur að öllum mistökum okkar og hann reynir alls ekki að bregða fyrir okkur fæti. Hvað merkir þá þessi hluti fyrirmyndarbænarinnar?
13 Það er Satan djöfullinn sem reynir að bregða fyrir okkur fæti, fella okkur með klækjabrögðum og jafnvel að gleypa okkur. (Efesusbréfið 6:11) Hann er hinn mikli freistari. (1. Þessaloníkubréf 3:5) Með því að biðja Jehóva um að leiða okkur ekki í freistni erum við að biðja hann um að láta okkur ekki falla fyrir freistingu. Við erum að biðja hann um að hjálpa okkur að verða ekki ,véluð af Satan‘, að láta ekki undan freistingum. (2. Korintubréf 2:11) Bæn okkar er sú að við höldum okkur í „skjóli Hins hæsta“ og fáum þá andlegu vernd sem heitið er þeim sem viðurkenna drottinvald Jehóva í öllu sem þeir gera. — Sálmur 91:1-3.
14. Hvernig fullvissar Páll postuli okkur um að Jehóva yfirgefi okkur aldrei ef við leitum til hans þegar okkar er freistað?
14 Sé þetta einlæg löngun okkar, sem við tjáum Jehóva í bæn, getum við verið viss um að hann yfirgefur okkur aldrei. Páll postuli fullvissar okkur: „Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ — 1. Korintubréf 10:13.
„Frelsa oss frá hinum vonda“
15. Hvers vegna hefur aldrei verið brýnna að biðja um að verða frelsaður frá hinum vonda?
15 Samkvæmt áreiðanlegustu handritum kristnu Grísku ritninganna endar fyrirmyndarbæn Jesú á orðunum: „Frelsa oss frá hinum vonda.“a (Matteus 6:13, neðanmáls) Núna á endalokatímanum er enn brýnna að fá vernd fyrir djöflinum. Satan og illir andar hans heyja stríð við hinar andasmurðu leifar, „þá er varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú“, og við félaga þeirra af ,múginum mikla‘. (Opinberunarbókin 7:9; 12:9, 17) Pétur postuli aðvaraði kristna menn: „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt. Standið gegn honum, stöðugir í trúnni.“ (1. Pétursbréf 5:8, 9) Satan vill stöðva boðunarstarf okkar og hann notar fulltrúa sína hér á jörð, á vettvangi trúmála, viðskipta og stjórnmála, til að reyna að hræða okkur. En ef við erum staðföst mun Jehóva frelsa okkur. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Gefið yður því Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.“ — Jakobsbréfið 4:7.
16. Hvernig getur Jehóva hjálpað þjónum sínum á reynslustund?
16 Jehóva leyfði að sonar síns yrði freistað. En eftir að Jesús hafði staðið gegn djöflinum með því nota Ritninguna sér til verndar sendi Jehóva engla til að styrkja hann. (Matteus 4:1-11) Jehóva notar líka engla til að hjálpa okkur ef við biðjum í trú og gerum hann að hæli okkar. (Sálmur 34:8; 91:9-11) Pétur postuli skrifaði: „Þannig veit Drottinn, hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu, en refsa hinum ranglátu og geyma þá til dómsdags.“ — 2. Pétursbréf 2:9.
Alger frelsun er nálæg
17. Hvernig setti Jesús hlutina í rétta forgangsröð í fyrirmyndarbæninni?
17 Jesús setur hlutina í rétta forgangsröð í fyrirmyndarbæninni. Við ættum fyrst og fremst að láta okkur umhugað um að hið mikla og heilaga nafn Jehóva helgist. Þar sem Messíasarríkið er verkfærið, sem mun koma því til leiðar, biðjum við að þetta ríki komi til að eyða öllum ófullkomnum ríkjum eða stjórnum manna og tryggja að vilji Guðs verði á allan hátt gerður á jörðinni eins og á himnum. Von okkar um eilíft líf í jarðneskri paradís veltur á því að nafn Jehóva sé helgað og réttmætt drottinvald hans sé viðurkennt um allan alheim. Þegar við höfum beðið um það sem mikilvægast er getum við snúið okkur að daglegum þörfum okkar, fyrirgefningu synda og frelsun frá freistingum og klækjabrögðum hins vonda, Satans djöfulsins.
18, 19. Hvernig hjálpar fyrirmyndarbæn Jesú okkur að vera árvökur og gera vonina ,staðfasta allt til enda‘?
18 Sá tími nálgast er við verðum algerlega frelsuð frá hinum vonda og frá spilltu heimskerfi hans. Satan er fullljóst að hann á aðeins „nauman tíma“ eftir til að gefa heiftarreiði sinni lausan tauminn á jörðinni, sérstaklega gegn trúföstum þjónum Jehóva. (Opinberunarbókin 12:12, 17) Í samsettu tákni sínu um endalok heimskerfisins sagði Jesús fyrir áhrifamikla atburði sem sumir hverjir eiga enn eftir að gerast. (Matteus 24:3, 29-31) Þegar við sjáum þessa atburði eiga sér stað verður von okkar um frelsun enn bjartari. Jesús sagði: „Þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.“ — Lúkas 21:25-28.
19 Hin stutta og gagnorða fyrirmyndarbæn, sem Jesús gaf lærisveinum sínum, er öruggur leiðarvísir um hvers við ættum að biðja er nær dregur endinum. Verum þess fullviss, allt til endalokanna, að Jehóva haldi áfram að sjá fyrir daglegum þörfum okkar, bæði andlegum og efnislegum. Með því að vera bænrækin getum við ,haldið staðfastlega allt til enda trausti okkar, eins og það var að upphafi‘. — Hebreabréfið 3:14; 1. Pétursbréf 4:7.
[Neðanmáls]
a Sumar biblíuþýðingar, eins og íslenska Biblían frá 1981, enda faðirvorið á svokallaðri lofgjörð: „Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu, amen.“ The Jerome Biblical Commentary segir: „Lofgjörðina . . . er ekki að finna í áreiðanlegustu [handritunum].“
Til upprifjunar
• Hvað er fólgið í því að biðja um „daglegt brauð“?
• Útskýrðu bónina: „Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“
• Hvað merkir það að biðja Jehóva að leiða okkur ekki í freistni?
• Hvers vegna þurfum við að biðja: „Frelsa oss frá hinum vonda“?
[Myndir á blaðsíðu 15]
Við verðum að fyrirgefa öðrum til að fá fyrirgefningu.
[Mynd rétthafi á blaðsíðu 13]
Lydekker