Annar hluti - Ljósleiftur – stór og smá
„Í þínu ljósi sjáum vér ljós.“ — SÁLMUR 36:10.
1. Hvað var gert snemma til að reyna að skilja táknmál Opinberunarbókarinnar?
ALLT frá öndverðu hefur kristnum mönnum þótt Opinberunarbókin forvitnileg og áhugaverð. Hún er ágætt dæmi um hvernig sannleiksljósið verður æ skærara. Árið 1917 gáfu þjónar Jehóva út bókina Hinn fullnaði leyndardómur með skýringum á Opinberunarbókinni. Bókin afhjúpaði trúar- og stjórnmálaleiðtoga kristna heimsins óttalaust, en margar af skýringum hennar voru fengnar að láni úr ýmsum áttum. Hinn fullnaði leyndardómur var þó ekki síður prófsteinn á hollustu Biblíunemendanna við hina sýnilegu boðleið sem Jehóva notaði.
2. Hvaða ljósi varpaði greinin „Fæðing þjóðarinnar“ á Opinberunarbókina?
2 Skært ljósleiftur skein á Opinberunarbókina með birtingu greinarinnar „Fæðing þjóðarinnar“ í Varðturninum 1. mars 1925. Talið hafði verið að 12. kafli Opinberunarbókarinnar lýsti stríði milli hinnar heiðnu Rómar og páfaveldisins, og að sveinbarnið táknaði páfadæmið. En greinin sýndi að Opinberunarbókin 11:15-18 tengdist 12. kaflanum og gaf til kynna að hann snerti fæðingu Guðsríkis.
3. Hvaða rit vörpuðu auknu ljósi á Opinberunarbókina?
3 Allt leiddi þetta til mun gleggri skilnings á Opinberunarbókinni sem birtist í tveggja binda verkinu Ljós árið 1930. Enn nákvæmari skýringar birtust í bókunum „Babýlon hin mikla er fallin!“ Guðsríki stjórnar! (1963) og „Fram er kominn leyndardómur Guðs“ (1969). En þjónar Guðs áttu margt ólært enn um hina spádómlegu Opinberunarbók. Árið 1988 skein enn skærara ljós á hana með útkomu bókarinnar Opinberunarbókin — hið mikla hámark hennar er í nánd! Segja mætti að lykillinn að þessum stigvaxandi skilningi sé sú staðreynd að spádómur Opinberunarbókarinnar rætist á „Drottins degi“ sem hófst árið 1914. (Opinberunarbókin 1:10) Skilningur á Opinberunarbókinni myndi því aukast eftir því sem liði á þann dag.
‚Yfirboðnar valdstéttir‘ skilgreindar
4, 5. (a) Hvernig litu Biblíunemendurnir á Rómverjabréfið 13:1? (b) Hvað sáu menn síðar að væri hin biblíulega afstaða til ‚yfirboðinna valdstétta‘?
4 Skær ljósgeisli braust fram árið 1962 í sambandi við Rómverjabréfið 13:1 þar sem stendur: „Sérhver maður sé yfirboðnum valdstéttum [„yfirvöldum,“ Biblían 1981] hlýðinn.“ (Biblían 1912) Í fyrstu skildu Biblíunemendurnir það svo að ‚yfirboðnar valdstéttir,‘ sem þar eru nefndar, væru veraldleg yfirvöld. Þeir skildu þennan ritningarstað á þann veg að væri kristinn maður kallaður í herinn á stríðstímum væri honum skylt að klæðast einkennisbúningi, taka sér byssu í hönd og fara í skotgrafirnar við víglínuna. Álitið var að ef í harðbakkann slægi myndi kristinn maður neyðast til að skjóta upp í loftið, því að ekki mætti hann drepa annan mann.a
5 Varðturninn 15. nóvember og 1. desember 1962 (1. febrúar og 1. mars 1964 á íslensku) varpaði skýru ljósi á málið með umfjöllun um orð Jesú í Matteusi 22:21: „Gjaldið . . . keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ Orð postulanna í Postulasögunni 5:29 áttu einnig við: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ Kristnir menn eru undirgefnir keisaranum — „yfirboðnum valdstéttum“ — aðeins með því skilyrði að hann krefjist þess ekki að þeir gangi í berhögg við lög Guðs. Undirgefni við keisarann varð því að vera afstæð, ekki alger. Kristnir menn gjalda keisaranum það sem keisarans er aðeins að það stangist ekki á við kröfur Guðs. Það var mjög ánægjulegt að fá skýran skilning á þessu!
Ljósleiftur í skipulagsmálum
6. (a) Hvaða skipan var tekin upp til að forðast klerkaveldisfyrirkomulag kristna heimsins? (b) Hver reyndist loks rétta leiðin til að velja þá sem fara með safnaðarumsjón?
6 Hverjir áttu að þjóna sem öldungar og djáknar í söfnuðunum? Til að forðast klerkaveldisfyrirkomulag kristna heimsins var talið rétt að safnaðarmenn kysu þá lýðræðislega í hverjum söfnuði. En skærara ljós í Varðturninum 1. september og 15. október 1932 sýndi að það voru engar biblíulegar forsendur fyrir öldungakjöri í söfnuðinum. Í stað kjörinna öldunga kom því þjónustunefnd, og þjónustustjóri var valinn af Félaginu.
7. Hvaða framfarir við val á þjónum í söfnuðinum leiddu af hinu vaxandi ljósi?
7 Í Varðturninum 1. og 15. júní 1938 birtust ljósleiftur sem sýndu að það átti ekki að kjósa þjónana í söfnuðinum heldur útnefna þá, það er guðræðislega. Árið 1971 sýndi annað ljósleiftur að hver söfnuður átti ekki að vera undir stjórn aðeins eins safnaðarþjóns heldur ráðs öldunga eða umsjónarmanna sem útnefndir væru af hinu stjórnandi ráði votta Jehóva. Með vaxandi ljósi á 40 ára tímabili varð ljóst að bæði öldungar og djáknar, nú kallaðir safnaðarþjónar, skyldu útnefndir af ‚hinum trúa og hyggna þjóni‘ fyrir milligöngu hins stjórnandi ráðs. (Matteus 24:45-47) Það var í samræmi við það sem gerðist á postulatímanum. Menn eins og Tímóteus og Títus voru útnefndir umsjónarmenn af hinu stjórnandi ráði fyrstu aldar. (1. Tímóteusarbréf 3:1-7; 5:22; Títusarbréfið 1:5-9) Allt er þetta áberandi uppfylling Jesaja 60:17: „Ég mun færa þér gull í stað eirs og silfur í stað járns, eir í stað trjáviðar og járn í stað grjóts. Ég gjöri friðinn að valdstjórn þinni og réttlætið að valdsmanni þínum.“
8. (a) Hvaða framfarir urðu í starfsemi Félagsins í samræmi við vaxandi skilning? (b) Hverjar eru nefndir hins stjórnandi ráðs og hvert er starfssvið hverrar um sig?
8 Starfsemi Varðturnsfélagsins kom einnig hér við sögu. Um margra ára skeið var hið stjórnandi ráð votta Jehóva og stjórn Biblíu- og smáritafélagsins Varðturnsins í Pennsylvaníu eitt og hið sama, og flest mál voru í höndum forseta þess. Eins og fram kemur í Árbók votta Jehóva 1977 (bls. 258-9) tók hið stjórnandi ráð að starfa í sex nefndum árið 1976 sem hver um sig hafði umsjón með ákveðnum málaflokki tengdum alþjóðastarfinu. Starfsmannanefndin hefur starfsmannamál á sinni könnu og hefur umsjón með öllum þeim sem þjóna í Betelfjölskyldunni um heim allan. Útgáfunefndin annast öll veraldleg og lagaleg mál, svo sem í sambandi við fasteignir og prentun. Þjónustunefndin sér um boðunarstarfið og hefur yfirumsjón með farandhirðum, brautryðjendum og starfi safnaðarboðbera. Fræðslunefndin ber ábyrgð á safnaðarsamkomum, sérstökum mótsdögum, svæðismótum, umdæmismótum og alþjóðamótum, auk ýmissa skóla þangað sem fólk Guðs sækir andlega menntun. Ritnefndin sér um gerð og þýðingu rita í öllum myndum og gætir þess að allt sé í samræmi við Ritninguna. Forsætisnefndin bregst við neyðartilfellum og öðrum áríðandi málum.b Á áttunda áratugnum voru útibú Varðturnsfélagsins einnig sett undir stjórn nefndar í stað eins umsjónarmanns.
Ljós á kristna breytni
9. Hvaða áhrif hafði sannleiksljósið á samband kristinna manna við stjórnir heimsins?
9 Mjög oft hefur ljós leiftrað í sambandi við kristna breytni. Tökum hlutleysi sem dæmi. Sérstaklega skært ljós leiftraði í sambandi við það í greininni „Hlutleysi“ sem birtist í Varðturninum 1. nóvember 1939. Það var sannarlega tímabært, rétt eftir að síðari heimsstyrjöldin braust út! Greinin skilgreindi hlutleysi og sýndi fram á að kristnir menn mega ekki blanda sér í stjórnmál eða átök þjóða í milli. (Míka 4:3, 5; Jóhannes 17:14, 16) Það á sinn þátt í að þeir eru hataðir af öllum þjóðum. (Matteus 24:9) Orrustur Forn-Ísraels eru kristnum mönnum ekkert fordæmi eins og Jesús tekur af öll tvímæli í Matteusi 26:52. Og engin einasta pólitísk þjóð nú á dögum er guðveldi, undir stjórn Guðs, eins og Forn-Ísrael var.
10. Hvaða ljósleiftur hjálpuðu kristnum mönnum að hafa rétta afstöðu til blóðs?
10 Ljós leiftraði einnig í sambandi við heilagleika blóðsins. Biblíunemendurnir álitu að bannið við neyslu blóðs í Postulasögunni 15:28, 29 næði aðeins til kristinna Gyðinga. En Postulasagan 21:25 sýnir að á postulatímanum áttu þessi fyrirmæli einnig við menn af þjóðunum sem tóku trú. Ákvæðin um heilagleika blóðsins ná því til allra kristinna manna eins og fram kemur í Varðturninum 1. júlí 1945. Það merkir ekki bara að neyta ekki dýrablóðs, til dæmis blóðmörs, heldur einnig að halda sér frá mannablóði, til dæmis í mynd blóðgjafa.
11. Hvað skildu kristnir menn í sambandi við tóbaksnotkun?
11 Vaxandi ljós olli því að venjur, sem áður voru bara litnar hornauga, voru síðar meðhöndlaðar með viðeigandi alvöruþunga. Tóbaksnotkun er dæmi um það. í Varðturni Síonar 1. ágúst 1895 beindi bróðir Russell athygli að 1. Korintubréfi 10:31 og 2. Korintubréfi 7:1 og skrifaði: „Ég fæ ekki séð hvernig það væri Guði til dýrðar eða nokkrum kristnum manni til gagns að nota tóbak í nokkurri mynd.“ Frá 1973 höfum við skilið greinilega að enginn tóbaksneytandi getur verið vottur Jehóva. Árið 1976 var varpað ljósi á það að enginn vottur gæti unnið hjá fyrirtæki sem starfrækir fjárhættuspil og jafnframt verið áfram í söfnuðinum.
Önnur fágun
12. (a) Hvaða ljósleiftur kom í sambandi við fjölda lykla Guðsríkis er Pétri var trúað fyrir? (b) Við hvaða aðstæður notaði Pétur hvern lykil?
12 Ljósið hefur einnig vaxið í sambandi við það hve marga táknræna lykla Jesús gaf Pétri. Biblíunemendurnir álitu að Pétur hefði fengið tvo lykla sem opnuðu fólki leiðina til að verða erfingjar Guðsríkis — annan sem opnaði Gyðingum leiðina árið 33, hinn heiðingjum fyrst árið 36 er Pétur prédikaði fyrir Kornelíusi. (Postulasagan 2:14-41; 10:34-48) Með tímanum kom í ljós að hann hafði einnig opnað þriðja hópnum leiðina — Samverjum. Pétur notaði annan lykilinn til að opna þeim tækifæri til að fá aðgang að Guðsríki. (Postulasagan 8:14-17) Það var því þriðji lykillinn sem Pétur notaði er hann prédikaði fyrir Kornelíusi. — Varðturninn (ensk útgáfa) 1. október 1979, bls. 16-22, 26.
13. Hvað sýndi vaxandi ljós í tengslum við sauðabyrgin sem nefnd eru í 10. kafla Jóhannesarguðspjalls?
13 Annar ljósgeisli sýndi að Jesús talaði ekki bara um tvö sauðabyrgi heldur þrjú. (Jóhannes 10. kafli) Það voru (1) sauðabyrgi Gyðinganna þar sem Jóhannes skírari var dyravörður, (2) sauðabyrgi hinna smurðu erfingja Guðsríkis og (3) sauðabyrgi hinna ‚annarra sauða‘ með jarðneska von. — Jóhannes 10:2, 3, 15, 16; Varðturninn 1. ágúst 1984, bls. 7-17.
14. Hvernig var varpað skýrara ljósi á upphaf þess sem fagnaðarárið táknaði?
14 Skilningur á því sem fagnaðarárið táknaði jókst einnig. Undir lagasáttmálanum var 50. hvert ár fagnaðarár er eignum var skilað aftur til upphaflegra eigenda. (3. Mósebók 25:10) Lengi hafði verið álitið að það táknaði þúsund ára stjórn Krists. Síðar kom hins vegar í ljós að það sem fagnaðarárið táknaði hófst reyndar á hvítasunnunni árið 33 er þeir sem heilögum anda var úthellt yfir voru leystir úr fjötrum Móselaganna. — Varðturninn 1. apríl 1987, bls. 20-30.
Skærara ljós í sambandi við orðfæri
15. Hvaða ljósi var varpað á notkun orðsins „áætlun“?
15 „Prédikarinn leitaðist við að finna fögur orð, . . . sannleiksorð.“ (Prédikarinn 12:10) Vel mætti heimfæra þessi orð á viðfangsefni okkar núna því að ljós hefur ekki aðeins skinið á mikilvæg mál eins og kenningar og hegðun heldur einnig á kristið orðfæri og nákvæma merkingu þess. Til dæmis voru fá rit í jafnmiklum metum hjá Biblíunemendunum og fyrsta bindi Rannsókna á Ritningunni sem hét Aldaáætlun Guðs. Með tímanum gerðu þeir sér grein fyrir að orð Guðs talar aðeins um áætlanir eða áform þegar menn eiga í hlut. (Orðskviðirnir 19:21) Ritningin talar hvergi um að Jehóva geri áætlanir. Hann þarf þess ekki. Það sem hann ákveður verður örugglega að veruleika vegna þess að viska hans og máttur er óendanlegur eins og við lesum í Efesusbréfinu 1:9, 10: „Hann kunngjörði oss leyndardóm vilja síns, þá ákvörðun, sem hann hafði með sjálfum sér ákveðið að framkvæma, er fylling tímans kæmi.“ Menn gerðu sér því smám saman grein fyrir að orðið „tilgangur“ eða „fyrirætlun“ ætti betur við þegar talað væri um Jehóva.
16. Hvernig fengu menn smám saman réttan skilning á Lúkasi 2:14?
16 Þá var það spurningin um skýrari skilning á Lúkasi 2:14. Samkvæmt King James biblíunni hljóðar versið svo: „Dýrð sé Guði í hæstum hæðum og á jörðinni friður og góðvild í garð manna.“ Ljóst var að þetta orðalag kom ekki réttri hugmynd á framfæri því að Guð sýnir illum mönnum ekki góðvild. Vottarnir litu því svo á að hér væri um að ræða frið við menn sem væru góðviljaðir gagnvart Guði. Þess vegna kölluðu þeir þá sem höfðu áhuga á Biblíunni góðviljaða menn. En svo skildu þeir að um væri að ræða góðvild Guðs en ekki manna, enda tala nýrri biblíuþýðingar um ‚menn sem Guð hefur velþóknun á‘ í Lúkasi 2:14. Allir kristnir menn, sem lifa í samræmi við vígsluheit sitt, njóta velþóknunar eða góðvildar Guðs.
17, 18. Hvað réttlætir Jehóva og hvað helgar hann?
17 Eins töluðu vottarnir lengi vel um réttlætingu nafns Jehóva. En hafði Satan véfengt nafn Jehóva? Hafði nokkur af útsendurum Satans gert það, eins og Jehóva hefði ekki rétt á nafni sínu? Nei, alls ekki. Það var ekki nafn Jehóva sem var véfengt og þurfti réttlætingar við. Af þeirri ástæðu tala nýleg rit Varðturnsfélagsins ekki um réttlætingu í sambandi við nafn Jehóva. Þau tala um að drottinvald Jehóva verði réttlætt og nafn hans helgað. Það er í samræmi við bænina sem Jesús kenndi okkur að biðja: „Helgist þitt nafn.“ (Matteus 6:9) Aftur og aftur sagðist Jehóva ætla að helga nafn sitt sem Ísraelsmenn höfðu vanhelgað en ekki véfengt. — Esekíel 20:9, 14, 22; 36:23.
18 Athyglisvert er að árið 1971 gerði bókin „Þjóðirnar skulu vita að ég er Jehóva“ — hvernig? þennan greinarmun: „Jesús Kristur berst . . . fyrir réttlætingu alheimsdrottinvalds Jehóva og fyrir helgun nafns hans.“ (Bls. 364-5) Árið 1973 sagði bókin Þúsundáraríki Guðs er í nánd: „Hin komandi ‚mikla þrenging‘ er sá tími er alvaldur Guð Jehóva réttlætir alheimsdrottinvald sitt og helgar sitt verðuga nafn.“ (Bls. 409) Síðan, árið 1975, sagði bókin Björgun mannsins úr heimshörmungum í nánd!: „Mikilvægasti atburður alheimssögunnar verður þá orðinn að veruleika, alheimsdrottinvald Jehóva verður réttlætt og hið heilaga nafn hans helgað.“ — Bls. 281.
19, 20. Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta andleg ljósleiftur?
19 Það er mikil blessun fyrir þjóna Jehóva að hafa mátt baða sig í öllu þessu andlega ljósi! Orð prests nokkurs eru hins vegar talandi dæmi um hið andlega myrkur leiðtoga kristna heimsins. Hann sagði: „Af hverju synd? Af hverju þjáningar? Af hverju djöfullinn? Þetta eru spurningar sem mig langar til að spyrja Drottin þegar ég kemst til himna.“ En vottar Jehóva geta sagt honum ástæðuna: Hún er deilumálið um réttmæti drottinvalds Jehóva og sú spurning hvort menn geti varðveitt ráðvendni við Guð þrátt fyrir andstöðu djöfulsins.
20 Árum saman hafa bæði stór og smá ljósleiftur lýst götu trúfastra þjóna Jehóva og uppfyllt ritningarstaði svo sem Sálm 97:11 og Orðskviðina 4:18. En gleymum aldrei að það að ganga í ljósinu merkir að kunna að meta hið sívaxandi ljós og lifa í samræmi við það. Eins og við höfum séð nær þetta aukna ljós bæði til hegðunar okkar og þess verkefnis að prédika.
[Neðanmáls]
a Varðturninn 1. og 15. júní 1929 túlkaði hinar ‚yfirboðnu valdstéttir‘ sem Jehóva Guð og Jesú Krist. Það var fyrst og fremst sá skilningur sem var leiðréttur árið 1962.
b Varðturninn (á ensku) tilkynnti 15. apríl 1992 að valdir bræður, aðallega af hinum ‚öðrum sauðum,‘ hefðu verið útnefndir til að aðstoða nefndir hins stjórnandi ráðs, og svöruðu þeir til musterisþjónanna á dögum Esra. — Jóhannes 10:16; Esrabók 2:58.
Manstu?
◻ Hvaða ljósi hefur verið varpað á undirgefni kristins manns við ‚yfirboðnar valdstéttir‘?
◻ Hvaða skipulagsbreytingar hafa orðið samfara vaxandi ljósi?
◻ Hvernig hefur sívaxandi ljós haft áhrif á kristna hegðun?
◻ Hvernig fágaði andlegt ljós skilning okkar á vissum biblíulegum atriðum?
[Mynd/Rétthafi á blaðsíðu 20]
Lyklar á bls. 21: Teikning byggð á ljósmynd sem tekin er í Cooper-Hewitt, National Design Museum, Smithsonian Institution.