13. kafli
Hjálpræði og fögnuður undir stjórn Messíasar
1. Lýstu andlegu ástandi sáttmálaþjóðar Guðs á dögum Jesaja.
SÁTTMÁLAÞJÓÐ Guðs var illa á sig komin andlega á dögum Jesaja. Margir dýrkuðu skurðgoð á fórnarhæðunum, jafnvel í stjórnartíð trúfastra konunga eins og Ússía og Jótams. (2. Konungabók 15:1-4, 34, 35; 2. Kroníkubók 26:1, 4) Þegar Hiskía tók við konungdómi þurfti hann að útrýma úr landinu siðum og fylgihlutum Baalsdýrkunar. (2. Kroníkubók 31:1) Það er engin furða að Jehóva skyldi vara þjóðina við væntanlegri ögun og hvetja hana til að snúa aftur til sín.
2, 3. Hvernig hvetur Jehóva þá sem þrá að þjóna honum þrátt fyrir útbreidda ótrúmennsku?
2 En það voru ekki allir forhertir uppreisnarmenn. Jehóva átti sér trúfasta spámenn og eflaust hafa einhverjir Gyðingar hlustað á þá. Hann hafði hughreystandi orð að færa þeim. Eftir að spámaðurinn Jesaja hafði lýst ógurlegum gripdeildum Assýringa í innrásinni í Júda var honum falið að skrifa einhverja fegurstu kafla Biblíunnar — lýsingu á þeirri blessun sem fylgir stjórn Messíasar.a Þessi blessun kom fram í smáum mæli þegar Gyðingarnir sneru heim úr útlegðinni í Babýlon. En spádómurinn í heild á sér aðaluppfyllingu núna. Jesaja og aðrir trúfastir Gyðingar fortíðar lifðu það ekki að sjá þessa blessun, en þeir horfðu fram til hennar í trú og munu sjá hana rætast eftir upprisu sína. — Hebreabréfið 11:35.
3 Nútímafólk Jehóva þarfnast líka hvatningar. Siðferði hrakar stöðugt í heiminum, boðskapur Guðsríkis sætir mikilli andstöðu og mannlegur veikleiki reynir á hvern og einn. Hin yndislegu orð Jesaja um Messías og stjórn hans geta styrkt fólk Guðs og hjálpað því að standast.
Messías — fær leiðtogi
4, 5. Hverju spáir Jesaja um komu Messíasar og hvernig heimfærir Matteus orð hans?
4 Aðrir hebreskir biblíuritarar, öldum fyrir daga Jesaja, bentu á komu Messíasar, hins sanna leiðtoga sem Jehóva ætlaði að senda Ísrael. (1. Mósebók 49:10; 5. Mósebók 18:18; Sálmur 118:22, 26) Núna bætir Jehóva ýmsu við fyrir munn Jesaja: „Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og angi upp vaxa af rótum hans.“ (Jesaja 11:1; samanber Sálm 132:11.) „Kvistur“ og „angi“ gefur hvort tveggja til kynna að Messías verði afkomandi Ísaí í ættlegg Davíðs sonar hans sem var smurður olíu til konungs í Ísrael. (1. Samúelsbók 16:13; Jeremía 23:5; Opinberunarbókin 22:16) Þegar hinn sanni Messías kemur á þessi „angi“ af húsi Davíðs að bera góðan ávöxt.
5 Jesús er hinn fyrirheitni Messías. Guðspjallaritarinn Matteus vísar óbeint til orðanna í Jesaja 11:1 þegar hann segir að Jesús hafi verið kallaður „Nasarei“ og að þar hefðu ræst orð spámannanna. Jesús var kallaður Nasarei af því að hann ólst upp í bænum Nasaret, en nafnið virðist skylt hebreska orðinu sem þýtt er „angi“ í Jesaja 11:1.b — Matteus 2:23, NW, neðanmáls; Lúkas 2:39, 40.
6. Hvers konar stjórnandi á Messías að vera?
6 Hvers konar stjórnandi verður Messías? Verður hann eins og hinn grimmi og þrjóski Assúr sem eyddi norðurríkinu Ísrael? Auðvitað ekki. Jesaja segir um Messías: „Yfir honum mun hvíla andi [Jehóva]: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta [Jehóva]. Unun hans mun vera að óttast [Jehóva].“ (Jesaja 11:2, 3a) Messías er ekki smurður með olíu heldur heilögum anda Guðs. Það gerist við skírn Jesú þegar Jóhannes skírari sér heilagan anda Guðs koma yfir hann í dúfulíki. (Lúkas 3:22) Andi Jehóva ‚hvílir yfir‘ Jesú og það birtist í visku hans, skilningi, ráðspeki, krafti og þekkingu. Þetta eru góðir eiginleikar í fari stjórnanda.
7. Hverju lofaði Jesús trúföstum fylgjendum sínum?
7 Fylgjendur Jesú geta líka fengið heilagan anda. Jesús sagði í einni af ræðum sínum: „Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ (Lúkas 11:13) Þess vegna ættum við aldrei að hika við að biðja Guð um heilagan anda né hætta að rækta með okkur heilnæman ávöxt hans sem er „kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi“ eða sjálfstjórn. (Galatabréfið 5:22, 23) Jehóva lofar að veita fylgjendum Jesú ‚speki að ofan‘ er þeir biðja um hana, til að þeir geti tekist giftusamlega á við vandamál lífsins. — Jakobsbréfið 1:5; 3:17.
8. Hvernig hefur Jesús unun af því að óttast Jehóva?
8 Hvers konar ótta ber Messías af Jehóva? Hann er auðvitað ekki hræddur við Guð. Ótti hans er ekki ótti við fordæmingu heldur tilhlýðileg lotning og ástúðleg virðing fyrir Guði. Guðhræddur maður þráir alltaf að gera „það sem [Guði] þóknast“ eins og Jesús. (Jóhannes 8:29) Jesús kennir bæði í orði og verki að ekkert getur verið ánægjulegra en að ganga fram hvern dag í heilnæmum ótta við Jehóva.
Réttlátur og miskunnsamur dómari
9. Hvaða fordæmi setur Jesús þeim sem þurfa að dæma í málum í kristna söfnuðinum?
9 Jesaja boðar fleira í sambandi við eiginleika Messíasar: „Hann mun ekki dæma eftir því, sem augu hans sjá, og ekki skera úr málum eftir því, sem eyru hans heyra.“ (Jesaja 11:3b) Þú myndir vera þakklátur fyrir þess konar dómara ef þú værir leiddur fyrir rétt. Messías er dómari alls mannkyns en hann lætur ekki falsrök, kænlegar réttarflækjur, orðróm eða yfirborðslega þætti, svo sem efnahag, hafa áhrif á sig. Hann sér í gegnum blekkingar og horfir fram hjá óhagstæðu útliti. Hann sér ‚hinn hulda mann hjartans.‘ (1. Pétursbréf 3:4) Óviðjafnanlegt fordæmi Jesú er öllum fyrirmynd sem þurfa að dæma í málum í kristna söfnuðinum. — 1. Korintubréf 6:1-4.
10, 11. (a) Hvernig leiðréttir Jesús fylgjendur sína? (b) Hvernig dæmir Jesús hina illu?
10 Hvaða áhrif hafa afburðaeiginleikar Messíasar á dóma hans? Jesaja svarar: „Með réttvísi mun hann dæma hina fátæku og skera með réttlæti úr málum hinna nauðstöddu í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns og deyða hinn óguðlega með anda vara sinna. Réttlæti mun vera beltið um lendar hans og trúfesti beltið um mjaðmir hans.“ — Jesaja 11:4, 5.
11 Þegar fylgjendur Jesú þarfnast leiðréttingar veitir hann hana þannig að þeir hafi mest gagn af, og það er gott fordæmi fyrir kristna öldunga. Þeir sem ástunda vond verk mega hins vegar búast við þungum dómi. Þegar Guð gerir upp reikningana við þetta heimskerfi mun Messías „ljósta ofbeldismanninn“ með valdsmannlegri rödd sinni og lesa upp eyðingardóm yfir öllum óguðlegum. (Sálmur 2:9; samanber Opinberunarbókina 19:15.) Að lokum verða engir óguðlegir menn til sem geta raskað friði mannkyns. (Sálmur 37:10, 11) Jesús er gyrtur réttlæti og trúfesti um lendar sér og mjaðmir og hefur vald til að gera þetta. — Sálmur 45:4-8.
Breytt ástand á jörðinni
12. Hvaða áhyggjur hafa kannski sótt á Gyðing þegar hann hugsaði um heimförina frá Babýlon?
12 Sjáðu fyrir þér Ísraelsmann sem er nýbúinn að frétta af þeirri tilskipun Kýrusar að Gyðingar skuli snúa heim til Jerúsalem og endurreisa musterið. Ætlar hann að yfirgefa öryggi Babýlonar og leggja upp í langferðina heim? Akrarnir eru á kafi í illgresi eftir 70 ára fjarveru Ísraels, og úlfar, pardusdýr, ljón og birnir eru þar á reiki. Nöðrur hafa tekið sér bólfestu þar. Gyðingar þurfa að lifa á búfénaði sínum — af ull til fatnaðar og kjöti og mjólk til matar, og uxarnir þurfa að plægja. Verður búsmalinn villidýrum að bráð? Verða smábörnin bitin af höggormum? Og verður þeim búið launsátur á leiðinni?
13. (a) Hvaða fagra mynd dregur Jesaja upp? (b) Hvernig vitum við að friðurinn, sem Jesaja lýsir, er meira en það að vera óhultur fyrir villidýrum?
13 Jesaja dregur nú upp undurfagra mynd af þeim skilyrðum sem Guð mun skapa í landinu. Hann segir: „Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum, og ljónið mun hey eta sem naut. Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holudyr nöðrunnar, og barnið nývanið af brjósti stinga hendi sinni inn í bæli hornormsins. Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ (Jesaja 11:6-9) Er þetta ekki hjartnæm lýsing? Þú tekur eftir að friðurinn stafar af þekkingu á Jehóva. Málið snýst því um fleira en öryggi fyrir villidýrum. Þekkingin á Jehóva breytir ekki dýrunum en hún hreyfir við fólki. Ísraelsmenn þurfa hvorki að óttast villidýr eða dýrslega menn á heimleiðinni né þegar heim kemur. — Esrabók 8:21, 22; Jesaja 35:8-10; 65:25.
14. Lýstu meiri uppfyllingu Jesaja 11:6-9.
14 En þessi spádómur á sér meiri uppfyllingu. Messías Jesús settist í hásæti á himnesku Síonfjalli árið 1914. Þeir sem eftir voru af „Ísrael Guðs“ voru leystir úr ánauð Babýlonar árið 1919 og tóku þátt í að endurreisa sanna tilbeiðslu. (Galatabréfið 6:16) Þar með gat paradísarspádómur Jesaja uppfyllst að nýju. ‚Fullkomin þekking,‘ þekkingin á Jehóva, hefur breytt persónuleika manna. (Kólossubréfið 3:9, 10) Ofbeldishneigðir menn eru orðnir friðsamir. (Rómverjabréfið 12:2; Efesusbréfið 4:17-24) Þessi framvinda hefur haft áhrif á milljónir manna því að spádómur Jesaja nær nú til ört vaxandi hóps kristinna manna sem hefur jarðneska von. (Sálmur 37:29; Jesaja 60:22) Þeir bíða þess tíma þegar öll jörðin verður örugg og friðsæl paradís í samræmi við upphaflegan tilgang Guðs. — Matteus 6:9, 10; 2. Pétursbréf 3:13.
15. Getum við með réttu ætlað að orð Jesaja uppfyllist bókstaflega í nýja heiminum? Skýrðu svarið.
15 Á spádómur Jesaja að rætast í enn fyllri og kannski bókstaflegri mæli í endurreistri paradís? Það má ætla það. Spádómurinn lofar öllum sem munu lifa undir messíasarstjórninni hinu sama og Ísraelsmönnunum sem sneru heim, að þeir og börn þeirra þurfi ekki að óttast að nokkur geri þeim mein, hvorki menn né dýr. Í messíasarríkinu munu allir jarðarbúar búa við sams konar friðsæld og Adam og Eva í Eden. Biblían lýsir auðvitað ekki í smáatriðum hvernig lífið var í Eden eða hvernig það verður í paradís. En við getum verið viss um að allt verður eins og það á að vera undir viturri kærleiksstjórn konungsins Jesú Krists.
Hrein tilbeiðsla endurreist undir stjórn Messíasar
16. Hvað stóð sem hermerki fyrir fólk Guðs árið 537 f.o.t.?
16 Hrein tilbeiðsla varð fyrst fyrir árás í Eden þegar Satan tókst að fá Adam og Evu til að óhlýðnast Jehóva. Satan stefnir enn að því að snúa sem flestum frá Guði. En Guð leyfir aldrei að hrein tilbeiðsla verði þurrkuð út af jörðinni. Nafn hans er í húfi og honum er annt um þá sem þjóna honum. Þess vegna kemur hann með þetta sláandi loforð: „Á þeim degi mun rótarkvistur Ísaí standa sem hermerki fyrir þjóðirnar og lýðirnir leita til hans, og bústaður hans mun dýrlegur verða.“ (Jesaja 11:10) Jerúsalem, borgin sem Davíð gerði að höfuðborg, var eins og hermerki árið 537 f.o.t. og kallaði heim trúfastar leifar hinnar dreifðu Gyðingaþjóðar til að endurreisa musterið.
17. Hvernig ‚reis Jesús upp til að stjórna þjóðum‘ á fyrstu öld og á okkar dögum?
17 En spádómurinn segir meira en það. Eins og við höfum séð bendir hann á stjórn Messíasar, hins eina sanna leiðtoga fólks af öllum þjóðum. Páll postuli vitnaði í Jesaja 11:10 til að sýna fram á að fólk af þjóðunum ætti heima í kristna söfnuðinum. Hann vitnaði í Sjötíumannaþýðingu þessa vers og skrifaði: „Enn segir Jesaja: ‚Koma mun rótarkvistur Ísaí og sá, er rís upp til að stjórna þjóðum, á hann munu þjóðir vona.‘“ (Rómverjabréfið 15:12) Og spádómurinn nær lengra — allt til okkar daga þegar fólk af öllum þjóðum sýnir Jehóva kærleika sinn með því að styðja smurða bræður Messíasar. — Jesaja 61:5-9; Matteus 25:31-40.
18. Hvernig hefur Jesús verið hermerki sem menn hafa safnast um á okkar dögum?
18 ‚Þessi dagur,‘ sem Jesaja nefnir, hófst í nútímauppfyllingunni þegar Messías var settur í hásæti á himnum árið 1914 sem konungur himnaríkis Guðs. (Lúkas 21:10; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Opinberunarbókin 12:10) Síðan þá hefur Jesús Kristur verið greinilegt hermerki þar sem hinn andlegi Ísrael hefur safnast saman ásamt fólki af öllum þjóðum sem þráir réttláta stjórn. Undir handleiðslu Messíasar Jesú hefur fagnaðarerindið um ríkið verið boðað öllum þjóðum eins og hann spáði. (Matteus 24:14; Markús 13:10) Þetta fagnaðarerindi er mjög áhrifamikið. „Mikill múgur, sem enginn [getur] tölu á komið, af alls kyns fólki“ beygir sig undir Messías með því að sameinast hinum smurðu leifum í hreinni tilbeiðslu. (Opinberunarbókin 7:9) Margir nýir ganga í lið með leifunum í andlegu ‚bænahúsi‘ Jehóva og gera hið mikla andlega musteri hans, ‚bústað‘ Messíasar, enn dýrlegra. — Jesaja 56:7; Haggaí 2:7.
Sameinað fólk þjónar Jehóva
19. Við hvaða tvö tækifæri safnar Jehóva saman tvístruðum leifum fólks síns?
19 Jesaja minnir Ísraelsmenn á að Jehóva hafi einu sinni áður frelsað þá undan kúgun öflugs óvinar. Þessi kafli í sögu Ísraels, þegar Jehóva frelsaði þjóðina úr ánauðinni í Egyptalandi, er öllum trúföstum Gyðingum kær. Jesaja skrifar: „Á þeim degi mun [Jehóva] útrétta hönd sína í annað sinn til þess að endurkaupa þær leifar fólks síns, sem eftir eru í Assýríu, Norður-Egyptalandi, Suður-Egyptalandi, Blálandi, Elam, Babýloníu, Hamat og á eyjum hafsins. Og hann mun reisa merki fyrir þjóðirnar, heimta saman hina brottreknu menn úr Ísrael og safna saman hinum tvístruðu konum úr Júda frá fjórum höfuðáttum heimsins.“ (Jesaja 11:11, 12) Það er eins og Jehóva taki í hönd hinna trúföstu leifa bæði Ísraels og Júda og leiði þær út úr þeim þjóðum, þangað sem þær hafa tvístrast, og leiði þær óhultar heim. Þetta gerðist í smáum mæli árið 537 f.o.t. En aðaluppfyllingin er miklum mun dýrlegri. Árið 1914 reisti Jehóva hinn krýnda Jesú Krist sem „merki fyrir þjóðirnar.“ Frá og með 1919 fóru leifar ‚Ísraels Guðs‘ að streyma til þessa merkis, óðfúsar að eiga hlut í hreinni tilbeiðslu undir ríki Guðs. Þessi einstæða, andlega þjóð kemur „af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð.“ — Opinberunarbókin 5:9.
20. Hvaða einingar mun fólk Guðs njóta eftir heimkomuna frá Babýlon?
20 Síðan lýsir Jesaja einingu hinnar endurreistu þjóðar. Hann kallar norðurríkið Efraím og suðurríkið Júda og segir: „Þá mun öfund Efraíms hverfa og fjandskapur Júda líða undir lok. Efraím mun ekki öfundast við Júda og Júda ekki fjandskapast við Efraím. Þeir munu steypa sér niður á síðu Filista gegn vestri og ræna í sameiningu austurbyggja. Edóm og Móab munu þeir hremma og Ammónítar verða þeim lýðskyldir.“ (Jesaja 11:13, 14) Gyðingar munu ekki lengur skiptast í tvær þjóðir þegar þeir snúa heim frá Babýlon. Menn af öllum ættkvíslum Ísraels snúa sameinaðir heim í land sitt. (Esrabók 6:17) Þeir hætta að sýna hver öðrum fjandskap og óvild. Þeir eru sameinaðir og standa sigurglaðir gegn óvinum sínum meðal grannþjóðanna.
21. Af hverju er eining nútímafólks Guðs einstök?
21 Eining ‚Ísraels Guðs‘ er enn áhrifameiri. Hinar tólf táknrænu ættkvíslir andlegra Ísraelsmanna hafa í nærfellt 2000 ár verið sameinaðar í kærleika til Guðs og til andlegra bræðra sinna og systra. (Kólossubréfið 3:14; Opinberunarbókin 7:4-8) Fólk Jehóva um víða veröld, bæði andlegir Ísraelsmenn og þeir sem hafa jarðneska von, njóta friðar og einingar undir stjórn Messíasar, en slíkt er óþekkt meðal kirkna kristna heimsins. Vottar Jehóva mynda sameinaða, andlega fylkingu gegn Satan sem reynir að trufla tilbeiðslu þeirra. Sem einn maður framfylgja þeir fyrirmælum Jesú um að prédika og kenna fagnaðarerindið um messíasarríkið meðal allra þjóða. — Matteus 28:19, 20.
Tálmar yfirstignir
22. Hvernig mun Jehóva „þurrka upp voga Egyptahafs“ og „bregða hendi sinni yfir fljótið“?
22 Það eru margir tálmar á leið Ísraelsmanna heim úr útlegðinni, bæði bókstaflegir og táknrænir. Hvernig geta þeir yfirstigið þá? Jesaja segir: „[Jehóva] mun þurrka upp voga Egyptahafs og bregða hendi sinni yfir fljótið í stríðum stormi og skipta því í sjö kvíslir, svo að yfir má ganga með skó á fótum.“ (Jesaja 11:15) Það er Jehóva sem fjarlægir alla tálma í vegi þjóna sinna. Jafnvel miklir tálmar eins og vogar Rauðahafsins (til dæmis Súesflói) eða óyfirstíganlegir eins og Efratfljótið skulu þorna ef svo má að orði komast, svo að hægt sé að komast yfir án þess að taka af sér ilskóna!
23. Hvernig verður ‚brautarvegur út úr Assýríu‘?
23 Á dögum Móse ruddi Jehóva brautina svo að Ísraelsmenn gátu gengið út úr Egyptalandi og til fyrirheitna landsins. Nú gerir hann eitthvað svipað: „Það skal verða brautarvegur fyrir þær leifar fólks hans, sem enn eru eftir í Assýríu, eins og var fyrir Ísrael, þá er hann fór af Egyptalandi.“ (Jesaja 11:16) Jehóva leiðir útlagana rétt eins og þeir gangi heimleiðis eftir þjóðvegi frá landi útlegðarinnar. Andstæðingar munu reyna að hefta för þeirra en Jehóva, Guð þeirra, verður með þeim. Smurðir kristnir menn og félagar þeirra nú á dögum halda líka hugrakkir áfram þrátt fyrir grimmilegar árásir. Þeir eru gengnir út úr heimi Satans, Assýríu nútímans, og hjálpa öðrum til þess einnig. Þeir vita að hrein tilbeiðsla mun blómgast og dafna. Hún er ekki mannaverk heldur Guðs.
Endalaus fögnuður meðal þegna Messíasar
24, 25. Hvaða lof- og þakkarsöng mun fólk Jehóva syngja?
24 Jesaja lýsir glaðlega hvernig fólk Jehóva fagnar því að orð hans uppfyllist: „Á þeim degi skaltu segja: ‚Ég vegsama þig, [Jehóva], því þótt þú værir mér reiður, þá er þó horfin reiði þín og þú huggaðir mig.‘“ (Jesaja 12:1) Jehóva agar þrjóska þjóð sína harðlega. En ögunin nær því markmiði sínu að lagfæra samband hennar við hann og endurreisa hreina tilbeiðslu. Jehóva fullvissar trúfasta dýrkendur sína um að hann bjargi þeim um síðir. Það er engin furða að þeir skuli þakka honum!
25 Hinir heimkomnu Ísraelsmenn hrópa fagnandi því að Jehóva hefur ekki brugðist trausti þeirra: „‚Sjá, Guð er mitt hjálpræði, ég er öruggur og óttast eigi, því að [Jah Jehóva] er minn styrkur og minn lofsöngur, hann er orðinn mér hjálpræði.‘ Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.“ (Jesaja 12:2, 3) Tilbiðjendur ‚Jah Jehóva‘ taka að syngja honum lof fyrir hjálpræði hans. ‚Jah‘ er stytting á nafninu Jehóva og er notað í Biblíunni til að tjá sterka þakkarkennd og lof. Með því að tvítaka nafnið, ‚Jah Jehóva,‘ lyfta þeir lofsöngnum til hans á enn hærra stig.
26. Hverjir kunngera máttarverk Guðs meðal þjóðanna núna?
26 Sannir guðsdýrkendur geta ekki þagað yfir gleði sinni. Jesaja spáir: „Á þeim degi munuð þér segja: ‚Lofið [Jehóva], ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum, að háleitt er nafn hans. Lofsyngið [Jehóva], því að dásemdarverk hefir hann gjört. Þetta skal kunnugt verða um alla jörðina.‘“ (Jesaja 12:4, 5) Allt frá 1919 hafa smurðir kristnir menn, síðar með aðstoð hinna ‚annarra sauða,‘ ‚víðfrægt dáðir hans sem kallaði þá frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.‘ Þeir eru „útvalin kynslóð . . . heilög þjóð“ valin til þessa hlutverks. (Jóhannes 10:16; 1. Pétursbréf 2:9) Hinir smurðu boða að heilagt nafn Jehóva sé háleitt og kunngera það um alla jörðina. Þeir eru fremstir í flokki dýrkenda Jehóva um að lofa hann fyrir hjálpræði sitt. Eins og Jesaja segir: „Lát óma gleðihljóm og kveða við fagnaðaróp, þú sem býr á Síon, því að mikill er Hinn heilagi í Ísrael meðal þín.“ (Jesaja 12:6) Hinn heilagi í Ísrael er Jehóva Guð sjálfur.
Horfðu með trausti fram veginn
27. Hverju treysta kristnir menn meðan þeir bíða eftir að vonin rætist?
27 Milljónir manna hafa safnast kringum ‚merkið fyrir þjóðirnar,‘ konung Guðsríkis, Jesú Krist. Þær fagna því að vera þegnar þessa ríkis og þekkja Jehóva Guð og son hans. (Jóhannes 17:3) Þær hafa yndi af einingu og vináttu bræðrafélagsins og leggja sig í líma við að varðveita friðinn sem einkennir sanna þjóna Jehóva. (Jesaja 54:13) Þær eru sannfærðar um að Jah Jehóva standi við fyrirheit sín, eru öruggar í voninni og njóta þess að segja öðrum frá henni. Megi allir dýrkendur Jehóva halda áfram að þjóna honum af alefli og hjálpa öðrum til þess einnig. Megi allir taka orð Jesaja til sín og gleðjast yfir hjálpræðinu sem Jehóva veitir fyrir atbeina Messíasar!
[Neðanmáls]
a Orðið „Messías“ er komið af hebreska orðinu mashiʹach sem merkir „hinn smurði.“ Það samsvarar gríska orðinu Khristosʹ eða „Kristur.“ — Matteus 2:4, NW, neðamáls.
b Orðið „angi“ er þýðing hebreska orðsins neʹtser og „Nasarei“ þýðing orðsins Notsriʹ.
[Mynd á blaðsíðu 158]
Messías er „kvistur“ af Ísaí í ætt Davíðs konungs.
[Heilsíðumynd á blaðsíðu 162]
[Mynd á blaðsíðu 170]
Jesaja 12:4, 5 í Dauðahafshandritinu (nafn Guðs er upplýst).