Kafli 76
Máltíð hjá farísea
EFTIR að Jesús svarar gagnrýni þeirra sem draga í efa að máttur hans til að reka út illa anda sé frá Guði býður farísei honum til máltíðar. Áður en farísear matast þvo þeir sig helgiþvotti upp fyrir olnboga. Þetta gera þeir bæði fyrir máltíðir og eftir, og jafnvel á milli rétta. Þótt þessi siður brjóti ekki gegn rituðu lögmáli Guðs gengur hann lengra en Guð krefst í sambandi við trúarlegan hreinleika.
Gestgjafinn furðar sig á að Jesús skuli ekki halda þessa siðvenju. Hann hefur kannski ekki beint orð á því en Jesús skynjar það og segir: „Þér farísear, þér hreinsið bikarinn og fatið utan, en hið innra eruð þér fullir yfirgangs og illsku. Þér heimskingjar, hefur sá, sem gjörði hið ytra, ekki einnig gjört hið innra?“
Jesús afhjúpar þannig hræsni faríseanna sem hafa handþvott fyrir helgisið en þvo hins vegar ekki hjörtu sín hrein af illsku. Hann ráðleggur: „Gefið fátækum það, sem í er látið [það sem kemur innan frá], og þá er allt yður hreint.“ Þeir eiga að gefa af kærleika, ekki löngun til að vekja athygli annarra með uppgerðarréttlæti sínu.
„Vei yður, þér farísear!“ heldur Jesús áfram. „Þér gjaldið tíund af myntu og rúðu og alls kyns matjurtum, en hirðið ekki um réttlæti og kærleika Guðs. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.“ Lögmál Guðs krafðist þess að Ísraelsmenn greiddu tíund af afurðum jarðarinnar. Mynta og rúða eru smávaxnar kyddjurtir. Farísearnir gættu þess vandlega að greiða tíund jafnvel af þessum smájurtum, en Jesús fordæmir þá fyrir að skeyta ekki um hinar mikilvægari kröfur um kærleika, góðvild og lítillæti.
Jesús heldur áfram að fordæma þá og segir: „Vei yður, þér farísear! Yður er ljúft að skipa æðsta bekk í samkundum og láta heilsa yður á torgum. Vei yður, því þér eruð eins og duldar grafir, sem menn ganga yfir án þess að vita.“ Óhreinleiki þeirra er ekki augljós. Guðsdýrkun faríseanna er tilkomumikil að sjá en inntakið er einskis virði! Guðsdýrkun þeirra er hræsnin ein.
Lögvitringur, vel heima í lögmáli Guðs, hlýðir á fordæmingu Jesú og kvartar: „Meistari, þú meiðir oss líka með því, sem þú segir.“
Jesús kallar þessa lögmálsfræðinga einnig til ábyrgðar og segir: „Vei yður líka, þér lögvitringar! Þér leggið á menn lítt bærar byrðar, og sjálfir snertið þér ekki byrðarnar einum fingri. Vei yður! Þér hlaðið upp grafir spámannanna, sem feður yðar líflétu.“
Byrðarnar, sem Jesús nefnir, eru hinar munnlegu erfikenningar, en þessir lögvitringar vilja ekki létta einni einustu smáreglu af fólki til að gera því lífið léttara. Jesús bendir á að þeir samþykki morðin á spámönnunum og segir í viðvörunartón: „Þannig verður kynslóð þessi krafin um blóð allra spámannanna, er úthellt hefur verið frá grundvöllun heims, frá blóði Abels til blóðs Sakaría, sem drepinn var milli altarisins og musterisins. Já, segi ég yður, þess mun krafist verða af þessari kynslóð.“
Sá mannheimur, sem hægt er að endurleysa, varð til þegar Adam og Evu fæddust börn, þannig að Abel var uppi við „grundvöllun heims.“ Eftir hið grimmilega morð á Sakaría fór sýrlenskur her ránshendi um Júda. En Jesús segir fyrir að kynslóð hans fái enn verri útreið vegna þess að illska hennar sé meiri. Það á sér stað árið 70, um 38 árum síðar.
Jesús heldur áfram fordæmingu sinni og segir: „Vei yður, þér lögvitringar! Þér hafið tekið brott lykil þekkingarinnar. Sjálfir hafið þér ekki gengið inn, og þeim hafið þér varnað, sem inn vildu ganga.“ Sú skylda hvílir á lögmálsfræðingunum að skýra orð Guðs fyrir fólki, að ljúka því upp svo menn skilji það. En þeir bregðast þessari skyldu og taka meira að segja frá fólki tækifærið til að skilja orð Guðs.
Farísearnir og lögmálsfræðingarnir eru Jesú ævareiðir fyrir að afhjúpa þá. Þegar hann yfirgefur húsið ganga þeir hart að honum og láta spurningunum rigna yfir hann. Þeir reyna að leggja gildru fyrir hann og fá hann til að segja eitthvað sem þeir geti látið handtaka hann fyrir. Lúkas 11:37-54; 5. Mósebók 14:22; Míka 6:8; 2. Kroníkubók 24:20-25.
▪ Af hverju fordæmir Jesús faríseana og lögmálsfræðingana?
▪ Hvaða byrðar leggja lögvitringarnir á fólk?
▪ Hvenær var „grundvöllun heims“?