Kafli 78
Verið viðbúnir!
EFTIR að Jesús hefur varað mannfjöldann við ágirnd og áminnt lærisveinana um að leggja ekki of mikið upp úr efnislegum hlutum hvetur hann: „Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið.“ Þannig bendir hann á að tiltölulega fáir (síðar er upplýst að þeir séu 144.000 talsins) verði í ríkinu á himnum. Flestir þeirra sem fá eilíft líf verða jarðneskir þegnar Guðsríkis.
„Ríkið“ er stórkostleg gjöf! Jesús bendir á hversu þakklátir lærisveinarnir ættu að vera fyrir þessa gjöf og hvetur þá: „Seljið eigur yðar og gefið ölmusu.“ Já, þeir ættu að nota eigur sínar þannig að aðrir hafi andlegt gagn af og byggja upp „fjársjóð á himnum, er þrýtur ekki.“
Síðan hvetur Jesús lærisveinana til að vera viðbúna endurkomu hans. Hann segir: „Verið gyrtir um lendar, og látið ljós yðar loga, og verið líkir þjónum, er bíða þess, að húsbóndi þeirra komi úr brúðkaupi og þeir geti lokið upp fyrir honum um leið og hann kemur og knýr dyra. Sælir eru þeir þjónar, sem húsbóndinn finnur vakandi, er hann kemur. Sannlega segi ég yður, hann mun gyrða sig belti, láta þá setjast að borði og koma og þjóna þeim.“
Þjónarnir í þessari líkingu sýna að þeir eru viðbúnir endurkomu húsbónda síns með því að gyrða upp um sig síðan kyrtilinn og festa við belti sér og halda áfram að vinna skyldustörf sín fram á nótt við ljós af lömpum með nægri olíu. Jesús segir: ‚Komi húsbóndinn um miðnætti eða síðar og finni þá vakandi, sælir eru þeir þá.‘
Húsbóndinn umbunar þjónum sínum með óvenjulegum hætti. Hann lætur þá setjast að borði og tekur að þjóna þeim. Hann fer ekki með þá eins og þjóna heldur trúa vini. Þeim er ríkulega umbunað fyrir að halda áfram að vinna fyrir húsbónda sinn alla nóttina meðan þeir bíða komu hans. Jesús segir: „Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.“
Pétur spyr: „Herra, mælir þú þessa líkingu til vor eða til allra?“
Jesús svarar þeim ekki beint heldur segir þeim aðra dæmisögu og spyr: „Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður, sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma? Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.“
„Húsbóndinn“ er auðvitað Jesús Kristur. ‚Ráðsmaðurinn‘ táknar „litla hjörð“ lærisveina hans í heild, og ‚hjúin‘ eru sami 144.000 manna hópurinn sem öðlast ríkið á himnum, en þar er átt við starf þeirra hvers og eins. ‚Eigurnar,‘ sem trúi ráðsmaðurinn er settur yfir, eru konunglegir hagsmunir húsbóndans á jörðinni, þeirra á meðal jarðneskir þegnar ríkisins.
Jesús heldur dæmisögunni áfram og bendir á þann möguleika að það reynist ekki allir í ráðsmannahópnum trúir. Hann segir: „Ef sá þjónn segir í hjarta sínu: ‚Það dregst, að húsbóndi minn komi,‘ og tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður, þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi, er hann væntir ekki, . . . [og] höggva hann.“
Jesús bendir á að koma sín hafi haft í för með sér eld fyrir Gyðinga því að sumir taka við kenningum hans en aðrir ekki. Meira en þrem árum áður var hann skírður í vatni, en núna nálgast það að skírn hans til dauða ljúki og hann segir: „Hversu þungt er mér, uns hún er fullnuð.“
Jesús ávarpar mannfjöldann á ný eftir að hafa sagt lærisveinunum þetta. Hann harmar að fólkið skuli þrjóskast við að viðurkenna hinar skýru sannanir fyrir því hver hann sé og þýðingu þess, og segir: „Þá er þér sjáið ský draga upp í vestri, segið þér jafnskjótt: ‚Nú fer að rigna.‘ Og svo verður. Og þegar vindur blæs af suðri, segið þér: ‚Nú kemur hiti.‘ Og svo fer. Hræsnarar, útlit lofts og jarðar kunnið þér að ráða, en hvernig er því farið, að þér kunnið ekki að meta þennan tíma?“ Lúkas 12:32-59.
▪ Hve fjölmenn er ‚litla hjörðin‘ og hvað fær hún?
▪ Hvernig leggur Jesús áherslu á að þjónar sínir þurfi að vera viðbúnir?
▪ Hver er „húsbóndinn“ í dæmisögu Jesú, ‚ráðsmaðurinn,‘ ‚hjúin‘ og ‚eigurnar‘?