Kafli 79
Þjóð glatast en sumir frelsast
SKÖMMU eftir samtal Jesú við þá sem safnast höfðu saman fyrir utan hús farísea nokkurs, er honum sagt ‚frá Galíleumönnunum, að [rómverski landstjórinn Pontíus] Pílatus hafi blandað blóði þeirra í fórnir þeirra.‘ Þetta eru kannski þeir Galíleumenn sem voru drepnir þegar þúsundir Gyðinga mótmæltu því að Pílatus skyldi nota fé úr fjárhirslu musterisins til að leggja vatnsveitubrú inn í Jerúsalem. Þeir sem segja Jesú frá þessu eru kannski að gefa í skyn að Galíleumennirnir geti kennt vonskuverkum sjálfra sín um þessa ógæfu.
En Jesús leiðréttir þá og spyr: „Haldið þér, að þessir Galíleumenn hafi verið meiri syndarar en allir aðrir Galíleumenn, fyrst þeir urðu að þola þetta?“ „Nei,“ svarar hann svo. Síðan notar hann þennan atburð til að vara Gyðingana við: „Ef þér gjörið ekki iðrun, munuð þér allir farast eins.“
Jesús heldur áfram og minnist á annan harmleik þar um slóðir, hugsanlega einnig tengdan gerð vatnsveitubrúarinnar. Hann spyr: „Eða þeir átján, sem turninn féll yfir í Sílóam og varð að bana, haldið þér, að þeir hafi verið sekari en allir þeir menn, sem í Jerúsalem búa?“ Nei, Jesús segir að það hafi ekki verið vegna illsku þessara manna sem þeir dóu. Það er „tími og tilviljun“ sem yfirleitt veldur slíkum harmleikjum, en Jesús notar þetta dæmi líka til varnaðar: „Ef þér gjörið ekki iðrun, munuð þér allir farast eins.“
Jesús segir síðan mjög viðeigandi dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: ‚Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að spilla jörðinni?‘ En hann svaraði honum: ‚Herra, lát það standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.‘“
Í meira en þrjú ár hefur Jesús reynt að rækta upp trú meðal Gyðingaþjóðarinnar, en ávöxturinn af starfi hans er aðeins nokkur hundruð lærisveinar. Núna, á fjórða þjónustuári sínu, leggur hann enn meira á sig; í táknrænni merkingu er hann að grafa um og bera áburð að Gyðingaþjóðinni með því að prédika og kenna af kappi í Júdeu og Pereu. En allt kemur fyrir ekki. Þjóðin neitar að iðrast og eyðing blasir við henni. Aðeins lítill minnihluti tekur við boðskapnum.
Skömmu síðar er Jesús að kenna í samkunduhúsi á hvíldardegi. Þar sér hann konu sem illur andi hefur haldið samankrepptri í 18 ár. Jesús kennir í brjósti um hana og segir: „Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn!“ Síðan leggur hann hendur yfir hana og jafnskjótt réttist hún og tekur að lofa Guð.
En samkundustjórinn reiðist. „Sex daga skal vinna, komið þá og látið lækna yður og ekki á hvíldardegi,“ segir hann. Þannig viðurkennir hann að Jesús búi yfir lækningamætti en fordæmir fólkið fyrir að koma á hvíldardegi til að láta lækna sig!
„Hræsnarar,“ svarar Jesús, „leysir ekki hver yðar á hvíldardegi naut sitt eða asna af stalli og leiðir til vatns? En þessi kona, sem er dóttir Abrahams og Satan hefur fjötrað full átján ár, mátti hún ekki leyst verða úr fjötrum þessum á hvíldardegi?“
Mótstöðumenn Jesú verða sneyptir þegar þeir heyra þetta, en mannfjöldinn fagnar öllum þeim dásamlegu verkum sem hann sér Jesú vinna. Jesús endurtekur nú tvær spádómlegar dæmisögur um Guðsríki sem hann sagði úr báti á Galíleuvatni um ári áður. Lúkas 13:1-21; Prédikarinn 9:11; Matteus 13:31-33.
▪ Hvaða harmleikir eru nefndir hér og hvernig notar Jesús þá til kennslu?
▪ Hvernig má heimfæra dæmisöguna um ávaxtalausa fíkjutréð og tilraunirnar til að láta það bera ávöxt?
▪ Hvað viðurkennir samkundustjórinn um lækningamátt Jesú en hvernig afhjúpar Jesús hræsni hans?