Gimsteinar úr Lúkasarguðspjalli
SONUR Jehóva, Jesús Kristur, er kunnur fyrir gæsku sína. Það átti því vel við að guðspjallaritarinn Lúkas skyldi leggja áherslu á gæsku, miskunn og samkennd! Hann skrifaði mjög hlýlega frásögu af jarðneskri ævi Jesú, ætlaða jafnt Gyðingum sem heiðingjum.
Margt sýnir að það var lærður maður sem færði frásöguna í letur. Til dæmis eru inngangsorðin klassísk og orðavalið fjölbreytt. Slíkt kemur vel heim og saman við það að Lúkas hafi verið velmenntaður læknir. (Kólossubréfið 4:14) Lúkas tók ekki trú fyrr en eftir dauða Jesú, en slóst í för með Páli postula frá Jerúsalem eftir þriðju trúboðsferð postulans. Eftir handtöku Páls þar og fangavist í Sesareu gat þessi nákvæmi fræðimaður viðað að sér efni með því að tala við sjónarvotta og leita heimilda í opinberum plöggum. (1:1-4; 3:1, 2) Vera kann að hann hafi ritað guðspjallið í Sesareu einhvern tíma á því tveggja ára tímabili sem postulinn var þar í fangelsi, á árabilinu 56-58 e.o.t.
Nokkur sérkenni
Að minnsta kosti sex af kraftaverkum Jesú er hvergi getið nema í Lúkasarguðspjalli. Það eru: undraverð fiskveiði (5:1-6); upprisa sonar ekkjunnar frá Nain (7:11-15); lækning konunnar sem var kreppt og ófær um að rétta sig upp (13:11-13); lækning vatnssjúks manns (14:1-4); hreinsun tíu líkþrárra manna (17:12-14) og það er hann græddi eyrað á þjón æðsta prestsins. — 22:50, 51.
Sumra af dæmisögum Jesú er ekki heldur getið annars staðar. Þar má nefna dæmisöguna um skuldugu mennina tvo (7:41-47); um miskunnsama Samverjann (10:30-35); um ávaxtalausa fíkjutréð (13:6-9); um kvöldmáltíðina miklu (14:16-24); um glataða soninn (15:11-32); um ríka manninn og Lasarus (16:19-31) og um ekkjuna og rangláta dómarann. — 18:1-8.
Hrífandi atvik
Læknirinn Lúkas sýndi konum, börnum og öldruðum umhyggju. Einungis hann segir frá því að Elísabet hafi verið óbyrja, síðan orðið barnshafandi og alið Jóhannes. Hann einn segir frá því er Gabríel engill birtist Maríu. Lúkas greinir frá því að barn Elísabetar hafi tekið viðbragð í kviði hennar er María talaði við hana. Hann einn segir frá umskurn Jesú og því er farið var með hann í musterið þar sem hin öldruðu Símeon og Anna sáu hann. Og við eigum það guðspjalli Lúkasar að þakka að við skulum vita eitthvað um bernsku Jesú og Jóhannesar skírara. — 1:1-2:52.
Er Lúkas sagði frá hinni harmþrungnu ekkju í Nain, sem hafði misst einkason sinn, lét hann þess getið að Jesús hafi ‚kennt í brjósti um hana‘ og síðan vakið unga manninn upp til lífs. (7:11-15) Aðeins Lúkas segir frá Sakkeusi, yfirtollheimtumanninum sem var lítill vexti og kleif upp í tré til að sjá Jesú. Það kom honum sannarlega á óvart er Jesús sagðist mundu dvelja í húsi hans! Lúkas lýsir því hvernig heimsóknin varð hinum hamingjusama gestgjafa til mikillar blessunar. — 19:1-10.
Frá læknispenna
Í guðspjallinu er að finna mörg orð eða orðalag sem varða læknisfræði með einhverjum hætti. Hinir ritarar kristnu Grísku ritninganna ýmist notuðu þessi orð í annarri merkingu eða alls ekki. En við því var að búast að læknir talaði læknamál.
Til dæmis segir aðeins Lúkas frá því að tengdamóðir Péturs hafi verið „altekin sótthita.“ (4:38) Hann skrifaði einnig: „Þar var maður altekinn líkþrá.“ (5:12) Hinum guðspjallariturunum nægði að nefna líkþrá, en læknirinn Lúkas varð að vera nákvæmari og lýsa því að sjúkdómurinn hafi verið á háu stigi.
Innsýn í siðvenjur
Lúkas sagði að María hefði ‚vafið Jesú reifum‘ eftir fæðingu hans. (2:7) Venja var að þvo nýfætt barn og nudda síðan með salti, ef til vill til að þurrka húðina og gera hana stinna. Síðan var barnið vafið í reifar, nánast eins og múmía. Reifarnar héldu líkamanum beinum, héldu hita á barninu, og það að þær skyldu vafðar undir hökuna og yfir höfuðið hefur ef til vill æft barnið í því að anda um nefið. Frásögn ferðalangs í Betlehem á 19. öld lýsir svipaðri siðvenju: „Ég tók litla barnið í fang mér. Líkaminn var svo þéttvafinn hvítu og purpuralitu líni að hann var stífur og ósveigjanlegur. Hendur og fætur voru fastbundnar og um höfuðið var vafið litlu, mjúku, rauðu sjali sem lá undir hökuna og yfir ennið í smáum fellingum.“
Lúkasarguðspjall gefur okkur einnig innsýn í greftrunarsiði fyrstu aldar. Jesús var staddur nálægt borgarhliði Nain er hann sá hvar „var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar, sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni.“ (7:11, 12) Látnir voru yfirleitt greftraðir utan borgar og vinir hins látna fylgdu líkinu til grafar. Líkbörurnar kunna að hafa verið fléttaðar úr tágum með stöngum úr hverju horni þannig að fjórir menn gátu borið þær á öxlum sér til greftrunarstaðarins.
Í einni af dæmisögunum, sem Lúkas greinir frá, sagði Jesús frá manni sem ræningjar börðu til óbóta. Miskunnsamur Samverji „batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni.“ (10:34) Þannig var venjulega búið um sár. Ólífuolían mýkti sárin. (Jesaja 1:6) En hvað um vínið? The Journal of the American Medical Association segir: „Vín var eitt helsta læknislyf Grikkja. . . . Hippókrates frá Kós (460-370 f.Kr.) . . . notaði vín mikið og mælti með því sem áburði á sár, sem kælingu við hitasótt, sem hreinsilyfi og þvagræsilyfi.“ Í dæmisögu Jesú er vísað til sótthreinsieiginleika víns og hinna græðandi áhrifa ólífuolíu á sár. Kjarni dæmisögunnar var að sjálfsögðu sá að sannur náungi sé miskunnsamur. Þannig ættum við að koma fram við aðra. — 10:36, 37.
Lærdómur í auðmýkt
Einungis Lúkas segir frá dæmisögu Jesú um gesti sem reyndu að koma sér í fremstu hefðarsætin í veislu. Í veislum lágu gestir á sófum sem raðað var við borð á þrjá vegu. Þjónar, sem báru fram mat, gengu að borðinu þeim megin sem ekki var legið við það. Venjulega voru þrír menn á sófa, sneru að borðinu og hvíldu á vinstri olnboga en mötuðust með hægri hendi. Um var að ræða efsta, mið eða neðsta sætið á sófanum. Sá sem hafði neðsta sætið á þriðja sófanum var í neðsta sæti við matarborðið. Jesús sagði: ‚Þegar einhver býður þér til veislu skalt þú velja ysta sætið og þá mun gestgjafinn segja við þig: ‚Vinur, flyt þig hærra upp!‘ Þá mun þér veitast virðing frammi fyrir öllum.‘ (14:7-10) Já, við skulum í auðmýkt láta aðra ganga fyrir sjálfum okkur. Jesús heimfærði dæmisöguna þannig: „Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“ — 14:11.
Önnur frásaga, sem Lúkas einn segir frá og leggur jafnframt áherslu á auðmýkt, er dæmisagan um tollheimtumanninn og faríseann sem voru að biðja í musterinu. Meðal annars sagði faríseinn: „Ég fasta tvisvar í viku.“ (18:9-14) Lögmálið krafðist einungis einnar föstu á ári. (3. Mósebók 16:29) En farísearnir fóru út í öfgar í föstuhaldi sínu. Sá sem dæmisagan greinir frá fastaði á öðrum degi vikunnar, vegna þess að þá var álitið að Móse hafi gengið upp á Sínaífjall er hann fékk vitnisburðartöflurnar tvær. Hann var sagður hafa stigið niður af fjallinu á fimmta degi vikunnar. (2. Mósebók 31:18; 32:15-20) Faríseinn gat þess að hann fastaði tvisvar í viku í því skyni að vekja athygli á guðrækni sinni. En þessi dæmisaga ætti að koma okkur til að vera auðmjúk, ekki sjálfsánægð.
Þessir gimsteinar úr Lúkasarguðspjalli sanna að það er einstakt og fræðandi. Atvik, sem frásagan getur um, hjálpa okkur að sjá ljóslifandi fyrir okkur hina hrífandi atburði sem áttu sér stað meðan þjónusta Jesú á jörð stóð yfir. Við höfum líka gagn af viðbótarupplýsingum um ýmsar siðvenjur. Einkum mun okkur þó hlotnast blessun ef við heimfærum á okkur lærdóm eins og þann um miskunn og auðmýkt sem guðspjall Lúkasar, læknisins elskaða, greinir frá.