Kafli 83
Gestur á heimili farísea
JESÚS er enn á heimili háttsetts farísea og er nýbúinn að lækna vatnssjúkan mann. Þegar hann sér aðra gesti velja sér hefðarsæti við matborðið kennir hann þeim lexíu í auðmýkt.
„Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti,“ segir hann. „Svo getur farið, að manni þér fremri að virðingu sé boðið, og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig: ‚Þoka fyrir manni þessum.‘ Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti.“
Jesús ráðleggur því: „Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: ‚Vinur, flyt þig hærra upp!‘ Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér.“ Síðan segir hann: „Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“
Nú ávarpar Jesús faríseann, sem er gestgjafi hans, og lýsir því hvernig halda skuli gestaboð sem hefur velþóknun Guðs. „Þegar þú heldur miðdegisverð eða kvöldverð, bjóð þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum. Þeir bjóða þér aftur, og þú færð endurgjald. Þegar þú gjörir veislu, þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum, og munt þú sæll verða, því þeir geta ekki endurgoldið þér.“
Sá sem býður bágstöddum til máltíðar hefur sjálfur ánægju af því og ‚fær það endurgoldið í upprisu réttlátra,‘ eins og Jesús segir gestgjafa sínum. Lýsing Jesú á þessu gestaboði vekur einn gestanna til umhugsunar um annars konar máltíð. „Sæll er sá, sem neytir brauðs í Guðs ríki,“ segir hann. En það kunna ekki allir að meta þessa gleðilegu framtíðarvon eins og Jesús sýnir fram á með dæmisögu:
„Maður nokkur gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. . . . Sendi hann þjón sinn að segja þeim, er boðnir voru: ‚Komið, nú er allt tilbúið.‘ En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: ‚Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan.‘ Annar sagði: ‚Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan.‘ Og enn annar sagði: ‚Konu hef ég eignast, ekki get ég komið.‘“
Þetta voru lélegar afsakanir! Menn skoða venjulega akur eða búpening áður en þeir festa kaup á honum, þannig að það lá ekkert á að skoða hið keypta eftir kaupin. Og það að vera nýgiftur átti ekki að hindra mann í að þiggja svona mikilvægt boð. Húsbóndinn reiðist því þegar hann heyrir þessar afsakanir og fyrirskipar þjóni sínum:
„‚Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar, og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta.‘ Og þjónninn sagði: ‚Herra, það er gjört, sem þú bauðst, og enn er rúm.‘ Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: ‚Far þú út um brautir og gerði og þrýstu þeim að koma inn, svo að hús mitt fyllist. . . . Enginn þeirra manna, er boðnir voru, mun smakka kvöldmáltíð mína.‘“
Hverju er Jesús að lýsa í dæmisögunni? „Húsbóndinn“ sem bauð til máltíðarinnar táknar Jehóva Guð, „þjónninn“ sem flutti heimboðið táknar Jesú Krist og ‚kvöldmáltíðin mikla‘ táknar tækifærið til að fá hlutdeild í himnaríki.
Þeir sem fyrstir voru boðnir til að eignast hlutdeild í Guðsríki voru öðrum fremur trúarleiðtogar Gyðinga á dögum Jesú. En þeir höfnuðu boðinu. Þess vegna gekk út annað boð, sérstaklega frá hvítasunnunni árið 33, til hinna fyrirlitnu og lágtsettu meðal Gyðingaþjóðarinnar. En það þáðu ekki nógu margir boðið til að fylla hin 144.000 sæti í himnesku ríki Guðs. Þess vegna var þriðja og síðasta boðið látið út ganga árið 36, þrem og hálfu ári síðar, og það náði til óumskorinna manna af öðrum þjóðum. Söfnun þeirra hefur staðið allt fram á okkar dag. Lúkas 14:1-24.
▪ Hvaða lexíu í auðmýkt kennir Jesús?
▪ Hvernig getur gestgjafi haldið veislu sem hefur velþóknun Guðs og hvers vegna hefur gestgjafinn ánægju af því?
▪ Af hverju eru afsakanir boðsgestanna lélegar?
▪ Hvað táknar dæmisaga Jesú um ‚kvöldmáltíðina miklu‘?