Sannur kærleikur er umbunarríkur
„Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans.“ — HEBREABRÉFIÐ 6:10.
1, 2. Hvernig er sannur kærleikur umbunarríkur fyrir okkur persónulega?
ÓEIGINGJARN kærleikur er mesti, göfugasti og dýrmætasti eiginleiki sem við getum látið í ljós. Þessi kærleikur (á grísku agape) gerir alltaf miklar kröfur til okkar, en með því að við erum sköpunarverk Guðs réttvísinnar og kærleikans er það reynsla okkar að óeigingjarn kærleikur er mjög umbunarríkur. Hvernig stendur á því?
2 Ein ástæðan fyrir því að sannur kærleikur er umbunarríkur byggist á þeim áhrifum sem hugsanir og tilfinningar hafa á líkamann. Sérfræðingur um streitu segir: „‚Elskaðu náungann‘ er eitthvert viturlegasta læknisráð sem gefið hefur verið frá öndverðu.“ Já, „kærleiksríkur maður gjörir sálu sinni gott.“ (Orðskviðirnir 11:17) Svipuð hugsun felst í þessum orðum: „Velgjörðasöm sál mettast ríkulega, og sá sem gefur öðrum að drekka, mun og sjálfur drykk hljóta.“ — Orðskviðirnir 11:25; samanber Lúkas 6:38.
3. Hvað gerir Guð til að sannur kærleikur sé umbunarríkur?
3 Kærleikur er líka umbunarríkur vegna þess að Guð umbunar þeim sem eru óeigingjarnir. Við lesum: „Sá lánar [Jehóva], er líknar fátækum, og [Guð] mun launa honum góðverk hans.“ (Orðskviðirnir 19:17) Vottar Jehóva hegða sér í samræmi við þessi orð þegar þeir boða fagnaðarerindið um Guðsríki. Þeir vita að ‚Guð er ekki ranglátur og gleymir ekki verki þeirra og kærleikanum sem þeir auðsýna nafni hans.‘ — Hebreabréfið 6:10.
Besta fyrirmynd okkar
4. Hver er besta dæmið um það að sannur kærleikur sé umbunarríkur og hvernig hefur hann sýnt það?
4 Hver er besta fordæmi þess að sannur kærleikur sé umbunarríkur? Nú, það er enginn annar er Guð sjálfur! „Svo elskaði Guð heiminn [mannheiminn], að hann gaf son sinn eingetinn.“ (Jóhannes 3:16) Það að gefa son sinn til að þeir sem tækju við lausnarfórninni gætu öðlast eilíft líf kostaði Jehóva mikið, og það var skýrt merki um bæði kærleika hans og hluttekningu. Það sést enn fremur á því að meðan Ísraelsmenn ‚voru í nauðum staddir í Egyptalandi, kenndi hann nauða.‘ (Jesaja 63:9) Það hlýtur að hafa verið Jehóva enn meiri kvöl að sjá son sinn þjást á kvalastaur og heyra hann hrópa: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ — Matteus 27:46.
5. Hvað hefur gerst vegna þess að Guð elskaði mannkynið svo heitt að hann gaf son sinn sem fórn?
5 Var það umbunarríkt fyrir Jehóva sjálfan að sýna sannan kærleika? Svo sannarlega. Skýrasta dæmið er hið afdráttarlausa svar sem Guð gat gefið djöflinum vegna þess að Jesús var trúfastur gegnum allt það sem Satan gat gert honum! (Orðskviðirnir 27:11) Meira að segja mun allt það sem ríki Guðs áorkar í því efni að hreinsa nafn Jehóva af smán, endurreisa paradís á jörð og veita milljónum manna eilíft líf eiga sér stað vegna þess að Guð elskaði mannkynið svo heitt að hann gaf dýrasta fjársjóð hjarta síns sem fórn.
Hið góða fordæmi Jesú
6. Hvað kom kærleikur Jesú til að gera?
6 Annað gott fordæmi, sem sýnir að sannur kærleikur er umbunarríkur, er sonur Guðs, Jesús Kristur. Hann elskar himneskan föður sinn og sú ást hefur komið Jesú til að gera vilja Jehóva hvað sem það kostar. (Jóhannes 14:31; Filippíbréfið 2:5-8) Jesús hélt áfram að sýna Guði kærleika sinn jafnvel þótt það hefði stundum í för með sér að hann yrði að ákalla föður sinn „með sárum kveinstöfum og táraföllum.“ — Hebreabréfið 5:7.
7. Á hvaða vegu var sannur kærleikur umbunarríkur fyrir Jesú?
7 Var Jesú umbunað fyrir þennan óeigingjarna kærleika? Svo sannarlega! Hugleiddu þá gleði sem hann hafði af öllu því góða sem hann gerði þau þrjú og hálft ár sem þjónusta hans stóð. Hann hjálpaði fólki mikið, bæði andlega og líkamlega! Framar öllu öðru hlotnaðist Jesú sú ánægja að sanna djöfulinn lygara með því að sýna fram á að fullkominn maður gæti varðveitt fullkomna ráðvendni við Guð, þrátt fyrir allt sem Satan gat gert honum. Auk þess hlaut Jesús þá miklu umbun að eignast ódauðleika er hann var reistur upp til himna sem trúfastur þjónn Guðs. (Rómverjabréfið 6:9; Filippíbréfið 2:9-11; 1. Tímóteusarbréf 6:15, 16; Hebreabréfið 1:3, 4) Og hann á stórkostleg sérréttindi í vændum í Harmagedónstríðinu og þúsundáraríki sínu þegar paradís verður endurreist hér á jörð og þúsundir milljóna manna verða reistir upp frá dauðum! (Lúkas 23:43) Enginn vafi leikur á að sannur kærleikur hefur reynst Jesú umbunarríkur.
Fordæmi Páls
8. Hvað fékk Páll að reyna vegna kærleika síns til Guðs og náungans?
8 Pétur postuli spurði Jesú einu sinni: „Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum vér hljóta?“ Jesús svaraði meðal annars: „Hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá margfalt aftur og öðlast eilíft líf.“ (Matteus 19:27-29) Páll postuli er ágætis dæmi um þetta en hann naut margvíslegrar blessunar eins og Lúkas skýrir vel frá í Postulasögunni. Sannur kærleikur til Guðs og náungans kom Páli til að snúa baki við ævistarfi sem virtur farísei. Hugleiddu líka þær barsmíðar, lífshættu og skort sem Páll mátti þola — allt vegna þess að hann elskaði Guð og heilaga þjónustu hans. — 2. Korintubréf 11:23-27.
9. Hvernig var Páli umbunaður sá kærleikur sem hann sýndi?
9 Umbunaði Jehóva Páli fyrir þetta góða fordæmi í því að sýna sannan kærleika? Nú, leiddu hugann að því hvaða ávöxt þjónusta Páls bar. Hann gat stofnað hvern söfnuðinn á fætur öðrum. Og Guð gaf honum mátt til að vinna mikil kraftaverk. (Postulasagan 19:11, 12) Páll hlaut líka þau sérréttindi að sjá yfirnáttúrlegar sýnir og skrifa 14 bréf sem nú eru hluti kristnu Grísku ritninganna. Til viðbótar öllu þessu var honum veittur ódauðleiki á himnum að launum. (1. Korintubréf 15:53, 54; 2. Korintubréf 12:1-7; 2. Tímóteusarbréf 4:7, 8) Páll fékk svo sannarlega að reyna það að Guð umbunar mönnum sem sýna sannan kærleika.
Sannur kærleikur er umbunarríkur á okkar tímum
10. Hvað getur það kostað okkur að gerast lærisveinar Jesú og sýna Jehóva kærleika okkar?
10 Nútímavottar Jehóva hafa líka kynnst því af eigin raun að sannur kærleikur er umbunarríkur. Það getur kostað okkur lífið að sýna Jehóva kærleika okkar með því að taka afstöðu með honum og gerast lærisveinar Jesú. (Samanber Opinberunarbókina 2:10.) Þess vegna sagði Jesús að við ættum að reikna út kostnaðinn. Við gerum það hins vegar ekki til þess að ganga úr skugga um hvort það sé umbunarríkt eða ekki að vera lærisveinn. Við gerum það til að vera viðbúin því að greiða hvað sem vera skal fyrir það að vera lærisveinar. — Lúkas 14:28.
11. Hvers vegna láta sumir undir höfuð leggjast að vígjast Guði?
11 Margir nútímamenn, vafalaust milljónir manna — trúa því að boðskapurinn, sem vottar Jehóva flytja þeim, sé frá orði Guðs. Samt veigra þeir sér við því að vígja sig Guði og láta skírast. Getur það stafað af því að þá vanti hinn sanna kærleika til Guðs sem aðrir hafa til að bera? Margir stíga ekki þau skref að vígjast Guði og láta skírast, vegna þess að þeir vilja varðveita velvild maka síns sem ekki er í trúnni. Sumir nálægja sig ekki Guði vegna þess að þeir hafa sama viðhorf og kaupsýslumaðurinn sem sagði votti: „Mér líkar vel við syndina.“ Augljóst er að slíkt fólk kann ekki að meta allt það sem Guð og Kristur hafa gert fyrir það.
12. Hvað hefur þetta tímarit sagt sem leggur áherslu á umbunina sem er samfara þekkingu er styrkir kærleiksbönd okkar við Guð?
12 Ef við kunnum í raun og veru að meta allt sem Jehóva Guð og Jesús Kristur hafa gert fyrir okkur, þá sýnum við það með því að kosta til hverju sem þarf til að þjóna himneskum föður okkar og vera lærisveinar Jesú. Ósvikinn kærleikur til Guðs hefur komið körlum og konum úr öllum starfs- og þjóðfélagsstéttum — kaupsýslumönnum á framabraut, íþróttamönnum í sviðsljósinu og svo framvegis — til að snúa baki við eigingjarnri lífsbraut í skiptum fyrir hina kristnu þjónustu, eins og Páll postuli gerði. Þeir myndu ekki vilja láta umbunina, sem fylgir því að þekkja og þjóna Guði, í skiptum fyrir nokkuð annað. Varðturninn sagði einu sinni um þetta: „Við höfum stundum spurt: Hve margir bræður væru fúsir til að selja þekkingu sína á sannleikanum fyrir þúsund dali? Enginn rétti upp höndina! Hver myndi láta hana af hendi fyrir 10.000 dali? Enginn! Hver myndi selja hana fyrir milljón dali? Hver myndi þiggja allan heiminn í skiptum fyrir það sem hann veit um Guð og áætlun Guðs? Enginn! Þá sögðum við: Þið eruð ekki óánægður hópur, kæru vinir. Ef ykkur finnst þið svo ríkir að þið vilduð ekki láta þekkingu ykkar á Guði í skiptum fyrir nokkuð annað, þá finnst ykkur þið vera jafnríkir og við.“ (15. desember 1914, bls. 377) Já, nákvæm þekking á Guði og tilgangi hans eflir kærleikstengsl okkar við hann sem eru mjög umbunarrík.
13. Hvernig ættum við að líta á einkanám?
13 Ef við elskum Guð kappkostum við að þekkja vilja hans og gera hann. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Þá tökum við einkanám, bæn og samkomusókn alvarlega. Allt þetta krefst fórnfýsi því að það kostar tíma, krafta og ýmislegt fleira. Við getum þurft að velja milli þess að horfa á sjónvarp og nema Biblíuna. En við verðum miklu sterkari andlega, getum borið miklu betra vitni fyrir öðrum og höfum miklu meira gagn af kristnum samkomum þegar við tökum slíkt nám alvarlega og tökum okkur nægan tíma til þess! — Sálmur 1:1-3.
14. Hve mikilvæg er bænin og gott samband við Jehóva Guð?
14 Tölum við reglulega við föður okkar á himnum með því að vera „staðfastir í bæninni“? (Rómverjabréfið 12:12) Eigum við oft of annríkt til að njóta þessara dýrmætu sérréttinda? Það er mikilvægt að ‚biðja án afláts‘ til að styrkja samband okkar við Jehóva Guð. (1. Þessaloníkubréf 5:17) Ekkert jafnast á við gott samband við Jehóva til að hjálpa okkur þegar við stöndum frammi fyrir freistingum. Hvað gaf Jósef kraft til að standast þegar kona Pótífars freistaði hans? Hvers vegna hætti Daníel ekki að biðja þegar lög Meda og Persa bönnuðu honum að ákalla Jehóva? (1. Mósebók 39:7-16; Daníel 6:4-11) Gott samband við Guð hjálpaði þessum mönnum að ganga með sigur af hólmi, alveg eins og það mun hjálpa okkur!
15. Hvernig ættum við að líta á kristnar samkomur og hvers vegna?
15 Hversu alvarlega tökum við það að sækja hinar fimm vikulegu samkomur okkar? Látum við þreytu, smávægilegan lasleika eða slæmt veður koma í veg fyrir að við rækjum þá skyldu að stunda samfélag við trúbræður okkar? (Hebreabréfið 10:24, 25) Bandarískur vélvirki í vellaunuðu starfi komst að raun um að starf hans hindraði hann oft í að sækja kristnar samkomur. Hann skipti því um vinnu, þótt það hefði í för með sér launalækkun, til að geta sótt allar safnaðarsamkomur reglulega. Samkomurnar gefa okkur tækifæri til að uppörva hvert annað og styrkja trú hvers annars. (Rómverjabréfið 1:11, 12) Er það ekki reynsla okkar í öllum þessum málum að „sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera.“ (2. Korintubréf 9:6) Jú, það er mjög umbunarríkt að sýna sannan kærleika á slíka vegu.
Sannur kærleikur og þjónusta okkar
16. Hver getur árangurinn orðið þegar kærleikur kemur okkur til að bera óformlega vitni?
16 Sannur kærleikur fær okkur til að prédika fagnaðarerindið sem þjónar Jehóva. Til dæmis fær hann okkur til að taka þátt í óformlegum vitnisburði. Við hikum kannski við að bera óformlega vitni, en kærleikur fær okkur til að tala. Kærleikur fær okkur til að hugsa um hvernig við getum komið af stað samræðum með háttvísi og síðan beint umræðunum að Guðsríki. Tökum dæmi: Kristinn öldungur sat við hliðina á rómversk-kaþólskum presti í flugvél. Í byrjun spurði öldungurinn prestinn meinlausa og friðsamlegra spurninga. Þegar presturinn steig af flugvélinni hafði hann hins vegar sýnt nægan áhuga til að þiggja tvær af bókum okkar. Þetta var góður árangur af óformlegum vitnisburði!
17, 18. Hvað kemur kærleikur okkur til að gera í sambandi við hina kristnu þjónustu?
17 Sannur kærleikur kemur okkur líka til að taka reglulega þátt í prédikun hús úr húsi og öðrum greinum kristinnar þjónustu. Í sama mæli og við getum rætt við aðra um Biblíuna heiðrum við Jehóva Guð og hjálpum sauðumlíkum mönnum að komast inn á veginn til eilífs lífs. (Samanber Matteus 7:13, 14.) Jafnvel þótt okkur takist ekki að koma af stað umræðum um Biblíuna er erfiði okkar ekki til einskis. Það eitt að við stöndum við dyrnar hjá fólki er vitnisburður og við höfum sjálf gagn af þjónustunni, því að við getum ekki boðað sannindi Biblíunnar án þess að trú okkar styrkist. Það kostar að vísu auðmýkt að fara hús úr húsi og ‚gera allt vegna fagnaðarerindisins til að við getum fengið hlutdeild í því með öðrum.‘ (1. Korintubréf 9:19-23) En vegna kærleika okkar til Guðs og náungans leggjum við okkur auðmjúklega fram um það og hljótum ríkulega umbun fyrir. — Orðskviðirnir 10:22.
18 Þjónar Jehóva þurfa líka að hafa til að bera sannan kærleika til að heimsækja samviskusamlega aftur þá sem sýna áhuga á sannindum Biblíunnar. Það er merki um kærleika til Guðs og náungans að nema Biblíuna viku eftir viku og mánuð eftir mánuð með öðrum, því að það kostar okkur tíma, krafta og fjármuni. (Markús 12:28-31) En erum við ekki sannfærð um að sannur kærleikur sé umbunarríkur þegar við sjáum einhvern þessara biblíunemenda skírast og kannski jafnvel leggja fyrir sig þjónustu í fullu starfi? — Samanber 2. Korintubréf 3:1-3.
19. Hvert er samband kærleika og þjónustu í fullu starfi?
19 Óeigingjarn kærleikur kemur okkur til að fórna efnislegum þægindum til að geta þjónað í fullu starfi, ef við höfum á annað borð tækifæri til þess. Vottar geta borið vitni um það í þúsundatali að það hafi veitt þeim mikla umbun að sýna kærleika sinn í þeim mæli. Ef aðstæður þínar eru slíkar að þú gætir þjónað Guði í fullu starfi, en þú grípur ekki tækifærið, þá veistu ekki hvaða blessun þú ferð á mis við. — Samanber Markús 10:29, 30.
Umbun á aðra vegu
20. Hvernig hjálpar kærleikur okkur að fyrirgefa öðrum?
20 Sannur kærleikur er líka umbunarríkur á þann veg að hann hjálpar okkur að fyrirgefa öðrum. Já, kærleikur er „ekki langrækinn.“ Meira að segja hylur „kærleikur . . . fjölda synda.“ (1. Korintubréf 13:5; 1. Pétursbréf 4:8) ‚Fjöldi synda‘ eru margar syndir og það er mikil umbun fólgin í því að fyrirgefa öðrum. Bæði þér og þeim sem syndgaði gegn þér líður betur eftir að þú hefur fyrirgefið honum. Það er þó langtum þýðingarmeira að við getum ekki ætlast til að Jehóva fyrirgefi okkur nema við séum sjálf búin að fyrirgefa þeim sem syndga gegn okkur. — Matteus 6:12; 18:23-35.
21. Hvernig hjálpar sannur kærleikur okkur að vera undirgefnir?
21 Sannur kærleikur er líka umbunarríkur á þann veg að hann hjálpar okkur að vera undirgefin. Ef við elskum Jehóva þá beygjum við okkur í auðmýkt undir volduga hönd hans. (1. Pétursbréf 5:6) Kærleikur til hans kemur okkur líka til að lúta útvöldu verkfæri hans, ‚hinum trúa og hyggna þjóni.‘ Það felur í sér að vera undirgefnir þeim sem fara með forystuna í söfnuðinum. Það hefur umbun í för með sér vegna þess að það væri okkur „til ógagns“ ef við gerðum það ekki. (Matteus 24:45-47; Hebreabréfið 13:17) Að sjálfsögðu á meginreglan um undirgefni einnig við innan vébanda fjölskyldunnar. Það hefur umbun í för með sér vegna þess að það stuðlar að gleði, friði og góðri samvisku innan fjölskyldunnar, auk þeirrar lífsfyllingar sem fylgir því að vita að við þóknumst Guði. — Efesusbréfið 5:22; 6:1-3.
22. Hvernig getum við notið ósvikinnar hamingju?
22 Það er því ljóst að mesti eiginleikinn, sem við getum ræktað með okkur, er agape, hinn óeigingjarni kærleikur sem byggist á meginreglum. Enginn vafi getur leikið á að sannur kærleikur er umbunarríkur. Það verður okkur því til mikillar hamingju ef við ræktum með okkur þennan eiginleika og sýnum hann í enn ríkari mæli, til lofs ástkærum Guði okkar Jehóva.
Hverju svarar þú?
◻ Á hvaða vegu hefur Jehóva Guð sýnt sannan kærleika?
◻ Hvernig hefur Jesús Kristur sýnt kærleika?
◻ Hvaða fordæmi gaf Páll postuli í því að sýna sannan kærleika?
◻ Hvernig hafa vottar Jehóva sýnt kærleika?
◻ Hvers vegna segir þú að sannur kærleikur sé umbunarríkur?
[Mynd á blaðsíðu 14]
Kærleikur Jehóva til mannkynsins kom honum til að gefa son sinn þannig að við gætum öðlast eilíft líf. Metur þú slíkan kærleika að verðleikum?
[Mynd á blaðsíðu 16]
Sannur kærleikur til Jehóva fær okkur til að vera „staðfastir í bæninni.“