4. KAFLI
Sektarkennd – „hreinsa mig af synd minni“
„Ég fékk nýja vinnu og fjárhagur fjölskyldunnar batnaði, en ég leiddist líka út í vafasamt líferni. Ég fór að halda hátíðir, blanda mér í stjórnmál og meira að segja að sækja kirkju. Ég var óvirkur vottur Jehóva í 40 ár. Því lengur sem leið því minni líkur fannst mér á að Jehóva gæti fyrirgefið mér. Mér fannst ég ekki geta fyrirgefið sjálfri mér því að ég þekkti sannleikann áður en ég fór út á ranga braut.“ – Martha.
SEKTARKENND getur verið ákaflega íþyngjandi. Davíð konungur orti: „Misgjörðir mínar hafa vaxið mér yfir höfuð, þær eru byrði sem ég fæ ekki borið.“ (Sálmur 38:5) Sumir þjónar Jehóva hafa sokkið niður í vonleysi og depurð og ímyndað sér að hann geti aldrei fyrirgefið þeim. (2. Korintubréf 2:7) En er því þannig farið? Ef þú hefur syndgað alvarlega er þá gefið mál að þú hafir fjarlægst Jehóva svo mikið að hann fyrirgefi þér aldrei? Alls ekki.
Jehóva býður þér að útkljá málið
Jehóva snýr ekki baki við þeim sem iðrast synda sinna heldur reynir að ná til þeirra. Í dæmisögu Jesú um týnda soninn er Jehóva líkt við ástríkan föður. Sonurinn í dæmisögunni yfirgaf fjölskylduna og leiddist út í spillt líferni. Að einhverjum tíma liðnum ákvað hann að snúa aftur heim. „Er [sonurinn] var enn langt í burtu sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann.“ (Lúkas 15:11-20) Langar þig til að styrkja tengslin við Jehóva en finnst þú vera „enn langt í burtu“ frá honum? Jehóva er eins og faðirinn í dæmisögunni. Hann ber mikla umhyggju fyrir þér og hlakkar ákaflega til að taka á móti þér.
En hvað nú ef þú heldur að syndir þínar séu svo margar og svo alvarlegar að Jehóva geti ekki fyrirgefið þér? Hafðu þá í huga að Jehóva býður þér að koma til sín og útkljá málið. Hann segir: „Þó að syndir yðar séu sem skarlat skulu þær verða hvítar sem mjöll.“ (Jesaja 1:18) Jehóva er fús til að fyrirgefa syndir jafnvel þótt þær virðist eins óafmáanlegar og skarlatsrauður blettur á hvítri flík.
Jehóva vill ekki að þú sért sífellt með sektarkennd. En hvernig geturðu fundið fyrir þeim létti sem fylgir fyrirgefningu Guðs og hreinni samvisku? Líttu á tvennt sem Davíð konungur gerði. Í fyrsta lagi sagði hann: „Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni.“ (Sálmur 32:5) Mundu að Jehóva hefur nú þegar boðið þér að nálgast sig í bæn og útkljá málin. Þiggðu boðið. Játaðu syndir þínar fyrir Jehóva og segðu honum hvernig þér líður. Davíð vissi af reynslunni að hann gat óhikað beðið til Jehóva: „Hreinsa mig af synd minni ... sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.“ – Sálmur 51:4, 19.
Í öðru lagi fékk Davíð hjálp frá Natan spámanni sem var fulltrúi Guðs. (2. Samúelsbók 12:13) Nú á dögum hefur Jehóva útnefnt safnaðaröldunga sem hafa fengið þjálfun og kennslu til að hjálpa iðrandi syndurum að endurheimta vináttu sína við Jehóva. Leitaðu til þeirra og þiggðu hjálp þeirra. Þeir munu bæði biðja með þér og nota Biblíuna til að hjálpa þér að öðlast innri ró, draga úr eða sigrast á neikvæðum tilfinningum og ná þér aftur á strik í trúnni. – Jakobsbréfið 5:14-16.
„Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin“
Að játa syndir þínar fyrir Jehóva Guði og tala við öldungana er kannski eitt það erfiðasta sem þú hefur gert á ævinni. Davíð fannst það greinilega. Hann þagði yfir synd sinni um tíma. (Sálmur 32:3) En eftir á skildi hann hvernig það var honum til góðs að játa syndir sínar og bæta ráð sitt.
Eitt það besta var að Davíð tók gleði sína á ný. Hann sagði: „Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin.“ (Sálmur 32:1) Hann bað líka til Jehóva: „Opna varir mínar að munnur minn kunngjöri lof þitt.“ (Sálmur 51:17) Davíð var þakklátur fyrir að njóta fyrirgefningar Jehóva og þurfa ekki að burðast lengur með sektarkennd. Hann langaði til að tala um Jehóva.
Jehóva vill að þú finnir fyrir þeim létti sem fylgir hreinni samvisku. Hann vill líka að þú segir öðrum frá honum og því sem hann ætlar að gera, ekki með sektarkennd heldur með gleði og einlægu hjarta. (Sálmur 65:2-5) Mundu að hann býðst til að afmá syndir þínar svo að þú styrkist og endurnærist með hjálp hans. – Postulasagan 3:19, 20.
Martha fékk að upplifa þetta. Hún segir: „Sonur minn sendi mér alltaf Varðturninn og Vaknið! Smám saman kynntist ég Jehóva á nýjan leik. Það erfiðasta við að snúa aftur var að biðja Jehóva að fyrirgefa mér allar syndirnar sem ég hafði drýgt. En að lokum leitaði ég til hans í bæn og bað hann að fyrirgefa mér. Það er ótrúlegt að það skyldu líða 40 ár þangað til ég sneri aftur til Jehóva. Ég er lifandi dæmi um að það er hægt að fá annað tækifæri til að þjóna Guði, jafnvel eftir mörg ár, og njóta kærleika hans á ný.“