Spurningar frá lesendum
● Merkja orð Jesú í Matteusi 11:24 að íbúar Sódómu og Gómorru, sem Jehóva eyddi í eldi, fái upprisu?
Við höfum á liðnum árum svarað þessari spurningu eftir bestu vitund og höfum þá rætt um orð Jesú í Matteusi 10:14, 15; 11:20-24 og Lúkasi 10:13-15. Nýleg athugun á þessum versum bendir til að ekki þurfi að skilja þau svo að verið sé að tala um framtíð þeirra sem bjuggu í Sódómu og Gómorru. Áður en við athugum aðrar athugasemdir í Biblíunni um þá sem var eytt í þessum borgum skulum við skoða hvað Jesús sagði.
Þegar Jesús var í Galíleu „tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki gjört iðrun.“ Hann nafngreindi þrjár: „Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast . . . Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag. . . . Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér.“ (Matteus 11:20-24) Jesús lét svipuð orð falla þegar hann sendi lærisveinana tólf og síðan lærisveinana 70 út að prédika. — Matteus 10:14, 15; Lúkas 10:13-15.
Fyrir 1964 álitum við þessi vers merkja að íbúar Korasín, Betsaída og Kapernaum verðskulduðu eilífa tortímingu. En í greinum í Varðturninum árið 1964 og 1965 kom glögglega fram að allir sem hvíla í helju eða séol (sameiginlegri gröf mannkynsins) muni koma fram í upprisunni og síðan verða ‚dæmdir eftir verkum sínum.‘ — Opinberunarbókin 20:13.
Í greinunum var rökrætt eftir þessum nótum: Matteus 11:23 og Lúkas 10:15 segja að Kapernaum yrði ekki hafin upp til himins heldur steypt niður „til heljar“ sem að minnsta kosti gefur til kynna niðurlægingu fyrir borgarbúa. Í sömu ritningargrein minntist Jesús á Týrus og Sídon til forna. Samkvæmt Esekíel 32:21, 30 fóru Sídoningar, sem voru dæmdir af Guði, í séol. (Jesaja 23:1-9, 14-18; Esekíel 27:2-8) Með því að Jesús stillti Týrus og Sídon annars vegar og Sódómu hins vegar upp sem hliðstæðum gæfi það til kynna að Sódómubúar væru einnig í séol.
Ný athugun á Matteusi 11:20-24 hefur hins vegar vakið efasemdir um að Jesús hafi þar verið að ræða um eilífan dóm og upprisu. Hann var fyrst og fremst að benda á hve ómóttækilegir íbúar Korasín, Betsaída og Kapernaum væru og sýna þannig fram á hve viðeigandi væri að þeir fengju líka refsingu. Þegar hann sagði að Týrus og Sídon og Sódómu og Gómorru yrði „bærilegra á dómsdegi“ en þeim, voru það eins konar ofhvörf (ýkjur í orðavali í áhersluskyni) sem Jesús þarf ekki að hafa ætlast til að yrðu tekin bókstaflega frekar en önnur ofhvörf sem hann notaði. Tökum dæmi:
„Það er auðveldara, að himinn og jörð líði undir lok, en einn stafkrókur lögmálsins falli úr gildi.“ „Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.“ (Lúkas 16:17; 21:33; Matteus 5:18; samanber Hebreabréfið 1:10-12.) Við vitum að hinn bókstaflegi himinn og jörð munu aldrei líða undir lok. (Sálmur 78:69; 104:5; Prédikarinn 1:4) Jesús sagði einnig: „Auðveldara er úlfalda að fara í gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ (Markús 10:25) Auðvitað átti Jesús ekki við að enginn auðmaður gæti nokkurn tíma gerst lærisveinn hans, enda urðu sumir auðmenn á fyrstu öld smurðir kristnir menn. (1. Tímóteusarbréf 6:17-19) Jesús notaði hér ýkjur til að undirstrika hve erfitt væri fyrir ríkan mann að gefa Guði meira rúm í lífi sínu en efnislegum auði og þægindum. — Lúkas 12:15-21.
Þegar því Jesús sagði að ‚Týrus og Sódómu yrði bærilegra á dómsdegi‘ þarf það ekki að merkja að íbúar þessara borga verði á sjónarsviðinu á dómsdegi. Jesús getur einfaldlega hafa verið að leggja áherslu á hve ómóttækilegir og refsiverðir flestir íbúar Korasín, Betsaída og Kapernaum voru. Við segjum flestir því að sumir Kapernaumbúar tóku við Kristi. (Markús 1:29-31; Lúkas 4:38, 39) Þó má segja að þessar borgir hafi í stórum dráttum hafnað honum. Sumir íbúa þeirra, svo sem hinir skriftlærðu og Farísearnir, kunna jafnvel að hafa syndgað gegn heilögum anda sem engin fyrirgefning fæst fyrir, jafnvel ‚í hinum komandi heimi.‘ Slíkir einstaklingar fara í Gehenna. — Matteus 12:31, 32; 23:33.
Auk orða Jesú um þetta mál segir Esekíel 32:21, 30 að heiðnir íbúar Týrusar og Sídonar til forna séu í séol. Þeir eiga því upprisu í vændum. En hvað þá um ‚land Sódómu á dómsdegi‘? Sú staðreynd ein að Jesús stillti Sídon og Sódómu upp sem hliðstæðum sannar ekkert varðandi framtíðarhorfur þeirra óguðlegu manna sem Guð eyddi í eldi og brennisteini. En við skulum athuga hvað Biblían hefur fleira að segja um þessa spurningu.
Einhver hnitmiðuðustu orðin er að finna í Júdasarbréfinu 7. Júdas var nýbúinn að tala um (1) Ísraelsmenn sem var tortímt vegna trúleysis síns og (2) englana sem syndguðu og eru ‚geymdir í ævarandi fjötrum til dóms hins mikla dags.‘ Síðan segir Júdas: „Eins og Sódóma og Gómorra . . . liggja fyrir sem dæmi, líðandi hegningu eilífs elds.“ Þessi ritningargrein hefur verið heimfærð á þann veg að borgunum hafi verið tortímt eilíflega en ekki borgarbúum. En í ljósi 5. og 6. versins hjá Júdasi myndu flestir trúlega skilja 7. versið sem svo að verið væri að tala um dóm yfir mönnum. (Á sama hátt ber að skilja Matteus 11:20-24 svo að verið sé að gagnrýna fólk, ekki steina eða byggingar.) Séð í þessu ljósi ber að skilja það svo að íbúar Sódómu og Gómorru hafi verið dæmdir og tortímt eilíflega.a
Þegar leitað er fanga annars staðar vekur eftirtekt að oftar en einu sinni nefnir Biblían flóðið og Sódómu og Gómorru í sömu andránni. Í hvaða samhengi?
Þegar Jesús var spurður um ‚endalok veraldar‘ sagði hann fyrir komandi ‚endi‘ og „mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims.“ (Matteus 24:3, 14, 21) Í framhaldinu talaði hann um ‚daga Nóa‘ og það sem gerðist „á dögum Lots“ sem dæmi um menn er gáfu engan gaum að aðvöruninni um yfirvofandi tortímingu. Jesús bætti við: „Eins mun verða á þeim degi, er Mannssonurinn opinberast.“ (Lúkas 17:26-30; samanber Matteus 24:36-39.) Tók Jesús þessi dæmi aðeins til að lýsa viðhorfum manna eða gefur samhengið til kynna að þeir sem fórust á þessum tímum hafi hlotið eilífan dóm?
Síðar fjallaði Pétur um dóma Guðs og refsingu hans til handa þeim sem verðskulduðu hana. Hann tók síðan þrjú dæmi: Englana sem syndguðu, hinn forna heim á dögum Nóa og þá sem eytt var í Sódómu og Gómorru. Hið síðastnefnda segir Pétur vera „til viðvörunar þeim, er síðar lifðu óguðlega.“ (2. Pétursbréf 2:4-9) Að því búnu líkti hann eyðingu þeirra, sem fórust í flóðinu, við hinn komandi ‚dag, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.‘ Þetta kemur á undan fyrirheitinu um nýjan himin og nýja jörð. — 2. Pétursbréf 3:5-13.
Munu þeir sem Guð tekur af lífi við endalok hinnar núverandi illu heimsskipanar hafa hlotið endanlegan dóm? Það er það sem gefið er til kynna í 2. Þessaloníkubréfi 1:6-9: „Guð er réttlátur, hann endurgeldur þeim þrengingu, sem að yður þrengja. En yður, sem þrengingu líðið, veitir hann hvíld ásamt oss, þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns. Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú. Þeir munu sæta hegningu, eilífri glötun, fjarri augliti Drottins og fjarri dýrð hans og mætti.“
Það er athyglisverð samsvörun milli orðfærisins hér og í því sem Júdas sagði um Sódómu. Enn fremur gefa Matteus 25:31-46 og Opinberunarbókin 19:11-21 til kynna að „hafrarnir,“ sem teknir verða af lífi í hinu komandi stríði Guðs, hljóti ‚eilífa refsingu‘ eða afnám í ‚eldsdíkinu‘ sem táknar ævarandi útrýmingu.b — Opinberunarbókin 20:10, 14.
Auk þess sem Júdas 7 segir notar Biblían þannig Sódómu og Gómorru og flóðið sem fordæmi um eyðingu og endalok núverandi illrar heimsskipanar. Það er því nokkuð ljóst að þeir sem Guð tók af lífi, þegar hann fullnægði þessum dómum, létu lífið fyrir fullt og allt. Að sjálfsögðu getum við eitt og sérhvert staðfest það með því að reynast Jehóva trúföst núna. Með þeim hætti verðum við hæf til að fá að lifa í hinum nýja heimi og getum séð hverja hann reisir upp og hverja ekki. Við vitum að dómar hans eru fullkomnir. Elíhú fullvissaði okkur: „Vissulega fremur Guð ekki ranglæti, og hinn Almáttki hallar ekki réttinum.“ — Jobsbók 34:10, 12.
[Neðanmáls]
a Í Esekíel 16:53-55 er minnst á ‚Sódómu og dætur hennar,‘ það er að segja borgir undir hennar valdi, ekki í sambandi við upprisu heldur í táknrænni merkingu í sambandi við Jerúsalem og dætur hennar. (Samanber Opinberunarbókina 11:8.) Sjá einnig Varðturninn (enska útgáfu) þann 1. júlí 1952, bls. 337.
b Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum (enskri útgáfu) þann 1. ágúst 1979.