Kafli 92
Tíu holdsveikir læknast á síðustu ferð Jesú til Jerúsalem
JESÚS ónýtir fyrirætlanir æðstaráðsins um að drepa hann með því að fara frá Jerúsalem til þorpsins Efraíms sem er líklega aðeins um 24 kílómetra norðaustur af Jerúsalem. Þar dvelst hann með lærisveinum sínum fjarri óvinunum.
En nú nálgast páskar árið 33 og innan skamms er Jesús aftur á faraldsfæti. Hann fer norður um Samaríu til Galíleu. Þetta er síðasta ferð hans þangað áður en hann deyr. Trúlega slæst hann ásamt lærisveinunum í för með öðrum sem eru á leið frá Galíleu til Jerúsalem að halda páska. Þeir fara suður um Pereu, austanmegin við Jórdan.
Þeir eru skammt á leið komnir þegar tíu holdsveikir menn koma til móts við Jesú er hann kemur inn í þorp nokkurt í Samaríu eða Galíleu. Þessi hræðilegi sjúkdómur étur smám saman ýmsa líkamshluta hins holdsveika — fingur, tær, eyru, nef og varir. Til að forða öðrum frá smiti segir lögmál Guðs um holdsveikan mann: „Hann skal hylja kamp sinn og hrópa: ‚Óhreinn, óhreinn!‘ Alla þá stund, er hann hefir sóttina, skal hann óhreinn vera. . . . Hann skal búa sér.“
Holdsveiku mennirnir tíu fylgja ákvæðum lögmálsins og halda sig í góðri fjarlægð frá Jesú, en hrópa hárri röddu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“
Jesús sér þá álengdar og skipar: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þetta segir hann af því að lögmál Guðs heimilar prestum að dæma holdsveika menn hreina sem læknast hafa af sjúkdómi sínum. Þar með fá þeir leyfi til að búa aftur meðal heilbrigðs fólks.
Holdsveiku mennirnir tíu treysta á undramátt Jesú. Þeir hraða sér því af stað til að hitta prestana þótt þeir hafi ekki læknast enn. Á leiðinni er þeim umbunuð trú sín á Jesú. Þeir finna og sjá að þeir eru læknaðir!
Níu þessara manna halda áfram sína leið en sá tíundi, sem er Samverji, snýr aftur til að finna Jesú. Af hverju? Af því að hann er svo þakklátur fyrir það sem gerst hefur. Hann lofar Guð hárri raustu, og þegar hann finnur Jesú fellur hann að fótum hans og þakkar honum.
Þá segir Jesús: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“
Síðan segir hann samverska manninum: „Statt upp, og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“
Þegar við lesum hvernig Jesús læknaði holdsveiku mennina tíu ættum við að taka til okkar það sem felst í spurningu hans: „Hvar eru hinir níu?“ Vanþakklæti þessara níu er alvarlegur brestur í fari þeirra. Erum við þakklát eins og Samverjinn fyrir það sem við fáum frá Guði, þar á meðal hið örugga loforð um eilíft líf í réttlátum nýjum heimi hans? Jóhannes 11:54, 55; Lúkas 17:11-19; 3. Mósebók 13:16, 17, 45, 46; Opinberunarbókin 21:3, 4.
▪ Hvernig ónýtir Jesús fyrirætlun Gyðinga um að drepa hann?
▪ Hvert fer Jesús síðan og hvert ætlar hann?
▪ Af hverju standa holdsveiku mennirnir álengdar og af hverju segir Jesús þeim að fara til prestanna?
▪ Hvað ætti þessi frásaga að kenna okkur?