Kafli 93
Þegar Mannssonurinn opinberast
JESÚS er enn staddur norður í landi (annaðhvort í Samaríu eða Galíleu) þegar farísear spyrja hann um komu Guðsríkis. Þeir trúa að það komi með mikilli viðhöfn og sjónarspili en Jesús segir: „Guðs ríki kemur ekki þannig, að á því beri. Ekki munu menn segja: Sjá, þar er það eða hér er það, því Guðs ríki er meðal yðar.“
Orðin „meðal yðar“ eru stundum þýdd „innra með yður.“ Sumir halda þess vegna að Jesús hafi átt við að ríki Guðs ríki í hjörtum þjóna Guðs. En Guðsríki er auðvitað ekki í hjörtum þessara trúlausu farísea sem Jesús er að tala við. Það er á meðal þeirra því að útnefndur konungur Guðsríkis, Jesús Kristur, er mitt á meðal þeirra.
Farísearnir eru sennilega farnir þegar Jesús greinir lærisveinunum nánar frá komu Guðsríkis. Hann er sérstaklega að hugsa um framtíðarnærveru sína sem konungur Guðsríkis þegar hann segir í varnaðartón: „Menn munu segja við yður: Sjá hér, sjá þar. En farið ekki og hlaupið eftir [þessum fölsku Messíösum]. Eins og elding, sem leiftrar og lýsir frá einu skauti himins til annars, svo mun Mannssonurinn verða á degi sínum.“ Jesús á við að nærvera sín sem konungur Guðsríkis verði auðsæ öllum sem vilja sjá, líkt og elding sést á stóru svæði.
Jesús ber síðan framtíðarnærveru sína saman við atburði fortíðar til að sýna fram á hvernig viðhorf fólks verði. Hann segir: „Eins og var á dögum Nóa, svo mun og verða á dögum Mannssonarins . . . Eins var og á dögum Lots: Menn átu og drukku, keyptu og seldu, gróðursettu og byggðu. En daginn, sem Lot fór úr Sódómu, rigndi eldi og brennisteini af himni og tortímdi öllum. Eins mun verða á þeim degi, er Mannssonurinn opinberast.“
Jesús er ekki að segja að samtíðarmenn Nóa og Lots hafi tortímst einfaldlega af því að þeir lifðu sínu daglega lífi, átu, drukku, keyptu, seldu, gróðursettu og byggðu. Jafnvel Nói og Lot og fjölskyldur þeirra gerðu þetta. En aðrir lifðu sínu daglega lífi án þess að gefa vilja Guðs nokkurn gaum, og það var þess vegna sem þeim var tortímt. Það er af sömu ástæðu sem fólki verður tortímt þegar Kristur opinberast í þrengingunni miklu sem gengur yfir þetta heimskerfi.
Jesús leggur áherslu á hve mikilvægt sé að bregðast skjótt við sönnunargögnunum um framtíðarnærveru sína sem konungur Guðsríkis. Hann bætir við: „Sá sem þann dag er á þaki uppi og á muni sína í húsinu, fari ekki ofan að sækja þá. Og sá sem er á akri, skal ekki heldur hverfa aftur. Minnist konu Lots.“
Þegar sönnunargögnin um nærveru Krists koma í ljós má fólk ekki láta sér þykja svo vænt um efnislega hluti að það láti það hindra sig í að gera tafarlausar ráðstafanir. Á leiðinni úr Sódómu leit kona Lots um öxl, sennilega af því hún horfði löngunaraugum til þess sem hún þurfti að skilja eftir. Hún varð að saltstöpli.
Jesús heldur áfram að lýsa ástandinu við nærveru sína í framtíðinni og segir lærisveinunum: „Á þeirri nóttu verða tveir í einni hvílu, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn. Tvær munu mala á sömu kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin.“
Að vera tekinn svarar til þess er Nói gekk í örkina ásamt fjölskyldu sinni, og því er englarnir leiddu Lot og fjölskyldu hans úr Sódómu. Það hefur hjálpræði í för með sér. Að vera eftir skilinn merkir að tortímast.
Nú spyrja lærisveinarnir: „Hvar, herra?“
„Þar munu ernirnir safnast, sem hræið er,“ svarar Jesús. Þeir sem ‚teknir‘ eru til hjálpræðis eru eins og fráneygir ernir í þeirri merkingu að þeir safnast kringum „hræið.“ Hræið vísar til hins sanna Krists við ósýnilega nærveru hans sem konungur Guðsríkis, og til andlegu veislunnar sem Jehóva býður til. Lúkas 17:20-37, vers 21 neðanmáls; 1. Mósebók 19:26.
▪ Hvernig var Guðsríki mitt á meðal faríseanna?
▪ Á hvaða hátt er nærvera Krists eins og elding?
▪ Af hverju verður fólki tortímt vegna verka sinna á nærverutíma Krists?
▪ Hvað merkir það að vera tekinn og vera eftir skilinn?