Kafli 94
Nauðsyn bænar og auðmýktar
EINU sinni þegar Jesús var í Júdeu sagði hann dæmisögu um nauðsyn þess að vera staðfastur í bæninni. Núna, á síðustu ferð sinni til Jerúsalem, leggur hann aftur áherslu á að menn megi ekki þreytast að biðja. Sennilega er hann enn í Samaríu eða Galíleu þegar hann segir lærisveinunum þessa dæmisögu:
„Í borg einni var dómari, sem hvorki óttaðist Guð né skeytti um nokkurn mann. Í sömu borg var ekkja, sem kom einlægt til hans og sagði: ‚Lát þú mig ná rétti á mótstöðumanni mínum.‘ Það vildi hann ekki lengi vel. En að lokum sagði hann við sjálfan sig: ‚Ekki óttast ég Guð að sönnu né skeyti um nokkurn mann. En þessi ekkja lætur mig aldrei í friði. Því vil ég rétta hlut hennar, áður en hún gjörir út af við mig með nauði sínu.‘“
Jesús útskýrir síðan hvað hann á við með dæmisögunni: „Heyrið, hvað rangláti dómarinn segir. Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu, sem hrópa til hans dag og nótt? Mun hann draga að hjálpa þeim?“
Jesús er ekki að gefa í skyn að Jehóva Guð sé á nokkurn hátt líkur rangláta dómaranum. En ef jafnvel ranglátur dómari lætur undan síendurtekinni beiðni ætti enginn vafi að leika á því að Guð, sem er að öllu leyti réttlátur og góður, svari fólki sínu ef það þreytist ekki á að biðja. Jesús bætir því við: „Ég segi yður: [Guð] mun skjótt rétta hlut þeirra.“
Lágt settir og fátækir fá oft ekki notið réttar síns en ríkum og voldugum er iðulega ívilnað. Guð sér hins vegar til þess að hinir óguðlegu fái réttláta refsingu og tryggir jafnframt að þjónar hans njóti réttlætis með því að veita þeim eilíft líf. En hversu margir trúa staðfastlega að Guð rétti hlut manna skjótlega?
Jesús er sérstaklega að tala um trú tengda mætti bænarinnar þegar hann spyr: „Mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu, þegar hann kemur?“ Hann svarar ekki spurningunni en gefur í skyn að slík trú verði ekki algeng þegar hann kemur sem konungur Guðsríkis.
Sumir af áheyrendum Jesú eru býsna ánægðir með trú sína. Þeir treysta því að þeir séu réttlátir og líta niður á aðra. Ef til vill hugsa jafnvel sumir af lærisveinum Jesú þannig. Hann segir þeim því eftirfarandi dæmisögu:
„Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður. Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: ‚Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.‘“
Farísearnir eru þekktir fyrir að flíka réttlæti sínu til að sýnast fyrir öðrum. Þeir hafa fyrir sið að fasta á mánudögum og fimmtudögum, og þeir gjalda samviskusamlega tíund jafnvel af smæstu matjurtum. Fyrir fáeinum mánuðum sýndu þeir fyrirlitningu sína á almenningi þegar þeir sögðu: „Þessi almúgi, sem veit ekkert í lögmálinu [það er að segja túlkun faríseanna á því], hann er bölvaður!“
Jesús heldur dæmisögunni áfram og segir frá einum slíkum ‚bölvuðum‘ manni: „En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins, heldur barði sér á brjóst og sagði: ‚Guð, vertu mér syndugum líknsamur!‘“ Úr því að tollheimtumaðurinn játaði syndir sínar auðmjúkur segir Jesús: „Ég segi yður: Þessi maður fór réttlættur heim til sín, en hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“
Jesús leggur þannig áherslu á nauðsyn þess að vera auðmjúkur. Lærisveinar hans hafa alist upp í samfélagi þar sem hinir þóttafullu farísear ráða mjög miklu og mikið er lagt upp úr stöðu og stétt. Það er því ekkert undarlegt að viðhorf faríseanna hafi áhrif á þá. En Jesús kennir þeim góða lexíu í auðmýkt. Lúkas 18:1-14; Jóhannes 7:49.
▪ Af hverju veitir rangláti dómarinn ekkjunni það sem hún biður um, og hvaða lærdóm drögum við af dæmisögu Jesú?
▪ Hvers konar trúar leitar Jesús þegar hann kemur?
▪ Hverjum segir Jesús dæmisöguna um faríseann og tollheimtumanninn?
▪ Hvaða hugarfar faríseanna ber að forðast?