28. KAFLI
Hverjum átt þú að hlýða?
STUNDUM er erfitt að vita hverjum maður á að hlýða. Mamma þín eða pabbi segja þér kannski að gera eitt en kennari eða lögregluþjónn segja þér að gera annað. Hverjum áttu þá að hlýða? —
Í 7. kafla bókarinnar lásum við úr Biblíunni Efesusbréfið 6:1-3. Þar segir að börn eigi að hlýða foreldrum sínum. „Hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins,“ segir í versinu. Veistu hvað það þýðir fyrir börn að hlýða foreldrum sínum „vegna Drottins“? — Það þýðir að börn eiga að hlýða því sem þau læra af foreldrum sínum um lög Guðs.
En sumir sem eru eldri en þú trúa ekki á Jehóva. Kannski segja þeir að það sé í lagi að svindla á prófi í skólanum eða taka vörur úr búð án þess að borga fyrir þær. Er þá allt í lagi að barn svindli eða steli? —
Manstu þegar Nebúkadnesar konungur skipaði öllum að tilbiðja gulllíkneskið og Sadrak, Mesak og Abed-Negó neituðu að tilbiðja það? — Veistu af hverju þeir neituðu að gera það? — Af því að Biblían segir að við eigum ekki að tilbiðja neinn nema Jehóva. — 2. Mósebók 20:3; Matteus 4:10.
Eftir dauða Jesú voru postularnir leiddir fyrir æðstaráðið sem var helsti trúardómstóll Gyðinga. Kaífas, æðsti prestur, sagði: ,Við bönnuðum ykkur stranglega að kenna í nafni Jesú en þið eruð búnir að fylla Jerúsalem með kenningu ykkar.‘ Af hverju hlýddu postularnir ekki æðstaráðinu? — Pétur talaði fyrir hönd allra postulanna þegar hann svaraði Kaífasi: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ — Postulasagan 5:27-29.
Trúarleiðtogar Gyðinga voru mjög valdamiklir. En land þeirra var undir stjórn Rómaveldis og æðsti stjórnandinn var kallaður keisari. Jafnvel þótt Gyðingar hafi ekki viljað láta keisarann stjórna sér gerðu rómversku stjórnvöldin margt gott fyrir fólkið. Stjórnvöld gera líka margt gott fyrir þegna sína nú á tímum. Geturðu nefnt einhver dæmi? —
Stjórnvöld leggja vegi og borga lögreglu- og slökkviliðsmönnum kaup fyrir að vernda okkur. Þau sjá börnum og unglingum fyrir menntun og öldruðum fyrir heilbrigðisþjónustu. Allt þetta kostar peninga. Veistu hvaðan stjórnvöld fá peningana? — Frá fólkinu. Peningarnir, sem fólk borgar þeim, eru kallaðir skattar.
Þegar kennarinn mikli var á jörðinni voru margir Gyðingar á móti því að borga rómversku stjórninni skatta. Dag einn fengu prestarnir nokkra menn til að spyrja Jesú spurningar því að þeir ætluðu að reyna að koma honum í klandur. Þeir spurðu: ,Þurfum við að borga keisaranum skatt eða ekki?‘ Þetta var lúmsk spurning. Ef Jesús hefði sagt að þeir þyrftu að borga skatt hefðu margir Gyðingar orðið ósáttir við það. En Jesús gat ekki sagt að þeir þyrftu ekki að borga skatt af því að það hefði verið rangt.
Hverju svaraði Jesús þá? Hann sagði: ,Sýnið mér pening.‘ Þeir færðu honum pening og hann spurði: ,Hvers mynd og nafn er á peningnum?‘ ,Keisarans,‘ svöruðu mennirnir. Þá sagði Jesús: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“ — Lúkas 20:19-26.
Enginn gat fundið neitt að þessu svari. Þar sem keisarinn gerði ýmislegt fyrir fólk var rétt að nota peningana, sem hann hafði látið gera, til að borga fyrir það. Þannig sýndi Jesús fram á að það er rétt að borga yfirvöldum skatt fyrir það sem við fáum frá þeim.
Þó að þú sért ekki nógu gamall eða gömul til að borga skatt er samt eitt sem þú átt að gera fyrir yfirvöldin. Veistu hvað það er? — Þú átt að hlýða lögum þeirra. Biblían segir: ,Verið yfirvöldum hlýðin.‘ Yfirvöldin eru opinberir stjórnendur í landinu. Það er því Guð sem segir að við eigum að hlýða lögunum sem yfirvöld setja. — Rómverjabréfið 13:1, 2.
Segjum að bannað sé með lögum að henda rusli á götuna. Áttu að hlýða þeim lögum? — Já, Guð vill að þú hlýðir þeim. Áttu að hlýða lögreglunni líka? — Yfirvöldin borga lögreglunni fyrir að vernda fólk. Þegar við hlýðum henni erum við að hlýða yfirvöldum.
Hvað áttu þá að gera ef þú ætlar að fara yfir götu en lögregluþjónn segir þér að bíða? — Kannski fara aðrir yfir götuna þótt lögreglan hafi sagt þeim að bíða. En ættir þú að gera það líka? — Nei, þú ættir að bíða jafnvel þótt enginn annar bíði. Guð segir þér að hlýða.
Segjum að það sé hættuástand í hverfinu og lögreglan segi fólki að vera heima og fara ekki út. En þá heyrirðu kannski hróp og köll og verður forvitinn. Ættirðu að fara út til að athuga hvað sé að gerast? — Værirðu þá að hlýða yfirvöldum? —
Yfirvöldin byggja líka skóla og greiða kennurum laun. Heldurðu að Guð vilji að þú hlýðir kennurum? — Veltu því aðeins fyrir þér. Yfirvöldin borga þeim fyrir að kenna alveg eins og þau borga lögreglunni fyrir að vernda fólk. Að hlýða kennurum og lögreglunni er því það sama og að hlýða yfirvöldum.
En hvað áttu að gera ef kennari segir að þú eigir að heiðra einhvers konar líkneski? — Hebrearnir þrír tilbáðu ekki líkneskið jafnvel þótt Nebúkadnesar konungur segði þeim að gera það. Manstu af hverju þeir neituðu að tilbiðja það? — Það var af því að þeir vildu ekki óhlýðnast Guði.
Sagnfræðingurinn Will Durant skrifaði um frumkristna menn og sagði að ,æðsta hollusta þeirra hafi ekki verið bundin við keisarann‘. Sú hollusta tilheyrði Jehóva! Mundu því að við eigum að setja Guð framar öllu öðru í lífinu.
Við hlýðum yfirvöldum af því að Guð vill að við gerum það. En hverju eigum við að svara ef okkur er sagt að gera eitthvað sem Guð hefur bannað okkur að gera? — Við eigum að svara eins og postularnir sem sögðu við æðsta prestinn: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ — Postulasagan 5:29.
Biblían kennir okkur að virða lögin. Lestu það sem stendur í Matteusi 5:41; Títusarbréfinu 3:1 og 1. Pétursbréfi 2:12-14.